Blik 1940, 7. tbl./Súlan drottning Atlantshafsins

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1940


Þorsteinn Einarsson kennari:


Súlan drottning Atlantshafsins


Í þessari grein er aðeins drepið lauslega á sögu súlubyggðanna hér í Vestmannaeyjum og birtir lauslegir kaflar úr lifnaðarháttum hennar.
Heimkynni súlunnar er hafið. Hver sú vera, sem bundið hefir trúss sitt við hafið og tekizt að samlaga sig þeirri víðfeðmu höfuðskepnu, getur víða farið og þarf eigi að svelta. Hjá þeim, sem svifhæfnin eða sundhæfnin er nóg í hlutfalli við breytileik hafsins og víðáttu, er matnum fylgt eftir í þessu stóra búri lífsins. Það má með réttu segja, að af norrænum fuglum hefir súlan náð lengst í því að samlaga sig hafinu, og með fluggetu sinni hefir henni tekizt að ná fram í fremstu röð sviffugla jarðarinnar. Hún flakkar líka fugla lengst. Frá nyrztu byggð sinni, Grímsey, við heimskautsbaug, hittist hún með báðum bökkum Atlantshafsins, og allt suður fyrir miðbaug jarðar. Margur gæti haldið, er hann sér hina hlemmistóru þrísundfitjuðu fætur, að súlan væri sundfugl mikill, en svo er eigi. Súlan sést vart á sundi. Sjáist hún á sjávarfletinum, er það af ofáti, eða af því, að hún er að taka sér væran máltíðarblund til þess að létta á framhleðslunni.
Svifhæfnin hefir gefið henni víðsýni yfir fiskimiðin. Sjáist veiðibráð, fylgir skrokkur fuglsins hinu spjóthvassa nefi lóðrétt niður að hafsfleti, þar leggjast vængirnir inn að skrokknum, og nú smýgur örlaga súlulíkaminn sjóinn, og á uppleiðinni er bráðinni sporðrennt. Með sama örvarhraðanum skýtur henni upp á yfirborðið. Nú koma sundfitjabreiðir fæturnir að góðu haldi, því að eigi er unað lengi á hafinu og nú eru „snjóþrúgurnar“ notaðar, og það er hlaupið á sprett með vængjabaksi. Alllöng getur stundum atrennan orðið, áður en fuglinn endanlega spyrnir sér upp í lofthafið. Oft kostar þessi erfiða atrenna það, að hinni síðustu bráð er selt upp.
Súlutegundirnar eru af svonefndum Pelikanaættbálki, og eru þeir taldir 8 á jörðunni. Hinn merkasti þeirra er norræna hafsúlan. Hún byggir um 22 staði og er ein hinna fáu lífvera, þar sem nærri má fara um einstaklingafjölda. Á öllum þessum stöðum fer fram næstum árleg talning. Eftir síðustu talningu telst fjöldinn vera um 200.000 einstaklingar. Staðir þessir eru: 5 við Kanada (mynni St. Lawrence), 10 við Bretlandseyjar, einn við Færeyjar (Mykjunes) og 6 við Ísland. Grímsey er nyrzta byggðin. St. Kilda, eyðieyja vestur af Skotlandi, er „Metropolis“ eða háborg súlunnar.
Hér við land er Eldeyjarbyggðin stærst, 8—9000 hjón. Elztu frásagnir um súlubyggð hér í Eyjum er að finna í „Lítil tilvísan um Vestmannaeyja háttarlag og bygging“ eftir séra Gissur Pétursson prest að Ofanleiti 1687—1713. Hann getur þess þannig í lok kaflans „Um Súlnasker inspecie“: „Í þessum fjórum eyjum, Súlnaskéri, Hellisey, Brandinum og Geldungaskéri, verpir súlan, en í hinum öðrum ekki.“
Hér læt ég fylgja töflu, sem sýnir sögu þessara súlubyggða. (Taflan er á bls. 7).
Í þessum tveim skrám má lesa sögu súlunnar síðustu 2 aldir. Niðurstaðan verður fjölgun, þrátt fyrir árlegt ungadráp. Ungadrápið hefir aðallega farið fram á þeim breiðum, sem voru uppi og hægar aðsóknar. Sú breiðan, sem auðsóttust var, hefir eyðzt (Brandurinn). Fyrir 1896 var uppgangan á Geldunginn auðveld yfir steinbogann, sem féll það ár í jarðskjálfta. Vegur Gísla Lárussonar og Magnúsar Guðmundssonar, sem þeir lögðu eftir hrunið, er enginn „beljuvegur“ og því aldrei farið oftar en tvisvar á ári þar upp. Hér hefir líka ný byggð myndazt og blómgazt. . . Hér er líf! Loftið er gargandi, iðandi „snjóflyksur“. Hér er orgað af skelfingu með orr-hljóði, og argað af reiði og vonzku og lagt til atlögu með vargslegu arr-hljóði.
Á háum hreiðurhraukunum sitja hnarreistir hvítdúnaðir eða ýróttir náungar. Þetta hásæti er varið með beittri burtstöng. Sé hreiðurbúanum varpað útbyrðis, þá er þegar lagt til atlögu, og nefið óspart notað til þess að glefsa í hreiðurbrúnina eða höggva til andstæðingsins, og stundum er því borað í hraukinn og þannig vegur hann sig upp. Og nú hefst einvígið aftur, sem endar oft blóðugt og með því, að andstæðingnum er varpað úr söðli.

Ártöl Súlnasker Brandurinn Hellisey Geldungur Alls
Um 1700 Byggðir, fjöldi? Byggðir, fjöldi? Byggðir, fjöldi? Byggðir, fjöldi? ?
Um 1840 Byggðir ofan á og utan í. Fjöldi? Byggðir ofan á og utan í. Fjöldi? Byggðir að austan og vestan. Fjöldi? Nokkrar ?
1932-34 1300 hjón 530 hjón 2600 hjón 260 hjón 4690
1935 Í öllum stöðum 4000
1939 1783 318 1700 580 4381

Síðasta talning er samkvæmt talningu 3 enskra fræðimanna, sem hér dvöldu á síðastliðnu sumri undir forystu H.G.Vevers frá náttúrufræðideild Oxfordháskóla.
Ég hafði nokkru áður gert mínar talningar og ágizkanir og bar okkur saman, nema með Hellisey, þar hugði ég vera 2100 hjón.
Tafla sú, sem hér fer á eftir, sýnir fjölda súlunnar í súlubreiðum, sem eru ofan á 4 eyjum:

Ártöl Súlnasker Brandurinn Hellisey Geldungur
Um 1700 3 súlubreiður ? ? ?
Um 1840 Uppi ca. 260 Byggð ofan á ? Engin
1890 Í tveim breiðum ca. 150 ? Engin
1939 709 Í maí 12; í júní 2 Í 9 stöðum um 150 Um 60


Fram við brúnina sitja hinir nær fleygu „skerlingar“, og með orgi veita þeir hinum fullorðnu móttöku, sem koma færandi munni. Með orri og arri eru bornir fyrir sig hinir hlemmistóru fætur og lent við hreiðurhraukinn. Sá fullorðni er vart seztur, þegar hann fær súluhaus ofan í maga og þar er höggvið og hnykkt á og upp er dregið smjattandi unganef. Eftir mötunina sitja hjónin og láta öllum látum ástarinnar yfir sofandi ungviðinu...
Lítið varnartæki er það súlunni að selja upp magainnihaldi sínu, þegar forvitinn mann ber að garði, en sé manni litið um öxl yfir farinn veg um súlubreiðu, þá er leiðin vörðuð rjúkandi síldum og fiskmauki. Hér býr ósvikinn Atlantshafsbúi á háum þang- og rekaldshaugum límdum saman af rotnandi fiski og dritskán. Hann er hamrammur og fjöllyndur, eins og fóstran, hafið. Hann heyr samkeppnina um bráðina við másandi hvali og glefsandi seli og er hafinn yfir smáfyglið með svifhæfni og djúpköfun. Með tilveru sinni setur hún líf í kaldranalegar klettasnasir úthafsins og atar syllur og bergveggi merkjum lífs. Súlan er hæstráðandi Atlantshafsins, sannkölluð drottning þess.

Í febr. 1940.