Blik 1940, 7. tbl./Á gægjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1940


TOBBA TEITS:

Á GÆGJUM


Kæru nemendur!

Ég færi ykkur kveðju guðs og mína, eins og segir í gömlum bréfum. Fyrir þrábeiðni sumra þarna í skólanum ykkar hefi ég staulazt uppeftir endur og eins og skyggnzt inn um gættirnar hjá ykkur þarna á Breiðabliki. Ég fæ í rauninni alltaf hug til að heimsækja ykkur, þegar ég heyri hinn fagra hljóm skólaklukkunnar ykkar kveða við.
Einu sinni heyrði ég til guitarflokksins ykkar, „Sjöstjörnunnar“, og skemmti mér reglulega vel. Þó hefi ég ekki meira vit á söng en kötturinn á hinni Sjöstjörnunni. Það voru yndislegir hljómleikar. Þær dáleiddu mig, meyjarnar. Þegar heim kom, fannst mér ég vera svo söngvin, að ég tók til að spila á hárgreiðuna mína, en hætti því brátt, þar sem ég fann, að ég stóð langt að baki Kára og Jóni, þegar þeir spila og syngja stærðfræðiformúlurnar á vasagreiðurnar sínar. Ég tók því hnokkatréð úr rokknum mínum og tók að blása í pípuna af lífs- og sálarkröftum. Og viti menn. Hljóð fékk ég úr horni, — með lagi, svo að nú kemst ég líklega í lúðrasveitina.
Þá lét hún táta litla mig vita, þegar þið fóruð „undir Löngu“. Nú voru fleiri drengir á stríðsrosabullum en síðast. Simmi, Einsi og Nonni voru reglulega sækappalegir á sínum. Þeir sverja sig í ættina, þeir drengir. Ég hélt um tíma, að þeir ætluðu bara að vaða til hafs.
Mikið tókst honum Séra ykkar giftusamlega að pússa þau saman, Dollý og Simma. Einar T. aðstoðaði, og nýstárleg var hempan! Eigið þið ekki pontu, til þess að æfa hann Séra ykkar að stíga í? Eyjarnar þurfa einmitt að framleiða sína eigin presta sem annað. „Verum sjálfum okkur nóg um allt“, það er kjörorðið. Og meðhjálparaefni eigum við, þar sem Einar er. En honum Séra láðist illa að bjóða hjúunum að margfaldast og uppfylla jörðina. Það ættu öll skötuhjú í okkar fámenna landi að kappkosta. Þessi vísa rann fram af tungu minni, þegar ég frétti um giftingu þessa nokkrum dögum síðar:

Hérna um daginn síra C
saman vígði Dollý P
og hann sæta Simma.
Svannar voru svaramenn.
„Sverma“ ég og þrái enn.
Ó! — þá daginn fer að dimma!

Já, aumt er piparstandið, hjálpi mér, þegar haustar að! En hvað um það, ég hefi gleðifréttir að segja ykkur: Hann Jón Óli kvað vera kominn í brezku bjargráðanefndina og annast nú fiskkaup fyrir Bretann. Við þurfum því ekki lengur að óttast um ýsubröndurnar okkar og þyrsklingstittina. Þá er hún Bergþóra blessunin einnig komin í þjónustu brezka auðvaldsins. Hún flakar þorsk og ýsu á háborð brezka aðalsins.
Einnig smíðar Brynjólfur ýsukassa fyrir brezka lávarða. Allt er á eina bókina lært fyrir ykkur, blessuðum, nema henni Minnu. Hún starfar í þjónustu skömmtunarskrifstofu íslenzka ríkisins og úthlutar sykri, kaffi, hveiti og rúsínum eftir seðlum, enda var hún og er mesta búkonuefni, eins og við vitum öll.

Bless!
Tobba Teits.