Blik 1936, 2. tbl./Námskeið

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1936


Námskeið


Atvinnuleysi almennings við sjávarsíðuna hér á landi fer sízt minnkandi. Heimilisfeður eru víðast hvar látnir sitja fyrir þessari svo kölluðu atvinnubótavinnu, sem ef til vill er eðlilegt, en fjöldi ungra manna og „lausra“ hefir enga atvinnu og ekkert fyrir stafni.
Atvinnu- og athafnaleysið er plága. Iðjuleysið dregur dilk á eftir sér. Margt gott og göfugt, sem þróast við vinnu og með vinnu, fer forgörðum í rangli atvinnuleysisins. Verst fer þó athafnaleysið með æskumennnina. Þess vegna hefir sums staðar verið efnt til námskeiða fyrir þá þann tíma ársins, sem sízt er nokkur atvinnuvon. Þar gefst þeim kostur á að nota tímann og nema ýmislegt, sem þeim má til gagns verða síðar í lífinu.
Bæjarstjórn Vestmannaeyjakaupstaðar hefir séð hina brýnu þörf á slíku námsskeiði hér að haustinu, og samþykkt einróma að veita til þess fjárupphæð á þessu ári. Þetta fyrirhugaða námskeið tekur því til starfa hér í haust, og öllum æskulýð Eyjanna, piltum og stúlkum, eldri en 17 ára, er gefinn kostur á að taka þátt í því. Svo er til ætlazt, að yngri ungmenni sæki gagnfræðaskólann lengri eða skemmri tíma fram eftir vetrinum, eftir því sem ástæður leyfa og til hagar fyrir þeim. Iðnnemar sækja auðvitað kvöldskóla iðnaðarmanna. Þannig verður reynt af fremsta megni að fullnægja námsþörf æskulýðsins hér á öllum aldri og reynt að haga fyrirkomulagi kennslunnar þannig, að sem minnst tapist af atvinnu, ef hún býðst á annað borð.
Námskeið þetta hefst 1. október n.k. og stendur til jóla. Kennd verða hagnýt fræði, bókleg og verkleg, og fer kennslan fram seinni hluta dagsins og á kvöldin. Um verklega námið verður sérstaklega haft í huga atvinnulíf Eyjabúa. Ætlunin er að kenna smíði á ýmsum algengum munum, netabætingu, að fella net og riða o.s.frv. Þá verður kennt að þekkja á áttavitann og ýmislegt fleira, sem lýtur að sjómennsku. Stúlkum verður kennt að sníða og sauma. Kennslukraftar verða þeir beztu, sem hér er kostur á.
Bóklegt nám verður íslenzka, eitt útlent tungumál og eðlisfræði. Úr eðlisfræðinni verða helzt kenndir þeir kaflarnir, sem glæða mega verkhyggni og útsjón nemendanna við líkamlega vinnu.
Allt, sem nemendurnir vinna, eiga þeir sjálfir. Kennslugjald verður ekkert. Kennslan verður því gjöf til æskulýðsins hér, sniðin eftir brýnustu þörfum hans og hagað þannig, að hún megi verða sem gagnlegust og ánægjulegust.
Við vonum fastlega, að æskulýður Eyjanna bregðist nú vel við og mæti miðra garða réttum skilningi skólanefndar og bæjarstjórnar á aðkallandi nauðsyn æskulýðsins hér og velvilja þeirra til hans, og sæki námskeiðið.
Notið haustið, þennan athafnaleysistíma, til náms.

Þorsteinn Þ. Víglundsson.