Benedikt Jóhannsson (verslunarmaður)
Benedikt Jóhannsson frá Brúsastöðum í Vatnsdal, Hún., sjómaður, verslunarstjóri, matsmaður fæddist þar 10. júní 1871 og lést 29. apríl 1940.
Foreldrar hans voru Jóhann Þorkelsson bóndi, f. 5. nóvember 1829, d. 16. ágúst 1875, og kona hans Þorbjörg Steingrímsdóttir húsfreyja, yfirsetukona, f. 13. nóvember 1838, d. 8. október 1902.
Benedikt var með foreldrum sínum, en faðir hans lést, er Benedikt var fjögurra ára.
Hann ólst upp hjá móður sinni, var vinnumaður, sjómaður í Kotvogi á Reykjanesi 1890, var á Blönduósi, flutti þaðan til Sauðárkróks árið 1900. Benedikt vann margskonar störf, bæði á sjó og landi, en aðallega verslunarstörf. Hann veitti forstöðu versluninni ,,Bræðrabúð“, en hún var útibú frá verslun Kristjáns Gíslasonar. Benedikt var ullarmatsmaður í mörg ár. Hann lék í ýmsum hlutverkum hjá félagasamtökum, sem önnuðust leikstarfssemi. Hann var einn af stofnendum Sjúkrasamlags Sauðárkróks og var lengi í stjórn þess.
Benedikt flutti til Steingríms sonar síns 1933. Hann fékkst nokkuð við hárskurð í heimahúsum.
Þau Björg giftu sig 1900, voru vinnuhjú, stofnuðu eigið heimili 1901 í Haraldarhúsi. Þau keyptu húsið Seylu (nú Skógargata 5) 1904 og bjuggu þar alla tíð meðan þau voru á Sauðárkróki, eignuðust fjögur börn.
Björg lést 1929 og Benedikt 1940.
I. Kona Benedikts, (30. desember 1900), var Björg Helgadóttir frá Holtastöðum í Langadal, Hún., húsfreyja, f. þar 14. maí 1875, d. 27. maí 1929. Foreldrar hennar voru Helgi Nikulásson, f. 8. ágúst 1831, d. 13. janúar 1895, og Þuríður Bjarnadóttir, f. 3. ágúst 1835, d. 22. maí 1921.
Börn þeirra:
1. Steingrímur Benediktsson skólastjóri, f. 20. maí 1901, d. 23. nóvember 1971. Kona hans Hallfríður Ingibjörg Kristjánsdóttir.
2. Margrét Benediktsdóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 12. janúar 1903, d. 4. október 1994. Maður hennar Randver Hallsson.
3. Karólína Benediktsdóttir húsfreyja í Reykjavíok, f. 12. janúar 1903, d. 1. október 1977. Maður hennar Óskar Jónsson.
4. Guðrún Benediktsdóttir húsfreyja á Akureyri, f. 22. maí 1907, d. 6. apríl 1995. Maður hennar Ragnar Jónsson.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.
- Skagfirskar æviskrár – Tímabilið 1890-1910. Margir höfundar. Ritstjóri: Eiríkur Kristinsson. Sögufélag Skagfirðinga, Sauðárkróki 1964-1972.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.