Benóný Jónsson (Ólafshúsum)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Benóný Jónsson vinnumaður í Ólafshúsum, síðar bóndi í Norður-Nýjabæ gamla í Djúpárhreppi í Holtum fæddist á Stóra-Hofi á Rangárvöllum, skírður 17. mars 1766 og lést 29. júlí 1825.
Foreldrar hans voru Jón Halldórsson, líklega vinnumaður í Dagverðarnesi á Rangárvöllum og barnsmóðir hans Guðbjörg Þorkelsdóttir, síðar húsfreyja á Gaddstöðum þar, f. 1740, d. 26. maí 1792.

Benóný eignaðist börn með 4 konum á landi, áður en hann kom til Eyja og þar eignaðist hann 2 börn.
Hann var vinnumaður í Odda á Rangárvöllum 1800, í Ólafshúsum 1815 og 1816. Þar fylgdi Guðrún dóttir hans honum í fyrstu.
Í Eyjum var hann viðriðinn barnsfaðernismál 1816, er Margrét Guðmundsdóttir gift kona í Ólafshúsum eignaðist Þuríði Margrétardóttur, „óegtaborið barn giftrar konu ...“ Hún eignaðist Kristínu Benónýsdóttur 1817, en missti hana 5 ára 1821 úr „hálsbólgu“.
Maður Margrétar krafðist skilnaðar og fékk hann með dómi.
Í málskjölum kemur fram, að Benóný vinnumaður var grunaður um drjúgan þátt í vandanum.
Benóný kvæntist Margréti Kláusdóttur í nóvember 1824. Þau hófu búskap í Norður-Nýjabæ 1825, en hann lést í júlí á árinu.

I. Barnsmóðir Benónýs var Jarþrúður Ólafsdóttir, líklega húsfreyja í Götu í Holtum, skírð 2. desember 1754, d. í mars 1836.
Barn þeirra var
1. Kristín Benónýsdóttir húsfreyja í Stakkavík í Selvogi, f. 5. nóvember 1788, d. 19. september 1823, kona Jóns Hallvarðssonar.

II. Barnsmóðir hans var Kristín Jónsdóttir, síðar húsfreyja á Steinsstöðum, f. 1763, d. 28. mars 1831, kona Gottsvins Hannessonar.
Barn þeirra var
2. Guðrún Benónýsdóttir húsfreyja á Vesturhúsum, síðar á Suðurnesjum, f. 22. ágúst 1791, d. 14. febrúar 1853, kona Einars Snorrasonar.

III. Barnsmóðir Benónýs var Auðbjörg Einarsdóttir, síðar húsfreyja á Kanastöðum í A-Landeyjum, skírð 27. júní 1780, d. 15. ágúst 1828. Auðbjörg var móðir Kristínar Jónsdóttur húsfreyju á Vesturhúsum.
Barn þeirra var
3. Þorkell Benónýsson vinnumaður á Strönd í V-Landeyjum, f. 18. mars 1807, d. 19. apríl 1855, ókvæntur.

IV. Barnsmóðir Benónýs var Guðrún Magnúsdóttir, þá ekkja í Merkinesi í Höfnum á Reykjanesi, síðar húsfreyja, skírð 17. maí 1776, d. 6. maí 1845.
Barn þeirra var
4. Halldór Benónýsson vinnumaður í Merkinesi, f. 28. október 1810, d. 12. september 1834, ókvæntur.

V. Barn, „óegtaborið barn giftrar konu Margrétar Guðmundsdóttur frá Ólafshúsum“:
5. Þuríður Margrétardóttir, f. 17. febrúar 1816. Mun hafa dáið ung. Af málsskjölum má ætla, að Benóný Jónsson hafi verið faðir að því barni.
Enn var Margrét barnsmóðir Benónýs.
Barnið var
6. Kristín Benónýsdóttir, f. 6. janúar 1817, d. 7. ágúst 1821 úr „hálsbólgu“.

VI. Kona Benónýs, (15. nóvember 1824), var Margrét Kláusdóttir húsfreyja, fædd í Ártúnum á Rangárvöllum, skírð 14. ágúst 1780, d. 26. febrúar 1867.
Þau voru barnlaus.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Dómsskjöl í Þjóðskjalasafni.
  • Holtamannabók III –Djúpárhreppur. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjórn: Ragnar Böðvarsson. Rangárþing ytra 2010.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.