Beinafundurinn 1978

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Þann 27. apríl 1978 fundust tvær beinagrindur, á um 3 metra dýpi, þegar verið var að grafa skurð fyrir nýju holræsi sem átti að fara í gegnum Eiðið. Engin ummerki um kistuleifar voru sjáanlegar á staðnum. Seinna var komist að því, samkvæmt athugunum Jóns Steffensens, að um væri að ræða tvo karla; ungan karlmann annars vegar og 15-18 ára pilt hins vegar.

Oft áður hafa fundist mannabein á þessum slóðum og hefur komið upp sú kenning að þetta svæði hefði verið kallað Klemensareyri fyrr á tíð og eflaust þar áður Hörgaeyri. Möguleiki væri á að þarna var að ræða kirkjugarð Klemenzkirkju, sem var á öldum áður í Vestmannaeyjum. Sagt er að Hjalti Skeggjason og Gissur Ísleifsson hafi reist kirkju á Hörgeyrinni.

Aðra tilgátu kom Friðrik Jesson, þáverandi safnvörður Náttúrugripasafnsins, með um að þarna væru líkamsleifar þeirra sem féllu í átökum Englendinga og Þjóðverja í Eyjum. Þeir börðust hér allgrimmilega um kaup á skreið og aðstöðu til verslunar og fiskveiða hér á landi á síðari hluta miðalda.

Beinin voru send í aldursgreiningu í Tækniháskóla Noregs í Þrándheimi árið 1986. Notast var við geislakolaaldursgreiningu (¹⁴C) og komist að því að líklegt væri að beinin séu frá 15. öld.


Heimildir

  • Margrét Hermanns-Auðardóttir. Hagsmunaátök í Eyjum á ofanverðum miðöldum. Eyjaskinna - 5. rit (bls. 44-60). Vestmannaeyjum: Prentsmiðjan Eyrún, 1992.