Böðvar Árnason (Bifröst)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Böðvar Árnason.

Böðvar Árnason frá Bifröst við Bárustíg 11, framkvæmdastjóri, fiskverkandi, verksmiðjurekandi, kaupmaður fæddist þar 1. maí 1927 og lést 23. mars 2010.
Foreldrar hans voru Árni Sigurður Böðvarsson rakarameistari, útgerðarmaður, f. 28. júní 1890, d. 14. apríl 1975, og kona hans María Vilhelmína Heilmann Eyvindsdóttir Böðvarsson frá Reykjavík, húsfreyja, f. þar 25. febrúar 1901, d. 12. desember 1983.

Böðvar var með foreldrum sínum í æsku, flutti með þeim á Seltjarnarnes 1940.
Hann vann snemma við útgerðarrekstur föður síns og var sjómaður, var m.a. á togaranum Rán, og um tíma með Ingvari Einarssyni á Fanneyju, fyrir utan að vera á bátum föður síns.
Hann vann við að byggja frystihús, fiskþurrkhús og fiskimjölsverksmiðju ásamt föður sínum og bræðrum í Kópavogi á árinu 1947, en faðir hans seldi eignirnar árið 1956. Árið 1956 stofnuðu Böðvar og bræður hans Víbró, sem framleiddi hleðslusteina og plasteinangrun. Nokkrum árum síðar réðust þeir í byggingu skrifstofu- og verslunarhúss þar sem nú er Hamraborg í Kópavogi og frystihúss við Bátalón í Hafnarfirði. Það fyrirtæki rak hann með þeim til ársins 1990. Árið 1990 skildu leiðir í rekstrinum og rak Böðvar eftir það eign sína með bróður sínum Eyvindi, þar til hann settist í helgan stein.
Þau Guðmunda giftu sig 1949, eignuðust fimm börn. Þau bjuggu í Reynihvammi 28 í Kópavogi.
Guðmunda lést 1994.
Böðvar bjó með Sólveigu um áratug.
Hann lést á hjúkrunarheimilinu Grund 2010.

I. Kona Böðvars, (5. júlí 1949), var Guðmunda Sesselja Gunnarsdóttir húsfreyja, f. 3. febrúar 1929, d. 14. nóvember 1994. Foreldrar hennar voru Gunnar Stefánsson rafmagnsmaður, verkstjóri í Reykjavík, f. 22. apríl 1900, d. 4. desember 1973, og kona hans Ásthildur Sigríður Sigurbjörg Hannesdóttir húsfreyja, f. 25. júlí 1903, d. 22. janúar 1971.
Börn þeirra:
1. Gunnar Böðvarsson, f. 24. apríl 1950 í Reykjavík. Kona hans Sigrún Sigfúsdóttir.
2. Fríða Sophia Böðvarsdóttir, f. 14. janúar 1953 í Reykjavík. Fyrrum maður hennar Jónas I. Ottósson. Fjarbúðarmaður hennar Kristinn Dagsson.
3. Ásta Böðvarsdóttir, f. 6. janúar 1955 í Kópavogi. Fyrrum maður hennar Emil Fenger. Fyrrum sambúðarmaður hennar Lárus Ýmir Óskarsson. Fjarbúðarmaður hennar Vilhjálmur Þórðarson.
4. Erna María Böðvarsdóttir, f. 12. júní 1958 í Reykjavík. Maður hennar Bjarni Óskar Halldórsson.
5. Bryndís Böðvarsdóttir, f. 13. febrúar 1965. Fyrrum maður hennar Ólafur Jóhannsson.

II. Sambúðarkona Böðvars var Sólveig Gunnarsdóttir.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.