Andrés Gestsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Andrés Gestsson frá Pálshúsi á Stokkseyri, sjómaður, bólstrari fæddist þar 20. júlí 1917 og lést 26. júní 2009.
Foreldrar hans voru Gestur Sigurðsson frá Stokkseyri, sjómaður, f. 1. maí 1877, d. 24. maí 1944, og kona hans Guðríður Guðlaugsdóttir húsfreyja, f. 14. september 1878 á Hrafnkelsstöðum í Hrunasókn, Árn., d. 2. október 1971.

Bróðir Andrésar var
1. Jón Gestsson sjómaður, f. 7. október 1909, d. 10. ágúst 1943.

Andrés var snemma sjómaður, var á Fræg VE 177, þegar hann sökk 13. september 1933, sigldi á Stríðsárunum, m.a. á Skaftfellingi, þegar skipshöfnin bjargaði kafbátsskipshöfn.
Hann blindaðist 1943, hnýtti króka og vann í netagerð um skeið, lærði húsgagnabólstrun í Reykjavík, sneri til Eyja, setti upp smávinnustofu og vann við iðnina, en síðar lærði hann sjúkranudd og vann við það til 2008.
Andrés flutti til Reykjavíkur 1960, vann hjá Guðmundi í Víði í fimm ár, en vanna síðan við sjúkranudd.
Andrés tók gildan þátt í starfsemi blindra og Öryrkjabandalagsins, var fulltrúi Blindrafélagsins í stjórn þess og var formaður þess um tveggja ára skeið. Hann sat einnig í stjórn Hússjóðs Öryrkjabandalagsins árum saman.
Andrés var hagmæltur og kastaði fram vísum við tækifæri.
Hann var staddur í fiskbúð. Fisksalinn rétti konunni, viðskiptavininum fiskflak, sem konan sagði að væri of stórt. Næsta var of lítið.
„Hafðu þetta eitthvað þar á milli,“ sagði hún. „Þú veist hvað mér passar best.“
Þá varð til þessi vísa:
Karlinn hafði kvennahylli
kunni og vissi af gömlum vana
að eitthvað þarna mitt á milli
myndi passa fyrir hana.

Þessa vísu orti hann fyrir nokkrum árum, þegar hann stóð einn síns liðs við glugga á nöprum vetrardegi:
Hárin grá og hrukkótt skinn,
horfinn æskudraumurinn.
Gustar inn um gluggann minn
gamli norðanvindurinn.

Nokkru eftir lát Elísabetar, konu sinnar, orti hann:
Ennþá sé ég birtu í bland
böls um myrka daga.
Nú er ekki langt í land
að ljúkist ævisaga.

Þau Sigríður giftu sig 1940, eignuðust tvö börn, bjuggu í Engidal við Brekastíg 15c 1940 og 1949, síðar á Bakkaeyri við Skólaveg 26.
Sigríður lést 1958.
Þau Elísabet giftu sig, eignuðust ekki börn saman. Þau bjuggu við Grundarstíg, en síðan í húsi Blindrafélagsins í Hamrahlíð.
Elísabet lést 1999.

I. Kona Andrésar, (29. júní 1940), var Sigríður Jónsdóttir frá Húsavík við Urðaveg 28, f. 6. febrúar 1918 á Gjábakka við Bakkastíg, d. 30. ágúst 1958.
Börn þeirra:
1. Ester Guðríður Andrésdóttir bjó í Bandaríkjunum, f. 12. febrúar 1941, d. 5. maí 1974.
2. Birgir Andrésson myndlistarmaður, f. 6. febrúar 1955, d. 25. október 2007.

II. Kona Andrésar var Elísabet Kristinsdóttir húsfreyja, f. 17. júlí 1918, d. 30. október 1999. Foreldrar hennar voru Kristinn Sigurðsson múrarameistari, f. 8. nóvember 1881, d. 27. janúar 1944, og kona hans Elísabet Bergsdóttir húsfreyja, f. 18. febrúar 1889, d. 17. nóvember 1918.
Þau voru barnlaus, en Elísabet gekk Birgi syni Andrésar í móðurstað.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.