Þórður Þórðarson (vélstjóri)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Þórður Þórðarson yfirvélstjóri á Guðmundi VE-29 hjá Ísfélagi Vestmannaeyja fæddist 2. nóvember 1943 í Keflavík og lést 27. júní 1998 í Reykjavík.
Foreldrar hans voru Þórður Arnfinnsson sjómaður, f. 14. apríl 1914 á Skaftafelli, d. 13. desember 1966 í Keflavík, og barnsmóðir hans Sigríður Kristín Sumarliðadóttir, f. 8. mai 1916, d. 17. desember 1997.

Þórður ólst fyrstu árin upp hjá móðurbróður sínum Einari Sumarliðasyni bónda í Tungugröf í Strandasýslu, en eftir fermingu fluttist hann til móður sinnar í Reykjavík.
Hann hóf sjómennsku með Markúsi Guðmundssyni á b.v. Mars, lauk námi í vélstjórn og var að mestu við þá grein, síðustu 15 árin á Guðmundi VE-29.
Þórður lést 1998.

Úr minningargrein, sem Sigurður Einarsson ritaði í Morgunblaðið: ... Þórður var góður félagi, mjög vinsæll meðal allra starfsmanna fyrirtækisins, léttur og skemmtilegur en jafnframt maður sem hægt var að treysta á. Hann annaðist þau verkefni sem honum var trúað fyrir af mikilli samviskusemi.
Þórður var frábær vélstjóri. Hann hugsaði vel um skipið og vélbúnað þess. Aðalvél skipsins er elsta aðalvél í loðnuskipi á Íslandi en vélin snerist vel hjá Þórði, m.a. vegna þess hvernig hann hugsaði um hana. Hann hafði áhuga á að hafa hlutina í lagi og láta gera við í tíma. Hann hafði líka skilning á því að allt yrði í lagi á jafn viðkvæmum veiðiskap og loðnuveiðum. Ef ekki er allt í lagi er hætt við að afli tapist ef bilar þegar verst stendur á.
Þórður var þrifinn í sambandi við skipið og búnað þess og sá til þess að vel var gengið um skipið, þegar það var í viðgerðum.

Skipsfélagar: ... Hann var það sem í daglegu tali er kallað þúsund þjala smiður. Það verður mikill sjónarsviptir að honum í Eyjaflotanum. Aldrei minnumst við þess þegar eitthvað á bjátaði að honum hafi nokkurn tíma fallist hendur. Hann réðst á vandamálið af þeim krafti sem honum var eðlislægur og málinu var kippt í lag hið snarasta. Sjálfur lýsti hann sér þannig að hann væri ofstopamaður í öllu sem hann tæki sér fyrir hendur. Hann vildi aldrei henda nokkrum sköpuðum hlut enda kom það fyrir oftar en ekki að hægt var að redda túr þegar Tóti fór inn á lagerinn sinn og gróf upp eitthvert gamalt nothæft stykki sem hægt var að nota.

I. Barmsmóðir Þórðar var Magnea Ósk Óskarsdóttir, f. 7. maí 1949, d. 13. mars 2012.
Börn þeirra voru
1. Heiða Bergþóra Þórðardóttir móttökustjóri, f. 15. febrúar 1969.
2. Gissur Hans Þórðarson hleðslustjóri, f. 3. desember 1971.

II. Barnsmóðir Þórðar var Sóley Njarðvík Ingólfsdóttir, f. 18. mars 1947.
Barn þeirra
3. Bergþór Heimir Þórðarson, f. 24. desember 1979.

III. Barnsmóðir Þórðar var Þrúður Ólöf Gunnlaugsdóttir, f. 18. febrúar 1957.
Barn þeirra var
4. Hanna Þrúður Þórðardóttir framkvæmdastjóri, f. 2. júní 1980.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.