Úr fórum Árna Árnasonar/Magnús Stefánsson, - rabb frá Eyjum

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search




Úr fórum Árna Árnasonar


Þegar kaupfélagið Herjólfur starfaði hér, orti Magnús Stefánsson auglýsingu fyrir það. Hún var fest upp á götunum, enda ein hin rækilegasta auglýsing, sem hér hefir sést. Hún var auðvitað í ljóðum og var þannig:

Hver, sem fær sér húfu þaðan,
horft hefi ég á það,
að honum þyrpist kvenfólk
eins og flugur á tað.
Og ef gamlar piparmeyjar kaupa sér þar klút,
kvað ei bregðast, að þær gangi samdægurs út.
Tryggðakonfekt fæst þar og tilhugalífs öl,
trúlofunarslifsi og giftingarsjöl,
hveitibrauðsdagasykur og hjúskaparsalt,
hjónabandssinnep og skilnaðarmalt,
vaxtarkaramellur, enda vita börnin það,
vitsmunalakkrís og kraftasúkkulað,
tóbak handa sjómönnum, sem vilja afla vel,
verkfæri í úrvali og krafta hafrarnél.
Margt hefir hann fleira, sem makalaust er gott,
merkilega fáséð og andskoti flott.
Og, hvað allt þetta er hundbillegt, enginn skilur í
en Edinborg og Tanginn eru rasandi yfir því.


Eftir að Islands Falk hafði rænt íslenska fánanum af kappróðrabáti í Reykjavíkurhöfn árið 1913, blossaði upp mikil gremja vegna þessa út um allt land.
Var danski fáninn víðast skorinn niður, þar sem honum sást flaggað.
Hér skar Lárus Johnsen niður fána á stöng á Edinborg, en Magnús skar niður danska fánann, sem flaggað var með á Skansinum. Ekki vissu menn þá strax, hverjir þetta gerðu, og urðu þeir, sem fánana áttu, reiðir mjög yfir þessum aðförum.
En nokkru seinna um sumarið, var farið á vélbát í skemmtiferð kringum Eyjar og var Lárus Johnsen einn af forgöngumönnurn þeirrar ferðar. Á vélbátnum var danski fáninn, þ.e. Dannebrog. Danska varðskipið Fálkinn var á Flóanum.
Um þetta allt orti Magnús Stefánsson:

Þið munið hann Lárus, hann langaði í stríð
og af landvarnareldmóði brann,
og Eyjarnar áttu ekki á þeirri tíð
jafn eldheitan sjálfstæðismann.
Hann þrumaði á kontórnum: „Þjóðin er frjáls,
ef þorir að heimta sinn rétt“.
Svo sargaði hann flagglínu sundur til hálfs
til að sýna, hvað það væri létt.
Svo var það hann Lárus, sem sigldi um sjá,
er sólin á Heimaklett skein.
En vígbúinn Fálkinn í Flóanum lá
og fallbyssukjafturinn gein.
Þá lyfti hann Dannebrog djarflega á stöng
þeim dýrlega sjálfstæðisvott.
Hún difaði golunni dreyrrauð og löng
og dinglaði rétt eins og skott.


„Grútarbræðingurinn“ bendir til tillagna, sem komu fram á Alþingi um lausn sjálfstæðismálsins.
Um „Bræðinginn“ orti Magnús:

Sof í ró.
Ætlar þú í þingrofsöfgar
þjóðin mín? ég spyr
Viltu ei heldur sofa, sofa
sætt og rótt sern fyrr?
Statt þú ekki í stórræðunum,
stjórnin um þau sér.
Þá er ekki þér að kenna
það, sem miður fer.


Eða viltu steypa af stóli
stjórnvitringi þeim,
sem danska ríkisráðið
rembdist með hér heim?
Sérðu ei þann sæmdarauka,
sem þér gerður var,
og hið danska lítillæti
að ljá þér sæti þar?


Þó að verðir böndum bundin,
bærðu ekki á þér.
Sofðu, Hannes Hafstein vakir,
hann um málin sér.
Stjórnin vaggar vöggu þinni,
vill þú blundir rótt.
Danir sussa, sæt er dúsan,
sofðu - Góða nótt. (Ort líklega 19o7)


Um félagslífið í Eyjunum. (Sennilega ort 1912).

Magnús Stefánsson kvað fjöldann allan af gamankvæðum, rneðan hann dvaldi í Eyjum. Sennilega rnun langmestur hluti þeirra kvæða vera glataður eða þeim ruglað saman við kvæði Halldórs Gunnlaugssonar og jafnvel Kristjáns Linnets.

En um félagslífið segir Magnús:

Ekki vantar félögin og félagsandann hér,
og framkvæmdin er eftir því, sem vonlegt þykir mér,
sýslufélag, sveitarfélag, er festa aldrei blund,
og svo er þetta mannfélag, sem aldrei heldur fund.
Eitt er kennt við íþróttir og orðið víðfrægt senn,
í því er nú doktorinn og heldri búðarmenn.
Þeir mæta upp á Kirkjuflöt með kústaskaft í hönd
á klaufajakka og sandölum og „æfa sig á Strönd“
Þeir Bárumenn fyrir stúkulífi berjast ár og síð
og bægja vilja áfengi frá nontemplara lýð.
En loks þeim datt í huga þetta dásamlega ráð,
að drekka sjálfir allt það vín, sem hingað flyst í bráð.
Á aðstoð sinni liggur ekki Líkn sem kunnugt er.
Það líknar öllum bágstöddum, nema kannske mér,
og heldur okkar þjóðhátíð og semur sögu um það
og setur hana í landsins fremsta Heimastjórnarblað.
Ekki vaknar Velvakandi, vesalingurinn,
og verst er, að hann smakkaði ekki grútarbræðinginn.
Í fyrra vakti hann yfir sig, en svaf sig úr því í hel,
og sjálfstæðismenn þeir spáðu því, hann þrifist aldrei vel.
Gamli Jón í Gvendarhúsi gekk þar fyrstur inn,
Gaui, Mangi, Jón í Hlíð og Lindi og konsúllinn.
Þeir borguðu allir eina krönu eins og samþykkt var,
sem átti að geymast þangað til um næstu kosningar.
Ekki vex þeim allt í augum ungmennunum hér,
þeir ætla að reisa sundhöll, þar sem Heimaklettur er,
og leigja þar út sólskinið og selja hreinan sjó
á sextíu aura pottinn, það hélt Steinn, að væri n6g.

Með kústaskaft í hönd merkir, að menn voru í langbolta uppi á Kirkjuflöt á kvöldin. Klaufajakkar voru jakkar með skarði í að aftan. Bárurnenn eru félagar stúkunnar Báru nr 2. Líkn er Kvenfélag Vestmannaeyja. Velvakandi var stjórnmálafélag hér. Sundskáli Vestmannaeyja var byggður 1913 inni á Eiði og var lengi í notkun. Sennilega var hann rifinn vegna slæmrar umgengni og máske hefur hann þótt óþarfur, þegar Sundlaugin á Miðhúsatúni var tekin í notkun.
Að „æfa sig á Strönd“ þýddi það, að menn voru „pínulítið við skál“ eða hýrgaðir í langboltanum uppi á Kirkjuflöt. Kölluðu sumir það „að vera á Strönd“, er þeir voru góðglaðir af víni.


M ý s u ð
Mikið er um hjá mýi á skán
með mælgi og látum skrýtnum.
Það lofar þá mildi og miklar það lán
að mega lifa í skítnum.
Hver kúadella er kostaland.
Þá kenning er skylt að boða,
að jörðin sé skítur, hafið hland
og himinninn keytufroða.


V í s a
Flétta þétt og bragar brögð
bæta rétta sögu.
Rétt og nett hver saga sögð
sett í flétta-bögu.


Ást
Vinsemd brást og bróðurást,
breytist ást hjá konum.
Matarást er skömminni skást
skjaldnast brást hún vonum.


Sundskálinn undir Litlu-Löngu

Þegar sundskálinn á Eiðinu var vígður árið 1913 hélt Steinn Sigurðsson ræðu.
Þá kvað Magnús Stefánsson eftirfarandi vísu.

Gakk þú inn á Eiði
eftir klukkan fjögur.
Undir Litlu-Löngu
ljómar sundhöll fögur,
bergstudd blásteinslituð
bygging hárra sala.
Þó að aðrir þegi,
þar mun Steinninn tala.


Jón í Hlíð var með annan fótinn styttri og var þessvegna alla tíð nokkuð haltur. Þetta kvað Magnús, er hann eitt sinn mætti Jóni á gangi.

Það er orðin sjaldgæf sjón
að sjá þig ganga um stræti.
Hvert ætlar þú, Hlíðar-Jón,
á hálfum öðrum fæti?


Sumir hafa viljað rekja áhrif frá Heine á Örn Arnarson. Það má vera, að Örn hafi eitthvað lært af Heine eins og mörg íslensk skáld. Hann hefur notað sér það á frumlegan hátt eins og þeir og verður ekki sakaður um neinar lánsfjaðrir frá einum eða öðrum.
Hitt er annað mál, að eitt af kvæðum hans er mjög líkt kvæði eftir Fröding eins og mjög lausleg þýðing af Inga lill.
Þá vil ég koma með annað dæmi, sem sýnir mjög ljóslega, hve efnismeðferð Magnúsar er frumleg.
Eitt sinn var hann, ásamt öðru fólki, að ferðast norður í Skagafirði. Var riðið yfir Héraðsvötnin. Magnús sat á heldur veigalítilli grárri meri, sem sprakk á sundinu, er út í mitt fljótið kom. Straumur var mikill og vatn svo djúpt að Magnús fótaði sig ekki. Rak merina niður fljótið, en skáldið hékk í faxinu, uns bæði bar upp á eyri eina. Sanferðafólkið horfði á þessi ósköp, en tveir hraustir menn riðu út á eyrina og björguðu skáldinu.
Þetta einstaka slys hefði vitanlega orðið mörgu skáldinu, sem í því hefði lent, mikið yrkisefni. Ég gæti trúað, að t.d. einhver hefði ort hjartnæman sálm, sem vegsamað hefði mildi guðs og hreysti riddarans. En um þetta orti Magnús Stefansson.

Gætið ykkar, góðir bræður,
gjöf er lífið, dauðinn náð.
Eilíf forsjón öllu ræður,
eftir því sem mér er tjáð.
Fararskjótinn, Skjögur-Grána,
skilaði mér heim á leið.
Signdi ég mig og út í ána
upp á líf og dauða reið.
Merin komst í miðja ána,
missti sunds og dó um leið.
Í Jesúnafni eg hélt í hána,
hrossinu dauðu í kafi reið.
Mér leist fjandi illa á það.
Aðeins dauðinn virtist vís.
Bað ég guð urn frelsun frá að
fara strax í Paradís.
Ég var upp úr ánni dreginn
eftir langa hrakningsstund.
Varð ég þeirri frelsun feginn
framar aldrei reið á sund.
Ekki má það minna vera
en maður þakki fyrir sig.
Dæmalaust var drottinn góður
að drepa hrossið, en ekki mig.


Gunnarshólmi
Mig minnir helst, en man það samt ei vel,
því margt, sem lærð´eg, felst í tímans húmi,
að Gunnar vildi heldur bíða hel
en hátta sig í ókunnugu rúmi.

Magnús var, sem kunnugt er, fæddur árið 1884 á bæ einum á Langanesi. Hann er því Austfirðingur eins og fleiri af íslenskum góðskáldum. Hann ólst upp við venjuleg kjör fátækra sveitabarna.
Er hann tók að þroskast, stundaði hann sjóróðra frá Bakkafirði. Frá þeim tíma er eftirfarandi vísa. Var Magnús á sjó með öðrum manni í tregfiski, og var maðurinn að kvarta yfir því. Þá sagði Magnús:

Hvern djöfulinn viltu vera að jaga,
veistu það ekki, að ég er að draga.
Þótt þú kjaftir þér til baga,
það er ekki mitt að laga.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit