Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Viðtal við Árna Árnason um vinnuna
„Áttir þú ekki 25 ára starfsafmæli hjá Landsíma Íslands nýlega?“
„Það er nú nokkuð umliðið, síðan þau tímamót voru eða síðan 1. febrúar 1945. Ég var skipaður símritari hér í Eyjum 1. febrúar 1921.“
„En hvenær byrjaðir þú á Stöðinni ?“
„Það var 23. september 1919. Ég var þó ekki í þjónustu Landsímans, því að í þá tíð lagði stöðvarstjóri til starfsfólkið og greiddi því kaup af sínum launum. En 1. ágúst 1920 var ég tekinn til náms hjá L.Í. og semsagt skipaður símritari 1. febrúar1921.“
„Hver var stöðvarstjóri, þegar þú byrjaðir og hvernig atvikaðist það?“
„Þá var stöðvarstjóri A.L. Petersen ingeniör og hafði verið það frá fyrstu tíð símans hér.“
Árið 1919, um vorið, fór hann ásamt frú sinni til Danmerkur til þess, í sumarleyfi sínu, að heilsa upp á vini og vandamenn, en styrjöldin 1914-18 hafði rofið öll sambönd þeirra í milli sem annarra. Þau hjónin áttu þá nokkurra vikna gamalt barn, sem þau þurftu að koma fyrir á meðan þau færu í ferðalagið, og varð það úr, að
foreldrar mínir tóku barnið. Það var Betsy, hjúkrunarkona, er lést 1945, og ólst hún svo upp hjá okkur til 10 ára aldurs.
Þegar svo Petersen kom heim úr sumarferðalaginu í september 1919, bauð hann mér að koma á Stöðina, vinna á skrifstofunni við mánaðarreikningana og síðar, ef mér sýndist svo, læra talsíma- og ritsímaafgreiðslu.
Þetta varð úr, og vann ég fyrst á skrifstofunni, en fór svo að læra á talsímaborðið og morseáhaldið. Ég átti víst fyrst að vinna kauplaust einhvern tíma, en síðan að fá 75 krónur á mánuði. En þetta fór öðruvísi, því að ég fékk strax kaup, og reið það baggamuninn um framhaldsveru mína á stöðinni. Annars hefði ég orðið að hætta og fara til sjós vegna erfiðra heimilisástæðna. Það voru víst fæst heimili þurrabúðarmanna, sem höfðu efni á því að láta 15-18 ára gamla stráka ,,ganga í landi“ um hábjargræðistímann, vertíðina, að ,,dútla við“ störf sem gáfu lítið eða ekkert í aðra hönd. Nei, það urðu allir að stunda sjó og fiskvinnu. Á þeirri atvinnu byggðist lífsafkoma allflestra hér í bæ.“
„Hver kenndi þér svo á ritsímann?“
„Það gerði Petersen og svo kona hans, frú Guðný Magnúsdóttir og núverandi frú Magnea Jósefsson, en þær voru þau árin símritarar hér, með ágætum góðar, sérlega fljótar, bæði við móttöku og sendingu. Mér gekk furðanlega að læra þessar galdrarúnir hans Samúels Morse, meðhöndla lykilinn og ná sæmilegum hraða, en móttakan var mín veika hlið, því að bæði var ég seinn að skrifa og skrifaði grátlega illa. Ég var iðinn við að læra og æfði mig látlaust, nær því myrkranna á milli, því að ekki veitti af, ef ég ætti einhvern tíma að geta afgreitt hjálparlaust.
Ég man eins vel og það hefði skeð í gær, þegar ég tók fyrsta skeytið frá ritsímanum í Reykjavík.“
„Var það eitthvað sögulegt?“
„Í mínum augum var það sögulegur atburður og ógleymanlegur, og ég leið hinar verstu kvalir, meðan á þeim ósköpum stóð. Ég sat þá einn við Morse-áhaldið og var að pjakka á lykilinn, straumlaust auðvitað. Magnea var ekki viðlátin og hjónin Guðný og Petersen ekki heima. Þá kallar Reykjavík allt í einu á Vestmannaeyjar og það hreint ekki á neinum „slow speed“.
Mér brá voðalega, fékk andköf af skelfingu og datt helst í hug að hlaupa út. Ég hygg líka, að það hefði ég gert, ef ég hefði getað hreyft legg eða lið, en ég var eins og negldur við stólinn. Ekki þorði ég fyrir mitt litla líf að láta Reykjavík vita af mér þarna við áhaldið, með því t.d. að biðja um „min“, því að ég var þess alveg fullviss, að ég gæti alls ekki sent þrjá stafi læsilega fyrir skjálfta.
Nú voru góð ráð dýr og ekki auðfengin, þareð ég var einn, enda var ég alveg ráðalaus. Reykjavík kallaði stanslaust nokkrar mínútur, afar hratt og ákveðið, og þóttist ég þekkja, að þar mundi varðstjórinn á ferðinni, og varð það til að auka enn meir vanlíðan mína og hræðslu. Þegar nú Vestmannaeyjar svara ekki, kom varðstjórinn í símann og var æði fasmikill yfir biðinni og heimtaði, að Vestmannaeyjar svöruðu undir eins á „Graffinn“.
Ég ætlaði eitthvað að segja, en komst ekki upp með moðreyk. Hann vildi engum sönsum taka, rauk úr símanum og byrjaði strax að kalla Vestmannaeyjar á ritsímann, miklu hraðar og ákafar en áður. Hann gat sent alveg djöfull hart, ef honum var mikið í hug, en hann sendi líka vel, ákaflega vel, og læsilega.
Nú jæja, það fór nú að síga í mig yfir þessum bölvuðum látum og stanslausa kalli, svo að ég hafði orð á því við símastúlkuna, að ég svaraði nú bara hverju, sem tautaði, og ýtti hún heldur undir mig að gera það.
Ég þreif þá lykilinn í bræði og sendi víst ein fimm eða sex R svo hart, sem mér frekast var unnt. Það stóð þá aldeilis ekki á svarinu. Fyrst kom buna af „spurs“ og upphrópunum, sem þykja ávallt heldur leiðinleg merki, svona í ávarpi, og síðan langt skeyti með tölum og merkjum o.fl. góðgæti. Ég dauðsá eftir bölvuðu óðagotinu í mér, að fara að svara, en það var of seint að iðrast, stafirnir ruddust niður á pappírsræmuna með feikna hraða.
Ég reyndi að skrifa niður af strimlinum, en það var mér lífsins ómögulegt, svo að ég tók það ráð að skrifa aðeins tölurnar í komuröð, en lét annars strimilinn renna í körfuna til aflesturs seinna. Annað þýddi mér ekki að reyna að skrifa niður, því að ég skalf eins og hrísla í Vestmannaeyjaaustanroki.
Loks endaði skeytið, sem ég var fyrir löngu farinn að halda að ætlaði að streyma endalaust, og nú skyldi ég „Colla“, jú, með mestu harmkvælum lukkaðist það, en eitthvað hefur það ekki verið glæsileg frammistaða, því að ég fékk nokkur vel valin kveðjuorð eða merki og ,,burtu var Kári“, en ég sat eftir þegjandi og stórkostlega meðtekinn eftir þessa eldskírn.
En þótt ég væri heldur framlágur og rotinpútulegur eftir skírnina, var ég þó innilega hrifinn með sjálfum mér yfir að hafa tekið skeyti frá ritsímanum. Ég hét því þá að senda einhvern tíma eins hart og vel og þeir þarna í Reykjavíkinni, t.d. Goh, SD, OJ og fleiri, sem þá unnu á ritsímanum, og launa þeim lambið gráa með hraðari sendingu. En það sat nú reyndar við orðin tóm. Að vísu komst ég upp á sæmilegan hraða, en aldrei svo, að þeir tækju ekki óþvingað á móti. Þeir voru alveg eins og vélar hver um sig í sendingu og móttöku. Já, það voru nú kallar í krapinu, enda var ég oft lafhræddur, þegar þeir tóku að sér Vestmannaeyja-afgreiðsluna. Hraði þeirra var svo mikill að mann snarsundlaði af tilhugsun um að eiga að afgreiða þá.“
„Þetta hefir verið söguleg eldskírn, sem þú hlaust. En þú hefir bara verið nervös og það hefir vitanlega horfið með tímanum.“
„Já, ég var ábyggilega nervös, en það hvarf fljótt, enda voru fyrrnefndar hraðavélar ekki ávallt á móti Vestmannaeyjum, þótt hins vegar fyrir kæmi það alloft.
En hvað hinu sögulega viðkemur, þá væri hægt að segja þér margt, sem gera þessa
eldskírn mína að barnaleik. Í þann tíma gat yfirleitt allt fyrir komið, sem sett getur mann út af jafnvæginu.“
„Nú, eins og hvað til dæmis?“
„Það get ég ekki farið að rifja upp núna, enda yrði það allt of langt mál. Þó get ég ekki stillt mig um að segja þér, að einu sinni gerði GB mér bölvaðan grikk. Hann var oft að stæla OF á lykilinn og tókst það oft ágætlega. Einu sinni kalla ég t.d. á R, og svarar hann strax. Ég þóttist þekkja GB og sagði honum langt skeyti, vel hratt. Það stóð á „Collinu“ svo ég sendi nokkrar „spurs“.
„Collið“ kom svo, og því fylgdi þessi klausa: „Dette var ikke godt, prikkerne kommer ikke med, de skal vist sendes med posten.“
„Góði GB, vertu ekki að þessu röfli, ég þekki skriftina þína, hún er síst betri en mín, sein og silaleg.“ ,,Naa, det synes de.“
Allt í einu þekkti ég, að þetta var OF, en ekki GB, og ég segi þér það satt, að það var rétt liðið yfir mig af skelfingu. Ég stirðnaði allur upp eins og dembt hefði verið yfir mig fullri tunnu af ísköldu vatni. Hamingjan sæla, það var ljóta kjaftshöggið. Allan daginn var ég svo með lífið í lúkunum, hélt að OF mundi koma í símann, bullskamma mig eða reka, en hvorugt varð. Heldur kom með næsta pósti bréf, sem innihélt strimil með skrift minni á. Það var hröð skrift og snögg, nærri punktalaus og áminning um að vanda betur sendinguna, þ.e.a.s. hafa punktana stærri. Ég þóttist sleppa vel, lofaði bót og betrun, en hræddur er ég um, að lítið hafi ég batnað, nema að því leyti, að vara mig betur á leikaraskapnum í GB. Það gerði ég ábyggilega.“
„Já, ég skal trúa, að þér hafi brugðið við þetta. En segðu mér, hefur þú alltaf verið í Vestmannaeyjum?“
„Já, alltaf, að undanteknu sumrinu 1928, en þá var ég á ...., meðan Snorri Arnar fór út til Hafnar.“
„Fannst þér ekki gaman að vera þar?“
„Jú, dásamlegt. Prýðilegir samstarfsmenn, hver öðrum betri og nóg að gera daga og nætur, enda lenti ég í því þá að afgreiða í sæsíma slitum Íslands-traffikina loftleiðis, taka á móti frá Stonehaven upp á Veðurstofu, en senda til Fauska suður á .... Þá var líf í tuskunum.“
„Hvað ætlar þú að halda lengi út sem símritari og loftskeytamaður í Vestmannaeyjum, og ertu ekki farinn að þreytast á þessu ,,jobbi“?
„Hvað lengi ég held út, veit ég fjandann ekki, en vona hins vegar, að það verði þó eitt eða tvö ár enn, því að ellihrumur er ég ekki, þó að ég sé farinn að slitna nokkuð mikið. Hér eru það þrengslin, sem verst fara með mann eins og þú þekkir. En það stendur allt til bóta, þar eð nú þýtur hér upp hið nýja póst- og símahús, stórt og veglegt. Þar hlýtur að verða nóg pláss, enda eru við það bundnar allar vonir manns um bætt vinnuskilyrði, þ.e.a.s. vinnupláss og tæki. Ég vona að mér auðnist að lifa þá stórbreytingu.“