Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Strand briggskipsins Halkion á austursöndum 1870

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar
Strand briggskipsins Halkion
á austursöndum 1870.
Kvæði eftir G. Thorarensen að Felli¹)


Þá gjörðist mikið undra ár,
Ísland lemstraði hundafár.
Keisari Frakka kraup af stóli,
er kjarklundaður Prússasjóli
um Suðurlönd lét belja blóð
- í báða fætur páfinn óð.
Spánverjar kusu konung sér,
keisari Rússa safnar her,
en England hló og hlýddi á,
í heiminum þaut sem ílustrá.


Þá sást úr landi sævarhind
er seglum ók við þægan vind.
Landsbúar flatir lágu á jörð
með lofsöngum og þakkargjörð
og báðu fast að byrðinginn
bæri nú upp á stúfinn sinn.
En heldri konur hræddust Tyrkjann,
höfð var til vara opin kirkjan,
því skipið kom og lét í land
og lenti upp á þurran sand.
En innanborðs var Englaher
með allsnægtir í för með sér.


Þá sté til himins þakkargjörð
á þessa lund, frá glaðri hjörð:
„Vér þökkum fyrir þetta strand
að það kom ekki á Meðalland,
því Rauðkembingur rænir þar,
ef rekur mat á fjörurnar,
þó sumir kalli hann sýslumann,
en sumir píslarforingjann.


Þá lokið var við lofsönginn
og lítt það bældist mannþröngin,
þá tók forsetinn fyrst til orða,
fyrr hafði hann talað snjallt á þingum:
„Vill ekki fólkið fara að borða“.
Flokkurinn þyrptist skipið kringum
og bitu flesk og belgdu vín.
Þar borðuðu svínin frændur sína
og sykur við til svartrar nætur.
Seint næsta dag þeir risu á fætur
og byrjuðu aftur borðleg störf,
því belgirnir höfðu aftur þörf.


Nú flaug fregnin um breiða byggð.
Bakaði strandið fáum hryggð.
Bændurnir fundu helgan hroll
og hlökkuðu til að koma í soll.
En konurnar vildu koma með
og kváðust skyldu hafa vasa,
ef fengju eitthvað fágætt séð.
En bændurnir vildu gá til glasa.


Nú streymdu í sandinn þræll og þý
og þeir, sem áttu að stjórna því,
svo flestum þótti furðu her.
„Hvern fjandann sjálfan viljið hér?“
flopruðu þeir, sem fyrir stóðu,
með fork og skóflu gegn þeim óðu:
„Vér höfum fyrstir fundið strand
fyrr skuluð allir kyssa sand
en hér þér fáið hlutdeild í.
Nú hefði orðið skömm úr því,
ef förlast hefði ei forustan
og fyrir því varð ei orustan.


Þá festu bændur frið með sér.
Í fjórum greinum hann skráður er.
Fyrst: Skulu allir fyrirmenn
fá að afnámi verðlaun þrenn
í kjörgripum. Annað: Enginn má
af þeim bersnauðu hlutdeild fá.
Þeim sé og meinað mat að hnupla
í mála. Þriðja: Leyft að rupla,
sé þeim er hreppstjórn hanga í,
eða hugsa til að ganga að því
starfi, eða starfað hafa.
Stolna muni sé leyft að grafa
í fjórða máta uns endað er
uppboðið, sem að hendi fer.


Að gjörðum friði gengu á skip,
garpar og mær í einum svip.
Þeir klifruðu upp á kaðalsendum,
þær köstuðu sínum þreknu lendum
í kænlega riðinn körfustól,
er kippti í loft upp vinduhjól.
Hvað uppi gjörðist enginn veit,
en er menn komu heim í sveit,
þá fór að bera á fyrirburðum
og fákátlegum eðlissnurðum.
Konur, sem aldrei kenndu nauð
af karlmannsvöldum fæddu brauð,
sýrópsbrúsa og sykurtoppa
og sýlum fyllta pjáturkoppa.


Þá sáust kaffisekkir fljúga
og svo sem drekar loftið smjúga
- í botninum með breska vél,
er beindu fluginu líkt og stél.
En þar, sem þeir sjálfir settust niður
varð siguróp og gleðikliður.
„Þeir gleymdu að senda oss gjafakorn,
nú getum vér fengið krafa vorn“;
svo sungu konur og karlar þá,
en krakkarnir fóru að leysa frá.


Við ströndina settu þeir sterkan vörð
og stíluðu honum reglugjörð.
Þar vöktu þeir margar vikur á mis,
við valinn kost og tendruð blys,
og átu brauð og útlend ber,
sem ekki geta sprottið hér,
en sem í görnum gerðu soll
svo görpunum var sú fæða ei holl.


Í lyftinguna var látið margt,
sem landinu gat orðið þarft
og hlutaðeigendum arður í,
ef einn eða tveir hefðu setið að því.
Þá gægðist úr djúpinu hin grimma Rán,
er getur ei vitað neins manns lán.
Hún sá hvar skútan í landi lá
með seglum og reiða og fólkið hjá.


Nú stefnir hún dætrum sínum að sér
og segir: „Stelpur komið þið hér,
og brjótið þið þetta breska far,
sem býður mér þar til skapraunar“.
Þá hlógu þær og hlökkuðu til
og hlupu á skutinn líkt hvirfilbil.
En svo varð mikil sviftingin
að sundur gekk öll lyftingin.
En höfrungurinn og hákarlinn
og hnísan og monsér selurinn
komu utan af hafi að horfa á
þá hluti er flutu úr skutnum þá.


Ó, óðar dísir, yður ég bið,
að aumkva mig nú og veita lið
og Óðinn gamla er drjúgum drakk
hinn dýra mjöð svo hann næstum sprakk
og hvítskeggur Bragi, hörpugoð,
hjálpaðu og vertu nú mín stoð,
um innyflin svo ég yrki með þind,
er ultu úr þessari beinagrind.


Fyrst hvomuðust úr henni feikna kol,
er fylltu upp skipsins meginhol.
En lyftingarinnar leyndardóm
ég læt hvorki koma við jaxl eða góm.
Því Óðinn vissi ekki par
og ekki Bragi eða dísirnar,
því þegar að goðin girntust inn
að gá, fékkst ekki lykillinn.


En þegar máni gegn báru blá,
brosir og næturkyrrð er á,
þá hafa þeir, sem við hafið búa
heyrt og séð mikinn sækindagrúa
í löðrinu brölta og bylta sér,
sem börn er sér skemmtu við falleg gler.


Þá mjalar öll fjaran í málmabjarma,
er mörgum kennir sér þannig að barma:
„Æ, betur ég hefði bjargað því
og borið það heim og fargað því,
í sjálfs míns hag, þá sæti ég ei snauður,
þó þetta breska brostna lið
í rauninni væri enskur auður,
Halkion enski er nú dauður. –


Handritið af kvæði þessu er fengið hjá gömlum manni hér í Vestmannaeyjum og er mér ekki kunnugt um, að það sé nokkurs staðar til á prenti. Hinsvegar þykir mér rétt, að það birtist, áður en það glatast með öllu. Sagt er, að annað skip hafi rekið á land austur á söndum 1843. Það hafi verið franskt og heitað HALKION eða Halkione, og annað nokkuð vestar á söndunum eða móts við Kúðafljót, er hafi heitið Fecamp. Mannbjörg af báðum, líklega. Sögn Jóns Brynjólfssonar, Þykkvabæjarklaustri og Sveins tengdasonar hans 1934. Þetta hefðu verið fiskiskip, tvímöstruð og nokkuð stór. Sögðust þeir hafa heyrt, að mesti aragrúi hefði verið af slíkum skipum við fiskiveiðar og þá sérstalega í mars, apríl og maí ár hvert, einmitt á þessum slóðum, en er líða tók á sumar hefðu skipin farið vestur með landinu og máske norður fyrir land.
¹) (G. Thorarensen á Felli mun vera séra Gísli Thorarensen Sigurðsson prestur og skáld að Felli í Mýrdal, f. 1818, d. 1874. Hann var prestur í Mýrdal 1848-1873. Ljóðmæli hans voru prentuð 1885.
Sonur hans mun hafa verið Páll sá Gíslason Thorarensen, sem var vinnumaður hjá Sigurði Sveinssyni í Nýborg og orti vísuna: Nú er hún gamla Gudda dauð.... Sjá: Blik 1960/Gengið á reka og Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Nú er hún Gudda gamla dauð. (Heimaslóð).


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit