Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Nokkrir gamlir húsgangar úr Eyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar
Nokkrir gamlir húsgangar úr Eyjum.
Höfundar eru mér algjörlega ókunnir, en vísurnar
þekktar á flökti um bæinn fyrr og síðar.


Helgi missti háf undir borði
hann var gildur mánaðarforði.
kættist lítið Kristín í Gerði
kallar slíkt ei ábataferðir.
Það er grey og svívirt svei,
svaraði peyi skjalda,
eg vil fleyi að Elliðaey,
enganveginn halda.
Eiríkur minn frá Árnagerði
upp á Vertshúsið skunda réð,
keypti kaffi vægu verði
víst hef eg þetta heyrt og séð.
Sex skildinga var bollinn bert,
bæði var kaffið heitt og sterkt.
Viltu í nefið vinur fá,
veit ég kvefið minnkar þá.
Mærðarstefið mitt skal tjá,
að mér var gefið baukinn á.
Fúsi í Holti sendi svein
sína að vekja drengi.
Í húsum flestum heyrðist vein
sem hljómaði skært og lengi.
Brögnum flestum blöskraði,
hvað blundaði þundur stála.
Því átján sinnum öskraði
í hann Svein á Skála.
Stelur, felur, smellinn, smýgur,
smjaðrar, þvaðrar alla tíð.
Klagar, jagar, kjaftar, lýgur
kellinn, brellin ár og síð.
Ýtar brátt á ufsa hlað
ýttu knörr frá ströndum,
en Gísli í Kornhól gekk af stað
til að gæta að Hönnu á Löndum.
Þessi síðasta vísa að ofan er eftir vinnukonu,
sem var hjá Lárusi hreppstjóra og Kristínu konu hans í Kornhól.
Gísli Lárusson var þá sex ára gamall.
Hollenzki konsúllinn hýddur var
eina heiðskíra vetrarnótt.
Blóðugan rassinn í burtu bar
og bölvaði feikna gnótt.
Nú á hausti hörmungar,
hanga í naustum fleyturnar.
Tindar traustir tigninnar
titra í vindi skelfingar.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit