Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Kvæði eftir Gísla Engilbertsson, IV. hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
6. Náttúrudýrkun


Dagur og nótt
Sól hvern morgun sýnist ný
sólarbrosin ávallt hlý.
Sínu lífsins ljósi í
leiðir daginn gegnum ský.


Sólin gyllir grund og höf,
grænan völl og fjallatröf.
Geislaskykkju ljósrauð löf
leggur yfir hverja gröf.


Sólin hækkar heit og skær,
hún þá lækkar öllum kær.
Húmið færist nær og nær
nóttin aftur vald sitt fær.


Sólar stafa súlur á
sígur nóttin ofan frá.
Hverfur dagsins bjarta brá,
blika ljós í sölum há.


Stjörnublika heiðbjört höll
hringuð norðurljósum öll,
Íslands hvelfist yfir fjöll,
ótal geislum skreytir mjöll.


Stjörnuhópar stíga dans.
Stilltur máninn geisla krans
flytur búum fjalla lands
frá valdhafa sólna rans.


Háð er lögum ljóss úr átt
líf, sem bærist stórt og smátt.
Alheims krafta undra mátt
allt er bundið lágt og hátt.


Sólarbrosin sæl og blíð
sífellt glæða von hjá lýð.
Næturljósin fögur fríð
friðinn boða eftir stríð.


1904
Sestur er vetur á sólgyllta hnjúka
sína með snjókampa, vefstól og rokka.
Festir upp glitrandi frostþráð í dúka,
freðinn á kjúkum með hrímgráan lokk.
Týhraustur vefur í tignarleg klæði,
tindrandi stjörnublik mánaskyn bjart.
Norðurljós kniplum frá sólgeislasvæði
setur með glitofið fjallkonuskart.


Fagurt er Ísland í vetrarins voðum,
verða samt þjóðinni klæðin oft dýr.
Aftur það bætist nær alvalds að boðum
oss birtist rósfingruð vorsólin hýr.
Vaknar þá foldin og flettir af klæðum,
fæðir svo lifandi plöntur á ný.
Brátt syngja fuglar á holtum og hæðum
hrífandi lofsöngva blómrunnum í.


Þegar að vorsólin vetrinum hefir
vikið burt snjóbólstra hásæti af,
lífið í afkimum eigi þá tefur,
iðar um ljóshvolfið, grundir og haf.
Grænan í möttulinn fóstra vor færist,
fágar með sólgeislum skautbúning sinn.
Daggar á glitrandi dropunum nærist
dreifast þá rósir um blómhýra [kinn].


Fagurt er Ísland þó ofsmátt af skógum,
auki þá framtíðar kynslóðir við.
Eyði þær grjóthólum, melum og móum,
menntunin þroskist svo ei skorti lið.
Iðnaður blómgist og listirnar ljómi,
lifandi þjóðrækni, frelsi og dyggð.
Reynast mun óbrotgjarn sjöt vorri sómi,
sýnd ef í verkum er ættjarðartryggð.


Íbúar lands hafa legið í sárum
lemstraðir, bundnir á þrælslega hátt.
Framfarir sjást þó á síðari árum,
stefna þær eflaust í menningar átt.
Efli þær stjórn vor, þingið og þjóðin,
þrífist og blómgist á komandi tíð.
Frelsið er vakið, en vekja þarf móðinn,
víkja burt úlfúð, en mennta vorn lýð.


Heill sé þér Ísland með fossum og fjöllum,
fannbungum, jöklum og glitrandi ís,
blikandi hlíðum og blómstrandi völlum,
blágrænum túnsléttum, engjum og hrís,
fénað í högum og fiskinn við strendur,
fugla í björgum og trjárek af sjó,
laxinn og silunginn, selinn og endur,
sægirta landið á forðabúr nóg.


Sægirta landið í sólgylltum klæðum
signi þig ljóshraðans eilífa vald.
Svali þér döggin frá dýrðþrungnum hæðum
dagsroðinn gylli þinn svanhvíta fald.
Blómin þig skreyti í ár-þúsund aldir,
umgirt með þjóðrækni, lögspeki og tryggð.
Teknir svo verði upp fjársjóðir faldir,
farsældin aukin í sögunnar byggð.


Þokan
Háum yfir Heimakletti
hvílir þokan silfurgrá.
Ægir þó að brúnir bretti,
berist stoltur mikið á,
hana burt ei hrakið getur,
hamra fast þótt lemji stól.
Vindinn svala meir hún metur,
mjúklát þokar fyrir sól.


Henni leiðir vísar vindur,
vökur skeiðar hans á braut.
Hann þá daggar bagga bindur,
blómin gægjast upp úr laut.
Þögul náir þokan fylla
þeirra bikar áður fer.
Svaladrykkinn geislar gylla,
guðaveigar helga sér.


Vetur þó að valdi skeinum
vors í dögg, þá hækkar sól
brosa lauf á grænum greinum,
gróa blóm við yl og skjól.
Þokan mjúkum móður höndum
mýkir, græðir kalin sár.
Jöklum frá að svörtum söndum
svala jurtum hennar tár.


7. Stökur
Lóa syngur grundin grær,
grautinn vellir spói.
Tófa lambafylli fær,
friðlaus vælir kjói.


Vermir foldu sumarsól
sælu guðs frá veldi.
Gyllir fjöll og grænan hól
guðdóms dýrðareldi.


Fár kann líta fegri sjón
falla manns í auga.
Getur engum gjört neitt tjón
grípur kerfið tauga.


Ó, hvað þú ert yndisleg
eikin gullinbanda.
Augun pilta upp á þig
öll í loga standa.


Flugin
Fjalla enginn fyrður má
flugin laus að tildra.
Þær eru held ég Heimaey á
heljar mesta gildra.


Hákollahamar:
Hákolla ég hamar má
hættulegan greina.
Barðist ég þar böndum á
bjargs við lausa steina.


3. febrúar 1905
Bylur hylur græði grund,
glymur rimur vindur,
dylur ilinn, sílir sund,
svellum fellin bindur.


1906
Vér eigum margoft á því ráð,
að óskir vorar rætist.
Það er að segja, ef dugur dáð
við drengskap okkar bætist.


Ó, hve ertu yndisleg,
eikin gullinbanda.
Augun pilta upp á þig
öll í loga standa.


Ekkert hef ég unnið þarft
allan þennan vetur.
Ævi minnar efri part
iðjuleysið etur.


Sléttubönd
Elur, gelur höldum hrós
hrundin fingra ljóma,
velur, selur rekkum rós
runnum unnir blóma.
8. Léttara hjal
Gaddavír
1. Eldri kynslóð undirbýr 2. Enginn lengur illa býr
öðrum góðan bita. alþingis að ráðum.
Gumar erfa gaddavír Silfurgrátt af gaddavír
gott er til að vita. gjörist landið bráðum.


3. Vírinn öllum verður happ, 4. Vorgróður þó vanti skjól,
virðar skjótt það reyna vírinn hjálpað getur.
Enginn slítur af sér hnapp Milli strengja sjá má sól
upp að taka steina. sumar jafnt og vetur.


5. Hnígur smjör af hverjum brodd, 6. Smjörið fær þá fólk við sjó,
hverfa allir móar. fátt í bú mun vanta.
Þá má stikla odd af odd Útlent framar skinn í skó
ákaft, þegar snjóar. skatnar engir panta.


7. Margarínið magurt þá 8. Landsjóðurinn græðir gull
menn ei framar vilja. gaddavírs á kaupum.
Toll það setja ætti á Sína greiða sjálfir ull
eins og gefur skilja. sauðir á strengja hlaupum.


9. Landið blæs þá ekki upp, 10. Vestan hafs ei hafa þeir
allt í skógi vafið. hóti meir að éta.
fær þá margur feitan hupp Föðurland ei flýja meir,
fyrir austan hafið. flestir lifað geta.


11. Gaddavírinn grannasætt 12. Brú til lands, ef byggð er há,
getur trauðla fokið. bændur geta fengið.
Allri verður ábeit hætt, Fram þá sækir sumar á
uslagjöldum lokið. sólarbakað rengið.


Kvæðadómur
Illa spunnin eru ljóð,
æðar vantar fjörugt blóð,
hausinn fyllir heimskan óð,
hugsun skortir alla glóð.


Kasta ber á kökuglóð
kvæða minna léttum óð.
Vermi sitt hið vakra blóð
við þann logann handköld fljóð.


Þá í eldinn óður fer,
enginn mína heimsku sér.
Gatan lífs þá gengin er
gleymskan hvílir yfir mér.


Gróa
Flúin er Gróa úr frostbitra snjónum
í fannlausu eyjanna þíðvinda skaut,
og heit eins og eldur þar heldur á prjónum
og horfir fram vonglöð á lífs dular-braut.
Og syngjandi piæta á sólroðnum grundum
hún séð getur ætíð um helgidags kvöld,
sem herteknir munu af hýrleitum sprundum,
hver eftir annan á nýkomnri öld.


Mun nú ei Gróu án dáleiðslu dreyma
um dáfríða pilta með svanahvít brjóst,
og hugurinn fljúga út í heimanna geima
og hjartanu verða það skínandi ljóst,
að ástinni má hún ein eyða þar svona,
því árin manns líða svo dæmalaust fljótt.
Hún elskandi maka því ætti sem kona
að annast og sofa í faðmi hans rótt.


1906
Í morgun illa mælir stóð,
og moldrok var á sæinn,
tungl í bliku áfram óð,
þá eg bauð góðan daginn.


Inni sveimar andi fúll,
úti merar hama,
veðramælir morgungúll
margoft vísa sama.


Misjafnt er mannssálar gildi,
mannvit það almennt ei sér.
Heggur oft hlífa þar skyldi
heimskan um byggð, þegar fer.


Hún rekur hausinn í skýin
hátt klofin, úfin og grett.
Sleggjudóm leggur á lygin
lítur oft hornauga, rétt.


Vísur
Matthildur, Gróa, Una, Anna,
allt eru þetta sólhýr fljóð.
Augunum skotra oft til manna.
Ó, þér sveinar með fjörugt blóð,
gefið þeim burkna blóm og lyng,
brjóstnálar, slifsi og tryggðahring.


Anna í sænginni sefur
og setur upp nefið.
Engan mann örmunum vefur
og því fær kvefið.
Dragsúgur gægist um götin
og glepja vill meyna,
óboðinn fer undir fötin
og vill faðmlögin reyna.


Runólfur
Yfir skurði garða og grindur
geysist Runki hátt,
hringsnýst eins og hvirfilvindur,
horfir ekki lágt.


Runki líkt og fugl á flugi,
fótakvikur er.
Upp í skýin ofurhugi
albrynjaður fer.


Stangarnjótur, stökkulléttur
styttir brókarhald.
Ef að koma á það slettur,
af því sker hann fald.


Lengi vill ei sita á sjónum,
segir það ei létt.
Betra að mala mörk af grjónum,
máske í einum sprett.


Runki latur er þó ekki,
allir vita það.
Hleypur yfir borð og bekki,
beint á hundavað.


Án heitis
Kristín er fjörugt fljóð,
fótnett og kinna rjóð,
hárið gulhvítt,
hörund líkt baldursbrá,
bros leika vörum á,
vorkuldan veikja má
viðmótið blítt.


Rannveig er fjörug, fljót
feitlagna kitlar snót,
hlær oft og hrín.
Fjölmörgum fegri er,
framtíð í skauti sér,
til hennar biðill ber
baug gulls og lín.


Sveinum mun sýnast ráð,
sækja á hennar náð,
leitandi lags.
Ástin hvort ei sé föl,
oft er að velja, kvöl,
verða kann dægradvöl
dráttur til hags.


Matthildur liðug létt,
líflegan tekur sprett
folalda fjör.
Í henni er að sjá,
ólmast hún til og frá
hýrleg á brún og brá,
blómrós á vör.


Ragnhildur stúlka stillt,
starfsöm með hárið gyllt,
brosleit og blíð.
Fuglanna fagnar hljóm,
fer burt með ílát tóm,
týnir sér ber og blóm
bjartleit í hlíð.


Óhappadagur
Á sunnudaginn skrapp ég út á skauta sem að vanda,
þó skratti væri hált og sleipt á svellinu að standa.
Ég skimaði eftir meðhjálp, svo að skyldi ég ei stranda
því skautaferðir tel ég ekki mitt fimleiksfag.
Þá birtist mér hún Bína
og bauð mér aðstoð sína,
um endilanga tjörnina við hlupum slag í slag.
En þá kom einhver þjassinn,
sem þeytti mér á rassinn.
Ég hef aldrei lifað annan meiri óhappadag.


Á mánudaginn góðviðrisins gekk ég út að njóta,
það gerir mann svo unglegan til höfuðs og til fóta,
en á undan mér á götunni þar gekk hún litla Tóta
og guð einn veit, ég taldi mér það bæði happ og hag.
Hún byrjaði að blikka, -
ég brosti og fór að nikka,
já, svona gekk það langan tíma alveg slag í slag,
uns konan kom og tók mig
og kröftuglega skók mig.
Ég hef aldrei lifað annan meiri óhappadag.


Á þriðjudaginn sat ég allan þreyttur víð að skrifa,
já, það er ekkert lítið spaug að skrifa til að lifa,
og kontoristinn alltaf var á kontóinu að klifa
það kæmist ekki á bókfærsluna nokkurt minnsta lag.
Svo barst í tal með blekið
að byttan hefði lekið
og útataði pappírana alveg slag í slag.
Ég það með klútnum þerrði
og síðan svona gerði..... (þá þurkar söngvarinn vasaklútinn um andlitið).
Ég hef aldrei lifað annan meiri óhappadag.


Á miðvikudaginn bjó ég mig með brúðu upp til sveita,
því betra er þar í kyrrðinni við ástarmál að þreyta,
og svo er þessi kosturinn að þurfa ei lengi að leita
og losna hér úr fjölmenninu og þessum bæjarbrag.
Ég kyssti meyna á munninn,
er mér var feimnin runnin,
já, svona gekk það allan daginn alveg slag í slag.
En svo fór um þennan aften,
ég fékk þar illa á kjaftinn.
Ég hef aldrei lifað annan meiri óhappadag.


Á fimmtudaginn sat ég allan seinnipartinn heima
í sófanum og lét mig þar um fornar ástir dreyma,
en úti voru kettirnir að urra, hvæsa og breyma,
ég kunni ekki meir en svo við þetta háttalag.
Ég opna í skyndi skjáinn
og skvetti út í bláinn
úr barmafullu vaskafati alveg slag í slag.
En fyrir því varð hún Fía,
ein fyrirmyndar pía.
Ég hef aldrei lifað annan meiri óhappadag.


Á föstudaginn bjó ég mig sem best ég gat á ballið,
því bæði var ég glaðvær ögn og gefinn fyrir rallið.
Og það er ekki lygi mín, að kátt var þetta knallið,
ég kann að meta vangadans og annað mér í hag.
Þær trukkuðu og tróðu
á tánum á mér stóðu,
já, svona gekk það skiptivís hreint alveg slag í slag
og líkþornin þær lömdu
og loks þau sundur krömdu.
Ég hef aldrei lifað annan meiri óhappadag.


Á laugardaginn var það loks, ég kom til hennar Kötu,
í kokkhúsinu stóð hún þar með gólfkústinn og fötu.
Hún hreytti í mig fjúkyrðum og rak mig út á götu
og rétt lá við að komin þarna værum við í slag.
Hún sagði ég væri svikull
og svona líka hvikull,
að eiga mig, það taldi hún hvorki happ né hag.
Hún skolpinu á mig skellti
og skúrnum aftur smellti.
Ég hef aldrei lifað annan meiri óhappadag.


9. Verslunin
Godthaabsverzlun
Enginn getur orð þau burtu skafið,
allskyns vörur fluttar yfir hafið,
bekki, hillur, borð og glugga fylla,
bestu kaup hér allir fengið geta.


Godthaabsverzlun vörur þarf ei gylla,
verð og gæði engum manni dyljast,
enda láta allir sér það skiljast,
eigin hag og velferð, sem að meta.


Godthaabsverzlun gamla stílnum breytir,
Godthaabsverzlun högum manna skeytir.
Þörf og fegurð þykir vert að sinna,
þekkja lífið, kröfur tímans skilja,


Á það hana enginn þarf að minna
eða hitt, að sýna viðmót bezta
öllum þeim, sem einhver kaup hér festa,
ungum gömlum bjóða góðan vilja.


Spá er spaks geta
Ort 1911 í tilefni af nýrri búð Gunnars Ólafssonar og Co á Tanganum.
Sumarfuglar, sólarljómi
sveipar alla gleðibrag.
Fiskamergð og búðablómi
bætir þarfir nótt og dag.
Einnig stendur öllum lýðum
opin nýbyggð Tangabúð,
sem að hér í seinni tíðum
sat á hækjum laus við skrúð.


Menn og konur, meyjar, sveinar
mun nú ráð að sinna því,
alltaf fleiri og fleiri greinar
fylla blómstrum húsin ný.
Ó, hve fagurt er að skoða
inn í bjarta Tangabúð,
sjá við gulls og sólarroða
suðurlanda undraskrúð.


Fá má nóg í munn og maga
mun því hér ei verða lýst
allt, sem best kann öllum haga
afgreiðslan í kringum snýst.
Komið sjáið sjálfir skoðið,
sögn við það ei jafnast má.
Opin búðin, öllum boðið
ágæt vörukaup að fá.


Samkeppnin á sölustóli
situr gætin nótt og dag,
allsstaðar á byggðu bóli
bætir manna efnahag.
Hún mun byggja húsin Tanga
hún kann skapa vinafjöld.
Munu þá úr greipum ganga
gömul fúin mauratjöld.


Til baka


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit