Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Hjálmar Eiríksson á Vegamótum segir frá

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search




Úr fórum Árna Árnasonar


Hjálmar Eiríksson á Vegamótum segir frá


Það er síst ofsagt, að heitasta ósk allra Eyjastráka hafi frá fyrstu tíð verið að komast í útey, fá að vera með hinum raunverulegu veiðisnillingum og læra leikni þeirra. En það voru tiltölulega fáir, sem þeirra hlunninda urðu aðnjótandi. Helst voru það strákar frá jörðum þeim, sem til veiðihlunninda töldu í úteyjunum. Einstaka þurrabúðarstrákar komust þó í útey, ef þeir voru synir góðra og eftirsóttra veiðimanna. Það væri hægt að birta fjölmargar sagnir um slíkar ferðir stráka, en ég tek hér aðeins tvær um fyrstu úteyjaveru þeirra, hvernig það atvikaðist, að þeir komust með veiðigörpunum, áhrif þau, er þeir urðu fyrir í sinni fyrstu úteyjarför. Munu sagnir um aðra stráklinga vera mjög áþekkar, hvað veru þeirra viðkemur í úteyjum. Ég endurtek, að heitasta ósk allra drengja var að fá að fara í útey. Það voru mestu dýrðardagar, sem hver og einn varð aðnjótandi.
Frásagnir hér auk fyrsta kaflans eru:
Hérna glórir hann nú.
Slepptu þér, heldur en láta þér snúa!
Góðir félagar kvaddir.
Eftirskrift Árna.


Hjálmar Eiríksson segir svo frá:

„Ég er að kalla þig, drengur, ætlarðu ekki að koma með, drengur,“ blaðraði Leifi í Nýjahúsi fyrir utan gluggann. Hann var svo óðamála að ég skildi varast, hvað hann sagði. Ég var þá 13 ára gamall og var að fara til fugla í Suðurey. Árni Þórarinnsson, Guðjón í Dalbæ Helgason, Gísli Geirmundsson, Eyjarhólum og Haraldur bróðir minn, lágu þar við til veiða og ætluðu að lofa mér að vera hjá sér í vikutíma.
Klukkan var 5 að morgni, og hinn margþráði dagur var kominn. Undanfarna daga hafði ég útbúið mig með alls konar nesti, keypt mér margvíslegt góðgæti og fengið háfsnet og fleira, sem til þurfti. Ég hafði látið allt í kassa með góðri læsingu fyrir.
Nú var ég tilbúinn. Ég ansaði Leifa, klæddi mig, kvaddi pabba og mömmu og fór niður á bryggju. Jónatan í Breiðholti rak hausinn upp úr vélarrúminu á mb. Blíðu, setti afturábak og greip stýrið, en Leifi ýtti frá bryggjunni. Blíða var lítill vélbátur, sem þeir Jónatan og Leifi sóttu á fugl í úteyjar, og fluttu veiðimönnum þar vatn og vistir.
Segir nú ekki af ferðum okkar, fyrr en við komum undir Vatn, þ.e. Helluna á Suðurey. Þar var maturinn dreginn upp 32 faðma hátt bergið í bullandi lofti, og fuglinn í eyjunni, sem þeir höfðu veitt, tekinn í bátinn.
Þegar því var lokið, átti að taka mig upp við steðjann sunnan á eyjunni. En þar reyndist vera algjörlega ófært að komast upp. Varð ég því að halda áfram með þeim Leifa og Jónatan vestur í Álsey og dúsa í bátnum, meðan þeir tóku fuglinn þar, en þeir sóttu þá í báðar úteyjarnar, Álsey og Suðurey.
Ég var sjóveikur og vonsvikinn og leið illa. Þetta var á föstudegi.
Næsta sunnudag var besta veður. Þá fór Ársæll Sveinsson skemmtiferð vestur í Álsey. Ég fékk að fara með. Var mikið af ungu fólki í ferðinni og glatt á hjalla. Fólkið dreifðist svo um eyjuna til þess að skoða hana, en ég fékk mér lánaðan háf hjá Adda, syni Árna á Grund, frænda mínum, og Sveinki í Dölum vísaði mér á veiðistað, sem nefndist hinu óveglega nafni „Skítastaðir“.
Ég sat þar með háfinn allan tímann, sem fólkið var uppi á ey að skemmta sér, með hundinn Blokk hjá mér. Hann var líka í veiðihug og byrjaði að róta í einni lundaholunni. Hann var ötull og hætti ekki fyrri en hann náði í lundann, sem í holunni hafði verið, og kom svo með hann lifandi í kjaftinum til mín. Ekki þorði ég að drepa fuglinn, svo að Sveinki kom og hjálpaði upp á sakirnar og sneri fuglinn úr hálsliðnum. Loksins náði ég í einn í háfinn, en Sveinki tók báða lundana með sér. Þegar við svo vorum að fara heim aftur úr eyjunni, færði hann mér lundana tvo, og hafði bundið gríðarstórt merkispjald við þá, sem á stóð H.E.
Mánudagurinn næsti var sókningsdagur, og fór ég aftur með Blíðu, en óheppnin var enn með mér, þar eð enn var ófært við steðjann í Suðurey. Blíða fór svo vestur í Álsey. Þegar á Álseyjarpoll kom, lá mér við gráti. Tilhlökkunin hafði verið svo mikil og vonbrigðin urðu svo sár.
Þegar Leifi kom með fuglinn úr Álsey út í Blíðu, kom hann með þau skilaboð til mín, að Álseyingar byðu mér að vera hjá sér nokkra daga, ef ég vildi. Ég varð svo glaður, að ég hefði getað kysst Tana (Jónatan), þó að hann væri kolsvartur úr mótorhúsinu á Blíðu, og Leifi var svo óðamála að ég skildi hann alls ekki.
Þó komst ég að því, að Sveinki í Dölum hafði stungið upp á því að lofa mér að koma, en Árni á Grund ætlaði að lofa mér sofa hjá sér í koju. Það voru góðir frændur mínir. Verst af öllu var, að nestið mitt var allt í Suðurey, en þeir Álseyingar héldu, að ekki munaði um að bæta svona strákpésa á fæði 6 manna þar. Loksins var ég kominn í útey, til góðra frænda minna og vina, Árna, Sveinka og svo var Addi á Grund þar, sonur Árna, svo að það gerði manni lífið þarna enn skemmtilegra.
Nú runnu upp 4 dýrðlegir dagar. Ég minnist þess, hvað mér var vel við alla þessa menn, sem voru svona góðir við mig. Addi hjálpaði mér til að ná í lundann í holunum, því að hann kenndi mér að syngja við holudyrnar og herma eftir lundanum til þess að fá hann það framarlega í holuna, að hægt væri að ná honum með því að reka inn handlegginn. Sveinki og Árni settu mér upp háf og kenndu mér að bera mig rétt að í veiðinni.
Mest var þó gaman að því, þegar allir voru háttaðir og farnir að segja sögur. Helst var talað um fuglaveiðar, fiskiveiðar, og svo sagðar sögur af alls konar slarki á sjó og slysförum. Mangi Eiríksson sagði margar frá Ameríku, – en þar hafði hann verið.
Hér er ein: „Veistu það drengur,“ sagði hann, „hvernig þeir hafa það í Ameríku, þegar þeir fara á dýraveiðar í skógunum þar. Þeir fara þrír saman, allir með byssu, og dreifa sér um skóginn. Þeir læðast með hlaðna byssuna. Allt í einu sér einn hreyfingu í laufinu og hleypir af. Svo fer hann að athuga, hvað hann hafi skotið, og þegar hann kemur að því, sér hann, að þetta er félaginn annar, sem hann var nýbúinn að skilja við, steindauður, með kúlu gegnum hausinn. „Slys á dýraveiðum,“ segja blöðin, „óviljaverk“, - nóg um það.“
Mangi hafði grafið gull í Alaska. Hafði mér verið sagt, að hann hefði stolið gulli úr námunni, sem hann vann í og strokið þaðan, og trúði ég því.
Árni hafði líka verið í Ameríku og margt upplifað, og sömuleiðis margar sögur um vondar fjallgöngur og miklar aflaferðir. Einu sinni fór hann, ásamt fleirum, upp á Bládranginn¹). Snöruðu þeir þar mikið af svartfugli, og svo var fuglinn spakur, að Árni snaraði rúma 20 fugla, sem voru að vappa ofan á Guðjóni Eyjólfssyni, er hafði lagt sig til svefns þar uppi, en hann var einn í förinni upp. Var það mesta hættuför vegna þess, hve bergið var laust.
Annað skipti var Árni, ásamt fleirum, til fýla í Suðurey. Sjó hafði brimað mjög og var illfært á skip. Samt var tekið lag, og hlupu fýlamenn einn í einu á skip. Óli í Litlabæ stökk næstsíðast, en hikaði eitthvað um leið og hann hljóp, hitti ekki bátinn og lenti á bólakaf. Óli var með öxi í hendinni. Þótti skipverjum hann lengi niðri, en svo kom allt í einu öxi upp úr sjónum, skammt frá bátnum, og neðan í henni hékk Óli.
¹) Bládrangurinn hrundi 1907 í miklu hafróti. Árni hafði þá fyrir skömmu lagt veg upp á dranginn, eða árið 1906.


—————


Hérna glórir hann nú


Alkunna er hér máltækið: „Hérna glórir hann nú piltar“. Árni vissi, hvernig það varð til, og sagði okkur einu sinni þá sögu.
Gísli heitinn Geirmundsson, faðir Guðlaugs bæjargjaldkera, var austan úr Mýrdal og hafði vanist þar fuglaveiðum. Hann var um vortíma fenginn til þess, ásamt fleirum, að snara svartfugl í Suðurey.
Eins og þeir vita, er þá veiðiaðferð þekkja, er afar áríðandi, að hljóðlega sé farið að fuglinum, svo að hann ekki styggist, og er veiðimanninum gefið niður á svartfuglabælin steinsig, en það þýðir, að hann má ekkert rið hafa á sér til þess að forðast snúninga í loftinu, heldur verður hann að reyna að halda á sér jafnvæginu með því að róa í loftinu með snöruskaftinu, en þá list kunna góðir sigamenn til fulls.
Fyrsta sinn, er Gísla var gefið niður á bæli, varð honum svo mikið um, er hann sá allan fuglinn, að hann gleymdi sér og galaði hástöfum upp til hinna: „Hérna glórir hann nú, piltar“. Og auðvitað flaug hver einasti fugl út, og Gísli var dreginn upp við svo búið. Jónatan vitavörður hafði einhverju sinni verið fenginn til lundaveiða í Álsey, og þótti þeim félögum hann heldur lélegur veiðimaður og afkáralegur í veiðimannsháttum. Var það t.d. siður hans, er hann hafði fengið fugl í háfinn, að leggja hann í brekkuna, standa upp og ganga að fuglinum og greiða hann úr netinu, í stað þess að sitja kyrr í sæti sínu og draga háfinn að sér. Þaulsætinn þótti þeim hann, þótt yfir litlu eða engu væri.
Eitt sinn hafði Jónatan verið úti að veiðum allan daginn, en hinir allir við ból (við ból var það kallað að vera heima í kofanum). Rigning var og komið undir kvöld. Annað kastið var verið að skyggnast eftir honum, og var suma farið að lengja eftir karli. Mangi Eiríksson hélt, að hann skilaði sér, og litlu seinna sáu þeir hilla undir karl uppi á ey. „Það vildi ég óska, að það rigndi svo mikið, að karlskrjóðurinn flyti niður úr nefjum,“ sagði Mangi. En það virtist sem hann hitti á óskastundina, því að það byrjaði að rigna svo mikið að firnum sætti, og hefir Jónatan víst hraðað sér til bóls, því að hann var óvenju fljótur niður.
Eftir að hann hafði klætt sig úr, en hann var allur gegnvotur, var hann spurður tíðinda, en var heldur fámáll. Segir þá Mangi: „Þú hefir verið að veiða, Jónatan?“ „Jæja, dálítið,“ sagði Jónatan. „Hvað hafðir þú mikið?“ sagði Mangi. „Já, það var nú auðvitað ekki mikið, eftir allan daginn, ég hafði þó 13,“ sagði karl og var drjúgur yfir.


—————


Slepptu þér, heldur en láta þér snúa!


Meðal eldri fuglamanna var það alþekkt flensyrði við viðvaninga, er fóru á bandinu niður fyrir brún, að kalla til þeirra: „Slepptu þér, heldur en að láta þér snúa,“ en sá þótti ekki mikill sigamaður, er hringsnerist í bandinu, ef hann kom í „loft“, sem kallað er.
Árni vissi um uppruna þess gamans og sagði okkur söguna, og er hún á þessa leið:
Um fýlaferðir var, eins og vant var, farið til fýla á Fjallið og í Klifið. Þegar gengið var í skriðurnar vestan í Fjallinu, voru Klifmennirnir venjulega suðvestan í Klifinu, og voru þá send ýmis gamanyrði á milli, því að vel gátu þeir kallast á.
Hjálmar Ísaksson (afi Óskars Friðbjörnssonar) var til fýla í Klifinu, ásamt fleirum, og var sendur einhverja stutta ofanferð, og fór lærvað óbundinn. Lenti hann í „lofti“ á leiðinni og sneri, en Fjallmenn horfðu á og öskruðu þá allir: „Slepptu þér, heldur en að láta þér snúa.“ Kom þá svo mikið fát á Hjálmar, að hann sleppti bandinu og hrapaði það, sem eftir var niður í skriðu fyrir neðan, en félagi hans, sem var kominn niður á undan, brá við og hljóp fyrir hann og gat stöðvað hann. En litlu munaði, að báðir færu fram af hengifluginu og ofan í stórgrýtisurð, en það hefði eflaust orðið bani þeirra beggja. Hlógu Fjallmenn mikið, en Hjálmar slapp með hræðsluna, því að hann var lítið eða ekkert meiddur. Lítið þótti samt til hans koma sem fjallamanns eftir þetta, en orðtakið varð héraðsfleygt.
Glensfullir mjög voru þessir gömlu fjallagarpar eins og eftirfarandi tvær smásögur sýna.
Magnús Vigfússon, sem í daglegu tali var kallaður Mangi Lúdd-pei, (hann var bróðir Sigga Fúsasonar), var afburða sigamaður. Hann var því oft við að snara svartfugl, en það var mjög þreytandi verk og seinlegt, því að oft urðu sigamennirnir að hanga í böndunum, meðan þeir snöruðu.
Einu sinni, er Mangi var að snara, sendi hann boð upp, að sig langaði í kaffi, en hann var kaffimaður mikill. Brugguðu þeir, sem uppi voru, handa honum kaffi þannig, að þeir létu heilt rótarbréf í könnuna og ekkert annað. Var Manga síðan sent það niður. Um kvöldið, er til bóls kom, spurðu þeir hann, hvernig honum hefði líkað kaffið.
„Kaffið,“ sagði Mangi, „kaffið var bara gott kaffi.“
Jón heitinn Einarsson (afi Inga Kristmanns) var mjög hrekkjóttur og var oft klúr í glensi sínu. Eitt sinn var hann til fýla, ásamt fleirum, og skiptu þeir með sér verkum, þannig, að tveir og tveir voru saman um fýlatökuna, en það var venja. Sat þá annar á brúninni og brá um sig bandinu, sem hinn seig niður á. Var það kallað að „sitja undir“. Var auðvitað afar áríðandi, að undirsetumaðurinn væri traustur og athugull, því að hann hafði líf þess, sem í bandinu var, í hendi sér.
Í þetta sinn hafði undirsetumaðurinn, sem hét Sigurður, komið sér fyrir í skúta neðan við brúnina, og var félagi hans farinn niður í berg að drepa fýlinn. Bar þá Jón Einarsson þarna að, og gerði hann sér lítið fyrir og leysti buxur, og hægði sér við hliðina á Sigurði, en við hina hliðina sprengdi hann fúlt fýlsegg. Varð Sigurður að þola þessa svívirðu án þess að geta nokkuð að gert, því að hann mátti ekki hreyfa sig frá undirsetunni. En hann sagði svo frá, að það væri sú mesta raun, sem hann hefði komist í, að verða í marga tíma að þola ódauninn af þessu góðgæti, sem Jón lagði af sér við hlið hans.
Þessar sögur eru aðeins lítið eitt af öllu því, sem skrafað var og frá sagt á kvöldin í Álseyjarkofanum. Mér fannst hver stund gleðistund, sem ég dvaldi með þeim Álseyjarbúum í þetta sinn, og þessir dagar vöktu hjá mér þá löngun til að lifa þessu frjálsa veiðimannalífi, sem varð til þess, að ég fór í úteyjar á hverju sumri um mörg ár.
Lundaveiði er almennt ekki talin hættuleg, en þó hafa orðið slys við hana, og margir komist í hann krappann.
Síðasta kvöldið, sem ég var í Álsey þetta sinn, voru allir komnir til bóls nema Sveinki og Ársæll Sveinsson. Mangi hafði ekki farið út þennan dag, því að hann var lasinn, en annars fylgdist hann alltaf með Sveinka. Klukkan var farin að ganga ellefu og sá ég, að félagar mínir voru orðnir órólegir yfir fjarveru þeirra Sæla og Sveinka. Mangi var alltaf að gá út, og loks sáum við hilla undir þá uppi á Ey. Voru þeir Sveinki og Sæli fátalaðir, þegar þeir komu til bóls og vörðust allra frétta um, hvað hefði dvalið þá.
Ég komst þó á snoðir um, að allt hefði ekki verið með felldu, og trúði Sveinki mér fyrir því morguninn eftir, að Sæli hefði verið rétt hrapaður í „Sveltinu“ austan á eynni. Hafði graskökkur hrapað undan honum, og hann misst bæði húfuna sína og háfinn ofan fyrir, en náði sér í grastó, sem hann gat dregið sig upp á, og þannig bjargað sér. Þegar ég heyrði þetta, hugsaði ég með hryllingi til þess, hve litlu munaði, að þessi fyrsta úteyjadvöl mín endaði með dauða eins af þessum ágætu félögum, og lofaði ég skaparann fyrir hve allt fór vel.

—————


Góðir félagar kvaddir


Nú var tíminn liðinn. Blíða litla sást við Hellutána og var því farið að kippa lundann. Mangi lét súkkulaðipund í ketil. Var hitað súkkulaði og kveðjugilli haldið. Ég þakkaði þeim öllum innilega fyrir það, hve góðir þeir hefðu verið mér. Blíða kom svo og tók með sér lundann þeirra í Álsey og mig.
Leifi skildist ekki fremur en vant var, talaði svo hratt, að ég botnaði ekkert í, hvað hann var að þvaðra um.
Tani (Jónatan) heilsaði mér innilega. Hann var svartur í framan eins og sönnum mótorista sómdi. Hann brosti til mín innilega með sínu góðlátlega brosi.
Ég kvaddi svo úteyjamennina, sem stóðu á sjóflánni og horfðu á eftir okkur. Þeir veifuðu á móti og síðan héldu þeir sporléttir til bóls.
Flestir þeirra manna, sem í Álsey voru þetta ár, eru nú fallnir í valinu, horfnir til feðra sinna. Þó munu enn á lífi 3 þeirra, en ég efast um, að þeir muni nokkuð eftir þessu nema ef vera skyldi frændi, hann Addi á Grund. En þessi úteyjaför er ein af mínum bestu æskuminningum.


—————

Eftirskrift Árna:
Þetta sumar hafa verið í Álsey Magnús Eiríksson, Sveinbjörn Jónsson í Dölum. Árni Árnason eldri á Grund, sonur hans Árni (Addi), Jón Jónsson Brautarholti og Kristinn á Löndum.
Mér dettur í hug í sambandi við þessa frásögn Hjálmars, hve mjög hefir munað litlu, að þeir Ársæll og Sveinbjörn hröpuðu úr Sveltinu í Álsey, hve fáir hafa hrapað þar til dauðs, sem vitað er um. Ég hef aðeins fundið einn mann, sem hrapaði á fýlaferðum þar, mjög nálægt 1800. Um fleiri veit ég ekki. Þó að margir hafi komist í hann krappan þar hafa þeir bjargast, sumir á undursamlegan hátt. (Á.Á.)



Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit