Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Bjargsig á þjóðhátíð

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search




Úr fórum Árna Árnasonar


Bjargsig á þjóðhátíð
Úr greinum Ingu Þórðardóttur leikkonu
og Helga Sæmundssonar blaðamanns


(Forspjall Árna):
Bjargsig Vestmanneyinga eru öllum, er séð hafa, ógleymanleg, og þó hafa fæstir aðkomumenn séð þau bjargsig, sem frægust eru fyrir stórhrikaleik. Þau eru í sannleika sagt þrungin af ógn og skelfingu í augum þeirra, sem aldrei hafa fyrr séð kaldhæðni bjargmanna Eyjanna fyrir viðureign þeirra við þessi landfrægu stórsig. Helst eru það útlendir fuglafræðingar og náttúrurannsóknarmenn, er séð hafa þessi stórkostlegu tilþrif, og fyrir flestum þeirra hefur farið svo, að þeir hafa ekki þolað að horfa á þær aðfarir. Það hefur verið þeim um megn, svo að þeir hafa flýtt sér undir þilfar bátsins, sem flutti þá út að viðkomandi úteyjum, en þar eru nefndir hildarleikir háðir.
Margur maðurinn kemur hér á þjóðhátíðina á sumrum og verður þá áhorfandi að bjargsigi í Fiskhellanefi. Það er fallegt bjargsig, þótt ekki geti það talizt til hinna fyrrnefndu. En samt hrífast menn af þeirri leikni og dirfsku, sem sigamennirnir sýna við það sig. Til gamans læt ég hér fylgja ummæli þjóðhátíðargesta um bjarggöngu og bjargsigið.

Inga Þórðardóttir leikkona segir svo m.a. :

Minnistæðast er mér þó, þegar fjallamaðurinn Sigurgeir í Suðurgarði gekk upp fjallið austanvert við Herjólfsdal, sem fyrir mínum sjónum var ófært nema fuglinum fljúgandi. Hvítklæddan bar hann við dökkt og ógnþrungið bergið og án nokkurrar varúðarráðstafana gekk hann skáhalt upp, stall af stalli.
Áhorfendur störðu í þögulli aðdáun á þess ofdirfsku. Ég gat hvorki hreyft legg né lið, þorði varla að anda né depla auga. Við og við studdi hann hægri hendi á bergið við hlið sér, en aldrei var hikað, en áfram haldið. Mest furðaði mig á því, hve hratt og léttilega hann kleif. Hann virtist ekki þekkja þreytu. Að lokum bar hann hvítklæddan við bláan himininn. Hann stóð á fjallsbrúninni og veifaði til áhorfenda, sem hylltu hann ákaft og innilega, og fjöllin tóku undir.
Síðar mögnuðust þessi áhrif innra með mér, því að næsta árabil bjó ég í fjallalausu landi. Þá varð mér oft hugsað til Herjólfsdals, þjóðhátíðarsvæðisins – eða ég horfði í anda til landsins, sem ég þráði, fjöll, brimgný, eldhraun og ís. Eftir heimkomuna var ég gestur á Þjóðhátíðinni, og gagntekin varð ég, er ég sá blessaðan íslenska fánann blakta við hún á Blátindi.


Helgi Sæmundsson ritstjóri segir um bjargsig í Eyjum.

(Forspjall Árna):
...er sú lýsing sú besta sem ég hef séð á prenti og leyfi mér þess vegna að birta hér útdrátt úr þeirri sönnu og mikilfenglegu lýsingu hans. Hann dvaldi um skeið í Eyjum og sá þess vegna bjargsig og því miður aðeins bjargsigið í Fiskhellanefi. Hefði hann átt þess kost að sjá sig í úteyjum, þá hefði verið fróðlegt að kynnast hugsunum hans. En hrifning hans þrátt fyrir allt mikil og lýsing hans einstæð:

...Samt er mér auðvelt að ákveða, hver sé minnisstæðastur atburður frá þessum tveimur þjóðhátíðum. (hann fór héðan ungur og til Reykjavíkur og gerðist þar einn af íbúum höfuðborgarinnar. Hann var hér aðeins á tveim þjóðhátíðum, eins og hann segir. ÁÁ). Það er ekki sú ógn, að ég heyrði álengdar fótatakið, þegar engill dauðans gekk milli húsa með bitran ljáinn reiddan og sló breiðan skára á grænni grund fagurs mannlífs, heldur veraldarmínúturnar, sem ég lifði, þegar maðurinn var í berginu, örlagastund bjargsins.
Kappinn, sem seig í bjargið, var Jónas í Skuld, ef ég man rétt. Undibúningurinn fór framhjá mér, og athyglin mín beindist ekki að mannrauninni, fyrr en leikurinn var orðinn að alvöru. Mér virtist maðurinn á valdi bjargsins eins og egg, sem tröll kastaði milli handa sér. Mér varð þetta hins vegar fugl, er misst gæti flugsins í næstu andrá eða kertisljós úti í dimmri og uggvænlegri nóttinni. Þetta var ekki leikur heldur alvara, barátta upp á líf og dauða, hetjudáð karlmennskunnar og fífldirfskunnar.
Tengslin við bjargbrúnina voru sterkur en mjór strengur, og hverju mátti muna, að hann brysti?
Þrekvirkin, sem ég mundi úr skáldsögum, voru smáræði í samanburði við þau undur að horfa upp á bjargsigið, sjá manninn hafna fótfestunni til að svífa milli himins og jarðar og leggja fjör sitt og framtíð í lófa sofandi ófreskju, sem kynni að rjúka upp með andfælum, kreppa hnefann í krampaflogi reiðinnar og fara hamförum.
Jónas var að mínum dómi líkt settur og nafni hans í hvalnum og harla tvísýnt, að guð almáttugur skakkaði leikinn, ef mér þá varð til hans hugsað, því að það gleymist stundum þangað til hættan er annaðhvort liðin hjá eða allt um seinan. En auðvitað gekk bjargsigið eins og í sögu. Jónas í Skuld kunni sitt verk og var vandanum vaxinn.
Mér varð þetta hins vegar íhugunarefni. Hér hafði ég séð leik, sem gat orðið alvara. Aðdáunin megnaði ekki að bera ógnina og eftivæntingu ofurliði. Hvað höfðu margir látið lífið í því starfi, er hér var sýnt sem leikur, mannfjöldanum til dægrastyttingar?
Örlög Dufþaks og félaga hans reyndust áleitin ungum og óhörðnuðum huga mínum. Þeir hlupu fyrir björg á flótta undan grimmd og vopnfimi níðingsins, sem við köllum hefnd, af því að óhæfuverkið er afrek að dómi sagnaritarans. Og hver er munurinn á þeim flótta og þeirri sókn, sem Íslendingar hafa þreytt um aldir í viðuregn sinni við bjarg og haf, fjall og vatn, storm og hríð til að draga björg í bú, sjá sér og sínum farborða, þrauka af árstíðirnar í þessu fagra, en harðbýla landi, þar sem æði náttúrunnar og miskunnarleysi mannanna hefur alltaf bitnað á smælingjunum, er höfðu allt að vinna, en engu að tapa nema lífinu?
Jónas í Skuld gat treyst á sterkan og mjóan streng. Hinir urðu flestir að láta sér nægja hendur og fætur í sókn og vörn lífsbaráttunnar. Strengurinn gat brostið, og þá var dauðinn vís. Hitt var þó sínu uggvænlegra að hanga á hendi eða fæti í enn viðsjálla bjargi, þar sem ólgudjúpið og grjóturðin gein fyrir neðan og gleypti hvern þann, sem taksins missti, á samri svipstundu og rennt er niður bita eða sopa. En ekki nóg með það.
Atburðurinn varð mér tákn veraldarinnar og ævinnar. Brúnin var áþekkust fæðingarbeði, bjargsigið minnti á stopulan og ófyrirsjáanlegan starfsaldurinn, og tilhugsunin um hrapið, er komið gat til sögunnar fyrr en varði, skaut mér í bringu þeim skelk, sem er vissan um nálægð dauðans, endalok leiks og alvöru, sóknar og flótta, sigurs og taps, því að einhverntíman brottnar eggið af tilviljun eða af ákvörðun dulinna máttarvalda, hnefans í krampaflogi yfirskilvitlegra aflsmuna.
Komi ég í Herjólfsdal og horfi upp í bergið, þá man ég ávallt Jónas í Skuld þjóðhátíðardaginn fyrir átján árum, því að svo langt er um liðið – svo lengi hefur maður svifið milli himins og jarðar í leik alvörunnar og alvöru leiksins.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit