Ómar Garðarsson (ritstjóri)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Ómar Garðarsson.

Ómar Garðarsson frá Seyðisfirði, ritstjóri fæddist 17. september 1949 í Reykjavík.
Foreldrar hans voru Garðar Eymundson húsasmíðameistari og verktaki á Seyðisfirði, f. 29. júní 1926, d. 16. mars 2017, og kona hans Karólína Þorsteinsdóttir húsfreyja, kaupmaður, f. 27. janúar 1928, d. 30. janúar 2018.

Ómar var með foreldrum sínum, flutti með þeim tveggja ára til Seyðisfjarðar og ólst þar upp.
Eftir barnaskólanám á Seyðisfirði nam hann í Eiðaskóla einn vetur, síðan í Héraðsskólanum á Laugarvatni og þar lauk hann landsprófi. Hann var svo tvo vetur í Kennaraskólanum, lauk námi í Lögregluskólanum, tók síðar verslunarpróf í Framhaldsskólanum í Eyjum.
Ómar var í sveit í Hreiðurborg í Sandvíkurhreppi í Flóa 10-12 ára, var í byggingavinnu hjá föður sínum frá fermingu til 16 ára aldurs. Hann vann þrjú sumur í Síldarverksmiðju Ríkisins á Seyðisfirði, var til sjós á Gullver NS, Bergi VE og Vestmannaey VE og starfaði í lögreglunni í Eyjum frá 1975-1981.
Ómar hóf blaðamannsstörf á Fréttum, síðar Eyjafréttum í júní 1986, var þar ritstjóri 1992-2017 og frá 2022. Hann var í mörg ár fréttaritari DV og seinna Morgunblaðsins. Hann hefur unnið að útgáfu blaða undanfarin ár, vann að útkomu afmælisrits Vestmannaeyjabæjar vegna 100 ára afmæli kaupstaðarins 2019, Þjóðhátíðarblaðsins 2018 og 2019, ritstýrði afmælisriti Björgunarfélagsins 2018 og hefur verið ritstjóri Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja frá 2018.
Ómar var varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Eyjum frá 1986 til 1990. Hann sat í stjórn ÍBV 1980, var formaður þess 1989-1992. Hann var einn af stofnendum Frjálsíþróttafélagsins Óðins og sat í stjórn þess 2010-2015. Hann var formaður Samtaka bæjar- og héraðsfréttablaða 1993.
Ómari var veittur Fréttapýramítinn í Eyjum fyrir framlag til menningarmála, en hann er viðurkenning, sem Eyjafréttir veita árlega.
Þau Þorsteina giftu sig 1970, eignuðust fjögur börn. Þau bjuggu við Hilmisgötu 1, síðar við Foldahraun 38i.

I. Kona Ómars, (1. janúar 1970), er Þorsteina Grétarsdóttir húsfreyja, hárgreiðslumeistari, f. 5. apríl 1950.
Börn þeirra:
1. Grétar Ómarsson verkefnastjóri hjá Mílu í Reykjavík, f. 25. júlí 1969. Barnsmóðir Anna Lára Guðjónsdóttir. Kona hans Jóna Björk Grétarsdóttir.
2. Berglind Ómarsdóttir kennari, kjóla- og klæðskerameistari í Garðabæ, f. 3. október 1971. Maður hennar Sigurgeir Þorbjarnarson.
3. Karólína Ómarsdóttir veitingastjóri í Noregi, f. 6. júlí 1976. Fyrrum maður hennar Agnar Þór Urban.
4. Vigdís Lára Ómarsdóttir hárgreiðslukona í Reykjavík, f. 29. apríl 1981.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.