Ólafur N. Elíasson verkfræðingur
Ólafur Nikulás Elíasson frá Stakkholti, verkfræðingur í Reykjavík fæddist 30. maí 1941 í Stakkholti.
Faðir hans var Elías Kristinsson frá Ketilhúshaga á Rangárvöllum, deildarstjóri hjá bílalager Kaupfélags Árnesinga
á Selfossi, f. 18. september 1922 í Vestra-Geldingaholti á Rangárvöllum, d. 16. ágúst 1970. Foreldrar hans voru Kristinn Stefánsson bóndi í Ketilhúshaga, f. 31. júlí 1885 í Varmadal á Rangárvöllum, d. 14. október 1951, og Ingibjörg Nikulásdóttir verkakona, f. 14. júlí 1885 í Norður-Áskoti í Þykkvabæ, Rang., d. 15. janúar 1960.
Móðir Ólafs var Bjarndís Jóhanna Nikulásdóttir frá Héðinshöfða, húsfreyja og verslunarmaður á Selfossi, f. 14. mars 1921 á Hemlu í Rang., d. 9. júní 1983.
Ólafur Nikulás var með foreldrum sínum í Eyjum fyrstu 1-2 árin, síðan á Stokkseyri, en á Selfossi frá 4-5 ára aldri.
Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1960, lauk fyrri hluta prófi í verkfræði frá Háskóla Íslands 1963 og prófi í byggingaverkfræði frá NTH í Þrándheimi 1965.
Ólafur var verkfræðingur hjá Fjarhitun hf. 1965-1971 og hjá Þórisósi sf. 1972-1973.
Hann vann síðan hjá Fjarhitun frá 1973 þar til hún sameinaðist Verkís og vann síðan hjá því fyrirtæki til starfsloka. Á vegum Verkís vann hann stjórnunarstörf hjá ýmsum verktakafyrirtækjum, svo sem Fossvirki, Hrauneyjarfossvirkjun, hjá Suðurverki sf., við Kvíslarveitur, hjá Núpi sf., hjá Hitaveitu Reykjavíkur og við byggingu hafnar í Helguvík.
Þau Jóhanna giftu sig 1964, eignuðust þrjú börn.
Kona Ólafs Nikulásar, (29. ágúst 1964), er Jóhanna Eyþórsdóttir fóstra, f. 17. ágúst 1937 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Eyþór Gunnarsson læknir, f. 24. febrúar 1908 í Vík í Mýrdal, d. 25. ágúst 1969 og kona hans Valgerður Eva Vilhjálmsdóttir húsfreyja, f. 23. júní 1912 í Reykjavík, d. 15. október
1975.
Börn þeirra Jóhönnu:
1. Valgerður Ólafsdóttir skrifstofumaður í Reykjavík, f. 17. ágúst 1965. Maki hennar er Jóhanna Ríkey Sigurðardóttir húsgagnasmiður.
2. Jóhann Elías Ólafsson, f. 7. maí 1968, d. 28. ágúst 1987.
3. Ingibjörg Ólafsdóttir, f. 5. janúar 1973 í Reykjavík, húsfreyja í Svíþjóð. Hún hefur próf í fjölmiðlafræði og mannauðsstjórnun og vinnur á því sviði. Maður hennar er Sabastiano Ferrarú læknir.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.is.
- Manntöl.
- Ólafur Nikulás Elíasson.
- Prestþjónustubækur.
- Verkfræðingatal. Ritstjóri: Þorsteinn Jónsson. Þjóðsaga ehf. 1996.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.