Ólafur Jónsson (Laufási)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Ólafur Jónsson.

Ólafur Jónsson skrifstofumaður, tónlistarmaður fæddist 23. júní 1948 í Laufási og lést 27. júlí 2023.
Foreldrar hans voru Jón Guðleifur Ólafsson frá Garðsstöðum, vélstjóri, bifreiðastjóri, yfirfiskimatsmaður, f. 20. september 1916, d. 16. febrúar 1985, og kona hans Anna Þorsteinsdóttir frá Laufási, húsfreyja, f. 13. maí 1919, d. 18. desember 2010.

Börn Önnu og Jóns Guðleifs:
1. Elínborg Jónsdóttir húsfreyja, útgerðarmaður, síðar launafulltrúi á Sjúkrahúsinu, f. 6. september 1941 í Laufási.
2. Ólafur Jónsson skrifstofumaður, f. 23. júní 1948 í Laufási.
3. Þorsteinn Jónsson skipasmiður, síðar veitingamaður, f. 19. maí 1951 í Laufási, d. 9. apríl 2010.
4. Jóhann Jónsson framkvæmdastjóri Lifrarsamlagsins, síðar verslunarstjóri, f. 9. desember 1956 á Austurvegi 3.

Ólafur var með foreldrum sínum í æsku, í Laufási og við Austurveg 3.
Hann lærði á blásturshljóðfæri og gítar hjá Oddgeiri Kristjánssyni, lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1969.
Ólafur var skrifstofumaður. Hann bjó í tvö ár í Hull í Englandi og starfaði þar við að þjónusta íslensk fiskiskip. Síðustu árin vann hann hjá Vestmannaeyjahöfn.
Ólafur vann mikið fyrir íþróttahreyfinguna í Vestmannaeyjum, bæði fyrir Knattspyrnufélagið Tý og síðar ÍBV. Auk þess sat hann í stjórn Týs og í þjóðhátíðarnefnd. Ólafur var sæmdur silfurmerki KSÍ og gullmerki Týs fyrir störf í þágu íþróttahreyfingarinnar.
Hann lék á saxófón í Lúðrasveit Vestmannaeyja frá árinu 1962. Hann spilaði í Lúðrasveitinni í rúma hálfa öld og var sæmdur gullmerki hennar.
Árið 2009 stofnuðu hann og félagar hans hljómsveitina Obbosí, sem síðan var nefnd Blítt og létt. Ólafur lék með hljómsveitinni, síðast í maí 2023.
Ólafur átti trilluna Lubbi VE 27 og rak hana.
Þau Guðfinna giftu sig , eignuðust tvö börn. Þau bjuggu við Birkihlíð 21. Þau skildu.

I. Kona Ólafs, (skildu), er Guðfinna Lilja Guðlaugsdóttir tónmenntakennari, húsfreyja, f. 14. október 1948.
Börn þeirra:
1. Laufey Ólafsdóttir tónmenntakennari, f. 29. júlí 1968. Maður hennar Indriði Óskarsson.
2. Guðlaugur Ólafsson skipstjóri, f. 25. júlí 1974. Kona hans Ester Fríða Ágústsdóttir.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.