Áki Guðni Gränz

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Áki Guðni Gränz.

Áki Guðni Gränz frá Karlsbergi, málarameistari, listmálari, myndhöggvari fæddist þar 26. júní 1925 og lést 4. febrúar 2014.
Foreldrar hans voru Carl Jóhann Gränz málara- og trésmíðameistari, f. 22. júlí 1887 í Reykjavík, d. 14. nóvember 1967, og kona hans Guðrún Sigríður Ólafsdóttir frá Vestri-Torfastöðum í Fljótshlíð, húsfreyja f. 10. september 1897, d. 2. janúar 1957.

Börn Guðrúnar og Carls Jóhanns:
1. Áki Guðni Gränz, málarameistari, listamaður í Njarðvík, f. 26. júní 1925 á Karlsbergi, d. 4. febrúar 2014.
2. Herbert Gränz málarameistari á Selfossi, f. 12. apríl 1930 á Karlsbergi, d. 3. febrúar 2011.
3. Gunnar Carl Gränz myndlistarmaður á Selfossi, f. 30. nóvember 1932 á Karlsbergi.
Barn Carls Jóhanns með fyrri konu sinni, Þórfinnu Finnsdóttur:
4. Ólafur Adólf Gränz húsgagnasmíðameistari, leikari, kennari, leigubifreiðastjóri, f. 4. mars 1912 í Dal, d. 14. ágúst 1960.

Áki var með foreldrum sínum í æsku, á Karlsbergi, Haukabergi og í Vegg, bjó í Garðhúsum 1945.
Hann nam málaraiðn hjá Engilberti Gíslasyni 1939-1943, lauk prófi í Iðnskólanum og sveinsprófi 1943, fékk meistararéttindi 1946.
Áki vann um skeið á Selfossi og í Reykjavík, en fluttist til Suðurnesja og bjó í Innri-Njarðvík.
Eftir hann liggur fjöldi málverka og styttur, m.a. Nástrandatröllin í Keflavík, Förumenn við Álfakirkjuna í Njarðvík, Freyr og Freyja í mynni Njarðvíkur og Stapatröllin á Vogastapa. Einnig sögulegar persónur á svæðinu, fólk, sem bjó í Njarðvík, Tyrkja-Guddu og Hallgrím Pétursson, prest og skáld, Eggert Guðmundsson málara og Jón Thorkelíus. Hann gerði einnig bæjarmerki Njarðvíkur.
Áki tók virkan þátt í sveitarstjórnarmálum, var kjörinn í hreppsnefnd árið 1970 og síðar bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Njarðvík fram til ársins 1986. Hann var forseti bæjarstjórnar Njarðvíkur frá 1982-1986.
Hann sat í byggðasögunefnd hreppsins frá 1966, í bygginganefnd og æskulýðsnefnd frá 1970. Í stjórn I. S. 1957-61. Í undirbúningsnefnd að stofnun Keflavíkurverktaka 1957. Meðstofnandi M.V.K. og í stjórn frá stofnun 1957.
Hann var virkur íþróttamaður á yngri árum, m.a. meistari í sleggjukasti.
Þau Guðlaug Svanfríður giftu sig 1948, eignuðust fimm börn.
Áki Guðni lést 2014.

I. Kona Áka Guðna, (17. júlí 1948), var Guðlaug Svanfríður Karvelsdóttir húsfreyja, sjúkraliði, f. 12. desember 1929, d. 10. júní 2014. Foreldrar hennar voru Karvel Ögmundsson athafnamaður, bátsformaður, útgerðarmaður, fiskverkandi, f. 30. september 1903 á Hellu í Beruvík á Snæfellsnesi, d. 30. september 2005, og kona hans Anna Margrét Olgeirsdóttir húsfreyja, f. 14. janúar 1904, d. 26. apríl 1959.
Börn þeirra:
1. Guðrún Fjóla Ákadóttir Gränz viðskiptafræðingur, f. 18. febrúar 1949. Fyrri maður Gylfi Sæmundsson. Sambýlismaður hennar er Bjarni Már Ragnarsson.
2. Anna Margrét Ákadóttir Gränz kennari, f. 19. júní 1951. Maður hennar er er Karl Gunnarsson.
3. Sólveig Björk Ákadóttir Gränz hjúkrunarfræðingur, f. 13. júní 1952. Maður hennar er Ásgeir Kjartansson.
4. Karvel Ákason Gränz búfræðingur, málaraverktaki, f. 5. mars 1954. Kona hans er Rebecca Castillon.
5. Carl Bergur Ákason Gränz málarameistari, f. 20. september 1955. Sambýliskona hans er Guðmundína Kristjánsdóttir.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Íslenskir málarar - Saga og málaratal. Kristján Guðlaugsson. Málarameistarafélag Reykjavíkur 1982.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 11. febrúar 2014. Minning.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.