Slysavarnir og björgunarmál

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 10. september 2006 kl. 00:20 eftir Frosti (spjall | framlög) Útgáfa frá 10. september 2006 kl. 00:20 eftir Frosti (spjall | framlög) (tenglar settir inn)
Fara í flakk Fara í leit

Vestmannaeyingar frumkvöðlar á sviði öryggismála sjómanna

Vestmannaeyingar hafa í gegnum tíðina haft mikinn áhuga á öryggismálum sjómanna. Ástæðan eflaust sú að mikið manntjón hefur orðið í sjóslysum við Eyjarnar.

Einnig má nefna að ófá slys hafa orðið innan hafnar bæði hér áður fyrr þegar hafnaraðstaða var léleg og bátar bundnir á ból. Því miður hafa einnig margir tugir manna drukknað í Vestmannaeyjahöfn á síðustu 30 til 40 árum. Þessi slys við höfnina gerðu það að verkum að Eyjamenn fóru að hugsa meira um öryggi hafna.

Það helsta sem Eyjamenn hafa haft forustu um:


Fyrsta björgunarfélag landsins

Fyrsta björgunarfélag landsins var stofnað í Eyjum árið 1918, það fékk nafnið Björgunarfélag Vestmannaeyja. Félagið beitti sér fyrir kaupum á björgunarskipi, sem kom til Eyja 26. mars 1920. Skipið hlaut nafnið Þór og var fyrsta björgunar og varðskip sem Íslendingar eignuðust. Saga Þórs er nokkuð merkileg.


Talstöðvar

Vestmannaeyingar voru fyrstir til þess að fá talstöðvar í báta sína.


Gúmmíbjörgunarbátar

Árið 1951 var Kjartan Ólafsson útgerðarmaður Veigu VE fyrstur útgerðarmanna á Íslandi til að setja Gúmmíbjörgunarbát um borð í fiskiskip í staðinn fyrir þunga fleka. Árið 1952 fórst Veiga VE og með henni tveir menn en aðrir úr áhöfn bátsins björguðust í gúmmíbátinn. Það kostaði töluverða baráttu að fá þetta björgunartæki viðurkennt. En slík var trú sjómanna og útgerðarmanna á þessu björgunartæki að vertíðina 1952 voru 40 vélbátar í Vestmannaeyjum komnir með gúmmíbát.


Öryggi við netaspil

Árið 1971 hannaði Sigmund Jóhannsson teiknari og uppfinningamaður öryggisloka við netaspil, Sigmund hannaði lokann að beiðni skipstjóra sem hafði lent í því að tveir menn á skipi hans höfðu farið í netaspilið sömu vertíðina. Það er skemmst frá því að segja að lokinn fækkaði ekki bara slysum við netaspil, heldur útrýmdi þeim alveg. Útgerðarmenn í Eyjum settu þennan búnað strax í svo til öll skip sem stunduðu netaveiðar, en því miður tók það níu ár með tilheyrandi fjölda slysa að lögleiða þennan frábæra öryggisbúnað og koma þeim í öll skip á landinu.


Sleppi og sjósetningarbúnaður

Í mars 1980 hannaði Sigmund Jóhannsson búnað sem gat losað og sjósett gúmmíbjörgunarbáta bæði handvirkt og sjálfvirkt. Þetta var þvílík bylting í öryggis-málum sjómanna, að margir vildu líkja henni við þegar gúmmíbátarnir komu til sögunnar.

En eins og oft áður voru það einungis sjómenn og útgerðarmenn í Vestmannaeyjum sem sáu notagildi þessa búnaðar í fyrstu, og var hann því fyrst settur í Vestmannaeyjaflotann 1981. Því miður hefur barátta Vestmannaeyinga fyrir þessu tæki nú tekið um 20 ár, en var loksins endanlega komin í höfn á árinu 2000.


Björgvinsbeltið

Björgvinsbeltið sem Björgvin Sigurjónsson stýrimaður hannaði, er eitt af þeim tækjum sem hafa auðveldað mjög að ná mönnum aftur um borð sem hafa farið útbyrðis. Þetta björgunartæki er nú komið um borð í flest skip á Íslandi og flestar hafnir landsins. 13-14 manns hefur verið bjargað.


Slysavarnardeildin Eykyndill í Vestmannaeyjum

Margt fleira hefur verið gert til að auka öryggi sjómanna sem langt mál er upp að telja, en þó verður hér að nefna að eitt félag sem hefur í tugi ára gert óhemju mikið fyrir öryggi sjómanna í Vestmannaeyjum og reyndar víðar. Þetta er kvennadeild Slysvarnarfélags Íslands, Eykyndill. Það er með ólíkindum hvað þessar konur hafa gert mikið til að bæta öryggi sjómanna. Þær hafa stuðlað að því að koma fjölmörgum málum í höfn.


Heimildir