Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1971/ Fiskikóngur Vestmannaeyja 1971

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.
Fiskikóngur Vestmannaeyja 1971


FlSKlKÓNGUR Vestmannaeyja vetrarvertíðina 1971 varð Hörður Jónsson skipstjóri á Andvara VE 100. Aflaði Hörður og skipshöfn hans 850 tonn í 82 sjóferðum.
Hörður á Andvara heftu- undanfarin ár verið í hópi beztu fiskimanna Vestmannaeyja og síðan vertíðina 1967 ávallt verið meðal 5 aflahæstu formanna.
Hörður Jónsson er ungur maður, knálegur og fylgir manninum snerpa. Hann er fæddur í Reykjavík 7. júní 1937, en ólst upp á Eyrarbakka hjá móðurömmu sinni, Guðrúnu Vigfúsdóttur frá Skúmsstöðum. Í föðurætt er Hörður vestfirzkrar ættar.
Hörður byrjaði sjómennsku árið 1954 á gömlum Vestmannaeyjabát, Pipp VE, sem var gerð út frá Eyrarbakka.
Til Vestmannaeyja kom Hörður á vetrarvertíð 1956 og reri þá í 2 vertíðar með Oddi í Dal, fyrst á Jötni, síðan á Sigrúnu. Hefur Hörður verið hér í Vestmannaeyjum síðan, en alkominn fluttist hann til Vestmannaeyja þegar hann lauk prófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík vorið 1959.
Hann var á skólaárunum með Kristni Pálssyni á Berg og að loknu námi stýrimaður hjá honum til haustsins 1962, er hann byrjaði formennsku á Gylfa VE. Var hann með Gylfa í eitt ár, en tók þá við Gulltoppi og var með hann í 2 vertíðir.

Hörður á Andvara.


Árið 1966 fór Hörður í útgerð; keypti hann í félagi við Ólaf og Símon og vélstjóra sinn, kornungan mann, Jóhann Halldórsson, Andvara (nú Blátind). Bát þennan seldu þeir félagar haustið 1966.
Í janúar 1968 keyptu þeir Hörður og Jóhann þann Andvara, sem nú er, af Ingvari Vilhjálmssyni í Ísbirninum, hét sá bátur þá Hafþór. Þá var rekstrargrundvöllur útgerðarinnar slíkur, að helst enginn vildi kaupa bát og borguðu þeir 4 milljónir króna fyrir bátinn.
Andvari er 100 rúmlesta eikarbátur, byggður í Svíþjóð 1946. Í bátnum eru öll nýjustu fiskileitartæki og 350 hestafla Lister-vél. Hafa þeir félagar endurnýjað og bætt bátinn vel, endurbyggt brú, lúkar, lest og nýtt þilfar hefur verið sett í bátinn.

Aflaskipið Andvari - aflahæsti bátur vetrarvertíðar 1971 850 tonn.


Þeir hafa aldrei gert út á annað en net og botnvörpu. Í stuttu spjalli um liðna vetrarvertíð lætur Hörður, sem eðlilegt er fyrir hann, allvel af vertíðinni og það er auðfundið að hann er bjartsýnn á fiskimið okkar, þó að vetrarvertíðin í vetur hafi brugðist, og verið fiskitreg. „Staðreyndin er að slíkar vertíðar koma alltaf öðru hverju“, segir Hörður.
Útdráttur var 21. janúar. Afli var aldrei skarpur, mest rúm 20 tonn í róðri. Andvari reri með net alla vertíðina utan 2 túra, sem hann fór með troll í maí. Vegna fiskitregðu og lítilla aflafrétta hélt Hörður sig að mestu á sama stað, og frá 21. janúar til 20. mars lagði hann alltaf net sín á sama stað; 15-16 sml. SA af Bjarnarey á 100 til 160 faðma dýpi. Hann lagði netin út frá gjá eða dalbotni í landgrunnsbrúninni.
Var dýpi á grynnri enda trossunnar ca. 70 faðmar, en dýpri um 140 faðmar; sést af þessu hve bratt er þarna. Þurfti allt að 200 faðma færi á djúpendann.

En mjög þreytandi og erfiður dráttur getur verið á svo djúpu vatni og stramur oft talsverður.
Eftir 20. mars flutti Hörður sig vestur af Dröngunum og viku rispu gerði hann í Meðallandsbugt. Var lítið upp úr því að hafa. Netin voru tekin upp 13. maí.

Skipshöfnin á Andvara. Talið frá vinstri: Hörður Jónsson skipstjóri, Rúnar Siggeirsson 2. vélstjóri, Jón Ingi Steindórsson matsveinn, Arnór Valdimarsson 1. vélstjóri, fyrir framan hann Skúli Gestsson háseti, Kristinn Sigurðsson stýrimaður, Jóhann Halldórsson háseti(meðeigandi í Andvara), Kristinn Óskarsson háseti, fyrir framan hann Georg Þór Kristjánsson háseti, Sigtryggur Vilhjálmsson háseti, Valur Lýðsson háseti.



Það er öllum kunnugt, að um borð í Andvara hefur meðferð aflans alltaf verið mjög góð. Hrósar Hörður ágætri áhöfn sinni, en stýrimaður var Kristinn Sigurðsson frá Löndum, sem byrjaði formennsku nú í vor.