Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1969/ Í sinnis hljóðri borg. Skipshöfnin af Þráni. – Minning

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 5. júlí 2016 kl. 14:12 eftir Halla1 (spjall | framlög) Útgáfa frá 5. júlí 2016 kl. 14:12 eftir Halla1 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Í sinnis hljóðri borg


Langt er síðan Íslendingar hafa átt um svo sárt að binda vegna sjóslysa sem nú á liðnu sjómannadagsári.
Í fjöldamörg ár höfum við Vestmannaeyingar sloppið blessunarlega við sjóslys á bátum héðan úr höfn. En myrkan vetrardag á síðastliðnu ári skall reiðarslagið yfir. Hinn 5. nóvember 1968 fórust 9 vaskir sjómenn með v/b Þráni NK 70. Voru allir skipverjar, utan einn, frá Vestmannaeyjum, en báturinn hafði verið gerður út á síldveiðar héðan.
Slys þetta varð undan suðurströndinni í aftaka suðaustan veðri, stórsjó og brimi. Fannst ekkert af bátnum þrátt fyrir umfangsmikla leit flugvéla og 40 skipa og báta.
Mikil slys voru í byrjun marzmánaðar sl., en þá fórust 6 sjómenn í Faxaflóa af bátunum Dagnýju og Framnesi. Um sama leyti varð stórslys af völdum eldsvoða um borð í togaranum Hallveigu Fróðadóttur, og létu 6 sjómenn lífið.
Frá síðasta sjómannadegi hafa samtals farizt 36 íslenzkir sjómenn.
Á hátíðis- og minningardegi sjómannastéttarinnar eru öllum ættingjum og ástvinum látinna sendar innilegar samúðarkveðjur.
Eins og alltaf, þegar slys verða, eru slíkir atburðir mikið áfall og blóðtaka lítilli þjóð. Harmur ættingja og venzlafólks er sár, og aldrei verður lífið með sama svip hjá þeim, sem næst hefur verið höggvið. Sæti hins prúða og vaska drengs er autt. — Í nánd slíkrar sorgar verða orð vanmegnug.
Við Vestmannaeyingar höfum misst óvenjumikið á liðnu ári. Söknum við harðfrískra aflamanna í blóma lífsins, en rúm þeirra eru vandskipuð og lengi mun verða skarð fyrir skildi, þar sem þeir stóðu í fremstu röð. Stundum viljum við vart trúa þeirri beizku staðreynd, að þessir dugmiklu kraftmenn, sem allra vonir og óskir voru tengdar við skuli svo óvænt og skyndilega hafa verið hrifnir á brott úr okkar litla samfélagi. - En svo miskunnarlaust og hart er lífið oft á tíðum.
Víst er það huggun okkur öllum, sem söknum ágætismanna, að þeir lifðu vel og skiluðu sínu af miklum manndómi. Slíkra manna er ávallt gott að minnast.
Við útför og minningarathöfn látinna félaga hafa sjómenn í Vestmannaeyjum sýnt í senn samúð og samheldni stéttar sinnar. Minningarathöfn um skipverjana af Þráni var hátíðleg og virðuleg kveðjustund. Fór hún fram í Landakirkju hinn 30. nóvember að viðstöddu miklu fjölmenni og sáu báðir sóknarprestarnir um athöfnina. Í kirkju stóðu níu sjómenn heiðursvörð, auk fánabera sjómannafélaganna og fulltrúa frá Stýrimannaskólanum, Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja, Slysavarnadeildinni Eykyndli og Björgunarfélagi Vestmannaeyja.
Að lokinni kirkjuathöfninni, sem var tekin upp til flutnings í útvarp, voru lagðir kransar að minnismerki hrapaðra og drukknaðra, en sjómenn mynduðu heiðursvörð kringum styttuna og við gangstíg frá kirkju og að minnisvarða.
Í austan kalda og regni stóðu Eyjasjómenn í þögulli minningu horfinna stéttarbræðra, en í fjarska sá í dökkan hamravegg Heimakletts, sem úthafssjórinn barði langt upp eftir bergi. - Yfir hafinu var þó einhvern veginn óhugnanleg kyrrð dauðalagsins - og í hugann kom, er sá á úfna Leiðina: drottinn gaf og drottinn tók. Á upphækkuninni við minnismerkið drúpti fánaborgin. Ritstj.
Með v/b Þráni fórust:
Grétar Skaftason skipstjóri f. 26. 10. 1926.
Helgi Kristinsson stýrim. f. 12. 11. 1945.
Guðmundur Gíslason 1. vélstjóri f. 2. 11. 1942.
Gunnlaugur Björnsson 2. vélstj, f. 13. 1. 1941.
Einar Þorfinnur Magnússon matsveinn f. 27. 7. 1928.
Einar Marvin Ólason háseti f. 2. 5. 1944.
Gunnar Björgvinsson háseti f. 5. 9. 1950.
Hannes Andrésson háseti f. 29. 11. 1946.
Tryggvi Gunnarsson háseti f. 3. 7. 1949.