Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1969/ Í sinnis hljóðri borg. Skipshöfnin af Þráni. – Minning

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
Í sinnis hljóðri borg

Langt er síðan Íslendingar hafa átt um svo sárt að binda vegna sjóslysa sem nú á liðnu sjómannadagsári.
Í fjöldamörg ár höfum við Vestmannaeyingar sloppið blessunarlega við sjóslys á bátum héðan úr höfn. En myrkan vetrardag á síðastliðnu ári skall reiðarslagið yfir. Hinn 5. nóvember 1968 fórust 9 vaskir sjómenn með v/b Þráni NK 70. Voru allir skipverjar, utan einn, frá Vestmannaeyjum, en báturinn hafði verið gerður út á síldveiðar héðan.
Slys þetta varð undan suðurströndinni í aftaka suðaustan veðri, stórsjó og brimi. Fannst ekkert af bátnum þrátt fyrir umfangsmikla leit flugvéla og 40 skipa og báta.
Mikil slys voru í byrjun marzmánaðar sl., en þá fórust 6 sjómenn í Faxaflóa af bátunum Dagnýju og Framnesi. Um sama leyti varð stórslys af völdum eldsvoða um borð í togaranum Hallveigu Fróðadóttur, og létu 6 sjómenn lífið.
Frá síðasta sjómannadegi hafa samtals farizt 36 íslenzkir sjómenn.
Á hátíðis- og minningardegi sjómannastéttarinnar eru öllum ættingjum og ástvinum látinna sendar innilegar samúðarkveðjur.
Eins og alltaf, þegar slys verða, eru slíkir atburðir mikið áfall og blóðtaka lítilli þjóð. Harmur ættingja og venzlafólks er sár, og aldrei verður lífið með sama svip hjá þeim, sem næst hefur verið höggvið. Sæti hins prúða og vaska drengs er autt. — Í nánd slíkrar sorgar verða orð vanmegnug.
Við Vestmannaeyingar höfum misst óvenjumikið á liðnu ári. Söknum við harðfrískra aflamanna í blóma lífsins, en rúm þeirra eru vandskipuð og lengi mun verða skarð fyrir skildi, þar sem þeir stóðu í fremstu röð. Stundum viljum við vart trúa þeirri beizku staðreynd, að þessir dugmiklu kraftmenn, sem allra vonir og óskir voru tengdar við skuli svo óvænt og skyndilega hafa verið hrifnir á brott úr okkar litla samfélagi. - En svo miskunnarlaust og hart er lífið oft á tíðum.
Víst er það huggun okkur öllum, sem söknum ágætismanna, að þeir lifðu vel og skiluðu sínu af miklum manndómi. Slíkra manna er ávallt gott að minnast.
Við útför og minningarathöfn látinna félaga hafa sjómenn í Vestmannaeyjum sýnt í senn samúð og samheldni stéttar sinnar. Minningarathöfn um skipverjana af Þráni var hátíðleg og virðuleg kveðjustund. Fór hún fram í Landakirkju hinn 30. nóvember að viðstöddu miklu fjölmenni og sáu báðir sóknarprestarnir um athöfnina. Í kirkju stóðu níu sjómenn heiðursvörð, auk fánabera sjómannafélaganna og fulltrúa frá Stýrimannaskólanum, Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja, Slysavarnadeildinni Eykyndli og Björgunarfélagi Vestmannaeyja.
Að lokinni kirkjuathöfninni, sem var tekin upp til flutnings í útvarp, voru lagðir kransar að minnismerki hrapaðra og drukknaðra, en sjómenn mynduðu heiðursvörð kringum styttuna og við gangstíg frá kirkju og að minnisvarða.
Í austan kalda og regni stóðu Eyjasjómenn í þögulli minningu horfinna stéttarbræðra, en í fjarska sá í dökkan hamravegg Heimakletts, sem úthafssjórinn barði langt upp eftir bergi. - Yfir hafinu var þó einhvern veginn óhugnanleg kyrrð dauðalagsins - og í hugann kom, er sá á úfna Leiðina: drottinn gaf og drottinn tók. Á upphækkuninni við minnismerkið drúpti fánaborgin. Ritstj.
Með v/b Þráni fórust:
Grétar Skaftason skipstjóri f. 26. 10. 1926.
Helgi Kristinsson stýrim. f. 12. 11. 1945.
Guðmundur Gíslason 1. vélstjóri f. 2. 11. 1942.
Gunnlaugur Björnsson 2. vélstj, f. 13. 1. 1941.
Einar Þorfinnur Magnússon matsveinn f. 27. 7. 1928.
Einar Marvin Ólason háseti f. 2. 5. 1944.
Gunnar Björgvinsson háseti f. 5. 9. 1950.
Hannes Andrésson háseti f. 29. 11. 1946.
Tryggvi Gunnarsson háseti f. 3. 7. 1949.

Vonin segir -Heilög höndin...

„Þungar oft má þrautir kanna
þjóðin fámenn nyrzt við haf.
Enn er vefur örlaganna
ofinn vá og heljarstaf.“

Hér runnu upp þungir raunadagar, sem fylgdu þriðjudeginum 5. nóv. s.l.. Fréttin um, að allt samband við v.b. Þráin NK-70 hefði rofnað, voru þvílík ótíðindi, að alla setti hljóða.
Vábeðinn, sem fréttinni fylgdi, nísti sem kalt stál í kviku. Ef allt væri með felldu, átti báturinn að vera lentur, þegar fréttin tók að síast út.
Fólk talaði um hana næstum í hljóði. Það vildi enginn trúa því, að báturinn væri ekki ofansjávar, þrátt fyrir veðurhæð og mikinn sjó.
Menn vildu vona í lengstu lög. En vonin hjá mörgum reyndum sjómönnum varð brátt döpur. Það virtist sem of margt benti til, að nú hefði farið verr en skyldi.
Það er ekkert, sem þjappar okkur innilegar saman en uggvænleg frétt um tvísýnu í sjávarháska —, bráðan bana hraustmenna, sem farið höfðu að heiman, ungir, glaðir og heitir, menn, sem fyrir stundu höfðu verið með okkur, starfað og hrærzt í baráttu hversdagsins.
Þá þagna hjáróma raddir okkar, sem gjarnt er til kveinstafa undan smámunum. Við stöldrum þá við hugsandi og finnum betur en ella skyldleikatengslin, - finnum, hve mennirnir eru hver öðrum háðir og ómissandi, þegar í harðbakkann slær, ekki sízt, hvað snertir andlegt samfélag.
En það er einmitt þá, sem við komumst næst því að standa inni í sjálfum helgidómi guðssamfélagsins, því að það er á slíkum stundum, sem við verðum að einni sál og með eitt í huga í samúð og bæn fyrir þeim, sem um sárt eiga að binda. — Það skilst á uppliti okkar og svipbrigðum, að okkar innsta hjartans mál er orðvana mál, sem er tjáning tregans og samúðarinnar.
Ég veit, að þið, sem syrgið nú sárast, hafið fundið þessa djúpu samúð. Þá samúð hafið þið fundið leggja til ykkar og ekki frá okkur Vestmannaeyingum einum, en frá landsbúum öllum hefur til ykkar lagt þennan yl. En það er einmitt ein af miklum gjöfum Guðs, sem fylgja hinni dýpstu sorg, að aldrei skiljum við betur en þá, þegar vel og hjartanlega er meint. Og það er líka hið eina, sem getur vakið hjá okkur gleði, — þessa innri gleði, sem er í nánum skyldleika við huggun, enda þótt tárin e. t. v. byrgi þá staðreynd inni um sinn. En það hefur fylgt okkur Íslendingum alla tíð, líklega af því, að við búum við hið yzta haf, að

„þegar brotnar bylgjan þunga,
brimið heyrist yfir fjöll,
þegar hendir sorg við sjóinn,
syrgir, tregar þjóðin öll.“

Með virðingu og þakklæti dvelur hugur þjóðarinnar hjá þessum níu mönnum, sem við minnumst hér í dag og héðan hafa verið kvaddir til hinztu farar að andanum til, þótt líkamar þeirra hvílist í hinni votu gröf.
Meðan þeir, þennan nóvemberdag, voru enn í blóma lífsins og inntu með þegnskap þjónustuna af höndum fyrir land og lýð, meðan háð var drengileg barátta upp á líf og dauða, urðu þeir að lúta í lægra haldi fyrir ofureflinu.
Og þótt við höfum engar fregnir af þeim feiknlegu átökum, sem það stríð var háð með, vitum við fyrir víst, að þá hafa þeir barizt með sæmd og fallið með sæmd.
Vegna þess vill þá líka þjóðin kveðja þá með sæmd. Og um leið og ég mæli þessi orð, læt ég þeim fylgja samúðarkveðjur frá forseta Íslands og forsetafrúnni, frá biskupi Íslands og biskupsfrúnni, ennfremur frá ríkisstjórn Íslands. Okkur prestunum hefur verið falið að flytja ykkur ástvinunum þessar kveðjur. Þær kveðjur eru persónulegar kveðjur frá þeim hvorutveggja hjónunum, ásamt fyrirbæn, en jafnframt samúðarkveðjur, sem þau mæla fyrir munn þjóðarinnar og kirkjunnar.
Það leiðir af sjálfu sér, að óvænt og snöggt fráfall margra glæsilegra drengja á bezta aldri hlýtur að valda sárri, almennri sorg, — þjóðarsorg. En hvað þá hjá þeim, sem sárast eiga um að binda, eiginkonunum og börnunum, foreldrum, systkinum og nánum vinum?
En „Guð gaf, Guð tók“, sagði maður nokkur, sem á sorgarbrjóstum lá, endur fyrir löngu. Renndu þessi orð stoðum undir huggun hans og endurheimtu fyrra traust hans til Guðs, því að Guð tekur aldrei að fullu það aftur, sem hann eitt sinn hefur gefið, enda er hann hinn eini eilífi og sanni, sem aldrei er eitt í dag og annað á morgun.
Ég veit vel, að hér er auðveldara um að tak en í að komast. En það er mannlegt að andvarpa í neyð sinni, enda hefur margur átt þá sögu að segja, að lengi hafi hann eða hún þurft að bíða svars við ákalli sínu á tímum neyðarinnar.
Í mikilli sorg stöndum við mannanna börn ein uppi, nálega sem á flæðiskeri eða reyr af vindi skekinn. Og við, sem umhverfis stöndum, getum í engu breytt þeirri staðreynd, sem dauðinn er, þótt við séum öll af vilja gjörð.
Það eina, sem við þá eigum, það gefum við. Silfur og gull er það ekki, en fyrst og fremst samúð okkar, sem laðar okkur til bænar, bænar, sem biður þeim huggunar og styrks, er stynja fyrir ekkasogum sorgarinnar.
En eins og huggun og styrkur kemur sem Guðs gjöf, gefur Guð okkur einnig aðra dýrmæta gjöf; en það er vonin.

„Þá er jarðnesk bresta böndin,
blítt við hjörtu sorgum þjáð,
vonin segir: „Heilög höndin
hnýtir aftur slitinn þráð.“

Það er VONIN, sem kemur með blessað Ijósið sitt, lífsglampann og lífsfögnuðinn fyrr eða síðar. Vonin sú lætur ekki bregðast. Hún breytist í traust og lífsfögnuð, strax og við finnum staðreyndina miklu, sjálfan Guð vera eitt með Syninum, er hann segir: „Ég er upprisan og lífið, hver, sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.“
Gefi ykkur Drottinn huggun sína, farsæld, frið og blessun.

Þorsteinn L. Jónsson

Þerraðu tárin

Ungur ég lærði við kné minnar kærustu móður,
að Kristur oss skærasta Ijósið frá himninum sendi.
Hún sagði mér líka oft, hvað þú Guð værir góður,
og gæfa okkar mannanna væri í þinni hendi.

Nú sit ég hér einmana, gamall, hugsandi og hljóður,
í helkaldri angist þanki minn spyrjandi kveinar:
Af hverju kom þetta fyrir? Ó, Guð minn góður,
gefðu mér skýringu: Hvað er það, sem þú meinar?

Hvers vegna megum við bugast af blýþungum harmi,
brennandi tár okkar leita út í nóttina svörtu?
Værum við studdir af algóðum alveldisarmi,
yrði þá nokkuð, sem skelfdi okkar titrandi hjörtu?

Mér finnst eins og svarið berist til mín í blænum:
Bugastu ekki, en reyndu að standa á fætur.
Þú sem syrgir nú vinina þína í sænum,
sérðu' ekki í heiminum milljónir fólks, sem grætur?

En, börnin min smáu, ég gef ykkur styrk til að standa
í straumþungu fljóti lífsins, þó krafturinn þrotni.
Ég skynja ykkar hróp yfir hafdjúp og brunasanda,
en hólpinn er sá, er til síðustu treystir Drottni.

Ég auðmjúkur krýp fyrir hásæti himins og jarðar,
böndunum líknsamur farðu um blæðandi sárin.
Þú, algóði Drottinn, sem ófarna veginn varðar,
vonina gefðu okkur aftur og þerraðu tárin.

Hafsteinn Stefánsson

Þráinn NK-70.png

Skipshöfnin af vélbátnum ÞRÁNI - Minning -

GRÉTAR SKAFTASON
og skipshöfn hans

Það dimmir yfir dölum jarðar,
og dofnar sérhvert gleðiljós.
Við dranga brotna bárugarðar,
og bliknuð liggur sumarrós.
Vor hjörtu sveipuð húmsins klökkva,
við helga von sinn trega slökkva.

En innra fyrir sjónum sálar,
við sjáum átök lífs og hels.
Á hafsins vegum brimið bálar
og boðar komu hinzta éls.
Þar siglir gnoð til heimahafnar,
og heilög þrá í brjóstum grær.
En þar sem þrek og dirfska dafnar,
hver dagur nýja gleði fær.

En ferðin endar fyrr en varir,
og fæstir þekkja leiðarlok.
Er frískir menn við feigðarskarir,
ei forðast mega skaparok.
En hljóta títt í vök að verjast,
í veðragný og ógnum grands.
Við krappan sjó þeir kunna að berjast,
en koma ei alltaf þó til lands.

í djúpsins ró und bárum bláum,
er búin hinzta hvíla þeim.
Sem fyrr vor meðal fríska sáum,
en fengu ei lokið sigling heim.
Þeirra minning mun ei deyja,
meðan hér við eigum töf.
Verið sælir synir Eyja,
signi drottinn ykkar gröf.

K.H.

Kveðja frá mágkonu Grétars og fjölskyldu á Skagaströnd.

Grétar Skaftason
f. 26. október 1926 - d. 5. nóvember 1968
HANN var fæddur að Suður-Fossi í Mýrdal 26. október 1926. Sjómennsku hóf hann unglingur að árum og þá fyrst á togurum. Til Vestmannaeyja mun hann fyrst hafa komið haustið 1947, til Páls Ingibergssonar á Reyni, og var með honum á Hvalfjarðarsíldveiðum og vertíðina 1948. Eftir það urðu Vestmannaeyjar hans starfsvettvangur, og var hann á ýmsum bátum, lengst af með Ólafi frá Skuld, þar til hann sjálfur gerðist skipstjóri, fyrst á Ófeigi III. Hann var fengsæll fiskimaður, sjálfstæður í sókn og heppinn í mannavali.
Grétar Skaftason var traustur maður og trausts verður. Hann var kappsfullur og áræðinn sjómaður, þrautreyndur og úrræðagóður. Hann var gildur meðalmaður á hæð, ljós yfirlitum og bauð af sér þokka þess manns, sem er sjálfum sér nógur. Óáleitinn í orði og æði, sanngjarn í dómum, hugsandi maður og ekki margorður. Fastur fyrir og lét trúlega ekki sinn réttmæta hlut fyrir ójöfnuði, en ljúfur í lund og góðmenni í hjartanu.
Hann kvæntist eftirlifandi konu sinni Kristbjörgu Sigurjónsdóttur Ingvarssonar skipstjóra 31. okt. 1950, og eignuðust þau 3 syni, Ingólf, Sigurjón Ragnar og Ófeig og dóttur óskírða, sem fæddist að föður sínum látnum.
Með fráfalli Grétars hefur heimilisfólkið að Vallargötu 4 orðið fyrir því tjóni, sem ekki verður bætt. Sá missir er þyngri en tárum taki. Þau orð, sem ég segi hér, geta þar hvorki á aukið né úr dregið. En ég votta þeim öllum mína dýpstu samúð og vona, að minningin um gleði og gæfu liðinna samverustunda megi jafna þeim svo veginn framundan, að farinn verði í þeim anda krafta og karlmennsku, sem Grétari sjálfum var svo eiginlegur. Með fráfalli Grétars Skaftasonar hefur einnig verið höggvið djúpt skarð í raðir sjómannastéttar byggðarlagsins, sem er vandfyllt. Er það mál þeirra manna, sem þekktu Grétar og störf hans á sjónum, að allvel megi vanda til þeirrar endurhleðslu, svo hvergi sjáist ummerki þess tjóns, sem orðið er.
Að leiðarlokum þakka ég Grétari Skaftasyni fyrir góða viðkynningu um árabil, fyrst á skólabekk og síðar við störf á sjó. Ég er þess fullviss, að með honum er genginn einn af þeim ágætustu mönnum, sem ég hefi fyrirhitt.
Steingrímur Arnar

Helgi Kristinsson, stýrimaður
f. 12. nóvember 1945 - d. 5. nóvember 1968
Helgi Kristinsson var fæddur í Vestmannaeyjum 12. nóv. 1945, og var því aðeins 23 ára gamall, er hann féll frá. Hann var sonur hjónanna Kristins Magnússonar fyrrum skipstjóra og konu hans Helgu Jóhannesdóttur. Vegna lasleika móður sinnar var Helga komið í fóstur til Kristínar Helgadóttur og manns hennar Haralds Sigurðssonar vélsmiðs, Hvítingavegi 2 hér í bæ og bjó hann þar við ástríki á góðu heimili til dauðadags.
Ég átti því láni að fagna að kynnast Helga strax í æsku og héldust þau kynni þar til yfir Iauk. Átti ég margar ánægjustundir með vini mínum, Helga, sem ekki verða raktar hér, en minningin mun geymast vel.
Helgi settist í landsprófsdeild gagnfræðaskólans hér í Eyjum og fór því næst í Menntaskólann á Akureyri til áframhaldandi náms. - En Helga féll ekki að eyða lífi sínu við störf í landi. Hann hafði milli skólaára róið héðan frá Eyjum og fann brátt, að á sjónum vildi hann starfa. Hann hætti því í menntaskólanum eftir 2ja ára nám, alráðinn í að fara á sjóinn og gera sjómennskuna að ævistarfi sínu.
Hann settist í Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum og Iauk þaðan prófi vorið 1966 með mjög góðum vitnisburði, eftir aðeins eins vetrar nám. Helgi var hreinskilinn og hélt ótrauður sínum skoðunum fram, og var gaman að ræða við hann þau mál, sem honum lágu á hjarta.
Þegar menn á bezta aldri hverfa á braut, þá er harmurinn mikill. Megi Guð styrkja í sorg sinni fósturforeldra hans, foreldra og systkini, og halda verndarhendi yfir litlu stúlkunni, sem í barnæsku missti föður sinn.
Helgi minn, ég þakka þér fyrir þau góðu kynni, sem við höfum átt og alla þá gleði, sem þú færðir mér. Hvarf þitt frá okkur verður vandfyllt. Minningin mun geymast í huga mér, minning um góðan dreng, sem burtu er kallaður í blóma lífsins.
Hafðu þökk fyrir allt, Helgi minn.
Þór Í. Vilhjálmsson

ÞEGAR ég minnist fyrrverandi nemanda míns, Helga Kristinssonar stýrimanns, koma mér í huga hendingar úr kvæði Jónasar Hallgrímssonar:

„margoft tvítugur
meira hefir lifað
svefnugum segg,
er sjötugur hjarði.“

Helgi var strax á unga aldri þroskaður maður, og eftir á að hyggja, Ieit ég ávallt til hans sem eldri manns en hann var í raun og veru. Helgi var bráðvel gefinn og námsmaður góður. Var hann lífsglaður ungur maður og vel til forystu fallinn. Reyndist hann góður félagi og nemandi og sá m. a. um árshátíð Stýrimannaskólans á sinni tíð af myndarskap og áhuga. Það vakti alltaf athygli mína, hve Helgi var sérstaklega hneigður fyrir sjóinn. Varð hann enda hinn bezti sjómaður og hafði verið með hinum þekkta sjósóknara og aflamanni Grétari Skaftasyni undanfarin 2 ár.
Helgi var einn þeirra ungu sjómanna, sem mikils mátti vænta af og þjóð okkar hefur svo brýna þörf fyrir. Með þessum fáu orðum kveð ég góðan nemanda, sem féll langt fyrir aldur fram, á vori lífsins, er hann hafði rétt fundið sig sjálfan. Hverfur Helgi fyrstur úr hópi útskrifaðra stýrimanna frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum. Helgi var fróðleiksfús, og vildi alltaf bæta við fyrri þekkingu sína og góða undirstöðumenntun. Áttum við síðast tal saman í þá veru. Ég þakka Helga góð og minnisstæð kynni.

„Ljós var leið þín
og lífsfögnuður;
æðra, eilífan,
þú öðlast nú.“

G. Á. E.

Guðmundur Gíslason vélstjóri
f. 2. nóvember 1942 - d. 5. nóvember 1968
GUÐMUNDUR Gíslason, vélstjóri, Hásteinsvegi 36, var fæddur í Vestmannaeyjum 2. nóv. 1942. Voru foreldrar hans Gísli Gíslason, skipasmiður þar og kona hans, Ásdís Guðmundsdóttir. Guðmundur lauk vélstjóraprófi 1964. Var hann síðan vélstjóri á nokkrum bátum, en þó flest árin hjá Grétari Skaftasyni.
Einn vina hans skirfar um hann á þessa lund: „Ég kynntist „Gvendi Gísla“, eins og hann var alltaf kallaður okkar á milli, í Mjólkurbúi Flóamanna á Selfossi.
Hann vann þar í þrjú sumur, og urðum við góðir vinir og félagar.
Hann gat sér góðan orðstír á vinnustað og eins þar fyrir utan, fyrir iðjusemi og dugnað, enda mikill afkastamaður. Bar verkstjóri hans hann lofi fyrir það, hversu traustur og prúður hann var til allra starfa. Hafði jafnframt orð á því, að honum mundi ávallt standa vinna þar til boða.“
Guðmundur var dulur á sínar innri tilfinningar og vildi lítið láta á sér bera, en gat samt verið spaugsamur og glettinn í hópi góðra félaga sinna.
Ég minnist jafnan Guðmundar sem hins góða og trygga félaga, sem ávallt var hægt að treysta og leita til.
Guð blessi minningu þína og félaga þinna, góði vinur.

Ágúst Morthens, Selfossi.

Gunnlaugur Björnsson 2. vélstjóri
f. 13. janúar 1941 - d. 5. nóvember 1968
Gunnlaugur Elías Björnsson var fæddur í Vestmannaeyjum 13. janúar 1941, sonur hjónanna Guðbjargar Gunnlaugsdóttur frá Gjábakka og Björns Kristjánssonar vélstjóra hér í bæ.
Eins og Gunnlaugur átti ætt til, hneigðist hugur hans strax á unga aldri að sjónum, og byrjaði hann 16 ára gamall til sjós með Sigurði Þórðarsyni á Sæfara. - Síðan var Gunnlaugur lengi á Ófeigi með Ólafi Sigurðssyni frá Skuld, einnig með móðurbræðrum sínum á Atla og Suðurey, svo og Páli Ingibergssyni á Reyni. Allt voru þetta úrvalsskiprúm.
Árið 1960 lauk Gunnlaugur vélstjóraprófi og nokkru síðar, árið 1962, hinu minna fiskimannaprófi. Var Gunnlaugur skipstjóri á m/b Svan, sem hann gerði út ásamt fleirum, árið 1965.
Gunnlaugur var vinnugefinn tilfinningamaður, sem stundaði starf sitt af alvöru og festu.
Hann var kvæntur Árnýju Kristinsdóttur frá Norðurgarði og eignuðust þau 3 dætur, sem eru allar í bernsku.

Einar Þorfinnur Magnússon, matsveinn
f. 27. júlí 1928 - d. 5.nóvember 1968
ElNAR Þorfinnur Magnússon var fæddur og uppalinn á Orustustöðum, Vestur-Skaftafellssýslu. — Var hann sonur hjónanna Sigurlaugar Pálsdóttur frá Hofi í Öræfum og Magnúsar Sigurðssonar frá Orustustöðum. Þau eignuðust 13 börn og var Einar uppalinn í stórum systkinahópi, og segir sig sjálft, að á þeim árum hefur verið þröngt í búi, en dugnaður og ósérhlífni bjargaði þar eins og víðar á þeim árum, og fljótt munu bornin hafa farið að hjálpa til.
Einar var hvers manns hugljúfi, sem honum kynntist, og vildi öllum gott gera, enda sýndi hann það með framkomu sinni við sína nánustu. Má segja, að hann hafi fórnað ævi sinni fyrir skyldmenni sín, og hefur þessi fjölskylda nú um mjög sárt að binda, því það var óvenju góð samheldni og vinátta á milli hennar, og veit ég, að þau hugsa öll með hjartans þökk fyrir liðin ár og samverustundirnar og alla hjálpina, sem hann veitti þeim. Veit ég, að ég tala þar fyrir munn frændsystkinanna og allra vina, sem hann átti bæði í Skaftafellssýslu og annars staðar á landinu. Hann átti áreiðanlega marga vini, en enga óvini.
Einar var einhleypur, en bjó með systur sinni að Auðbrekku 27, Kópavogi.

S. H.

Marvin Einar Ólason háseti
f. 2. maí 1944 - d. 5. nóvember 1968
Hann var fæddur í Vestmannaeyjum 2. maí 1944, sonur hjónanna Jónu Magnúsdóttur og Óla Jónssonar stýrimanns. Marvin hafði stundað sjóinn nokkuð. Hann var Ijúfur í lund og öllum góðviljaður. Marvin var í foreldrahúsum, ókvæntur og barnlaus.

Gunnar Björgvinsson háseti
f. 5. september 1950 - d. 5. nóvember 1968
Hann var fæddur í Vestmannaeyjum 5. september 1950, sonur hjónanna Ástu Finnbogadóttur frá Vallatúni og Björgvins Þórðarsonar.
Gunnar var yngstur þeirra, sem fórust, aðeins 18 ára gamall. Þetta var annað ár Gunnars til sjós. Hann var rólyndur piltur, sem hafði trausta og góða skaphöfn.

Tryggvi Gunnarsson háseti
f. 3. júli 1949 - d. 5. nóvember 1968
Tryggvi var fæddur í Vestmannaeyjum 3. júlí 1949, sonur hjónanna Aðalheiðar Jónsdóttur og Gunnars Ragnarssonar á Kirkjubæ.
Hann missti föður sinn af slysförum á unga aldri og byrjaði unglingur að vinna. Þetta var annað haust Tryggva til sjós, og var hann líklegt sjómannsefni.

Hannes Andrésson háseti
f. 29. nóvember 1946 - d. 5. nóvember 1968
Hannes var fæddur í Vestmannaeyjum 29. nóvember 1946. Voru foreldrar hans hjónin Guðleif Vigfúsdóttir frá Holti og Andrés Hannesson vélstjóri og skipstjóri hér um árabil. Hannes byrjaði kornungur til sjós með föður sínum á m/b Val og var góður sjómaður og ósérhlíf-inn. Hafði hann mikinn áhuga á að fara í srýrimannaskóla og afla sér rértinda.

Sonarminning frá móður og föður Sonur minn, ég sárt þín sakna. Sár er dagsins vökustund. - Á morgni hverjum verða að vakna og vita að næ ei þinum fund. - Hann - með Ijáinn beitta, bitra, birtist, — dagur varð að nótt, Sjðnum hvarfst þú, kæri sonur, í kalda gröf — svo varð allt hljótt.

Ég minnist þín, er varstu í vöggu, hve vœnt mér þátti um brosið þitt, - Sporin fyrstu. — Árin áfram einatt glöddu hjarta mitt. Þú varðst áfram eftir heima, er œsku tóldust liðin ár. - Mamrna og pabbi eru orðin ein. — Nú rikir hryggðin sár.


Við þökkum sonur ástúð alla, alla gleði og brosið þitt. Ég á helga hjartans minning, sem httggar sœrða geðið mitt. Samverunnar saúustunda sífellt geymist minning björt. Hún linar sviða innri unda — að ending hverfur nóttin svört.

Þökk sé Guði, er gaf þig sonur. -Hann gefi þrek á reynslustund. Hann gaf og tók, hans verði vilji. - Þig, vinur, fel hans kœrleiksmttnd. Sofðu rótt. í kaldri hvílu Kristur vakir yfir þér. — Góða nótt, unz Guð oss kallar að ganga í lífsins dýrð hjá sér. (Björk)