Hátíðir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 9. júní 2005 kl. 16:40 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 9. júní 2005 kl. 16:40 eftir Daniel (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Mikið er að gerast í Eyjum allt árið og vinsælt er hjá ferðamönnum að sækja Eyjarnar heim þegar sérstakir viðburðir eru, þar á meðal má nefna eftirfarandi:

Shellmót og Vöruvalsmót

Peyja- og pæjumót í knattspyrnu eru haldin í júní þar sem yngri flokkar af öllu landinu hittast og keppa í fótbolta. Mótin standa yfir í þrjá til fjóra daga og börnin fá einnig tækifæri til að upplifa margt sem Eyjarnar hafa upp á bjóða eins og að spranga og fara í siglingu umhverfis Eyjuna og sjá svartfuglinn í berginu.

Golfævintýri

Golfævintýri er spennandi golfmót og golfkennsla fyrir börn og unglinga. Ævintýrið stendur í fimm daga og er öllum krökkum opið.http://bjarnarey.eyjar.is/golf/avintyri/default.htm

Volcano open

Volcano open er stórt golfmót sem haldið er í byrjun júlí og er opið öllum.

Goslokahátíð

Goslokahátíð er haldin fyrstu helgina í júlí. Þá er goslokanna á Heimaey minnst með Harmonikkuleik og öðru skralli í krónum í Skvísusundi.

Þjóðhátíðin í Eyjum

Þjóðhátíðin er haldin fyrstu helgi í ágúst. Hátíðin er af gömlum grunni eða frá því 1874. Í dag er þjóðhátíðin í Eyjum stór og mikil hátíð þar sem ÍBV íþróttafélag byggir upp ævintýraland í Herjólfsdal. Þar er boðið upp á tónlistarveislu þar sem vinsælustu hljómsveitir landsins stíga á stokk. Vegleg flugeldasýning, brenna og brekkusöngur er meðal þess sem boðið er upp á. Hvítu Eyjatjöldin setja líka sterkan svip sinn á dalinn þar sem heimamenn setja upp tjaldborg í götuhverfi, hafast þar við og næra sig á lunda. Þar er oft á tíðum dvalið fram í dagrenningu við gítarspil og söng.

Pysjuævintýri

Pysjuævintýrið hefst um miðjan ágúst. Pysjan flýgur í átt að ljósunum í bænum, þá hefst hið mikla og skemmtilega ævintýri hjá börnum og fullorðnum við að bjarga pysjunum. Börn og fullorðnir labba um bæinn seint á kvöldin með vasaljós og kassa undir hendinni í von um að finna pysjur. Deginum eftir er síðan pysjunum sleppt í fjörunni þar sem hún syndir út og kafar eftir æti. Pysjunni hefur verið bjargað.

Lundaball

Lundaball er haldið í september ár hvert þar sem veiðimenn eyjanna halda uppskeruhátíð. Hver og ein eyja heldur ballið til skiptis og er mikill metnaður að toppa ballið frá árinu áður. Á Lundaböllum er boðið upp á lunda með alls kyns matreiðsluaðferðum en einnig er boðið upp á annars konar villibráð. Lundaböll voru hér áður fyrr einungis fyrir lundaveiðimenn og þeirra frúr en hafa nú verið opnuð öllum.

Þrettándinn

Síðasti dagur jóla er haldinn hátíðlegur. Þrettándaganga er farin um bæinn í fylgd Grýlu, Leppalúða, jólasveinanna og ýmissa skelfilegra trölla. Síðan er dansað í kringum brennu og þá bætast við álfar, púkar og alls kyns kynjaverur. Að lokum eru jólin kvödd um miðnætti með flugeldasýningu.