Bjarni Bragi Jónsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 5. apríl 2024 kl. 11:57 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 5. apríl 2024 kl. 11:57 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Bjarni Bragi Jónsson frá Breiðabliki, hagfræðingur, aðstoðarbankastjóri Seðlabankans fæddist 18. júlí 1928 í Reykjavík og lést 1. júlí 2018 á hjúkrunarheimilinu Grund.
Foreldrar hans voru Jón Hallvarðsson frá Hítárnesi í Hnappadalssýslu, lögfræðingur, fulltrúi, sýslumaður, hæstaréttarlögmaður, f. þar 16. maí 1899, d. 13. apríl 1968, og kona hans Ólöf Bjarnadóttir frá Breiðabólsstað á Síðu, V.-Skaft., húsfreyja, síðar iðnverkakona, f. þar 18. nóvember 1895, d. 11. júlí 1988.

Bjarni Bragi Jónsson.

Börn Ólafar og Jóns:
1. Baldur Jónsson kennari, f. 6. september 1926, d. 8. maí 2008.
2. Bjarni Bragi Jónsson hagfræðingur, aðstoðarbankastjóri Seðlabankans, f. 18. júlí 1928, d. 1. júlí 2018. Kona hans Rósa Guðmundsdóttir.
3. Sigríður Jónsdóttir skrifstofumaður, bankaritari í Reykjavík, f. 14. maí 1931 á Kárastíg 11 í Reykjavík, d. 10. október 2007.
4. Svava Jónsdóttir myndlistarnemi, f. 25. apríl 1932, d. 1. júní 1952.

Bjarni Bragi var með foreldrum sínum, í Reykjavík, á Breiðabliki í Eyjum, í Stykkishólmi og Reykjavík.
Hann lauk stúdentsprófi í Menntaskólanum í Reykjavík 1947, viðskiptafræði í Háskóla Íslands 1950, stundaði framhaldsnám við háskólann í Cambridge á Englandi 1957-1959. Hann fór í námsferðir og kynnisferðir til ýmissa erlendra og alþjóðlegra hagstofnana.
Bjarni Bragi var skrifstofumaður hjá Olíuverslun Íslands 1947-1950, fulltrúi í útflutningsdeild SÍS 1950-1955, fulltrúi í hagdeild Framkvæmdabanka Íslands 1955-1957 og 1960-1962. Hann var ritstjóri tímarits bankans, Úr þjóðarbúskapnum, 1962-1966, ráðgjafi í OEEC (OECD) National Accounts Division 1959-1960 í París, Frakklandi og svo í framhaldinu um sumarið 1960 í Osló, deildarstjóri þjóðhagsreikningadeildar Efnahagsstofnunar 1962-69, forstjóri Efnahagsstofnunar 1969-71, framkvæmdastjóri áætlanadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins 1972-76.
Bjarni Bragi var hagfræðingur Seðlabanka Íslands 1976-83, aðstoðarbankastjóri 1983-94 og hagfræðilegur ráðunautur bankastjórnar 1994-98, er hann lét af störfum vegna aldurs.
Bjarni Bragi var NATO-gistiprófessor á vegum Háskóla Íslands við Pomona College í Kaliforníu 1964. Þá var Bjarni Bragi einnig stundakennari í hagrannsóknum, þjóðhagsreikningum og áætlunum við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands 1966-67 og 1974-80. Bjarni Bragi skrifaði fjölda greina um efnahagsmál. Getið er greinar, sem hann skrifaði árið 1975, sem ber heitið „Auðlindaskattur, iðnþróun og efnahagsleg framtíð Íslands“. Þar komu fyrst fram hugmyndir um auðlindagjald, sem enn er tekist á um. Einnig skrifaði hann „Verðtrygging lánsfjármagns og vaxtastefna á Íslandi,“ sem gefið var út af Seðlabanka Íslands árið 1998.
Bjarni Bragi var virkur í félagsmálum frá unga aldri og sat í ótal nefndum og stjórnum gegnum tíðina. Má þar nefna, inspector scholae í MR 1947-8 og formaður Æskulýðsfylkingarinnar 1948. Bjarni Bragi var varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi 1962-69, var forseti Rotaryklúbbs Kópavogs 1991-92 og formaður Rótarýsjóðsnefndar umdæmisins 1995-99. Þá var hann formaður Stofnunar Sigurðar Nordals 1993-99.
Hann söng með Pólýfónkórnum í mörg ár og öðrum kórum. Ættfræðigrúsk var honum einkar hugleikið og þá sérstaklega, þegar rýmri tími gafst við eftirlaunaaldur.
Þau Rósa giftu sig 1948, eignuðust þrjú börn.
Bjarni Bragi lést 2018.

I. Kona Bjarna Braga, (22. apríl 1948), var Rósa Guðmundsdóttir, sjúkraliði, með B.Ed.-próf, kennari, myndlistarmaður, f. 25. mars 1930, d. 3. apríl 2023. Foreldrar hennar voru Guðmundur Matthíasson verkstjóri í Reykjavík, f. 22. september 1874, d. 27. apríl 1949, og kona hans Sigurrós Þorsteinsdóttir húsfreyja, iðnverkakona, f. 16. júlí 1896, d. 11. júlí 1971.
Börn þeirra:
1. Jón Bragi Bjarnason með Ph.D.-próf í efnafræði, prófessor í Háskóla Íslands, f. 15. ágúst 1948, d. 3. janúar 2011. Fyrum kona hans Guðrún Stefánsdóttir kennari. Kona hans Ágústa Guðmundsdóttir.
2. Ólöf Erla Bjarnadóttir keramikhönnuður, kennari við Myndlistaskólann, f. 20. maí 1954. Maður hennar Sigurður Axel Benediktsson umsjónarmaður.
3. Guðmundur Jens Bjarnason lyfjafræðingur hjá Actavis, síðar hjá Coripharma, f. 4. september 1955. Fyrrum kona hans Guðrún Steinarsdóttir fulltrúi. Sambúðarkona hans var Vigdís Sigurbjörnsdóttir, látin. Kona hans Ásta Hrönn Stefánsdóttir framleiðandi.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.