Leikfélag Vestmannaeyja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 27. júní 2006 kl. 14:14 eftir Margret (spjall | framlög) Útgáfa frá 27. júní 2006 kl. 14:14 eftir Margret (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Mynd frá uppfærslu hjá Leikfélagi Vestmannaeyja snemma á 20. öldinni.

Saga leiklistar frá 1852-1909

Árið 1852 var sýndur sjónleikur í Vestmannaeyjum og mun það vera í fyrsta sinn sem sýning var í Vestmannaeyjum. Það sama ár greiða einhverjir leikendur ágóðann af leiksýningu til bæjarsjóðs. Ekki er vitað hverjir voru leikendur né hvaða verk var sýnt en vel getur verið að leikritið hafi verið eftir Sigurð Pétursson skáld en það getur allt eins hafa verið danskt og leikið á dönsku.

Árið 1852 flytur Séra Brynjólfur Jónsson til Vestmannaeyja og býr í Nöjsomhed ásamt konu sinni og dóttur. Líklegt þykir að Brynjólfur hafi komið upp leiksýningum í samráði við fleiri aðila. Brynjólfur var menningarfrömuður og talið er fullvíst að hann hafi komið upp leikritunu "Narfi" eftir Sigurð Pétursson árið 1860-1861. Talið er að á meðal leikenda hafi verið Kristján Magnússon verslunarstjóri, Ingimundur Jónsson á Gjábakka, Gísli Lárusson og fleiri.

Árið 1864 var sett upp leikritið "Hrjólfur" og talið er að leikendur hafi verið þeir sömu og í Narfa. Árin 1886-1888 var leikritið Hrjólfur sett upp í Kumbalda. Á meðal leikenda þá voru Árni Filippusson sem lék Hrjólf, Sigurður Sigurfinnsson, Gísli Lárusson, Einar Bjarnason og fleiri.

Þessar tvær sýningar, það er Narfi og Hrjólfur voru sýndar annað veifið fram til ársins 1890 eða 1891. Árið 1893 var "Tólfkóngavitið" leikið hér og ári síðar "Hinn þriðji" sem var byggt upp á söngvum og tónlist. Á meðal þeirra sem stóðu að baki þessum sýningum voru Oddur Árnason, Guðlaugur Hansson Litlabæ, Guðrún Runólfsdóttir og Sigurbjörg R. Pétursdóttir. Var sagt að söng þeirra Guðrúnar og Sigurbjargar hafi verið minnst lengi sem frábærlega góðum.

Um aldamótin 1900 var Skugga-Sveinn settur upp í Vestmannaeyjum. Þrátt fyrir að miðaverð hefði hækkað upp í 1,50 krónur sem þótti hátt, vakti það leikrit mikla ánægju á meðal bæjarbúa sem sumir sáu það að minnsta kosti tvisvar. Á meðal leikenda voru Jón Filippusson Dalbæ, Jón Einarsson Garðsstöðum, Guðjón Guðjónsson Sjólyst, Sigríður Jónsdóttir Garðsstöðum og fleiri.

Á meðal annarra leikrita sem sett voru upp um aldamótin og rétt eftir þau í Vestmannaeyjum voru "Sálin hans Jóns míns", "Kaupmannsstrikið" og "Vesturfararnir". Árið 1909 var einnig sýnt í fyrsta skipti leikritið "Almannarómur" eftir Steinn Sigurðsson skólastjóra Barnaskólans sem var í fimm þáttum. Líklegt er talið að leikendur þar hafi verið Helgi Guðmundsson í Dalbæ og Hjálmrún Hjálmarsdóttir og Jón Jónsson í Hlíð. Steinn skólastjóri var þekktur rithöfundur bæði á bundið og óbundið mál. Auk almannaróms samdi hann stórt leikrit sem heitir "Stormur" og barnaleikrit sem nefnt var í Eyjum "Átján barna faðir í álfheimum" en hét annars "Skyggnu augun". Í því leikriti voru það börn úr barnaskólanum sem fóru með öll hlutverkin. Þau eldri voru í aðalhlutverkunum en þessi yngri komu fram sem álfar og dansandi vættir sem meðal annars sýndu dans í búningum sem voru sérstaklega gerðir fyrir þetta tilefni.

Saga leiklistar í Vestmannaeyjum frá þessum tíma er að mestu leyti glötuð með bókum og skjölum félagsins en þó má styðjast við heimildir meðal annars úr bæjarblöðum sem bæta skaðann að nokkru leyti.

Sýningarstaðir

Í upphafi var leikið í Kumbalda. Kumbaldi var eitt af verslunarhúsum Bryde verslunarinnar. Þótti sá staður af mörgum kaldur og leiðinlegur en það var þó alls ekki algilt. Það var á þeim tíma besta leikhúsið. Leiksviðið var rúmt og það var sett upp og tekið niður eftir þörfum. Sætun þóttu vera góð þrátt fyrir að vera baklaus. Það var einnig kostur við Kumbalda að þar gátu leikendur æft sig á leiksviðinu þegar það hentaði. Einnig var leikið í Gúttó en ýmsum þótti sá staður hlýlegri. Gúttó var reyndar oft upptekið vegna skemmtana og mannfagnaða en bið eftir leiksýningum var þó almennt ekki löng. Þar gátu um 140 manns setið. Leiksviðið í Gúttó þótti þó þröngt og var þröngt á bak við tjöldin. Helst gátu tveir ekki mæst þar án þess að faðmast eða renna sér mjög náið hvor meðfram öðrum.

Stofnun Leikfélags Vestmannaeyja

Eftir að hætt var að sýna "Ævintýri og gönguför" veturinn 1910 sem sýnt var fyrir Kvenfélagið Líkn kom leikurunum saman um að stofna leikfélag í Vestmannaeyjum. Þeir sem munu hafa staðið að þeirri hugmynd voru fyrst og fremst Halldór Gunnlaugsson læknir, A.L. Petersen og kona hans, Árni Gíslason, Valdimar Ottesen og fleiri. Voru undirtektirnar góðar og var leikfélagið formlega stofnað á stofnfundi þann 22. ágúst 1910. Fyrsta stjórn félagsins var skipuð eftirfarandi einstaklingum: Ágústa Eymundsdóttir var kosin formaður en hún var forstöðukona Kvenfélagsins Líknar, Aage L. Petersen símstöðvarstjóri sem kominn var gjaldkeri leikfélagsins, Árni Gíslason í Stakkagerði sem kosinn var ritari félagsins, Ólafur Ottesen verslunarmaður var kosinn endurskoðandi, Valdimar Ottesen kaupmaður var kosinn varaformaður og Guðjón Jósefsson Fagurlyst var kosinn meðstjórnandi. Í lögum félagsins sem stofnfundurinn samþykkti var samþykkt að nafn félagsins væri Leikfélag Vesmtnnaeyja og að tilgangur félagsins væri fyrst og fremst að efla leikmennt í Vestmannaeyjum. Þar segir jafnframt að inngöngu í félagið gætu eingöngu þeir karlar og konur fengið sem voru tilbúin til þess að skuldbinda sig til þess að leika þau hlutverk sem þar til skipuð nefnd úthlutaði þeim. Ennfremur var ákveðið að aðalfundir yrðu haldnir tvisvar á ári, ársgjald yrði 1 króna, ekki væri heimilt að leika utan félagsins nema með fundarsamþykki og ekki væri heimilt að segja sig úr félaginu á meðan viðkomandi hafði hlutverk á hendi í leiksýningu.

Saga leiklistar frá 1910-1929

Sjónleikir voru sýndir á Þjóðhátíðinni 1912 og 1913 þegar Stefanía Guðmundsdóttir leikkona kom til Vestmannaeyja. Lék hún sjónleikinn ásamt Ólafi Ottesen sem bar nafni "Hinrek og Pernella". Eftir að Leikfélag Vestmannaeyja var formlega stofnað komst starfsemin í fastari skorður en áður. Eftir stofnfundinn var farið í það að setja nýtt leikrit á svið og var leikritið "Ævintýrið" sýnt seint um haustið 1910 við ágætis aðsókn. Á fyrstu árum Leikfélags Vestmannaeyja tók leikfélagið fyrir mörg leikrit til meðferðar. Má þar nefna "Villidýrið" eftir E. Bögh og "Nei-ið" eftir Heiberg sem var danskur gamanleikur gjarnan nefndur "Hringjarinn frá Grensaa".

Árið 1913 var "Skugga-Sveinn" settur upp aftur


Heimildir

  • Árni Árnason. Blik ársrit Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum. 1962.
  • Árni Árnason. Blik ársrit Vestmannaeyja. 1965.