Hrossagaukur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 20. febrúar 2006 kl. 10:55 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 20. febrúar 2006 kl. 10:55 eftir Daniel (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Hrossagaukur (Galinago gallinago), eða mýrisnípa, er af strandfuglaætt. Fuglinn er þekktur fyrir söng og flug sem er afar heillandi og fagurt, þar er á ferð mikið undur því fuglinn hneggjar meðan á fluginu stendur. Það fer þannig fram að fuglinn lætur sig falla nokkra metra og tekur sig síðan upp aftur í sömu hæð á meðan hann hneggjar. Hann er 25-27 cm á lengd, rúmlega 120g og með 44-47 cm vænghaf. Hrossagaukurinn er dökkbrúnn að ofan, á kollinum og á baki er hann með dökkar og ljósar rendur. Hann er ljós að neðan með stóran, sterkbyggðan gráan gogg og stutta mógula fætur.

Fuglinn kemur í apríl eftir vetrardvöl á Írlandi en þangað fer mest af fuglunum sem eiga sumardvöl hér á Íslandi. Hann lifir aðallega á skordýrum og ánamöðkum og aflar fæðu sinnar þannig að hann stingur nefinu á kaf í leðju og hreyfir það svo til og frá og étur allt sem hann finnur þar ofan í án þess að draga nefið upp úr leðjunni. Gaukurinn er mikið á ferðinni um nætur en hvílir sig á daginn. Fuglinn hefur gert mörgum manninum bylt við því hann kúrir sig niður þangað til maður er kominn alveg að honum, þá flýgur hann mjög snöggt í burtu með miklum skrækjum. Kjörlendi hans er mýrlendi, heiðar og kjarrlendi. Stuttu eftir komuna til landsins hefst hreiðurgerðin. Hann verpir svo í maí. Eggin eru yfirleitt 4 (1-6) þau eru fölgræn að lit eða ólífubrún að grunnlit með dekkri blettum. Útungun tekur 18-20 daga, ungarnir verða svo fleygir eftir 19-20 daga og kynþroska 1-2 ára.