„Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1975/Úr syrpu Jóns Stefánssonar“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
(Ný síða: <big><big>Úr syrpu Jóns Stefánssonar</big></big> Jón Stefánsson vaktmaður á Vestmannaeyjaradíói (TFV), er sjómönnum að öllu góðu kunnur. Hann hefur sl. 15 ár ver...)
 
Ekkert breytingarágrip
Lína 102: Lína 102:
vel svo þakkar veturinn<br>
vel svo þakkar veturinn<br>
Vestmannaeyjaradíó.<br>
Vestmannaeyjaradíó.<br>
{{Sjómannadagsblað Vestmannaeyja}}

Útgáfa síðunnar 27. ágúst 2015 kl. 13:24

Úr syrpu Jóns Stefánssonar

Jón Stefánsson vaktmaður á Vestmannaeyjaradíói (TFV), er sjómönnum að öllu góðu kunnur. Hann hefur sl. 15 ár verið hlustvörður á Vestmannaeyjaradíói og gegnt því starfi með mikilli prýði og við almennar vinsældir. Var Jóni veitt heiðursskjal Sjornannadagsráðs Vestmannaeyja árið 1971 fyrir vel unnin störf í þágu sjómanna.

Jón er fæddur í Vestmannaeyjum 28. ágást 1909 og voru foreldrar hans Stefán Ólafsson í Fagurhól, sem var þekktur sjómaður í Eyjum og stundaði héðan sjó í 50 ár, og Guðrún S. Jónsdóttir, ættuð úr Mýrdal. Afi hennar var Guðmundur Eyjólfsson í Eyjarhólum, einn kunnasti sjósóknari hér við suðurströndina á öldinni sem leið; formaður á áraskipinu Pétursey, sem varðveitt er í safninu í Skógum. Góð lýsing á sjósókn Guðmundar á Pétursey er í bókinni „Pabbi og mamma" eftir son hans Eyjólf bónda á Hvoli.

Jón Stefánsson er einn af kunnustu hagyrðingum í Vestmannaeyjum á seinni tíð og hafa stökur hans og lausavísur mörgum skemmt. Einnig má hér nefna ágæta bitavísu eftir hann um Ísleif VE 63. Þá birtist hér skemmtileg frásögn af liðinni tíð, sem margir „Eyjapeyjar" munu kannast vel við. En hér fyrrum, þegar allir vélbátar lágu við festar úti á Botni, fylgdi hverjum bát skjöktbátur eins og árabátarnir voru almennt kallaðir. Hjá strákum í Eyjum komst þá fátt eða ekkert í samanburð við að ,,fara útá" sem kallað var, en það voru stuttar róðrarferðir um Botninn og Víkina og komið gat það fyrir að farið væri allt austur að Bjarnarey.

Þetta tíðkaðist fram yfir 1950. Á styrjaldarárunum síðari lágu hér tugir skipa, sem biðu lestunar á ísvörðum fiski fyrir Englandsmarkað. Flest skipanna voru færeyskar skátur, sem lágu í röðum við festar úti á Botni og biðu afgreiðslu, og hafði hver skúta sinn léttbát til að skipsmenn kæmust í land. Var því oft leitað til Færeyinga um lán á bát og voru þeir drengjunum sérstaklega liðlegir og hjálplegir.

Þetta var strákum góður skóli og skemmtun, en ef til vill hafa mæður og feður ekki ávallt verið jafn róleg og ánægð, þegar synir þeirra voru á litlum árabátum í misjöfnu veðri úti á Vík eða lágu í hafnarmynninu í miklum brimum til að fá sem stærsta sjói og ólög til átaka.

Skírdags „róður".

Á æskuárum mínum vorum við mikið saman 3 strákar, Gaui í Sjólyst, Skarpi (Skarphéðinn) í Valhöll og Nonni í Fagurhól (undirritaður), en þá voru yfirleitt allir kenndir við það hús, er þeir áttu heima í. Pabbi Skarpa, Ágúst Gíslason í Valhöll, átti lítinn og liðlegan árabát, sem hét Kópur, var hann venjulega í hrófinu norðan Strandvegar, hjá Litlabæ og Strandbergi. Við máttum alltaf taka Kóp þegar okkur langaði útá, en það var okkar aðalskemmtun, þegar gott var veður. Það sem nú skal sagt frá gerðist um 1920, kannski skakkar hér um eitt eða tvö ár til eða frá. Ártöl voru nú mín veikasta hlið í barnaskólanum, hvenær þessi eða hinn kóngurinn eða keisarinn var fæddur eða hvenær þessi eða hin orustan var háð einhverstaðar úti í löndum, það mundi ég aldrei enda fannst mér engin þörf að muna slíkt.

Skírdagur rann upp sólbjartur og fagur. Mamma hafði setið við fram á nætur að sauma á mig jakkaföt fyrir páskana. Var ég æði montinn, er ég gekk út í sólskinið í þessum fínu fötum mínum. Ekki leið á löngu fyrr en við félagarnir vorum allir saman komnir og allir einhuga um að útáferð mætti ekki sleppa í þessari blíðu. Var nú Kópur settur á flot og róið út á Botn og undir Löngu. Sáum við þá hvar enskur togari lá skammt fyrir utan hafnargarða. Var mikið fuglager við togarann og auðséð að þeir stóðu í aðgerð, en það kom stundum fyrir að breskir togarar lögðust hér á ytri höfnina með fullt dekk af fiski og gerðu þar að aflanum í rólegheitum. Við vissum að bretarnir hentu lifrinni og sumum fisktegundum, svo að okkur kom til hugar, að við gætum fengið þarna lifur og fisk, unnið okkur inn mikla peninga. Við rerum því að togaranum sem var með fullt dekk af fiski. Einhvern veginn gátum við gert þeim skiljanlegt, að við vildum, að þeir hentu lifrinni niður í bátinn okkar, hvað þeir gerðu góðflíslega, - en sá böggull fylgdi, að slorið kom líka. Urðum við nú að láta hendur standa fram úr ermum og hamast við að slíta lifrina frá slorinu og henda því fyrir borð. Af þessu leiddi að mest af lifrinni og slorinu lenti beint á okkur, er það kom fljúgandi yfir borðstokk togarans, og urðum við fljótt allir slorugir upp fyrir haus. Ekki var verið að fást um það. Við vorum hér að vinna okkur inn mikla peninga og hvað gerðu þá til nokkrar slorslettur? Við fengum svo bátinn nær hlaðinn af lifur og eitt rúmið af fisk og rerum nú harla glaðir í land. Þegar að Bæjarbryggjunni kom, var þar Ágúst í Valhöll, hrósaði hann okkur fyrir dugnaðinn og sagðist skyldi sjá um að koma aflanum í verð. Er „löndun" var lokið fórum við og settum Kóp og fór svo hver heim til sín harla glaður yfir góðum afla.

Á leiðinni heim var ég að reikna út hvað væri nú hægt að gera við alla þessa peninga, en allt í einu mundi ég eftir nokkru og ánægjan yfir aflanum hvarf eins og dögg fyrir sólu. Nú mundi ég fyrst eftir, að ég var í nýju, fínu fötunum mínum. Þeim hafði ég alveg gleymt, fötunum sem hún mamma mín hafði haft svo mikið fyrir að sauma á mig, svo að ég gæti verið í nýjum og fallegum fötum á páskunum. Hvernig gat ég gleymt þeim? Ég, sem hafði verið svo hreykinn yfir að vera í svona fínum fötum, ég hafði aldrei átt svona fín föt fyrr og nú voru þau öll útötuð í lifur og slori. Það var því ekki montinn né mikillátur strákur, sem kom inn í eldhúsið í Fagurhólskjallaranum, heldur dapur og skömmustulegur. Mamma starði þegjandi á mig góða stund, hefur líklega ekki átt orð yfir útganginum á stráknum sínum, svo lét hún mig hafa fataskipti og þvo mér um höfuðið, því að hárið var allt atað slori og lifur. Þegar þessu var að ljúka kom Ágúst með minn aflahlut. Ekki man ég hve hár hann var, en minnir það hafi verið milli tíu og fimmtán krónur, sem ég fékk eftir að Ágúst hafði tekið hlut fyrir bátinn. Þótti mér þetta miklir peningar og tók ég nú að mestu gleði mína aftur. Það var sannarlega gaman að geta látið mömmu fá svona stóra peningaupphæð.

Vísnaþáttur

Í nokkur ár sendi Jón alltaf eina vísu sem sumarkveðju til sjómanna á sumardaginn fyrsta. Hér er ein, sem hann sendi fyrir nokkrum árum:

Nú er vetrarveldi fallið,
vorið faðmar land og sjó.
Vinum þakkar vetrarspjallið
Vestmannaeyjaradíó.

Framar af liðnum vetri voru veður hörð og landlegur vikum saman. Kunnu því margir illa að fá ekki fisk í soðið.
Þá kom þetta upp í hugann eina óveðursnóttina:

Í Eyjum er bæði regn og rok,
Reiður mun okkur Drottinn.
Ekki fæst nokkurt lúðulok
sem látandi er í pottinn.

Ýsu, skötu og þorskinn þraut,
þar með löngubrýni.
Menn háma nú í sig hafrargraut
og hella útá brennivíni.

En allt tekur enda, og illviðrin líka:

Leiðinda tíðin lagast þó,
lýður því verður feginn.
Bátarnir út um allan sjó
elta nú fiskagreyin.

Leggja fyrir þá nót og net,
nægtir á þilfar draga.
Síðan hrogn ég aðeins et,
ýsu og lifrarmaga.

Það kom eitt sinn fyrir, sem ekki mun títt, að skip hafði kallað í Vestmannaeyjaradíó án árangurs. Þegar samband náðist var spurt um ástæðu þessa óvenjulega seinlætis.
Þá svaraði Jón:

Enginn hér þó anzi þér
ei skal verða hissa.
Það við ber að bregð ég mér
burt og fer að pissa.

Skömmu eftir að Surtsey reis úr öldu hafsins var mikið þjark um nafn á eyjunni.
Örnefnanefnd hafði óvænt tekið af skarið og skírt eyjuna Surtsey, en Surtur var sem kunnugt er eldjötunn í norrænni goðafræði, þ.e.a.s. réð ríkjum í hitanum neðra. Um þetta kvað Jón:

Nefndin var ei lengi að leita
lausnar á vandanum.
Bara lætur hana heita
í hausinn á fjandanum.

Eftir langa óveðursnótt á Vestmannaeyjaradíó kvað Jón:

Nú er vaktin loksins liðin,
löng var eftir degi biðin
þessa byls og brælu nótt.
Á krókinn hengi ég kjaftatólið,
kem mér heim og fer í bólið,
sjálfsagt mun ég sofna fljótt.

Hafsteinn Stefánsson, kunnur hagyrðingur, var stýrimaður á Andvara KE, sem hefur kallmerkið TFMZ. Jón og Hafsteinn göntuðust oft í bundnu máli, bæði á skemmtunum og á öldum ljósvakans.
Eitt sinn hafði Hafsteinn eitthvað verið glettast við Jón í talstöðina og svaraði þá Jón:

Stýrimannsins starf og geta
stundum birtist allavega.
Mér finnst þessi á Magnús Zeta,
munninn brúka rækilega.

Eitt sinn bar á geimferðir góma, þá kvað Jón:

Mér finnst þessi á Magnús Zeta,
að ferðast um geiminn á vélarkrafti,
því galdrakerling í gamla daga
gerði þetta á kústaskafli.

Það gæti verið skemmtilegt að halda saman stökum og kviðlingum, sem kastað er fram í dagsins önn til skemmtunar og tilbreytingar, en oft felst í þeim mikill „húmor" og gamansemi. Mætti birta þá í blaðinu á hverju ári. Er grunur minn sá, að margir sjómenn lumi á vísum. Ættu menn þessir nú að bregða við og senda Sjómannadagsblaðinu vísur.
Um sumarmálin 1969 kvað Jón til sjómanna:

Hlýjar flytur hugur minn
heillakveðjur vítt um sjó,
vel svo þakkar veturinn
Vestmannaeyjaradíó.