Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1975/Úr syrpu Jóns Stefánssonar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Úr syrpu Jóns Stefánssonar


Jón Stefánsson

Jón Stefánsson vaktmaður á Vestmannaeyjaradíói (TFV), er sjómönnum að öllu góðu kunnur. Hann hefur sl. 15 ár verið hlustvörður á Vestmannaeyjaradíói og gegnt því starfi með mikilli prýði og við almennar vinsældir. Var Jóni veitt heiðursskjal Sjornannadagsráðs Vestmannaeyja árið 1971 fyrir vel unnin störf í þágu sjómanna.

Jón er fæddur í Vestmannaeyjum 28. ágást 1909 og voru foreldrar hans Stefán Ólafsson í Fagurhól, sem var þekktur sjómaður í Eyjum og stundaði héðan sjó í 50 ár, og Guðrún S. Jónsdóttir, ættuð úr Mýrdal. Afi hennar var Guðmundur Eyjólfsson í Eyjarhólum, einn kunnasti sjósóknari hér við suðurströndina á öldinni sem leið; formaður á áraskipinu Pétursey, sem varðveitt er í safninu í Skógum. Góð lýsing á sjósókn Guðmundar á Pétursey er í bókinni „Pabbi og mamma" eftir son hans Eyjólf bónda á Hvoli.

Jón Stefánsson er einn af kunnustu hagyrðingum í Vestmannaeyjum á seinni tíð og hafa stökur hans og lausavísur mörgum skemmt. Einnig má hér nefna ágæta bitavísu eftir hann um Ísleif VE 63. Þá birtist hér skemmtileg frásögn af liðinni tíð, sem margir „Eyjapeyjar" munu kannast vel við. En hér fyrrum, þegar allir vélbátar lágu við festar úti á Botni, fylgdi hverjum bát skjöktbátur eins og árabátarnir voru almennt kallaðir. Hjá strákum í Eyjum komst þá fátt eða ekkert í samanburð við að ,,fara útá" sem kallað var, en það voru stuttar róðrarferðir um Botninn og Víkina og komið gat það fyrir að farið væri allt austur að Bjarnarey.

Þetta tíðkaðist fram yfir 1950. Á styrjaldarárunum síðari lágu hér tugir skipa, sem biðu lestunar á ísvörðum fiski fyrir Englandsmarkað. Flest skipanna voru færeyskar skátur, sem lágu í röðum við festar úti á Botni og biðu afgreiðslu, og hafði hver skúta sinn léttbát til að skipsmenn kæmust í land. Var því oft leitað til Færeyinga um lán á bát og voru þeir drengjunum sérstaklega liðlegir og hjálplegir.

Þetta var strákum góður skóli og skemmtun, en ef til vill hafa mæður og feður ekki ávallt verið jafn róleg og ánægð, þegar synir þeirra voru á litlum árabátum í misjöfnu veðri úti á Vík eða lágu í hafnarmynninu í miklum brimum til að fá sem stærsta sjói og ólög til átaka.