Stefán Stefánsson prestur

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Sr. Stefán Stefánsson prestur á Kirkjubæ fæddist 1792 á Stóru-Völlum á Landi og lést 5. desember 1845.
Foreldrar hans voru sr. Stefán Þorsteinsson prestur á Stóra-Núpi í Gnúpverjahreppi, f. 17. maí 1762, d. 4. júlí 1834, og fyrri kona hans Guðný Þorláksdóttir húsfreyja, f. 14. maí 1755, d. 21. desember 1814.

Stefán lærði hjá sr. Þorvaldi Böðvarssyni 2 vetur, síðan hjá Steingrími Jónssyni síðar biskupi og varð stúdent frá honum úr heimaskóla 1814.
Hann vígðist 1817 aðstoðarprestur sr. Bjarnhéðins Guðmundssonar á Kirkjubæ og mun hafa gegnt skamma stund, því að sr. Páll Jónsson varð aðstoðarprestur sr. Bjarnhéðins 1818, var kominn að Búastöðum á því ári. Þá var Stefán aðstoðarprestur sr. Einars Þorleifssonar í Guttormshaga í Holtum til ársins 1823, er sr. Einar lét af prestskap. 1824 fékk Stefán Reynisþing í Mýrdal og bjó á Heiði, fékk Sólheimaþing 1838, sat að Felli og hélt til dd. 1845.

Kona Stefáns, (1817), var Kristín Ólafsdóttir húsfreyja, f. 1800, d. 18. nóvember 1890. Hún varð síðar kona Ófeigs Vigfússonar á Fjalli á Skeiðum.
Börn þeirra, sem komust upp:
1. Ólafur Stefánsson bóndi á Fjalli á Skeiðum.
2. Guðný Stefánsdóttir húsfreyja í Kaldaðarnesi, kona Einars Ingimundarsonar umboðsmanns.
3. Sigríður Stefánsdóttir húsfreyja, var tvúgift, fyrr gift Jóni Sigurðssyni frá Arnarbæli, síðar gift Bjarna Ögmundssyni frá Oddgeirshólum.
4. Valgerður Stefánsdóttir, ógift, dó 23 ára.
5. Gróa Stefánsdóttir húsfreyja í Efsta-Dal í Grímsnesi, kona Bjarna Guðmundssonar bónda.
6. Elín Stefánsdóttir húsfreyja í Tungu í Grafningi, kona Ólafs Þorsteinssonar bónda. Þau fóru til Vesturheims.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.