Stefán Nikulásson (Varmadal)

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
Stefán Nikulásson.

Stefán Nikulásson frá Gíslakoti í Holtum, sjómaður, stýrimaður fæddist 6. júlí 1913, d. 7. ágúst 2001.
Foreldrar hans voru Nikulás bóndi í Gíslakoti í Ásahreppi, Rang., síðar formaður í Bræðraborg á Stokkseyri, f. 9. ágúst 1885 í Bergshúsi í Grindavík, d. 23. október 1953, Bjarna formanns á Stokkseyri, Nikulássonar, og kona Nikulásar, Filippía húsfreyja, f. 5. nóvember 1876 í Lindarbæ í Ásahreppi, d. 14. janúar 1930, Gestsdóttir frá Vetleifsholtsparti, Stefánssonar.

Börn Filippíu og Nikulásar í Eyjum voru:
1. Stefán Nikulásson sjómaður, stýrimaður, skipstjóri síðar þingvörður, f. 6. júlí 1913, d. 7. ágúst 2001.
2. Sigríður Nikulásdóttir húsfreyja, f. 18. júlí 1914, d. 15. maí 1973.

Stefán var með foreldrum sínum í æsku, í Gíslakoti, í Unhól á Stokkseyri og með föður sínum í Bræðraborg þar 1938.
Stefán lauk fiskimannaprófi í Eyjum 1939 og farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum 1947.
Hann var sjómaður á opnum bátum og mótorbátum frá Stokkseyri, var í Eyjum frá 1928-1945. Frá 1942-1945 var hann á e.s. Sæfelli og fleiri skipum í fiskflutningum. Frá 1947 var hann lengst stýrimaður og skipstjóri á varðskipum og strandferðaskipum Ríkisins eða þar til hann lét af störfum þar árið 1971.
Þá kenndi hann sjóvinnu við Víghólaskóla í nokkur ár.
Árið 1974 varð hann þingvörður hjá Alþingi og gegndi því starfi til ársins 1985.
Þau Guðbjörg Halldóra bjuggu í Varmadal 1940 með nýfæddan son sinn Tryggva og 1943 með dóttur sína Ingunni. Þau slitu samvistir 1944.
Stefán leigði hjá Sigríði systur sinni í Höfða við Hásteinsveg 21 1945, en var farinn úr Eyjum 1946.
Þau Þuríður giftu sig 1946, bjuggu í Meltröð 2 í Kópavogi. Þau voru barnlaus.
Þuríður lést 1988. Stefán bjó síðustu ár sín í Hamraborg 32 í Kópavogi. Hann lést 2001.

I. Sambúðarkona Stefáns var Guðbjörg Halldóra Sveinsdóttir frá Neskaupstað, f. 5. febrúar 1916, d. 14. apríl 1992.
Börn þeirra:
1. Tryggvi Stefánsson, f. 10. júlí 1940 í Varmadal, d. 17. janúar 1941.
2. Ingunn Stefánsdóttir húsfreyja, f. 10. desember 1941. Fyrrum maður hennar Ingvi Jón Einarsson.

II. Kona Stefáns, (1946), var Þuríður Bárðardóttir frá Þykkvabæjarklaustri, húsfreyja, f. 25. nóvember 1913, d. 20. júní 1988.
Þau voru barnlaus.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Holtamannabók II – Ásahreppur. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjórn: Ragnar Böðvarsson. Ásahreppur 2007.
  • Íslendingabók.is.
  • Morgunblaðið 15. ágúst 2001. Minning.
  • Prestþjónustubækur.
  • Skipstjóra- og stýrimannatal. Guðmundur Jakobsson. Ægisútgáfan 1979.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.