Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Með m.b. Sídon til síldveiða
Með mb. Sídon til síldveiða<
Sumarið 1947 hélt mb. Sídon til síldveiða fyrir Norðurlandi. Á þeim árum var algengt að ungir piltar fengju skipsrúm og þannig hagaði til á mb. Sídon þetta sumar. Við vorum ekki færri en átta peyjar á aldrinum 16-20 ára sem fengum skráningu á skipið. Þetta þótti mikil upphefð að vera talinn fullgildur háseti í fyrsta úthaldi flestra okkar. Skipstjóri var Angantýr Elíasson, stýrimaður Hafsteinn Stefánsson, sem gat kastað fram stöku á augabragði, vélstjórar voru Árni Sigurjónsson og Sigurður Ögmundsson. Matsveinninn var nánast þjóðsagnarpersóna, Guðmundur Angantýsson, sem kallaður var Lási kokkur. Alls voru sextán manns í áhöfninni.
Í byrjun júlí héldum við af stað frá Eyjum og var förinni heitið til Reykjavíkur. Þar var dvalið skamma hríð og haldið síðan áleiðis til Siglufjarðar. Á leiðinni hrepptum við norðaustan hvassviðri og gekk ferðin seint. Veðrið fór versnandi og um tíma leituðum við vars undir Hornbjargi. Ekki var viðlit að reyna matseld á leiðinni. Hafsteinn stýrimaður brá á það ráð að opna matarkistuna sem var uppi á stýrihúsi. Þar náði hann í egg sem menn supu, ef þeir þá komu nokkru niður fyrir sjóveiki. Eftir rúmlega fjörtíu tíma komum við loks til Siglufjarðar. Lási tók strax til hendinni og gaf okkur gott að borða. Allt iðaði af lífi í firðinum. Skip frá mörgum þjóðum voru komin til að taka þátt í kapphlaupinu um silfur hafsins. Við byrjuðum strax að gera allt klárt fyrir veiðarnar og fljótlega fréttist af síld á Grímseyjarsundi. Veiðin byrjaði vel og við héldum inn til Siglufjarðar til löndunar. Á þessum tíma var eingöngu kastað á vaðandi torfur því engin voru fiskileitartækin eins og nú. Nótinni var komið fyrir í tveim nótabátum sem hafðir voru við stjórnborðssíðu skipsins. Svokallaður síðuslefari var festur við bóg skipsins og tengdur við nótabátana. Þegar kastað var sigldi skipið á fullri ferð að torfunni og um leið og nótin átti að fara var togað í „sleppara" þannig að nótabátarnir voru komnir á gott skrið þegar þeir losnuðu frá skipinu. Þá var gripið til áranna og bátunum róið þar til hringnum var lokað. Síðan var byrjað að „snurpa". Seinna komu svo vélar í nótabátana.
Það var mikið líf og fjör þegar landað var í salt. Allir á spani. Stúlkurnar kölluðu á salt og tunnur. „Taka frá", „Meira salt", „Brýndu fyrir mig, elskan". Þetta var ævintýri líkast. Okkur gekk ágætlega að fiska og reynt var að landa sem mestu í salt.
Lási var, eins og áður er getið, orðinn nánast þjóðsagnarpersóna. Hann gat reiðst ofsalega en það var fljótt úr honum aftur. Meira ljúfmenni var ekki að finna, að öllu jöfnu. Stundum átti hann til að gleyma því á stundinni sem var lögð rík áhersla á að hann festi í minni. T.d. þegar við fjórir saman ætluðum í verslun eina. Afgreiðslumaðurinn hafði hlotið viðurnefnið „þjófur". Á leiðinni í búðina var Lási rækilega minntur á að nefna ekki þjófsnafnið.
Hann sagðist ekki einu sinni láta sér detta það í hug. Er inn í búðina kom buðu menn góðan daginn. En Lási sagði: „Góðan daginn, þjófabófi minn."
Einn morguninn létum við reka við Grímsey. Sumir renndu fyrir fisk í góða veðrinu. „Taktu aðeins við færinu" sagði einn félagi minn. Ég tók við færinu en engin viðbrögð voru til að byrja með. Allt í einu strekkti a færinu og það tók vel í. Ég byrjaði að draga inn garnið. En fljótlega varð allt slakt aftur. Mig fór að gruna að potthlemmur væri bundinn við færið. Það var algeng aðferð að plata óvaninga með því að binda potthlemm á færið og láta þá svo taka við. Þegar potthlemmurinn fór upp á rönd var færið létt en færi hann þvert fyrir þyngdist drátturinn verulega. Ég ákvað samt að draga færið áfram upp og láta menn hlæja ef hlemmurinn væri á færinu. En það var þá þessi væna lúða sem birtist í vatnsskorpunni. Hún var innbyrð við mikil fagnaðarlæti.
Lási var að undirbúa hádegismatinn og stóð við borðið í lúkarnum. „Skerlettið" var opið og það hljóp einhver galsi í mannskapinn. Ég tók í haus og sporð á lúðunni og læddi henni í gegnum opið. Hún kom flöt niður á borðið, hentist upp aftur, sprelllifandi og skaust beint í brjóstið á Lása og niður á gólf. Hann átti sér einskis ills von og rak upp ógurlegt öskur. Greip hann því næst búrhnífinn, beygði sig niður og rak hann í hausinn á lúðunni aftur og aftur. Um leið dansaði hann eins konar stríðsdans kringum lúðuna. Hann var mjög reiður. En í hádegismat fengum við lúðusúpu. Veiðin dugði vel handa sextán manns.
Á miðju úthaldi missti Lási pott með sjóðandi vatni ofan á fæturna. Hann brenndist nokkuð illa og var fluttur í land. Á meðan tóku tveir ungir hásetar að sér eldamennskuna. Lási var frá í viku. Er hann byrjaði að kokka aftur fór einhver að gantast með að það hefði verið fínn matur hjá strákunum.
Einhver munur eða núna!
Eftir yndislegt sumar hlökkuðu allir til að koma heim. Ég hafði kynnst góðum félögum og farið í fyrsta sinn til sjós.
Lási vinur okkar var „karakter" sem seint líður úr minni. Mörgum árum seinna hitti ég hann í Þórskaffi. Ég var að spila í hljómsveit og hann vann þar við ýmis störf. Þegar hann sá mig fyrst setti hann höndina á öxl mér, brosti sínu breiðasta og sagði:
„Nei, sæll elsku vinur, gaman að sjá þig aftur!"
Sigurður Guðmundsson frá Háeyri