Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1990/Grjótgarðarnir í Hrauninu
Grjótgarðarnir í Hrauninu
Eitt af því sem aðkomumenn reka augun í hér í Eyjum og spyrja oft um, eru grjótgarðarnir miklu vestur í hrauni. Nú eru þeir farnir að týna tölunni, bæði hefur verið gengið á þá vegna húsbygginga og eins fór mikið af þessum mannvirkjum undir vikur í gosinu þegar sléttað var úr landslaginu þar vestur frá . Einn þeirra sem unnu að hleðslu þessara garða, er Óskar Vigfússon frá Hálsi og varð hann fúslega við þeirri beiðni að rifja upp nokkur minningabrot frá þeim tíma.
Óskar er fæddur í Reykjavík 25. maí 1910. Hingað til Eyja kom hann í janúar 1939 á vertíð sem háseti á m/b Drífu sem síðar strandaði við Hringskersgarðinn. En Óskar fór ekki frá Eyjum, heldur settist hér að, kvæntist Guðrúnu Björnsdóttur og hér hafa þau búið síðan. Á haustin var oft lítið um vinnu hér, dauður tími frá því að menn komu heim af sfldarvertíð og fram á vetrarvertíð. Helst að einhver snöp væru við uppskipun en ekki allir sem fengu vinnu við slíkt. Og því var víða þröngt í búi, einkum ef síldarúthaldið hafði verið rýrt. En haustið 1939 fékk Óskar vinnu við að hlaða grjótgarða vestur af Brekkuhúsi, nálægt hamrinum. Ekki var hann þó einn við þennan starfa, með honum unnu þeir Sigurfinnur Einarsson frá Fagradal og einnig nokkurn tíma Sveinn Magnússon frá Lyngbergi, nú smíðakennari við Barnaskólann. Sá sem átti stykkið sem girða átti, var Ágúst Bjarnason frá Svalbarði og hann greiddi kaupið. Við þetta var unnið í ákvæðisvinnu átta tíma á dag og þótti góð búbót enda þröngt í búi. Nokkru norðar í hrauninu voru fyrir eldri garðar sem hlaðnir höfðu verið utan um nýræktartún. Algengt var að sjómenn væru sendir til þess starfa þegar ekki gaf á sjó og eins var það til að landmenn væru sendir í hleðslu, væri stund milli stríða í fiski. Það mun þó ekki hafa verið algengt. En á þessum tímum höfðu menn fast mánaðarkaup og vinnuveitandinn reyndi að fá sem mest út úr vinnukraftinum.
Þessir garðar, sem Óskar og félagar hans voru að hlaða haustið 1939 voru ekki hugsaðir sem girðingar utan um nýrækt. Þarna var mikið af kálgörðum og áttu þessir garðar að varna því að skepnur færu í garðana. Þetta var kaldsöm vinna og erfið. Grjótið rifu þeir upp úr jörðinni í hrauninu og báru það á handbörum að hleðslustað. Þar voru síðan hlaðnir axlarháir garðar. Ekki var notað sérstaklega valið grjót, heldur allt notað, smágrýti haft í miðjunni en stærra grjótið utan á.
Óskar segir að garðarnir sem voru norðar (í svonefndu Aðventistastykki) hafi verið öllu vandaðri enda valið í þá grjótið. Þá var grjótið ekki heldur höggvið til heldur reynt að láta það falla sem best í hleðsluna eins og það kom fyrir. En ég held að við höfum unnið fyrir kaupinu okkar, sagði Óskar. Við hömuðumst eins og vitlausir menn við þetta, guðsfegnir að hafa þessa vinnu. Menn máttu þakka fyrir að hafa eitthvað að gera. Á vertíðum var þrældómurinn enn meiri, unnið laugardaga og sunnudaga ef þurfti. Einu sinni komst ég upp í 28 tíma törn á vertíð, áður en ég fékk að halla mér, segir Óskar ennfremur.
Í dag stendur lítið orðið eftir af görðunum sem þeir þremenningar hlóðu á þremur mánuðum haustið 1939. En full ástæða er til þess að hvetja bæjaryfirvöld til að sýna sóma þeim görðum sem enn standa frá þessu tímabili og halda þeim við. Þeir eru hluti af atvinnusögu þessa byggðarlags.