Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2010/Andrés Gestsson, minning

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
ARNÞÓR HELGASON


Andrés Gestsson
- Minning -



Föstudaginn 26. júní á síðasta ári lést í Reykjavík Andrés Gestsson frá Pálshúsum á Stokkseyri, en hann fæddist þar 20. júlí árið 1917. Foreldrar hans voru hjónin Gestur Sigurðsson frá Stokkseyri og Guðríður Guðlaugsdóttir, húsmóðir, fædd í Reykjavík en alin upp í Hellisholtum í Hrunamannahreppi. Andrés var yngstur 7 systkina. Þar af var ein hálfsystir.
Andrés ólst upp í foreldrahúsum. Faðir hans var ófær um að stunda vinnu frá því að Andrés var barn að aldri og var því fátæktin fylgikona fjölskyldunnar eins og títt var hér á landi um þær mundir. Þetta var fyrir tíma almannatrygginga og aðstoð hins opinbera næsta lítil.
Sumarið sem Andrés varð 8 ára fór hann í sveit ásamt móður sinni og tveimur bræðrum, en hún var kaupakona að Kálfhóli. Næstu tvö sumur var hann í sveit og fékk lamb að launum. Honum leiddist sveitastörfin enda átti sjórinn hug hans allan. Hann létti undir með heimilinu með ýmsum viðvikum og vitað er til þess að hann vann ýmis verk á vetrarvertíð á Stokkseyri frá 10 ára aldri.

Andrés Gestsson

Til Vestmannaeyja
Þegar Andrés var á 15. ári fór hann í fyrsta sinn á vertíð í Vestmannaeyjum. Var hann fyrsta veturinn beitumaður á vélbátnum Fræg.
Árið eftir fórst Frægur. Báturinn varð vélarvana og var þá gripið til þess ráðs að setja upp segl og sigldu þeir gegnum flotann, eins og Andrés orðaði það. Héldu menn að verið væri að sigla á milli trossa en það var víst sjaldan gert.
Enskur togari kom áhöfninni til hjálpar og tók Fræg í tog. Þegar komið var upp undir Eyjar sökk báturinn en skipverjum var bjargað um borð í togarann.
Andrés vann á sumrin við hvað eina sem fékkst - var kaupamaður, vann í vegavinnu og tók til hendinni við húsasmíðar o.fl. enda handlaginn og velvirkur.
Árið 1939 settist Andrés að í Vestmannaeyjum og kvæntist þar ungri Eyjakonu, Sigríði Jónsdóttur. Eignuðust þau tvö börn. Ester Guðríði, f. 1941 og Birgi, f. 1955. Ester settist að í Bandaríkjunum, stofnaði þar fjölskyldu og lést þar fyrir rúmum tveimur áratugum. Birgir, sem var þekktur myndlistarmaður, lést árið 2007.
Andrés stundaði sjó fram að þjóðhátíðinni 1943. Var hann lengst á Skaftfellingi VE 33 og Helga VE 333. Þetta voru miklir hættutímar. Helgi og Skaftfellingur sigldu á milli Fleetwood og Vestmannaeyja með ísfisk allt stríðið og háðu skipverjar marga hildina við Ægi konung.

Líkkisturnar á þilfari Fróða við komuna til Reykjavíkur

Árásin á Fróða
Andrési voru stríðsárin hugleikin og sagði iðulega frá atburðum sem urðu þá. Er því eðlilegt að þeim séu gerð skil í þessari grein.
Ýmsir sjómenn, sem voru á Skaftfellingi, höfðu orð á því að einhver verndarvættur væri um borð sem forðaði skipinu og áhöfn þess frá óhöppum. Ein sagan segir að um borð í Skaftfellingi séu þrír prestar sem haldi verndarhendi yfir skipinu og Andrés sagði oft að Skafti hefði farið sínar eigin leiðir.
Hinn 17. mars árið 1941 varð línuveiðarinn Fróði fyrir árás þýsks kafbáts. Létust 5 skipverjar af sárum sínum. Skaftfellingur og Fróði höfðu farið samtímis frá Vestmannaeyjum og haft samflot. En skömmu eftir að farið var frá Eyjum tók vél Skaftfellings að hita sig svo mjög að skipið missti gang og gekk ekki nema 1 - 3 mílur á klst. Skildi því með skipunum. Í Skaftfellingi var þá 96 hestafla Alfa glóðarhausvél og gekk hann venjulega um 7 sjómílur á klst. Í þessari ferð var Ásgeir M. Ásgeirsson skipstjóri og Páll Þorbjörnsson stýrimaður.
Skaftfellingur sigldi fram á Fróða um kl. 20 að kvöldi 17. mars. Blasti þá við skipverjum hörmuleg sjón. Skipið allt sundurskotið og flestir skipverjar annaðhvort látnir eða helsærðir. Ásgeir M. Ásgeirsson tók þá ákvörðun að rjúfa innsigli talstöðvar Skaftfellings og sendi skeyti um árásina. Vakti það mikinn óhug og var norskt skip sent Fróða til aðstoðar. En skipin fóru á mis og sigldi Fróði aðstoðarlaust til Vestmannaeyja.
Vegna þess hve illt var í sjóinn treystist Ásgeir ekki til þess að senda menn úr Skaftfellingi yfir í Fróða áhöfninni til aðstoðar. Skipverjar Skaftfellings aðgættu hvort kompásinn á Fróða væri rétt stilltur og sigldu um stund í humátt á eftir línuveiðaranum. En vegna vélarbilunarinnar töldu þeir að þeir myndu tefja þá Fróða-menn og sneru því aftur áleiðis til Fleetwood.
Skömmu eftir að skipin skildu komst vélin í lag og Skaftfellingur gekk sem aldrei fyrr. Taldi Andrés að sömu örlög hefðu beðið áhafnarinnar á Skaftfellingi ef æðri máttarvöld hefðu ekki gripið til sinna ráða.

Björgun áhafnar þýsks kafbáts
Skömmu eftir miðnætti aðfaranótt 19. ágúst 1942 lagði Skaftfellingur úr höfn í Vestmannaeyjum áleiðis til Fleetwood. Skipstjóri var Páll Þorbjörnsson. Fátt bar til tíðinda fyrsta sólarhringinn. Vindur var austanstæður og hálfgerð bræla.
Klukkan 4 eftir miðnætti að morgni 20. ágúst áttu þeir vakt, Páll Þorbjörnsson og Andrés Gestsson. Kom þá bresk eða bandarísk flugvél yfir skipið í tvígang og gaf morse-merki. Andrés lét Pál þegar vita en þeim tókst ekki að lesa úr merkjum vélarinnar. Þeim bar þó saman um að sennilega væri verið að gera áhöfninni viðvart um eitthvað.
Skömmu síðar sáu þeir framundan á stjórnborða eitthvað sem gat verið björgunarbátur með þversegli. Þó virtist þeim þegar nær dró að svo gæti ekki verið því að báturinn virtist stinga sér í ölduna. Brátt kom í ljós að um kafbát var að ræða og var turninn það sem þeim hafði virst vera segl. Kafbáturinn sigldi þvert á stefnu Skaftfellings á kulborða og veifuðu skipverjar til Skaftfellingsmanna með rauðum fána. Andrési Gestssyni sagðist svo frá:

Skaftfellingur siglir til hafnar í Vestmannaeyjum 1944.

„Áður en hann kemur á kulborða þá sendir Páll mig niður og biður mig að ræsa strákana út. Ég fer niður og segi strákunum að þeir eigi að koma upp. En þeir héldu að það væri eitthvað verið að brasa í seglum og voru ekkert að flýta sér sérstaklega - nema þegar ég kem upp aftur er hann að komast á kul við okkur á bakborða. Þá er maður fyrir framan turninn. Þar var lítil fallbyssa og okkur virðist hann vera eitthvað að fikta við hana. Okkur fannst hálfótrúlegt að hann færi að eyða á okkur jafndýrmætum skotum og þar væri að geyma. En við sáum ekki hvaðan kafbáturinn var því að það var ekkert merki á honum.
Nú, við lónuðum á kulborða við hann eða hringinn í kringum hann. Páll bað mig að fara fram á hvalbak og taka niður fokku sem var uppi hjá okkur. Ég gerði það og þegar ég var kominn fram á hvalbak þá komu strákarnir upp í stýrishúsið og það fyrsta sem blasti við var kafbátur. Það var náttúrlega ekki skemmtileg sjón að sjá hann við hliðina á Skaftfellingi. Þegar við komumst á kul við hann sáum við að hann hallaði á stjórnborða og dekkið framan við turninn var tætt í sundur alveg á milli borða.
Okkur kom saman um að þeir vildu komast yfir til okkar um borð í Skaftfelling. Og þá var að reyna að ná þeim yfir. Við vorum með björgunarfleka sem átti að halda uppi 10-12 manns sem héngu utan í honum. Hann var ekki nema metri á lengd og breidd. Svo vorum við með sporöskjulagaðan fleka. Í honum var matarforði, árar og ýmislegt fleira.
Við reyndum fyrst að láta litla flekann reka yfir í kafbátinn og bundum við hann enda á tógrúllu sem var 120 faðma löng. En flekinn lenti framan við kafbátinn. Þegar við fórum að keyra aðeins á til þess að fá flekann á rétta stefnu losnaði hnúturinn og flekinn var þar með laus. Þá stakk einn upp á því að fara á sporöskjulagaða flekanum á milli en hafa tógið úr Skaftfellingi í flekann. En stýrimaður bað þennan mann að nefna þetta ekki við Pál því að sá sem reyndi þetta yrði örugglega skotinn á miðri leið.
Þá fórum við á hlé við kafbátinn og reyndum að kasta línum yfir í hann. Við bollalögðum um það hvernig best væri að búa um línurnar, en alla vega komum við línum yfir í bátinn en þeir virtust ekki hafa áhuga á að taka þær. Eina línuna settu þeir þó fasta á grindverk en meðan við vorum að binda saman tógið og línuna slepptu þeir henni.
En þá tóku þeir upp á þeim fjára að kasta sér í sjóinn. Fyrst fóru tveir í sjóinn og við náðum þeim strax með kastlínum og björgunarhringjum. Páll skipaði okkur að leita á þeim. Það var þuklað á þeim eins og okkur fannst nú rétt að gera en síðan fóru þeir að hjálpa okkur. Ég man eftir því að annar þeirra var flugmaður sem kafbátsmenn höfðu bjargað. Hann stillti sér upp við hliðina á mér. Ég hífði mennina að en hann innbyrti. Þar með var öll leit úti hjá okkur. Þetta gekk allvel fyrst í stað. En það fóru um 30 manns í sjóinn í einu og við köstuðum bara í þvöguna og hífðum að og innbyrtum. En þegar þeir fóru að dreifast þá fór að verða erfiðara um vik að andæfa nógu nærri þeim eins og við þurftum að gera og fór að verða ansi erfitt að ná þeim upp. Við urðum að tína upp einn og einn mann og það gekk illa. Mestu mistökin voru þau að þeir skyldu ekki hafa band á milli sín. Þá hefði dugað að ná í einn þeirra og hífa síðan hina frá honum.“ (Gísli Helgason: Utvarpsviðtal við Andrés Gestsson 1976)
Á meðan á björgun mannanna stóð flaug flugvél yfir Skaftfelling og töldu skipverjar því að öllu væri óhætt. Flugmenn þessarar vélar munu hafa sent skeyti til stjórnstöðvar bandamanna hér á landi og tilkynnt þeim að skipshöfn þýsks kafbáts væri að hertaka Skaftfelling og mundi sennilega sigla honum til Noregs. Voru því höfð skjót handtök og bresk herskip send á vettvang. Verður vikið að því síðar.
Það tók um tvær til þrjár klukkustundir að bjarga skipbrotsmönnunum. Foringi kafbátsins og tveir menn með honum sökktu honum og stukku síðan í sjóinn. Var þeim bjargað síðustum manna.
Fjórir menn hafa greint frá þessum atburðum eftir því sem vitað er: Páll Þorbjörnsson, skipstjóri, Andrés Gestsson, háseti, Jón Hjálmarsson, annar vélstjóri og Reinhart Beier, einn af vélstjórum kafbátsins, en hann greindi frá þessari björgun í viðtali við Guðrúnu Guðlaugsdóttur sem birtist í Morgunblaðinu 6. maí 1990. Ber frásögn þessara manna saman í öllum meginatriðum.
Kafbáturinn U-464 var nýr birgðakafbátur sem ætlaður var til þess að flytja eldsneyti og vistir til kafbáta Þjóðverja sem voru á Norður-Atlantshafi. Var hann í fyrstu ferð sinni þegar flugmenn bandarískrar Catalinaflugvélar komu auga á hann. Gerðu þeir árás á kafbátinn og löskuðu hann svo að hann gat ekki kafað. Hann var þá staddur um 170 sjómílur suðaustur af Íslandi, á 61°25’ N. brd. og 14°40’ V. lgd.
Tveir menn fórust í árásinni. Um borð í Skaftfelling björguðust 52 af áhöfn kafbátsins. Samkvæmt því munu 54 menn hafa verið í áhöfninni. En á listanum yfir áhöfn hans, sem greinarhöfundur fékk frá þýska sendiráðinu í Reykjavík, eru 60 nöfn. Ekki er vitað um í hverju misræmið liggur. Páll Þorbjörnsson greinir frá því í viðtali við Jökul Jakobsson í bókinni Suðaustan fjórtán að sér hafi verið tjáð að tveir menn hafi lokast inni í kafbátnum þegar hann sökk og farist með honum. Að vísu dregur Reinhart Beier þessa fullyrðingu í efa. En víst er að fáir höfðu fullt yfirlit yfir það sem í raun og veru gerðist og því getur þessi staðhæfing Páls átt við full rök að styðjast.

Þýski kafbáturinn U-505 hertekinn af bandarískum sjóliðum 4 júní 1944.

Skipverjar Skaftfellings „afvopnaðir“
Eftir að línuveiðarinn Fróði varð fyrir árás Þjóðverja 17. mars 1941 og Reykjaborginni hafði verið sökkt viku fyrr voru íslensk skip búin nokkrum vopnum. Um borð í Skaftfellingi var 5 skota rififill og 90 skota vélbyssa. Páll skipstjóri bað Jóhann Bjarnason, fyrsta vélstjóra, að sækja byssurnar niður í káetu og hlaða þær. Gerði hann það, fór með byssurnar aftur í bestikkið og lagði þær í koju skipstjórans.
Einhverju sinni þegar Andrés Gestsson átti leið upp í stýrishús varð honum litið inn í bestikkið og sá þá að tveir Þjóðverjar handléku vopnin og skoðuðu þau. Hugsaði hann ekki frekar út í það. Jón Hjálmarsson, annar vélstjóri, sá eitthvað svipað og varð ekki um sel. Spurði hann Pál hvort hann væri ekki hræddur um að „þeir færu einhvern andskotann að gera“, en Páll bað hann að hafa engar áhyggjur og virtist hinn rólegasti.
Í frásögn sinni greinir Reinhart Beier frá því að skipverjar á Skaftfellingi hafi tekið afar vel á móti kafbátsmönnum. Allt hafi verið gert til þess að hlúa að þeim. Hann segir að skipstjórinn hafi gefið þeim vínsopa til þess að koma í þá yl og hitað hafi verið handa þeim kaffi. Andrés sagði frá því að einhverjir þeirra hafi farið niður í lúkar skipsins og reynt að kveikja upp í eldavél sem þar var. En reykrörið var bilað. Sló því reyknum niður í lúkarinn og urðu þeir að flýja þaðan. Hírðust sumir þeirra undir hvalbaknum, einhverjir stóðu á þilfarinu en aðrir fóru inn í stýrishúsið og bestikkið á meðan enn aðrir komu sér fyrir í káetu skipsins og stiganum niður í vélarrúm. Einhverjir þeirra fóru aftur í eldhúsið sem var afar lítið. Var Skaftfellingur undirlagður af þessum mikla fjölda manna og má nærri geta að þrengsli hafa verið mikil. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að bilið á milli hvalbaksins og stýrishúss er 8 metrar og þar af nær spilið tvo metra fram fyrir stýrishúsið.
Andrés sagði að sumir skipbrotsmannanna hafi verið fárveikir enda höfðu þeir hafst við í sjónum i rúmar tvær klukkustundir og í raun nær dauða en lífi úr vosbúð og kulda.

Nýtísku björgunarbúnaður
Þýsku skipbrotsmennirnir voru afar vel búnir. Þeir voru í leðurstígvélum, gráum fötum og fóðruðum jökkum. Þeir voru í björgunarbeltum sem hægt var að blása upp með loftflösku sem var á hliðinni á beltinu. Einnig var hægt að blása vestin upp með munnstykki. A beltunum voru mörg loftþétt hólf. Á hverju hólfi var ventill til þess að hleypa loftinu út. Þótt eitt hólf tæmdist var ekki hætt við að hin hólfin tæmdust.
Einnig voru Þjóðverjarnir með súrefnistæki sem áttu að þola 40 m dýpi. Andrés lýsti þessum búnaði þannig:
„Þetta var barki sem kom upp úr kassa sem var spenntur framan á manninn; belti undir klofið og yfir um manninn og síðan blaðra aftan við hálsinn á þeim sem var með þennan búnað. Það var vel gengið frá munnstykki sem féll utan á og innan á varir. Einnig voru tappar sem féllu inn á milli tannanna. Nokkur tæki urðu eftir hjá okkur um borð þegar þeir yfirgáfu Skaftfelling. Við reyndum eitt svona tæki, vorum með það í hálftíma við stýrið og önduðum að okkur lofti eingöngu frá því og það var ekki nærri búið af því.“
Það vakti furðu Íslendinganna að nokkrir Þjóðverjanna töluðu hrafl í íslensku og einn þeirra talaði „alveg lýtalausa íslensku“ eins og Páll Þorbjörnsson orðaði það. Hefur Jón Hjálmarsson greint frá þvi að sá, sem hefur sennilega verið úr þýska verslunarflotanum, hafi verið á hljóðskrafi við kokkinn eitt sinn er Jón kom aftur í eldhús að fá sér kaffisopa. Heyrði hann þá að Þjóðverjinn bað fyrir kveðju til konu í Reykjavík og nefndi bæði nafn og heimilisfang konunnar. Ekki var þessari kveðju komið á framfæri fyrr en 57 árum síðar.

Þýskur kafbátur sömu gerðar og kafbáturinn U-464, en áhöfn Skaftfellings bjargaði 52 mönnum úr áhöfn hans 20. ágúst 1942. Þessir kafbátar voru kallaðir „mjólkurkýr“ og fluttu birgðir til þýska flotans á Atlantshafi. Þeir voru 1800 smálestir.

Þjóðverjarnir teknir til fanga
Eftir að björgunarstörfum var lokið hélt Skaftfellingur ferð sinni áfram áleiðis til Fleetwood. Þegar siglt hafði verið á aðra klukkustund sást til tveggja breskra tundurspilla. Var Skaftfellingi gefið stöðvunarmerki og kallað yfir til skipsins og skipstjórinn inntur eftir því á hvaða leið það væri. Páll sagðist vera á leið með ísfisk til Fleetwood. Hann greindi einnig frá fjölda þeirra sem bjargað hafði verið af kafbátnum. Var honum þá skipað að snúa við og halda til Hvalfjarðar. Neitaði hann því afdráttarlaust. Var þá skotið út báti frá öðrum tundurspillinum og flutti hann Þjóðverjana frá Skaftfellingi yfir í tundurspillinn í 5 ferðum. Þótti skipverjum á Skaftfellingi aðfarir Bretanna heldur ófagrar.
Að sögn Andrésar virtist þeim sem Þjóðverjarnir væru látnir afklæðast þegar um borð í tundurspillinn kom og standa á þilfari hans með gular ábreiður yfir sér. Reinhart Beier segir hins vegar að þegar komið var um borð í tundurspillinn hafi Þjóðverjunum verið fengin þurr og hlý föt og reynt að hlúa að þeim eftir föngum.
Farið var með kafbátsmennina til Reykjavíkur. Ekki verður hér rakið hvað um þá varð að öðru leyti en því að þeir dvöldust í kanadískum fangabúðum um nokkurt skeið.
Eftirmál
Ahöfn þýska kafbátsins fleygði nokkrum blikkdunkum í sjóinn áður en hún yfirgaf hann. Voru þessir kassar teknir um borð í Skaftfelling og reyndist vera í þeim alls kyns varningur svo sem ábreiður, fatnaður, sælgæti, vín og tóbak. Tók áhöfn Skaftfellings þetta til handargagns.
Þegar sást til bresku tundurspillanna skipaði foringi kafbátsins mönnum sínum að losa sig við allt lauslegt og fleygðu þeir ýmsu í sjóinn en gáfu áhöfninni annað.
Þegar til Fleetwood kom greindi Páll Þorbjörnsson breskum yfirvöldum frá björgun þýsku áhafnarinnar. Höfðu fréttir af þessu björgunarafreki ekki borist Bretum til eyrna og var Páll umsvifalaust færður til yfirheyrslu. Breska herlögreglan hélt um borð í Skaftfelling og var allt gert upptækt sem Þjóðverjar höfðu skilið eftir. Var meira að segja skafið innan úr eldavélinni í lúkarnum.
Bretar rengdu frásögn Páls Þorbjörnssonar og töldu hann hafa óhreint mjöl í pokahorninu. En eftir talsvert stapp var honum sleppt og féllust Brelar á þá tillögu hans að hann skilaði skriflegri skýrslu um málið. Bretar skiluðu engu af því sem þeir höfðu tekið af munum úr eigu Þjóðverjanna þrátt fyrir loforð þar um.

Skömmu eftir þessa atburði flutti Andrés sig yfir á Helga VE 333, en Páll varð þar stýrimaður. Var hann þar fram á sumarið 1943. Sú vist varð söguleg að mörgu leyti þótt ekki verði atburðir raktir hér. Þó má geta þess að skipið hreppti eitt sinn aftakaveður á leið sinni til Bretlands og voru lýsingar þeirra Andrésar Gestssonar og Hallgríms Júlíussonar hreint ótrúlegar. Gefst e.t.v. tækifæri til að birta frásögn þeirra hér á þessum vettvangi síðar.

Sunderland-flugvél fer fram úr bandarískum Catalinaflugbáti. Talið er víst að hér sé um sama flugbát að ræða og skaut á þýska kafbátinn U-464 20. ágúst 1942. Myndin er tekin í mynni Hvalfjarðar.

Mannúðarverk á stríðstímum

Hinn 1. júlí 1999 var haldið boð um borð í þýsku kafbátaleitarskipi sem kom hingað til lands ásamt tveimur þýskum kafbátum. Var þá Jón Hjálmarsson, sem var annar vélstjóri á Skaftfellingi, eins og áður er á minnst, heiðraður fyrir björgun áhafnar katbátsins U-464. Andrés Gestsson var einnig heiðraður síðar, en hann átti ekki heimangengt vegna veikinda eiginkonu sinnar. Günther Hartmann, formaður Félags katbátasjómanna, kallaði björgunina „mannúðardáð,“ á tímum sem mótaðir voru af „áróðri og stríðsæsingi“. En íslenskir sjómenn hafa aldrei haft hugann við annað en að bjarga félögum í skipsnauð hvernig sem á hefur staðið. Þótt Íslendingar misstu 380 sjómenn í árásum Þjóðverja á seinni stríðsárunum hefur það tæplega hvarflað að nokkrum skipverjanna á Skaftfellingi að hér væru fjandmenn á ferð.

Brostnar vonir og blindan
Andrés notaði sumarið 1943 til þess að lesa undir próf upp í 2. bekk Stýrimannaskólans, en hann hafði pungapróf fyrir.
Þjóðhátíðin 1943 varð mörgum örlagarík. Fundist hafði tunna á reki með vökva í sem talinn var drykkjarhæfur. Var áfengið sett á flöskur og gefið ýmsum. Þeir sem drukku annað áfengi sluppu að mestu leyti en þeir sem neyttu þessa drykkjar eingöngu létust flestir eða báru vart sitt barr. Níu manns létust eftir neyslu hans og var bróðir Andrésar einn þeirra.
Andrési var gefinn þessi drykkur á laugardagskvöld ásamt bróður sínum, en þeir höfðu neytt lítils víns áður. Daginn eftir kenndi hann vanheilsu og var því kallað á lækni. Andrés var orðinn meðvitundarlaus þegar hann kom á sjúkrahúsið og vaknaði þar tveimur dögum síðar, þá orðinn nær alblindur. Þá litlu sjón, sem hann hélt, missti hann nokkru síðar.
Andrés missti ekki kjarkinn. Hann hófst undir eins handa. Fyrst hnýtti hann á króka heima hjá sér en leiddist að komast ekki út á meðal almennings og fékk því vinnu við netagerð hjá Magnúsi Magnússyni, netagerðarmeistara. Þar vann hann í 2-3 ár og undi hag sínum vel. Andrés varð fljótlega ótrúlega sjálfbjarga og fór um miðbæ Vestmannaeyja með staf sem hann þreifaði fyrir sér með.
Þau Andrés og Sigríður bjuggu á þremur stöðum í Vestmannaeyjum eftir því sem næst verður komist. Þau hófu búskap í Engidal við Brekastíg og fluttu síðan að Varmadal. Andrés sagði mér að hann hefði fest kaup á litlu húsi við Skólaveg og ráðist í að stækka það og í raun hefði verið um nýbyggingu að ræða. Samkvæmt fasteignaskrá er byggingarárið skráð árið 1951. Andrés vann talsvert að byggingu hússins á eigin spýtur. Sagði hann mér að blindan hefði tafið sig nokkuð. Verst hefði verið hvað hann hefði misst mikinn mátt, fremur vegna blindunnar en afleiðinga slyssins, en hann fullyrti með réttu að ótrúlega mikil orka færi í að koma sér á milli staða þegar öll skilningarvit þyrftu að vera á verði og sjónina vantaði.
Bygging hússins gekk óhappalaust. Eitt sinn þurfti hann að rogast með einhvern þungan hlut inn í húsið meðan það var enn í byggingu. Varð hann að fara yfir skurð og lá planki yfir. Sté hann öðrum fæti út af plankanum og var þá ekki að sökum að spyrja. Taldi hann að eitthvert lán hefði verið yfir sér að hluturinn, sem hann bar í fanginu, féll ekki á hann ofan og slasaði. Þannig var Andrés, vílaði sjaldan fyrir sér að takast á við erfiðleikana.

Blindrafélagið og ástin
Árið 1947 hélt Andrés til Reykjavíkur og lærði bólstrun hjá Þórsteini Bjarnasyni, formanni Blindravinafélags Íslands, sem rak fyrirtækin Blindraiðn og Körfugerðina. Keypti hann að því búnu efni til bólstrunar og setti upp verkstæði í Vestmannaeyjum.
Andrés missti konu sína, Sigríði Jónsdóttur, árið 1958. Minnist ég þess enn að Vestmannaeyingar tóku dauða hennar nærri sér, en samkenndin var rík á meðal fólks.
Andrés var á þessum árum genginn til liðs við Blindrafélagið. Hann átti iðulega erindi til Reykjavíkur margvíslegra erinda og á Blindravinnustofunni kynntist hann Elísabetu Kristinsdóttur, sem var ári yngri en hann. Elísabet hafði misst sjónina af völdum skæðrar flensu sem herjaði á Reykvíkinga veturinn 1934-35. Með þeim tókust ástir og gengu þau í hjónaband árið 1960.
Andrés flutti frá Vestmannaeyjum með Birgi son sinn, 5 ára gamlan, og gekk Elísabet honum í móðurstað. Þegar fyrsti áfangi húss Blindrafélagsins við Hamrahlíð 17 var tekinn í notkun árið 1961 flutti Andrés þangað með fjölskylduna, fyrstur manna, og bjó þar til æviloka.
Elísabet og Andrés - Andrés og Beta eins og þau voru iðulega kölluð - gegndu lykilhlutverki í samfélaginu sem varð til í Hamrahlíð 17. Þau voru gestrisin, fróð og skemmtileg og sótti fjöldi fólks þau heim.
Andrés var annálaður sögumaður og átti fjölmörg áhugamál. Aflaði hann sér fróðleiks um margvísleg velferðarmál blindra og hafði mikinn áhuga á tilraunum vísindamanna til þess að láta blint fólk sjá. Sá Hannes Finnbogason, læknir, m.a. um að lesa fyrir hann erlendar vísindagreinar um þau efni.
Um miðjan 7. áratuginn bárust til landsins tvö leiðsögutæki fyrir blinda. Þetta var eins konar ratsjá sem haldið var í annarri hendi. Gaf hún tónmerki í heyrnartól ef hindranir voru framundan. Voru þau mismunandi eftir því hvaða efni var í hlutnum sem geislinn lenti á. Andrés notaði þetta tæki talsvert ásamt hvíta stafnum.
Hann lærði ótrúlega vel að þekkja umhverfi sitt og fór á eigin spýtur víða um borgina.
Andrés hóf störf við bólstrun hjá Guðmundi Guðmundssyni, í trésmiðjunni Víði, en hann var einnig blindur. Vann hann þar um 5 ára skeið en setti þá upp verkstæði að Hamrahlíð 17 og starfaði við bólstrun um 12 ára skeið.
Þá venti hann sínu kvæði í kross og lærði nudd, einkum hjá vini sínum, Jóni Gunnari Arndal. Hann sótti ýmis námskeið hér á landi og í Finnlandi og var óþreytandi að afla sér þekkingar á mannslíkamanum. Stundaði hann starf sitt fram á árið 2008. Hann þótti afar nærfærinn nuddari og sumir kölluðu hann kraftaverkamann. Héldu margir að hann væri skyggn því að iðulega benti hann fólki á að láta kanna ýmis sjúkdómseinkenni og vísaði því rétta leið.

Öryrkjabandalag Íslands
Þegar Öryrkjabandalag Íslands var stofnað árið 1961 varð Andrés fulltrúi Blindrafélagsins í stjórn bandalagsins. Var hann formaður þess um tveggja ára skeið og átti sæti í stjórn bandalagsins til ársins 1982.
Árið 1966 var Hússjóður Öryrkjabandalags Íslands stofnaður en hlutverk hans var og er að byggja íbúðir handa öryrkjum. Sat Andrés í stjórn sjóðsins árum saman. Fyrstu árin voru tekjur litlar, en á 8. áratugnum tókst Oddi Ólafssyni, þingmanni og formanni Hússjóðs Öryrkjabandalagsins, að fá því framgengt að Erfðafjársjóður rynni að mestu til málefna öryrkja enda var það í samræmi við það sem tíðkaðist á Norðurlöndum. Var Andrés alla tíð ósáttur við þá ráðstöfun ríkisvaldsins að taka sjóðinn til annarra nota.
Þegar farið var að reisa seinni áfangann við Hamrahlíð 17 var Andrés sjálfskipaður fulltrúi Blindrafélagsins í byggingarnefndina. Höfðu verktakar iðulega orð á því og minnast þess enn hvað Andrés var athugull, skarpur og gagnrýninn á það sem betur mátti fara. Tóku menn jafnan mark á ábendingum hans. Ymsum blöskraði þegar hann fór einn síns liðs um hálfkarað húsið þar sem voru engin handrið. Andrés lét sig ótta manna litlu skipta og hló að.

Síðustu árin
Elísabet, eiginkona Andrésar, átti við langvinn veikindi að stríða síðustu æviár sín. Annaðist Andrés hana og hjúkraði af mikilli natni. Sumir kölluðu það þrjósku hans að vilja hafa hana heima. En Elísabetu var það fyrir bestu og Andrési þótt oft væri það erfitt. Þetta var ekki eingöngu þrjóska heldur ástin í sinni fegurstu mynd. Elísabet lést 30. október 1999.
Andrés var veitull maður og höfðingi heim að sækja. Þegar hann varð níræður 20. júlí árið 2007 var haldin stórveisla að Hamrahlíð 17 og hylltu hann margir vinir og ættingjar. Andrés var reifur og glaður og naut stundarinnar.
Honum var þó ekki ætlað að njóta ævikvöldsins áfallalaust. Þremur mánuðum eftir níræðisafmæli hans varð Birgir, sonur hans bráðkvaddur. Birgir varð mörgum harmdauði og við fráfall hans hvarf í raun lífslöngun Andrésar.
Birgir var þekktur myndlistarmaður og var jarðarför hans afar fjölmenn. Andrés tók allt umstangið nærri sér og sagði svo fyrir að útför sín skyldi gerð í kyrrþey. Var orðið við þeirri ósk, en vinir hans í Blindrafélaginu héldu minningarathöfn um hann þar sem rakinn var æviferill hans og vinir minntust góðra kynna.

Hagyrðingurinn Andrés Gestsson
Andrés var ágætlega hagmæltur og lét oft fjúka í kviðlingum. Hafði hann ýmsa bragarhætti á valdi sínu og kvað stundum dýrt. Andrés hélt vísum sínum ekki saman og gerði fremur lítið úr hagmælsku sinni. Honum varð ótrúlega oft vísa á munni þegar eitthvað bar við.
Frá því segir að Andrés hafi einhverju sinni komið inn í fiskbúð. Þar var fyrir kona sem bað fisksalann að láta sig hafa flak.
Fisksalinn rétti henni fyrst flak sem konan sagði að væri of stórt. Næsta var of lítið.
„Hafðu þetta eitthvað þar á milli,” sagði hún. „Þú veist hvað mér passar best.” Þá varð til þessi vísa:

Karlinn hafði kvennahylli
kunni og vissi af gömlum vana
að eitthvað þarna mitt á milli
myndi passa fyrir hana.

Ýmsar vísur Andrésar lýstu næmum hughrifum og söknuði vegna hins liðna. Þessa vísu orti hann fyrir nokkrum árum þegar hann stóð einn síns liðs við glugga á nöprum vetrardegi:

Hárin grá og hrukkótt skinn,
horfinn æskudraumurinn.
Gustar inn um gluggann minn
gamli norðanvindurinn.

Nokkru eftir lát Elísabetar, konu sinnar, orti hann þessa myndrænu vísu:

Ennþá sé ég birtu í bland
böls um myrka daga.
Nú er ekki langt í land
að ljúkist ævisaga.


Vísur úr safni Lýðs Ægissonar


Þær sögur um sveitina ganga
að Sigga sé skotin í Manga.
og leyfi honum stundum
á lokuðum fundum
að lauma smá kossum á vanga...

Hann er galvaskur og góðviljaður
geðprúður ógiftur maður.
Stinnur og stífur
hann stúlkuna hrífur
því - gaurinn er alltaf svo .... glaður.

Viðlag
Já - sögur um sveitina fljúga
og sjálfsagt þeim allflestir trúa
því - Sigga er svona
humm.... sjálf-stæðis-kona
sem að öllum vill hlynna og hlúa.

Milli kvenna er kvakað í bænum
að þau kyssist í vornæturblænum
og - að hann kitl’ana á meðan
og kjass'ana neðan
við.... kirkjuna, að loknum bænum.

í þorpinu hvíslar hver kjaftur að klerkurinn sé dottinn afitur.... í trúna á ný eftir tveggja ára frí! Já - í trúnni er krassandi kraftur.

Kjafta-kerlingar sögurnar segja
frá Sigló til Vestmannaeyja.
Ef ekkert finnst að,
þær afbaka það
og sannleikann tosa og teygja.

Tóti vinur minn í Geisla hringdi í mig og bað mig að gera vísur fyrir sig um lundann í Hellisey og þar átti að koma fram að hann vœri frekar rœfilslegur. Það var eina skilyrðið. Ég afgreiddi pöntunina þá um nóttina.
Tóti er einn af þeim sem stundar lundaveiðar í Elliðaey, sem margir gamlir veiðimenn vilja kalla Ellirey.

Í Hellisey hafast við gerpi.
Ég held engir fuglar þar verpi.
Þar lundinn er lítill og visinn
lúsugur, dúnlaus og gisinn.

Þar vargurinn veiðimenn plagar
og vonleysið sálina nagar.
Í norður þeir nefinu beina
og njósna um fegurstu eyna.

Í öfund þeir Ellirey líta
er þeir í buxurnar dríta
Því þar eru fuglarnir feitir
og fjöldinn þar himininn skreytir.

Sólarhring síðar hringdi Tóti aftur og bað mig að gera fallegar vísur um Hellisey fyrir sig....!

Nú er haust og Hellisey í svala
Hafsins öldur strjúkast bergið við.
En brátt mun vorið vekja hana af dvala.
er villtir fúglar hefja foman sið.

Já - Hellisey þeim skreytingum mun skarta
sem skaparinn vill láta henni í té
og efalaust mun enginn þurfa að kvarta
því eggin verða vaðin upp í hné!