Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2009/Hringsigling umhverfis landið á tuðrum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
KRAFTUR Í KRINGUM ÍSLAND


Hringsigling umhverfis landið á tuðrum


Hópurinn í Grímsey


Í lok nóvembermánaðar 2007 fæddist hugmynd, sem seinna átti eftir að verða að ævintýri, að fara í ferð í kringum landið á slöngubátum (tuðrum). Fljótlega fóru hjólin að snúast og brottfarardagsetning ákveðin. Í kjölfarið hófst undirbúningur, m.a. gistingar- og öryggismál, auk þess sem hafist var handa við að afla styrkja til að fjármagna ferðina. Þeir sem lögðu í þessa svaðilför voru þeir Friðrik Stefánsson, Bjartmar Sigurðsson og Þorsteinn Þorsteinsson á Tótu tuðru og þeir Árni Hilmarsson, Kristján Hilmarsson, Hilmar Kristjánsson og Valgeir Valgeirsson á Nínon bátnum. Alma Eðvaldsdóttir og Eva Lilja Arnardóttir fylgdu bátunum eftir landleiðis á bílum.

Flugið tekið.

Laugardagurinn 14. júní 2008
Ferðin hófst í Eyjum laugardaginn 14. júní. Laugardagur var valinn þar sem hann hefur löngum þótt til lukku, en lukkan átti svo sannarlega eftir að fylgja hópnum.
Menn voru mættir á bæjarbryggjuna um hálffimm að morgni laugardagsins, fullir tilhlökkunar í bland við kvíða fyrir því sem var í vændum. Áður en lagt var af stað þótti mönnum við hæfi að fara með sjóferðabæn sem og við gerðum með aðstoð Gísla Óskarssonar. Með bænina í farteskinu, ásamt ljúfsárum kveðjum fjölskyldunnar á bryggjunni, horfðum við á Eyjarnar hverfa smám saman í sæ.
Þennan fyrsta legg tók á móti okkur vestan gola sem breyttist síðan í hægviðri. Komið var við í Þorlákshöfn eftir rúma tvo tíma og fengum við kaffisopa á bryggjunni þar. En okkur var ekki til setunnar boðið og héldum við áfram áleiðis til Grindavíkur þar sem mættu okkur félagar úr björgunarsveitinni í Kópavogi, ásamt vini okkar Boga Baldurssyni, og fylgdu þeir okkur til hafnar í höfuðborginni.
Laugardagurinn var þó ekki alfarið til lukku þó allt hafi gengið vel framan af. Því þegar við vorum rétt ókomnir í höfn í Reykjavík, okkar fyrsta áfangastað, var svo sannarlega komið babb í bátinn. En Tóta tuðra, fley Friðriks og félaga, sprakk og flaut nánast á lyginni einni í land.
Nú voru góð ráð dýr, ekki mátti hægja á eða stoppa til þess að missa bátinn hreinlega ekki niður og haldið var áfram áleiðis til hafnar með krosslagða fingur. Þegar komið var á fast land biðu betri helmingarnir á bryggjunni ásamt Ölmu og Evu Lilju. Þarna var ekkert annað í stöðunni en að binda bátinn fastann og rykkja honum á þurrt. Þakka mátti strákunum hjá Gúmmíbátum og göllum í Reykjavík og félögum fyrir snör handtök og góða aðstoð sem gerði okkur kleift að halda áfram ferð okkar hringinn í kringum landið.

Kristján Hilmarsson “Snitselurinn“ og Pálmar Jónsson.

Þriðjudagurinn 17. júní 2008
Jæja, loksins var komið að því að halda af stað frá Reykjavík, en næsti áfangastaður var Ólafsvík. Mannskapurinn mætti niður á Snarfarahöfn um hádegi, allir fullir af spenningi að halda áfram, en áður en við lögðum í hann renndum við inn í Reykjavíkurhöfn og þar vorum við kvaddir með pompi og prakt.
Svo var Iagt af stað. Veðrið var gott þennan dag, sól og norðaustan gola. Við tókum strikið upp á Akranes og vorum við skotfljótir þangað. Eftir stutt stopp og einn eða tvo kaffibolla var slegið í klárinn og stefnan sett beint á Jökulinn, sem við hefðum betur sleppt og farið með landinu, því að úti á miðjum Faxaflóa vorum við komnir í norðan rok og brælu og sóttist okkur ferðin seint. En allt hafðist þetta nú að lokum og renndum við inn í höfn á Arnarstapa um kvöldmatarleytið. Klukkutíma síðar var ákveðið að halda áfram enda menn búnir að úða í sig kaffi og pylsum með öllu tilheyrandi.
Veðrið hafði skánað, nánast komið logn þannig að menn gátu gefið rokkunum vel að drekka og sigldum við frá Arnarstapa á 35 mílunum.
Loksins sáum við Ólafsvík enda menn orðnir lemstraðir eftir tíu tíma rússíbanareið. Við renndum að bryggju um ellefuleytið. Þar biðu eftir okkur Alma og Eva, sem ferjuðu okkur í húsnæði Björgunarsveitarinnar í Ólafsvík, þar sem við hvíldum lúin bein fyrir átök næsta dags.

Styrktaraðilarnir standa upp úr.

Miðvikudagurinn 18. júní 2008
Klukkan er sjö og menn misupplagðir í næsta legg eftir fjör gærdagsins, sumir með harðsperrur og aðrir bakverki, en kaffi og sígó laga allt.
Við byrjuðum að fylla á tankanna svo var lagt í hann, þvílík og önnur eins blíða. Breiðafjörðurinn eins og spegill, það var hægt að kveikja sér í og fá sér kaffibolla á 30 mílunum. Stefnan var tekin á Látrabjarg og renndum við upp að því rúmum klukkutíma eftir að við lögðum af stað, stærðin og fuglalífið í bjarginu var ótrúleg. Ekki var laust við að Árna og Valla hafi langað að skjótast upp eftir nokkrum eggjakoppum, en líklega hafa þau nú verið orðin stropuð þegar við vorum þarna á ferð.
Áfram héldum við og renndum framhjá hinni margfrægu Breiðuvík, héldum svo áfram áleiðis til Tálknaljarðar og komum við þangað um miðjan dag.
Á bryggjunni tók á móti okkur Eyjastelpa, hún Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir og Tryggvi, maðurinn hennar, ásamt heimamönnum og fengum við höfðinglegar móttökur hjá þeim hjónum og heimamönnum.

Kaffi og með því á Gjögri. F.v. Árni Hilmarsson, Garðar Jónsson og Valgeir Valgeirsson.

Fimmtudagurinn 19. júní 2008
Jæja það er ræs, koppalogn og sól, tilvalið að leggja í hann. En fyrst kíktum við í vinnsluna og beituskúrinn hjá Tryggva og fengum okkur kaffi og harðfisk en aðrir tóku í bjóð og beittu nokkra króka svona rétt til að vakna.
En okkur var ekki til setunnar boðið og haldið var af stað með fullan kassa af harðfiski sem Tryggvi færði okkur í veganesti. Sjórinn var spegilsléttur og brakandi blíða. Siglingin gekk eins og í sögu og tíndum við firðina upp einn af öðrum.
Skyndilega vakti athygli Stjána selur einn sem lá á steini niðri í fjöru á Tálknafirði. Stjáni sagðist aldrei hafa séð svona skrýtinn sel og eftir miklar skeggræður hjá þeim bræðrum Stjána og Árna komust þeir að þeirri niðurstöðu að Stjáni hafi séð snitzel, sem er selur af þýsku bergi brotinn, hlógu þeir mikið að því. Rétt áður en við sigldum inn Ísafjarðardjúpið mættum við Grána gamla eða varðskipi, köstuðum smá kveðju á þá og héldum áfram inn djúpið. Strikið var sett á Ísafjörð en þar átti að fá sér eitthvað í gogginn.
Eftir kínverska veislu var rokið af stað og var áfangastaðurinn Vigur sem er lítil eyja inni í Ísafjarðardjúpi. Þegar þangað var komið tók staðarhaldari á móti okkur og fór með okkur túr um eyjuna. Þar er margt að sjá þótt eyjan sé lítil. Sáum við meðal annars 150 ára fjárflutningabát sem var síðast notaður árið 2000 og flutti þá 100 stykki í ferð. Merkilegt.
Mikið fuglalíf er í eynni og talsvert mikið er veitt af lunda. Einnig er þar dúntekja.
En eftir þessa fróðlegu ferð var okkur boðið í kaffisopa og hnallþórur og gerðu flestir þeim góð skil. Eftir kræsingarnar var haldið í hann á ný og þá til Bolungarvíkur. Renndum við þar inn um kvöldmatarleytið. Þá tók við bensínáfylling og undirbúningur næsta dags, því það var langur leggur framundan og vissara að vera með nóg af bensíni.

Arnarstapi á Snæfellsnesi. Fyrsti áningarstaðurinn.

Föstudagurinn 20. júní 2008
Klukkan er fimm og veðrið ekkert til að hrópa húrra fyrir. Suðaustan þræsingur stóð út djúpið, en spáin samt fín. Við ræddum málin yfir kaffibollanum og tókum þann pólinn að renna af stað enda ekki vandamál að snúa við ef okkur litist ekki á blikuna. Ferðin frá Bolungarvík til Aðalvíkur var frekar leiðinleg en við ákváðum að halda áfram. Þegar við renndum undir Hælavíkurbjarg, sem dregur nafn sitt af klettadrangi sem stendur upp úr sjónum framan við þennan þverhnípta hamravegg og nefnist Hæll, var orðið þokkalegt ferðaveður og sú sjón sem blasti við mönnum þar mun seint gleymast. Eflaust ein stærsta fuglabyggð á landinu og hrikaleg björgin gnæfðu bókstaflega yfir okkur og ekki laust við að sumir okkar hafi fengið gæsahúð. Áfram lónuðum við framhjá Hornvík áleiðis að Hornbjargi, nyrsta odda Vestfjarða. Ekki síður tignarleg sjón tók á móti okkur, Hornbjarg í öllu sínu veldi og með sínum hundruð þúsund langvíum. Við gáfum okkur góðan tíma í að skoða þennan merkilega stað en heldum svo áfram framhjá Hornbjargsvita áleiðis niður að Reykjafirði. Þar tókum við land, skoðuðum gamla sögunarmyllu sem enn var starfhæf og þáðum gott boð heimamanna í fiskibollur með öllu tilheyrandi. Bollurnar vorum framreiddar í tugatali enda miklir matmenn á ferð. Héldum við áfram ferð okkar saddir og sælir og stefnan tekin á Drangskörð, en skörðin minna um margt á tanngarð í tröllskessu ef svo má að orði komast.
Ingólfsfjörður á Ströndum var næsti viðkomustaður og þar var skoðuð gömul síldarverksmiðja. Skrítið til þess að vita að þarna hafi eitt sinn allt iðað af lífi, en er í dag er þar einungis sumardvalarstaður gamalla Strandamanna. Á næsta áningarstað okkar, Djúpuvík, er engin bensínsala og því þurfti að koma við í Norðurfirði. Þegar þangað var komið var tekið á móti okkur á bryggjunni með íslenska fánanum og var það enginn annar en strandaættaði Eyjamaðurinn Gústi á Kap og spúsa hans, Ása frá Skógum, ásamt hótelstýrunni. Þar var okkur boðið í kakó og vöfflur í boði kaffihússins á staðnum og runnu þær ljúflega niður. Eftir það var svo fyllt á tankana, slegið í klárinn og stefnan sett á Djúpuvík. En á leið okkar þangað var ákveðið að staldra við á Gjögri, þar sem hver einasti kjaftur þorpsins var samankominn á bryggjusporðinum að virða fyrir sér þessa ævintýramenn. Á Gjögri var okkur enn og aftur boðið í kaffi og kræsingar og þáðum við boðið en ætluðum að koma eftir kvöldmat og leyfa þá kvenkosti hópsins að slást í for með okkur.

Í kaldri sturtu við Hornbjarg.

Þegar á Djúpuvík var komið voru menn hins vegar orðnir ansi framlágir eftir langan og viðburðaríkan dag og fórum við einungis þrír af Nínon bátnum í kaffið á Gjögri. Þar svignaði borðið hreinlega undan heimalöguðu bakkelsi og myndarskap gestgjafans Garðars, sem svo sannarlega var höfðingi heim að sækja. Eftir gott heimboð vildum við launa húsbóndanum greiðann og gáfum honum forláta kíki, sem hann þáði og buðum við kallinum í örstutta siglingu á bátnum og þótti honum mikið til koma enda aldrei siglt svo hratt áður. Næsta dag átti að taka snemma því mannskapurinn hafði áformað að fara í skoðunarferð með staðarhaldara um síldarverksmiðju þorpsins og því kominn tími til að fara í koju og breiða upp fyrir haus.

Laugardagurinn 21. júní 2008
Eftir morgunmat á hótelinu um níuleytið var bíllinn græjaður fyrir stelpurnar og haldið í skoðunarferðina um verksmiðjuna og þorpið. Eftir þennan fróðlega og skemmtilega rúnt með staðarhaldara var klukkan langt gengin í hádegi og kominn tími til að pilla sig af stað.
Veðrið var gott er við sigldum út frá Djúpuvík, spegilsléttur sjór og rjómalogn. Við renndum við á Gjögri og köstuðum kveðju á gestgjafa gærkvöldsins sem var enn með bros á vör eftir siglingu kvöldsins á undan.

Nú tók við stutt og svo sem tíðindalaus sigling yfir Húnaflóann en þó voru ferðalangarnir allir á útkikki því mikið hafði verið rætt um ísbirni á þessum tíma og einmitt þennan dag kom einn á land í Skagafirði, þangað sem för okkar var heitið. Ekki vorum við þó svo lánsamir að rekast á bjössa á sundi á leiðinni.
Er við nálguðumst Skagafjörð fór að blása af norðaustri. Aldan fór að verða kröpp sem endaði svo í leiðindabrælu inn allan fjörðinn. Við renndum inn á höfn í Drangey og stigu eyjamennirnir að sjálfsögöu á land í þessari frægu eyju.
Aftur renndum við af stað og inn á Sauðárkrók. Þar var stoppað í 2 daga og voru menn ánægðir að fá smá frí. Kærkomin hvíld.

Mánudagurinn 23. júní 2008
Nú voru allir búnir að hlaða batteríin fyrir næsta legg og voru allir sammála um að halda af stað, en að þessu sinni um miðnætti. Veðrið var svo fallegt, spegilsléttur sjór og koppalogn. Bátarnir liðu út fjörðinn í miðnætursólinni og fyrr en varði vorum við komnir framhjá Þórðarhöfða og svo Málmey.
Mjög falleg landsýn var þennan legg. Sólin settist ekki, heldur rétt snerti hafflötinn í norðri og reis aftur og varpaði eldrauðum geislum sínum á sveitirnar sem við horfðum á frá spegilsléttum haffletinum. Ótrúleg sjón!
Það var ekki liðinn nema rétt rúmur klukkutími þegar við komum í höfn á Siglufirði, en við komum í land og fengum okkur sopa, enda frekar kalt eða öllu heldur frost. Næturfrost í lok júní. Eftir smá labbitúr og létt spjall yfirgáfum við Siglutjörð enda allir í fastasvefni nema einn trillukall sem var að halda til hafs.
Við vorum komnir í mynni Eyjaíjarðar um hálf fimm. Þar sigldum við fram á handfærabát sem dró þann gula grimmt og mátti kallinn ekkert vera að því að kjafta við okkur þannig við héldum áfram og lentum í Hrísey um sex leytið og allir náttúrulega í fastasvefni nema rakkagrey sem gleymst hafði að hleypa inn. Blíðan var með eindæmum, koppalogn og steikjandi hiti. Við röltum um götur eyjarinnar í von um að einhver væri vaknaður, vorum nefnilega orðnir kaffilausir og áttum erfitt með að halda augunum opnum. En á leiðinni niðrá bryggju var kallað á okkur og var þar gamall eyjaskeggi að kíkja til veðurs en hann átti kaffi og lagaði á brúsann góða. Eftir sopann og smá kríu á bryggjusporðinum í góða veðrinu skelltum við okkur inn á höfuðstað norðurlands þar sem Alma og Eva biðu okkar.

Árni við gömlu síldarbræðsluna í Ingólfsfirði.


Fimmtudagurinn 26. júní 2008
Þegar hér var komið voru að baki rúmar 550 sjómílur og ferðin tæplega hálfnuð. Það var langur dagur framundan, eða rúmar 100 mílur og tími til kominn að leggja í hann. Landfestar voru leystar kl. sjö um morguninn og brunuðum við út Eyjafjörðinn í blíðskaparveðri, en förinni var heitið í Grímsey. Sóttist okkur ferðin vel og smám saman reis þessi lágvaxna eyja úr hafinu. Er við tókum land tóku á móti okkur hreppstjórinn og kvenfélag staðarins. Farið var með okkur eins og einhverja fyrirmenn og okkur sýnd hver þúfa og hóll. Að því loknu var okkur að sjálfsögðu boðið í kaffi og kræsingar af bestu gerð og tóku allflestir hraustlega til matar síns.
Núverandi hreppstjóri Grímseyjar minntist einnig á það að fyrir rúmum 30 árum hefðu einnig komið fimm vaskir eyjapeyjar á tveimur slöngubátum í Grímsey, en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá, bátarnir stærri og allur búnaður miklu betri í dag. En er við ætluðum að halda af stað var kallað í okkur; „Strákar! Viljið þið ekki koma og fá ykkur súpu?” Við litum hver á annan og hugsuðum með okkur að súpan hlyti nú að komast fyrir. Eftir súpuna héldum við svo af stað og kvöddum þetta mikla sómafólk í Grímsey.
Siglt var norður fyrir eyjuna, norður fyrir heimskautsbaug og þaðan var stefnan tekin til lands að nýju, áleiðis til Flateyjar á Skjálfanda. Í Flatey var tekinn smá labbitúr og rákumst við á nokkra gamla Flateyinga sem voru að dytta að húsum sínum.
Eftir stutta dvöl í Flatey lónuðum við af stað í blíðunni og stefnan sett á Húsavík. Það var svo sem ekki margt sem fyrir augu okkar bar á leiðinni til Húsavíkur, jú falleg landsýn og eitt hvalgrey sem æstir túristar á hvalskoðunarbát kepptust við að mynda.
Húsavík tók á móti okkur með síðdegissól og blíðu og skelltu menn og konur sér í sund en aðrir litu við á reðursafninu, sem var svo lokað, sumum til mikillar gremju.
Eftir þetta allt saman var svo hafist handa við að græja bátanna fyrir næsta dag og að því loknu lá leiðin á Gamla bauk og nokkrum köldum baukum skolað niður fyrir svefninn.

Valli, Árni og Hilmar í heitu lauginni á Gjögri.

Föstudagurinn 27. júní 2008
Þórshöfn á Langanesi var okkar næsti viðkomustaður. Við lögðum úr höfn kl. níu í blankalogni. Það var sólarlaust, en engu að síður frábært ferðaveður. Við kíktum við í Lundey sem er rétt utan við Húsavík. Okkur höfðu verið sagðar miklar tröllasögur af lunda og lundaveiðum í þessari litlu eyju og þegar nær dró, sáum við það að eyjan var bókstaflega hvít af lunda og ef mann hefði einhvern tímann langað að vera með háfinn meðferðis, þá var það þarna.
Eftir að við höfðum virt Lundey fyrir okkur, lá leiðin á Kópasker. Þar röltum við aðeins upp í kaupfélag. Þar var að sjálfsögðu kaffisopi í boði og svo var haldið áfram framhjá Mánárbakka og að Mánáreyjum, eða Háey og Lágey. Það var sama þar, prófasturinn sat bókstaflega um allt, alveg ótrúlegt að sjá þetta magn í svona litlum skerjum,
Rauðinúpur var framundan. Þar var talsvert af súlu en þó ekkert í líkingu við það magn sem er í heimahögunum. Við keyrðum meðfram Melrakkasléttunni. Þar var svo sem lítið að sjá nema fjöruna og nokkur múkkagrey sem eltu okkur, í von um eitthvert æti. Raufarhöfn var næst á dagskrá og var stutt stoppið þar. Kíktum við á hótelið þar og hittum við Eyjamann sem að sjálfsögðu bauð okkur snæðing, en þá var það Þórshöfn og lentum við á svipuðum tíma og spúsur þeirra Friðriks og Steina, þær Alma og Eva.

Undirbúningur hófst strax fyrir næsta legg enda dágóður spotti framundan eða um 120 sjómílur. Að því loknu skelltum við okkur í laugina og að lokum var svifið inn í draumalandið.

Alma og Eva á Fjarðarheiði

Laugardagurinn 28. júní 2008

Klukkan er fimm að morgni og tímabært að drattast á lappir og kíkja á veðrið. Það var kominn austan kaldi en við létum það ekkert stoppa okkur, heldur æddum af stað og nú þurftum við að vera tímanlega á Seyðisfirði því Tóta var farin að leysa vind aftur. Ein bótin var farin að losna og báturinn þurfti að komast á þurrt hið fyrsta, en við sigldum austur með Langanesinu í kaldanum og útsýnið lítið sem ekkert, en er við komum fyrir nesið varð skárra að ferðast, enda austan aldan á hlið. Svo gerði þessa líka rigninguna að það var engu líkara en að himnarnir væru að falla á okkur, en allar skúrir styttir upp um síðir.
Vopnafjörður var framundan og fannst okkur gráupplagt að koma þar við, enda allir blautir og hálfkaldir eftir skýfallið.
Á Vopnafirði tók Eyjamaðurinn Gísli Sigmarsson á móti okkur og bauð mannskapnum í kaffisopa uppi í bræðslu þar sem hann starfar og þáðum við það með þökkum. Eftir gott spjall, kaffi og nýja vettlinga dóluðum við út fjörðinn í leiðindapusi, en allt hafðist þetta að lokum og vorum við komnir á beinu brautina og lentir í Loðmundarfirði um kaffileytið eftir að við höfðum tekið nokkrar myndir og menn kveikt sér í nikótínblysi.
Opnað var fyrir bensínið og brunað inn á Seyðisfjörð þar sem við eyddum helginni í að dytta að og laga bátanna.

Mánudagurinn 30. júní 2008
Klukkan er eitt og okkur lá svo sem ekkert á, enda næsti leggur bara niður á Eskifjörð. Við settum á flot og græjuðum okkur í rólegheitunum í blíðskaparveðri og kvöddum svo Seyðisfjörðinn. Menn voru ánægðir eftir þetta stopp. Sumir hittu ættingja en aðrir hittu gamla vini sem þeir voru á vertíð með í Eyjum. Einn af þeim sem voru í Eyjum rekur nú bar á Seyðisfirði og veitti hann vel. Áfram sigldum við að Norðfjarðarhorni, þar sem við kíktum aðeins inn, en það var nú svona bara til að segjast hafa komið þar við. Síðan var það bara næsti fjörður eða Reyðarfjörður þar sem var búið var að slá upp kaffihlaðborði handa Eyjamönnunum og gerðu flestir því góð skil. En sumir voru farnir að óttast um línurnar því nánast hvar sem við komum voru það matar- eða kaffiboð. Eftir krásirnar sigldum við að Mjóeyri við Eskifjörð. Er þangað var komið var mannmargt á bryggjunni og mörg mótorhjól. Þarna voru á ferð Drullusokkarnir, mótorhjólaklúbbur úr Eyjum. Eftir smáspjall var okkur keyrt í náttstað okkar, sem ekki var af verri endanum.
Um kvöldið hélt svo Fjarðabyggð veislu í gamalli sjóbúð fyrir okkur, eftir herlegheitin breiddi mannskapurinn svo upp fyrir haus og lét sig dreyma um heimahaganna.

„Gráni“ úti af Vestfjörðum.

Þriðjudagurinn 1. júlí 2008
Þá var það næstsíðasti leggur; Hornafjörður og mannskapurinn orðinn töluvert spenntur að komast heim. Veðrið var hálfleiðinlegt, eða norðaustan 15 metrar en samt lens þannig að við fórum að sjálfsögðu og kvöddum Eskfirðingana um hádegið.
Leið okkar lá út í Skrúð en við gátum lítið staldrað við þar vegna sjólags og roks, þannig að það eina sem var í boði, var að nota lensið áleiðis til Hornafjarðar.
Við vorum ekki búnir að sigla lengi þegar hann fór að bæta í vind og ýfa sjó enn meira. Nóg var það nú samt, en framundan var Papey og sóttist okkur ferðin hægt vegna sjólags, sem var það versta sem við höfðum séð í allri ferðinni.
Þegar upp að Papey var komið var sjórinn eins og stór grautarpottur og ekkert skjól að hafa og veltum við því fyrir okkur að flýja inn á Djúpavog. Ekkert varð af því. Á Höfn í Hornafirði skyldi halda og var þessi stutti spölur sem við áttum eftir að Stokksnesinu ansi lengi að líða. „En allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó“ eins og segir í kvæðinu.
Ohh, hvað það var gott að binda bátinn og stíga á land. En þegar þarna var komið voru Alma og Eva komnar og farnar að bíða, enda vorum við langt á eftir áætluðum komutíma.
Nú tók við þriggja daga bið fram á fimmtudagskvöld því búið var að ákveða að vera í Eyjum föstudaginn 4. júlí.

Fimmtudagurinn 3. júlí 2008
Fimmtudagskvöld og veðrið búið að vera frekar hráslagalegt alla vikuna. En einhvern tíma lægir hann. Það var komin himinsins blíða á fimmtudagskvöldinu og allir fullir af spenningi að komast heim.
Klukkan var svo hálf eitt um nóttina þegar lagt var í hann og það var algjört koppalogn og spáin þokkaleg. Strikið var sett á Jökulsárlón og átti að reyna að renna þar inn en ekki gekk það í þetta skiptið. Næsti punktur var Ingólfshöfði og þegar þangað var komið voru kallarnir komnir á heimaslóð enda eytt mörgum dögum og vikum á þessari slóð um borð í fiskibátum. Við stoppuðum við Höfðann og mynduðum hann í bak og fyrir.
Mannskapurinn velti fyrir sér hvort við ættum að fylgja fjörunni eða fara beint yfir Bugtina. „Förum bara beint yfir" sagði einhver og varð það ofan á, enda svo sem lítið að sjá, komin svartaþoka og næs. Loksins vorum við komnir yfir Bugtina eftir smá bras. Þá sprakk krani af 60 lítra bensínbrúsa sem stóð á dekkinu um borð í Nínon en snör handtök bátsverjanna redduðu því.
Vík í Mýrdal var rétt handan við hornið og enn eina ferðina komið leiðindaveður eins og það var búiðað vera nánast alla leið frá Þórshöfn. Við stöldruðum örlitla stund við Reynisdrangana og virtum þá fyrir okkur, dóluðum okkur svo áleiðis að Dyrhólaey. Þarna var klukkan aðeins átta að morgni, örstutt heim en við áttum ekki að vera í höfn fyrr en kl. fjögur. „Þá sláum við bara af’ sagði Stjáni. Við lónuðum í gegnum gatið á Dyrhólaey og ótrúlegt var að vestan við Dyrhólaey var svo sól og blíða. Við dóluðum í rólegheitum áfram í átt að Eyjum, allt í einu sáum við þær. Þetta var frábært að sigla í vestur frá Eyjum og sjá þær hverfa, koma svo úr austri þremur vikum síðar og sjá þær rísa úr sumarsænum. Og það á tveimur gúmmíbátum.
Nú fór mannskapurinn að ókyrrast og farið var að gefa hrossunum aðeins meira eldsneyti sem endaði svo á 30 mílna ferð og vorum við í Bjarnareyjarhöfn klukkutíma síðar og allur dagurinn eftir. Þá var bara eitt í stöðunni, hringt var í Bjarnareyinginn Pétur Steingrímsson og fengið leyfi til að leggja sig í veiðihúsinu og var það auðsótt mál.
Um þrjúleytið var aftur sett í gang og beðið átekta. „Hvenær hringja þau?” Jú, við vorum að bíða eftir leyfi til að koma í land því það átti að taka á móti okkur á Skansinum.
Svo var hringt, þvílíkur spenningur og allt fullt af bátum að fylgja okkur síðustu metrana af þessum rúmlega 1100 sjómílum.
Er við komum inn fyrir garða blasti við okkur nokkur hundruð manns, vá, þvílíkar móttökur. Það voru skrýtnar tilfinningar sem þutu um huga okkar í bland við gæsahúð, en heim var komið og við búnir að sjá margt sem maður á líklega ekki eftir að sjá.