Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2005/Grafskipið Vestmannaey 70 ára 1935-2005

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
FRIÐRIK ÁSMUNDSSON


Grafskipið Vestmannaey 70 ára 1935 - 2005


Til þess að útgerð í Vestmannaeyjum gæti vaxið og dafnað á eðlilegan hátt, sáu menn snemma á öldinni sem leið að framkvæma þurfti margt við höfnina þegar vélbátarnir fóru að koma, einn 1904, tveir 1905, nítján voru gerðir út 1907 og þeim fjölgaði enn, fjörutíu og sex reru héðan 1910 og níutíu og fimm árið 1930. Nauðsynlegt var að byggja hafnargarða, viðlegurými og að dýpka höfnina. Kaupin á grafskipinu Vestmannaey árið 1935 voru mikið lán fyrir þessa byggð, nánast alla tíð síðan hefur það verið notað í höfninni að undanskildu sumrinu 1959 þegar það dýpkaði höfnina á Rifi á Snæfellsnesi.

Prammi á útleið fullur af sandi

Í þessari grein, um grafskipið Vestmannaey, verður stuðst við bók Jóhanns Gunnars Ólafssonar bæjarstjóra, Hafnargerðin í Vestmannaeyjum, sem kom út 1947. Viðtal í þessu blaði, árið 2002, sem Helgi Bernódusson átti við Sigurð Kristinsson á Löndum, starfsmann hafnarinnar og grafskipsins í 33 ár, frá 1942 til 1975. Viðtöl við Jón Gunnlaugsson á Gjábakka sem var á grafskipinu í 23 ár, 1973 til 1996, og Jóhann Guðjónsson, núverandi verkstjóra þar um borð. Einnig við aðra núverandi starfsmenn hafnarinnar.

Eftir upphaf vélbátaútgerðarinnar og sérstaklega eftir að þeir stækkuðu varð nauðsynlegt að dýpka höfnina. Þótt hún væri grunn var það ekki stórt vandamál á róðrarbátatímabilinu sem talið er enda 1906 að sögn Þorsteins Jónssonar frá Laufási í Aldahvörfum í Eyjum. Samt varð innsiglingin um Leiðina, en það hét leiðin inn í höfnina, oft erfið og ófær þegar veður versnuðu. Sérstaklega var það við Steininn, sem var við Sandrifið út af Hafnareyri, og Hnykilinn, sandgrunn í Leiðinni út af Nausthamri. Þarna voru aðalhætturnar á leið til hafnarinnar og annars staðar var höfnin grunn. Um það leyti, sem grafskipið kom, var algengt að vélbátarnir stæðu fastir í Leiðinni meðan lágsjávað var en Hnykillinn hafði verið fjarlægður af grafskipi 1927. Ríkisstjórn Íslands tók danska sanddæluskipið Uffe á leigu, þetta ár, til þess að dýpka á nokkrum stöðum á landinu. Vestmannaeyjahöfn var þar á meðal. Uffe kom hingað í júlí og fór aftur 6. ágúst sama ár. Það dældi burt Hnyklinum og gróf víðar í höfninni. Talið var að það hefði dælt upp 24072 rúmmetrum og var kostnaðurinn 3,50 kr. á rúmmetrann og því alls 84,252,00 kr. Var það talið óhagstætt fyrir höfnina. En nú sýndi það sig að hægt var að dýpka hana.

Grafskipið í Vestmannaey að störfum

Um Uffe segir, í skýrslu til atvinnu - og samgönguráðuneytisins, árið 1930 um dýpkunarskip m.a. eftirfarandi: „Það þykir hentugt að það er þannig búið að það getur, jafnframt því að dýpka, gert fyllingar að hafnarsvæðum með því að dæla á land því sem upp er grafið. Auk sanddælunnar hefur skipið „grab“ sem nota má á þeim stöðum þar sem sanddælan ekki getur unnið botninn. Samið var, við eigendurna (Dansk Sandpumperkompagni) um að skipið kæmi til landsins vorið 1927 og ynni á ýmsum stöðum, sérstaklega Akureyri, Vestmannaeyjum og Borgarnesi. Á Akureyri kom fljótt í ljós að botninn var ekki við hæfi skipsins. Vinnan gekk hægt hvort heldur notuð var sanddælan eða „grab“. Var mikið af grjóti í botninum sem tafði vinnuna. Í Vestmannaeyjum gekk dýpkunin vel enda var þar hreinn ægisandur,“ segir í fyrrnefndri skýrslu.

KAUPIN Á GRAFSKIPINU VESTMANNAEY
Í árslok 1928 leitaði Finnbogi Rútur Valdimarsson verkfræðingur eftir því hjá Vestmannaeyjahöfn hvort hún vildi leggja fram fé til kaupa á dýpkunarskipi með ríkissjóði og öðrum sjávarbyggðum. Á alþingi var gerð samþykkt 15. maí það ár um kaup á dýpkunarskipi og bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti 50 þús. kr. til kaupanna.
Árið 1930 fór Finnbogi til útlanda til að kynna sér hafnargerðir og aflaði sér upplýsinga um dýpkunarskip. Eftir ýmsar athuganir var málið lagt fyrir alþingi 1930 en fékk engan hljómgrunn. Hafnarnefnd Vestmannaeyja athugaði nú gögn Finnboga Rúts varðandi skipin sem hann hafði skoðað. Niðurstaðan varð sú að kaupa dýpkunarskip fyrir Vestmannaeyjahöfn eina. Á fundi hennar 9. júní 1932 var óskað eftir 80 þús. kr láni hjá Fiskveiðisjóði Íslands til kaupanna en það fékkst ekki. Á fundi í hafnarnefnd 8. ágúst 1933 var þess farið á leit við vitamálaskrifstofuna að Finnbogi Rútur færi til útlanda fyrir nefndina til þess að leita tilboða í dýpkunarskip fyrir Vestmannaeyjahöfn. Þetta var samþykkt í bæjarstjórn 24. ágúst 1933. Vitamálastjórn samþykkti ferðina en hafnarsjóður greiddi allan kostnað hennar. Finnbogi fór út þá um haustið og kynnti sér dýpkunarskip í Hollandi, Þýskalandi, Englandi og Danmörku. Og þetta haust, 30. nóvember, samþykkti bæjarstjórn tillögu um að ríkissjóður greiddi helming stofnkostnaðar en áætlað var að skip mundi kosta 100 þús. kr. Alþingi samþykkti að ríkið styrkti kaupin með þriðjungstillagi.

Tilboð, sem Finnbogi Rútur kom með um kaup á grafskipi frá Fredrikshavns Værft og Flydedok A/S Friðrikshöfn í Danmörku, var samþykkt í hafnarnefnd 15. mai 1934.

Búrhnífur Önnu í Laufási. 1939 - 1945 var Jón Guðleifur Ólafsson (Leifi á Garðstöðum) vélstjóri á grafskipinu. Einhvern tíma á árinu 1942 kom þessi hnífur upp í sogrörinu. Leifi færði frúnni hnífinn og er hann notaður enn í dag

Einnig var samþykkt á þessum fundi að fá samþykki ríkisstjórnarinnar um að ríkisstyrkur til skipsins yrði fyrsta greiðslan fyrir skipið. Þetta var samþykkt í bæjarstjórn 17. mai 1934. En þá neitaði ríkisstjórnin að samþykkja kaupin. Í júlílok 1934 voru stjórnarskipti. Eftir fund í hafnarnefnd þá og ferð bæjarstjóra til Reykjavíkur til viðræðna við nýja ríkisstjórn komst skriður á málin. Hinn 9. ágúst 1934 samþykkti atvinnu - og samgönguráðuneytið að Vestmannaeyjahöfn keypti skipið og lofaði að greiða styrkinn til kaupanna. Það var síðan í bréfi 24. ágúst 1934 að skipasmíðastöðin stóð endanlega við kaupsamninginn. Hafnarnefnd undirritaði smíðasamninginn 19. október það ár og var kaupverðið 114 þús. kr., 34 þús. áttu að greiðast í nóvember, 34 þús í október 1935 og afgangurinn, 46 þús., í október 1936. Skipið átti að vera tilbúið 1. apríl 1935. Og Madsen, danskur vélaeftirlitsmaður, var ráðinn til eftirlits með smíðinni fyrir Vestmannaeyjahöfn. Eins og oft vill verða, varð kostnaðurinn talsvert meiri. Fullbúið til vinnu kostaði skipið 162,020,35 kr.

GRAFSKIPIÐ VESTMANNAEY KEMUR

Það var 29. mai 1935 að dráttarbáturinn Pluto kom með Vestmannaey til Eyja. Ferðin hafði gengið vel og þann dag var skipið afhent. Skipslag er ekki á því, heldur er það kassalaga eins og prammi og þess vegna er ekki hægt sigla því. Á því er hvorki stýri né skrúfa. Botninn er flatur en snið á honum upp að afturgafli, gaflar og hliðar eru lóðréttar. Klof er inn í skrokk skipsins að framan þar sem sogslangan eða raninn liggur niður. Þegar skipið kom til landsins og þegar það var dregið til Rifs 1959, var það dregið afturábak vegna sniðsins á botninum sem auðveldaði dráttinn.

Tyrkjabyssan

Framendinn er þar sem raninn liggur fram í gegnum klofið því skipið grefur sig áfram við dýpkun. En því er ekki að neita að stundum hefur verið þvargað um hvað er fram og hvað er aftur á grafaranum. Lengdin 18,25 m breiddin 6,04 m og dýptin 1,53 m, en upphækkun að aftan þar sem borðsalurinn er undir og djúpristan er 0.5 til 0,6 m.

Í skipinu var Tuxhamvél, tveggja strokka, 184 til 210 hestöfl og miðflótfaaflssanddæla. Með fylgdi 8 m. langt sogrör, líka kallað rani. Á enda þess var hnífur (þyrlari) sem þyrlaði upp botnlaginu. Þessi þyrlari er ekki á rörinu í dag. Einnig fylgdu með 12 tommu víð stálrör allt að 240 m. löng til þess að dæla sandinum í fyllingar eða hvert sem var frá skipinu hverju sinni. Að auki fylgdu 6 akkeri 100 og 125 kg þung. Á hvorum enda skipsins eru spil og fylgdu með 900 m af vír. Að aftan eru þrjár trommur. Frá þeim liggja vírar þvert í land og beint aftur. Að framan eru fjórar trommur, frá tveimur liggja vírar þvert í land, einni beint aftur og sú fjórða hífir og slakar sogrörinu. Með þessum búnaði er skipið stillt af við gröftinn. Svefnkáeta var fyrir fjóra menn, á dekki var eldhús og salerni og skipið var raflýst. Svefnklefanum hefur nú verið breytt í borðsal og eldunaraðstöðu.
Þegar skipið kom, gat það grafið niður á 6 m. dýpi miðað við meðalstórstraumsfjöru. Þegar bátar og skip stækkuðu og djúprista þeirra varð meiri, varð þörf fyrir meira dýpi. Sogrörið var þá lengt, fyrst um 2 m og síðar meira þannig að í dag getur skipið grafið niður á 12 m miðað við meðalstórstraumsfjöru. Mesta dýpi sem skipið hefur grafið er skurðurinn fyrir skolpleiðslurnar. Hann liggur þvert yfir höfnina milli Básaskers - og Nausthamarsbryggju og norður fyrir Eiði. Þar er dýpið 10 m. Þegar sogrörið lengdist, var smíðaður pallur fram úr skipinu sem auðveldaði störfin við það. Og árið 1977 var svo komið að öflugri vél þurfti til þess að soga sandinn upp úr botninum. Var Tuxhaminum þá skipt út fyrir 360 hestafla Caterpillarvél

FYRSTU VERKEFNIN.

Danska hafnarmannvirkjagerðin lánaði vanan mann, C.C. Tomey verkstjóra, til þess að kenna okkar mönnum störfin. Byrjað var að grafa innan við Básaskersbryggjuna og í innsiglingunni, Leiðinni. Fyrsta áhöfnin var: Guðmundur Gunnarsson og Runólfur Runólfsson vélstjórar, Böðvar Jónsson og Helgi Guðlaugsson. Frá 16. maí 1937 var Árni Þórarinsson yfirverkstjóri. Það kom fljótt í ljós að víða í höfninni var hægt að vinna með þessu skipi. Leirlagið sem var víða, var ekki harðara en svo að hægt var að dæla undan því þannig að það féll niður og molnaði. Á Sandrifinu vann skipið ekki, það var svo grýtt og tæki þess eru nær eingöngu sandsuga. Í mörg ár hafði Friðfinnur Finnsson kafari slegið stroffum á grjótið þarna niðri og síðan var það híft upp á pramma. Talsvert af grjótinu, stærðar björg, var grafið niður í sandinn og því erfitt við að eiga. Böðvari Ingvarssyni, verkstjóra við hafnargerðina, datt það snjallræði í hug að láta dælu skipsins dæla öfugt. Trekt var látin á enda sogleiðslunnar svo þrýstingurinn varð meiri. Þannig þyrlaðist sandurinn í kringum grjótið í burtu og auðveldara varð að slá á það. Þetta starf breytti aðstæðum til mikilla bóta. Bátar hættu að stranda í leiðinni þó fjara væri og miklu oftar var hægt að sigla flutningaskipum inn og út.

Teikning Jóa listó af fyrrverandi starfsmönnum grafskipsins, f.v.: Bergur Loftsson vélstjóri, Björgvin Jónsson og Sigurjón Valdason

STARFIÐ Á LIÐNUM ÁRUM

Þegar Sigurður Kristinsson, Siggi á Löndum, hóf störf a grafaranum 1942 var unnið á 3 vöktum, þrír á vakt. Á þeim árum var ekki grafið á vetrarvertíðinni. Það var ekki hægt, rörin og vírarnir út frá skipinu um alla höfn. Bátafjöldinn og umferðin var svo mikil. Þá var unnið við viðhald og önnur störf við höfnina. En frá vori til hausts var grafið á fullu. Árið 1954 var hætt að dæla í gegnum rörin frá skipinu. Þá komu prammarnir sem enn eru notaðir. Í þá er dælt og þeir dregnir austur fyrir Ystaklett austur í Flóa þar sem losað er úr þeim. Oft voru á þeim ungir strákar sem voru komnir í framhaldsnám og náðu þar í aura upp í námskostnaðinn. Lengst af hefur hafnarbáturinn Léttir (sjá bls. 28) dregið þá fram og til baka. Meðan dælt var í gegnum rörin upp á land var það stundum í sandhóla suðvestan til á Eiðið. Þangað var sandurinn sóttur til steypu og fleiri nota. Rétt eftir að Siggi á Löndum byrjaði á grafaranum, 1942, var byrjað að grafa inni í Botni fyrir Friðarhöfninni. Þarna voru áður kartöflugarðar og íþróttavöllur. Hluta af sandinum sem þarna var, var dælt inn fyrir (norður fyrir) Eiði en mestur hlutinn fór í prömmunum austur í Flóa. Botn hafnarinnar er að mestu sandur og leir. Á einstaka stað var grjót sem þurfti að slá á og hífa upp eins og gert var við Sandrifið. Frá leirhellum var grafið og síðan var raninn látinn falla á þær og mylja. Í eldgosinu 1973 barst mikill vikur í höfnina. Samtals um 400 þús rúmmetrar sem grynnkuðu hana um 1 m. að jafnaði. Það varð því verkefni grafarans í nokkur ár að soga hann upp til þess að fyrra dýpi næðist aftur. Og í mörg ár eftir gosið urðu starfsmenn hans varir við vikur um alla höfn.

Núverandi starfsmenn á grafskipinu, f.v.: Magnús Magnússon, Jóhann Guðjónsson verkstjóri og Gunnar Kristinsson

Frá byrjun hafa merkilegir hlutir komið upp í sogrörinu. Sá merkilegasti, Tyrkjabyssan, vorið 1968. Við fyrstu sýn leit þetta út eins og hólkur úr eirblöndu ásamt hylki úr sama efni. Áhöfnin gaf Byggðasafninu gripinn. Í minjaskrá þess segir m.a: „Teikning var gerð og send fræðimönnum í Kaupmannahöfn og London. Þeir bresku fullyrtu að þetta væri byssuhlaup og skothylki frá miðöldum sem notuð voru á skipum norður afrikanskra sjóræningja í Miðjarðarhafi.“ Staðfesting á þessu fékkst í bókinni Skibet eftir danska rithöfundinn Björn Landström. Þar eru myndir af byssum frá miðöldum af líkri gerð.
Það fylgir sögunni að þessar litlu byssur hafi jafnan verið bundnar á öldustokka skipanna og verið notaðar til að deyða menn á þilförum skipa sem ræna skyldi. Vitað er að afrikanskir sjóræningjar rændu hér í Vestmannaeyjum í júlí 1627. Þeir deyddu 34 Vestmannaeyinga ýmist skutu þá, brenndu inni eða stungu til dauða. Ekki er ósennilegt að þessir sjóræningjar frá Alsír hafi misst þessa byssu í Leiðina, hafnarmynnið, þegar þeir færðu til skipa sinna 242 Eyjabúa sem þeir fluttu í ánauð til Alsír.
Hvítir steinar með rauðum æðum hafa lengi komið í sogrörið. Sá síðasti fyrir 2 til 3 árum. Þeir eru með óreglulega lögun um 2 til 4 kg. að þyngd. Menn hafa talið þetta vera ballestargrjót erlendra skipa sem komu, á árum áður, til Eyja að sækja afurðir á erlenda markaði. Enn eru netasteinar að koma upp þótt liðin séu 25 til 30 ár síðan þeir voru notaðir og blýteinar komu til sögunnar. Margir eldgamlir. Gammur VE 174 sökk 27. apríl 1937. Áhöfnin bjargaðist um borð í Óskar VE. Steinn merktur honum (VE 174) kom upp fyrir 2 til 3 árum. Enginn bátur í Eyjum hefur haft þessa einkennisstafi síðan Gammur hafði þá. Eigendur hans voru Ágúst Þórðarson Aðalbóli, Jón Sigurðsson Vestmannabraut 73 og Torfi Einarsson í Áshól, sem var skipstjórinn. Sigurður Jónsson, sonur Jóns, á 2 steina frá þessari útgerð sem hafa komið upp í sogrörinu.
Miðað við nútímann eru afköstin við gröftinn lítil. Frá vori, síðasta árs til aprílmánaðar á þessu ári, hefur grafskip og flutningaprammi á vegum Sæþórs í Reykjavík unnið hér við dýpkun hafnarinnar niður í 8 m. Hefur það gengið fljótt og vel. Afköstin þar eru mikil miðað við okkar gamla grafskip sem er náttúrulega barn síns tíma, gamalt og lúið. Það breytir ekki því að grafskipið Vestmannaey hefur átt stærstan þáttinn í að gera Vestmannaeyjahöfn miklu betri en nokkurn hefði trúlega órað fyrir þegar það kom nýsmíðað hingað 29. mai 1935.
Hér er vert að minnast þeirra sem óhikað keyptu þetta skip fyrir Vestmannaeyjahöfn eina þegar ríkið og nokkrar aðrar sjávarbyggðir, ásamt Vestmannaeyjum, hættu við kaup á dýpkunarskipi. Þeirra þáttur er stór í sögu Eyjanna.


Friðrik Ásmundsson