Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Nýr lóðs

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Grímur Gíslason

Nýr Lóðs

Nýr Lóðs fyrir Vestmannaeyjahöfn, sem smíðaður var hjá Skipalyftunni í Eyjum, var afhentur formlega 24. janúar sl. Lóðsinn er fyrsta nýsmíði Skipalyftunnar og fyrsta stálskipið sem smíðað er í Eyjum.
Gamli Lóðsinn, sem smíðaður var árið 1961, uppfyllti ekki lengur þær þarfir sem nú eru gerðar til hafnsöguskips og því hafði undirbúningur að endurnýjun Lóðsins staðið í nokkurn tíma áður en gengið var frá samningi um smíðina við Skipalyftuna. Samningurinn var undirritaður í apríl 1995. Ráðgert var að smíðinni lyki í apríl 1996 en samkomulag var um það milli hafnarstjórnar og Skipalyftunnar að ef Skipalyftunni byðust næg verkefni mætti seinka afhendingu skipsins frá því sem ráðgert var.
Hafnarstjórn skipaði smíðanefnd fyrir Lóðsinn sem hafði eftirlit með framkvæmdum. Í henni sátu Sveinn Rúnar Valgeirsson, formaður, Grímur Gíslason, Ágúst Bergsson og Guðjón Hjörleifsson en Ólafur M. Kristinsson hafnarstjóri starfaði með nefndinni og hafði með höndum daglegt eftirlit með smíðinni. Tæknilegur ráðgjafi hafnarstjórnar við smíðina var Jón Bernódusson skipaverkfræðingur.

Lóðsinn er öflugt hafnsögu-, dráttar-og björgunarskip, öflugasta skip landsins á þessu sviði að frátöldum varðskipunum. Skipið var hannað af Skipalyftunni og uppfyllir kröfur Siglingastofnunar um skip af þessari gerð. Skipið, sem er 147,6 brúttótonn, er 24,5 metrar á lengd, 7,33 metrar á breidd og djúprista þess er 3,95 metrar. Aðalvélar skipsins eru tvær, 1000 hestafla 1500 sn./mín. Mitsubishi, gírar eru frá Mecanord og skrúfubúnaður frá Hundested. Hjálparvélar eru tvær, 70 kW Mitsubishi og stýrisvélar eru frá Scan. Vindubúnaður er frá Osey, tvær 10 tonna dráttarvindur með 70 tonna bremsukrafti, dráttarkrókur fyrir 75 tonna togátak og á þilfari er glussakrani með vindu. Skipið er mjög vel búið siglingatækjum. Radar er frá Furuno, gírókompás frá Anschiitz, sjálfstýring frá Navitron, dýptarmælir frá Elac, siglingatölva er af Mac Sea gerð og talstöðvar, sem uppfylla reglur um GMDSS, eru frá Sailor. Tveir öflugir og fjarstýrðir ljóskastarar, frá Friðrik A. Jónssyni, eru á brúarþaki. Á brúarþaki er öflug slökkvibyssa sem hægt er að dæla úr bæði sjó og slökkvikvoðu.
Í Lóðsinum eru íbúðir fyrir sex menn í eins og tveggja manna klefum í þilfarshúsi og þriggja manna klefa undir aðalþilfari. Í þilfarshúsinu er einnig sambyggt eldhús og borðsalur auk baðs og salernis. Ganghraði Lóðsins í prufukeyrslu var 13 sjómílur og togkraftur um 30 tonn. Auk Skipalyftunnar komu nokkrir undirverktakar að smíði skipsins. Drangur ehf. sá um innréttingar og aðra trésmíðavinnu, Faxi ehf. um raflagnir og niðursetningu tækja, Grétar Þórarinsson um pípulagnir og Eyjablikk um blikkklæðningar.

Lóðsinn var afhentur við hátíðalega athöfn framan við Skipalyftuna og þá var skipinu einnig gefið nafn. Ólafur Friðriksson, framkvæmdastjóri Skipalyftunnar, flutti ávarp við upphaf athafnarinnar og afhenti Sveini Rúnar Valgeirssyni, formanni hafnarstjórnar, lykla að skipinu. Sveinn rakti síðan smíðasögu skipsins og þakkaði þeim sem að smíðinni höfðu komið fyrir góð og fagleg vinnubrögð. Sveinn afhenti síðan Ágústi Bergssyni, skipstjóra Lóðsins, lyklana að skipinu.
Að því loknu gaf Sigurgeir Ólafsson, Siggi Vídó, skipinu nafnið Lóðsinn. Ekki vildi kampavínsflaskan brotna í fyrstu tilraun hjá Sigurgeir en í annarri tilraun brotnaði hún í mél á kinnungi Lóðsins. Vakti þetta ánægju hjá mörgum því sagt er að það sé gæfumerki fyrir skip ef flaskan brotnar ekki fyrr en í annarri tilraun.

Eftir nafngiftina blesssaði séra Jóna Hrönn Bolladóttir Lóðsinn og áhöfn hans. Við afhendinguna voru Lóðsinum færðar gjafir. Guðmundur Jóhannsson, forseti Kiwanisklúbbsins Helgafells, afhenti Koden miðunarstöð að gjöf frá klúbbnum og Bára Guðmundsdóttir, formaður slysavarnardeildarinnar Eykyndils, afhenti eina milljón til tækjakaupa í sjúkraklefa skipsins frá Eykyndilskonum. Sveinn Rúnar tók við gjöfunum og þakkaði félögunum fyrir þann hlýhug sem þau sýndu með þeim.
Að því loknu voru landfestar Lóðsins leystar og skipið sigldi út á höfnina. Léttir og gamli Lóðsinn sigldu til móts við hann og þeyttu flautur sínar. Áhöfn nýja Lóðsins svaraði kveðjunum með því að þeyta flautur og sprauta úr slökkvibyssunni á brúarþakinu yfir gömlu hafnsögubátana tvo.
Lóðsinn er mjög öflugt og myndarlegt skip sem án efa á eftir að koma að góðum notum í framtíðinni. Ákveðið var að nýi Lóðsinn yrði einnig öflugt dráttar- og björgunarskip. Þannig var við smíði skipsins reynt að stuðla að auknu öryggi sæfarenda við suðurstöndina.
Öll vinna við smíði Lóðsins er fagmannleg og þeim sem að henni komu til sóma.
Skipstjóri á Lóðsinum er Ágúst Bergsson en yfirvélstjóri Óli Sveinn Bernharðsson.