Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1996/ Nýsköpun í Vinnslustöðinni h.f.

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ómar Garðarson


NÝSKÖPUN Í VINNSLUSTÖÐINNI HF.
„200 Mílurnar“ hafa slegið í gegn


Helsti vaxtarbroddur í starfsemi Vinnslustöðvarinnar síðustu misseri er sérpökkunin. Framleiðsluverðmæti jókst um 83% á milli reikningsáranna 1993-1994 og 1994-1995, auk þess sem umsvifin hafa aukist umtalsvert þar sem vöxtur hefur orðið í margvíslegri sérvinnslu af frystum afurðum.
Í ársskýrslu Vinnslustöðvarinnar fyrir síðasta ár segir Sighvatur Bjarnason framkvæmdastjóri að framtíð liggi án efa í þeim vöruflokkum sem nú er verið að vinna í sérpökkuninni. „En markaðurinn er erfiður og það hefur kostað verulega fjármuni að þróast áfram í þessari vinnslu. Félagið hefur náð tökum á framleiðslunni og hefur framleiðslukostnaður, að undanskildu hráefni, lækkað um ríflega 14% frá fyrra ári. Með aukinni vinnslu mun takast að koma kostnaðinum enn frekar niður,“ segir Sighvatur.
Er nú svo komið að vinnsla í neytendapakkningar er farin að skila arði. Á síðasta reikningsári var heildarframleiðsluverðmætið 246 m.kr. á móti 135 m.kr. árið á undan. Meðalverðmæti á hvert kíló varð 250 kr. á móti 215 kr. á árinu á undan. Framleiðsla á útvötnuðum saltfiskmarningi stóð nánast í stað, en framleiðsla flestra annarra vöruflokka jókst á árinu. Samtals var framleiðslan 982 tonn á móti 628 tonn á árinu á undan.
Í sérpökkuninni starfa nú um 50 manns og er unnið alla daga frá því snemma á morgnana fram að kvöldmat.
Nýjasti sprotinn í sérpökkuninni er framleiðsla á neytendavörum fyrir íslenskan markað undir vörumerkinu: 200 mílur. Það var lán fyrirtækisins að Þorbergur Aðalsteinsson var ráðinn til að stjórna þessu verkefni. Í samvinnu við yfirmenn í sérpökkuninni hófst þessi framleiðsla á síðasta ári. Byrjað var á því að setja skötusel á markað. Var hann kryddaður eftir kúnstarinnar reglum og var hann tilbúinn á grillið, pönnuna eða í ofninn. Samhliða þessu var útvatnaður saltfiskur settur á markað og lausfryst ýsuflök. Saltfiskurinn og ýsuflökin hafa slegið í gegn svo um munar og er það ekki síst að þakka miklu söluátaki í Reykjavík. Þegar ýsuflökin voru kynnt í Hagkaup í Reykjavík var eftirspurnin það mikil að varla hafðist undan að framleiða.
Nýjasta tilraunin er mikið útvatnaður saltfiskur, steikingarsaltfiskur sem listakokkurinn Sigurður Hall hefur kynnt. Var hann með kynningar í Hagkaupsbúðunum í Skeifunni, á Akureyri og í Garðabæ. Hámarki náði kynning á Hótel Sögu. Þar kynnti Sigurður framleiðsluna með miklum glæsibrag og sló steikingarsaltfiskurinn svo sannarlega í gegn. Þorbergur segir að þetta hafi verið mjög skemmtilegt verkefni. „Þetta hefur gengið ótrúlega vel frá því við byrjuðum í fyrra haust. Við erum komnir inn í allar stærstu matvöruverslanirnar í Reykjavík með saltfiskinn og ýsuna. Nú ætlum við að halda áfram að þróa vöruna og bæta við vöruflokkum,“ segir Þorbergur. Hann segir að þetta tímabil hafi verið skemmtilegt og lærdómsríkt. „Maður finnur fljótt að hlutirnir gerast ekki af sjálfu sér. Það er ekki nóg að koma vörunni á markað, það þarf að fylgja henni vel eftir með auglýsingum og kynningum. Svo verðum við að vera vakandi fyrir árstíðum, t.d. þýðir ekkert að bjóða upp á saltfisk á sumrin, og mesti markaður fyrir skötu er fyrir jólin.“ Þorbergur er mjög ánægður með samstarfið við Sigurð Hall, ekki síst vegna þess að Sigurður er sérstaklega áhugasamur um saltfisk og saltfiskrétti. „Sigurður hefur verið með 15 kynningar á steikingarsaltfiski í verslunum Hagkaups sem hafa heppnast mjög vel. Hefur þetta framtak okkar vakið mikla athygli fjölmiðla og hefur fengið alveg ótrúlega mikla umfjöllun í þeim. Það hefur þegar skilað sér í mikilli sölu og við eigum eftir að búa að því í framtíðinni.“ Þó ekki séu nema níu mánuðir frá því framleiðslan hófst hefur Þorbergi tekist að kortleggja markaðinn nokkuð vel. „Næsta skref er að komast inn á vor- og grillmarkaðinn. Þá leggjum við áherslu á lúðu, steinbít, búra og skötusel. Við byrjuðum á skötuselnum strax í fyrrahaust og nú er að fylgja því eftir.“ Þorbergur segir of snemmt að segja hverju þessi nýjung hjá Vinnslustöðinni skilar félaginu í tekjum og fjölgun starfsmanna. „Við höfum þó séð að þetta er góð viðbót sem skilar sér líka til ýmissa þjónustuaðila í bænum. Þannig að við höldum ótrauðir áfram. Enn er þetta á tilraunastigi en ég get ekki betur séð en að þessi tilraun ætli að heppnast. Í framhaldi af því hljótum við að stefna að því að koma tilbúnum fiskréttum á markað erlendis. Það er markmiðið þegar til lengri tíma er litið“ sagði Þorbergur að lokum.
Ómar Garðarsson.