Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1995/ Horft til baka

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Árni á Eiðum

Horft til baka

Árið 1947 var lokið smíði á stærsta tréskipi sem smíðað hafði verið hérlendis. Helgi Benediktsson, sem var kunnur útgerðarmaður og atvinnurekandi hér á árum áður í Eyjum, lét smíða skipið. Kunnur skipasmiður, Brynjólfur Einarsson, sá um smíðina sem tók nokkur ár. Ekkert var til sparað, skipið vel viðað úr eik, 188 brl. með 500 ha. June Munktell vél. Smíðin fór fram „inní botni“ eins og það var kallað í þá daga, á þeim stað sem loðnuþrær fiskmjölsverksmiðjunnar eru nú. Þar kom að smíðinni lauk og var skipið sjósett 7. júlí 1947 kl. 23:00 að viðstöddum miklum mannfjölda. Erfiðlega gekk að fá skipið af stað, en að lokum tókst það og glumdu þá við húrrahróp viðstaddra. Skipið hlaut nafnið Helgi Helgason VE 343 og var hið fríðasta fley.

Nú dugði ekki minna en að fá landsþekktan aflamann fyrir skipið, en sá var Arnþór Jóhannsson frá Siglufirði, Addi á Dagný eins og hann var nefndur. Hann hafði getið sér hvað mest frægðarorð á því skipi. Helga var haldið út til sildveiða á sumrum og var ávallt í toppnum, á vetrum var svo siglt með fisk til Englands.

Árið 1949 réðst greinarhöfundur háseti á Helga. Í mér var nokkur spenningur að fá að sjá hvernig aflakóngar bæru sig að við veiðarnar. Eins og að líkum lætur gat Arnþór valið úr mannskap, áhöfnin var öll héðan úr Eyjum nema hvað stýrimaðurinn, Gísli Jónasson frá Siglufirði, fylgdi Arnþóri. Þeir höfðu áður verið saman. Gísli var mikill frískleikamaður og góður sjómaður. Hann bar það með sér í öllum hreyfingum að hér fór knár maður.

Haldið var til síldveiða í byrjun júlí og leitað út af Horni og víðar á leiðinni til Siglufjarðar. Hvergi varð síldar vart. Ekki var mikið um síld þetta sumar, enda síldin að hverfa af Íslandsmiðum sem síðan leiddi til hruns. Arnþóri gekk betur en flestum öðrum eins og svo oft áður. Það brást varla að Helgi var mættur á því svæði sem síld gaf sig til. Arnþór virtist gæddur sjötta skilningarvitinu, að vera staddur á réttum stað á réttum tíma.

Hann átti það til að standa upp frá borðum í miðri máltíð og kalla „klárir“ þegar hann kom upp í brú. Hann sá allavega torfur þegar enginn sá neitt. Mér er minnisstætt að einu sinni er hann stóð í brúnni fyrir aftan strákahópinn kallaði hann „í bátana.“ Við sem framar stóðum sáum ekkert. Eitt sinn köstuðum við á geysistóra torfu við Rauðunúpa, síldin var inni í nótinni, en svo illa tókst til að snurpulínan slitnaði og síldin synti sína leið. Allir hábölvuðu nema „karlinn.“ Hann var einstakt prúðmenni sem aldrei skipti skapi, ekki var stærilætið, hann gat setið og spilað Ólsen-Ólsen við strákana og skemmt sér engu síður en þeir. En áfram með frásögnina af stóra kastinu sem við misstum. Þegar lokið var við að draga nótina lagðist yfir svartaþoka svo að ekki sást til næstu skipa. Nú voru bátarnir teknir upp og sett á fulla ferð. En hvert var haldið? Nú gerðust „karlarnir“ forvitnir. Við sáum þó að stefnan var austlæg. Nú var keyrt þar til komið var í bjartan hring í mynni Vopnafjarðar. Og viti menn, þar sáust vaðandi torfur. Kastað var nokkrum sinnum meðan síldin sást, síðan var haldið til Seyðisfjarðar og landað 1600 málum. Þetta var eina veiðin sem fékkst þennan sólarhringinn. Hvað réð því að Arnþór gat keyrt á þennan stað óhikað? Það fengum við ekki skilið. Flest skip hættu veiðum í september, en nokkur þraukuðu, þar á meðal við. Um miðjan sept. fór að veiðast á Þistilfirði og fengust allgóð köst ef síldin náðist, en hún var fjónstygg. Einn dag fengum við 1000 tunnur sem saltaðar voru á Raufarhöfn. Meðan á löndun stóð fór Arnþór að hitta vin sinn, Óla Hertervig, en hann var kunnur bakari á Siglufirði. Þegar löndun var lokið kom „karlinn“ um borð og var þá sleppt og haldið á miðin en ekki á sama stað, heldur var keyrt fyrir Sléttu. Hvað var „karlinn“ að hugsa að keyra úr þessari veiði? Ekki þýddi að reyna fyrir sér á Grímseyjarsundi, þar hafði ekki sést branda allt sumarið. Um morguninn var komið á Grímseyjarsund í sól og blíðu og nú sáust nokkrar síldartorfur. Nú voru hafðar hraðar hendur við að kasta, en hér var sýnd veiði en ekki gefin því að fáar síldir fengust út úr kastinu. Nú var siglt í átt til Grímseyjar og kastað fimm sinnum. Síðan var haldið til Siglufjarðar og saltaðar 1500 tunnur. Þetta reyndist síðasta veiði sumarsins. Er það ekki furðulegt að Arnþór skyldi vera mættur á þessum stað þann eina dag sem síld sást þar um sumarið?

Vertíðinni var lokið, komið var til Eyja 2. október, skemmtilegt úthald á enda. Nú hafði ég fengið að sjá hvernig aflakóngar fara að til að skara fram úr öðrum góðum aflamönnum. Arnþór og Gísli voru farþegar á m.b. Helga sem fórst á Faxaskeri í byrjun árs 1950, en þeir voru að koma úr jólaleyfi. Ekki verður sú sorgarsaga rakin hér, en í Eyjum fór í hönd sorgartími og óhug sló á menn svona í upphafi vertíðar. Þeir bræður Gísli og Arnþór Helgasynir bera nöfn þessara heiðursmanna og sýnir það hvað þeir voru í miklum metum hjá sínum húsbændum.

Læt ég þar með lokið frásögn frá síldveiðum á m.b. Helga Helgasyni með aflakónginum Arnþóri Jóhannssyni fyrir 45 árum.

Til hamingju með daginn!