Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Eilífðin hans Gísla Johnsen

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Haraldur Guðnason:

Elífðin hans Gísla Johnsen

Gísli Johnsen segir svo frá í samtalsbók (Fólkið í landinu I):
,,Árið 1924 byggði ég í Vestmannaeyjum fyrstu stóru fiskvinnslustöðina á landinu. Áður vann fólk þar að fiskaðgerð og þvotti undir berum himni, en í þessaru nýju stöð fór það allt fram innanhúss. Sett var upp matstofa fyrir verkafólk, salerni og þvottaskálar með rennandi vatni, en það var nýmæli á vinnustöðvum." Húsið var um 100 álnir á lengd og var það því kallað í spaugi „Eilífðin".

Um sama efni segir Gísli í bréfi löngu síðar, 18. júlí 1958:
„Ég kom upp við fiskihús mín hvítlakkeruðum vatnssalernum og þvottaskálum, sem og stórum matarskála, svo að fólk sem í vinnu var, t.d. við fiskiþvott gæti matast á mannsæmandi hátt, farið úr hlífðarfötum og þvegið sér. En ég get sagt þér það fyrir satt, þetta gekk ekki þegjandi og hljóðalaust fyrir sig, þvottakonurnar sumar brugðust hinar „verstu“ við, þótti þetta hin mesta óhæfa. En ég gerði þá kröfu að þær afklæddust hlífðarfötunum, þvæðu hendur sínar og settust síðan að hreinu matborði í sæmilega vistlegum húsakynnum. Þetta tókst og ég held að þeim sem hlut áttu að máli hafi við nánari athugun þótt vænt um breytinguna, sem aðallega beindist að því, að hefja þetta fólk á hærra menningarstig heldur en gamla lagið, að vera með bitann í pilsvasanum og stinga upp í sig, er þær stóðu við þvottakörin.“

Um Eilífðina sagði Þorsteinn í Laufási í Aldarhvörfum:
„Þar sem menn voru almennt óvanir stórum húsum til aðgerðar á þessum árum þótti Eilífðin svo stórt hús, að aldrei yrði þörf á öllu því húsrými. En strax á næstu árum varð sá landburður af fiski að húsið reyndist of lítið. Loksins hverfur svo þetta hús inn í hraðfrystistöðina miklu, sem Einar Sigurðsson byrjaði að reisa þarna og reka um 1940."
Gísli Johnsen hafði mikið umleikis á Edinborgarlóðinni en þó vantaði lengi stórt aðgerðarhús, eins og hann sjálfur sagði. Þar var m.a. Godtháb, skrifstofur (fóru undir hraun 1973), sölubúðin Edinborg, virt á 24.400 krónur (um 1913), Gamla pakkhúsið, byggt um aldamót, og Nýja pakkhúsið, byggt 1912, fisktökuhús svonefnt, „til fiskkaupa og fiskverkunar.“ Loks fiskskúrar, fimm að tölu, timburhús með járnþökum, misstórir, virtir á 6.400 krónur.
Á fasteignamati 1923 er kominn til sögu fiskgeymsluskúr, sem svo er nefndur. Hefur varla verið smáskúr því hann er metinn á 45.000 krónur. Matið er svo hátt að þar má ætla að sé Eilífðin, þó hún væri ekki tekin í notkun fyrr en 1924.

Einar Sigurðsson segir í minningum sínum sem Þórbergur skráði:
„Árið eftir að Gísli reisti Eilífðina þótti hún svo stór að það gengi brjálæði næst að byggja slíkt hús. Þetta hús, sem kennt var við óendanleikann, fylltist af fiski vertíðina 1925 og meir en það. Ekki hafðist nærri við að gera að aflanum af bátum Gísla. Óhemja af fiski safnaðist fyrir á bryggjunni og sá ekki högg á vatni þó staðið væri í aðgerð dag og nótt. - Allir bátar Gísla köstuðu upp í sömu kösina á bryggjunni. Skipshafnirnar töldu aflann sjálfar sem var keyptur í fiskatali. Var þá stundum talið meira upp úr sumum bátum sem þeir gátu borið. Mikið af fiski rann út af bryggjunni. Lítt gerlegt var að fylgjast með talningunni þá er margir lönduðu í einu. Þó að bátar væru ekki alltaf með fullfermi, var fiskatalan alltaf í hámarki og Gísli borgaði.“ En nú vildi Gísli fá stórvirkar vélar í Eilífðina sína.

Um það í fyrirefndu bréfi hans til Eyjamanns 18. júlí 1958:
„Árið 1926 keypti ég flökunar- og hausingarvélar, hinar fyrstu sem til Íslands komu. Það þótti að „stela vinnunni frá verkamanninum" að koma með slíkar vélar og mér voru valin mörg óþvegin orð fyrir slíkt gjörræði við verkalýðinn, eins og það hét á máli leiðtoganna.
Er ég 1930 fór úr Eyjum var þessum vélum auðvitað kastað út á haug, svo þær gerðu ekki meiri „spjöll" í atvinnulífi Eyjanna. En nú þykir enginn fiskvinnslustöð fullkomin nema slíkar vélar séu þar, og nú er borgað fyrir þær fleiri tugþúsundir en þær kostuðu þúsundir er ég keypti þær."

Þorsteinn í Laufási í Aldahvörfum um flatningsvélina:
„Þetta var afkastamikið verkfæri, sem flatti 100 þorska á klukkustund þegar allt var í lagi. En ekki þótti hún að sama skapi vandvirk og hún var stórvirk. Yfirleitt mun hún hafa flatt stóran þorsk mun verr en hinn smærri. - Eins og að líkum lætur, þurfti ekki síður að afhausa fiskinn en að fletja hann, fékk því Gísli einnig afhausunarvél, sem talin var ennþá afkastameiri en flatningsvélin. Gat hún afhausað 1.200 þorska á klukkustund. Báðar voru þær mesta völundarsmíði, þýskar að gerð og kostuðu stórfé. Ekki voru þær, að ég held, neitt brúkaðar nema þessa einu vertíð. Mun mestu hafa ráðið að fiskurinn, sem unninn var í þeim, féll í verðflokkum og verkafólkið hafði yfirleitt andúð á þessari stórvirku vélamenningu.“
Þá er Gísli hafði verið flæmdur úr sinni Eilífð tók Kveldúlfur hf. húsin á leigu til fiskkaupa og fiskverkunar. Í maí 1932 boðaði umboðsmaður Kveldúlfs nokkra kauplækkun. Verkafólk boðaði þá verkfall og fékk aðstoð verkamannafélagsins og Alþýðusambands Íslands. Verkfallið stóð í ellefu daga og lauk svo, að kröfur verkafólks voru samþykktar. Þá var ekki til siðs að semja um ekki neitt.

Árið 1933 hefur Kveldúlfur víst ekki viljað vera lengur í Eilífðinni. Þá fékk Lúðvík N. Lúðvíksson, skipstjóri og útgerðarmaður, þar aðstöðu. Hann gerði út mb. Ásdísi (þá með öðrum), bát sem Gísli Johnsen átti áður og var alla tíð happaskip. Og nú þótti mér Eilífðin stór. Ég var vormaður sem svo var nefnt, öðru sinni hjá Lúðvík skipstjóra. Þarna vaskaði Lóa í Stíghúsi í akkorði og var afkastamikil. Lóa var hraðmælsk og róttæk. - Lúðvík var ágætur húsbóndi og tillitsamur. Oft bar svo við, þá er líða tók á vinnutímann, að Lúðvík sagði við vormann sinn: „Við skulum nú fara að gefa Guði dýrðina, Haraldur minn." Eyjamenn sögðu ætíð „Lúðvík skipstjóri", líklega vegna þess að hann hafði próf frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík, eins og Sigfús Scheving. Þeir sigldu upp 20 vélbátum frá útlöndum án þess að hlekkjast á „og þykir vel af sér vikið" (Þ.J. Aldahvörf).
Í Sjómannadagsblaðinu 1972 er fróðleg frásögn Eyjólfs Gíslasonar fræðimanns frá Bessastöðum: „Um heimsiglingu vélbáta frá útlöndum til Vestmannaeyja". Þar segir að Lúðvík hafi siglt flestum vélbátum til Eyja, eða ellefu alls á árunum 1920-1930. Í Sjómannadagsblaðinu 1973-1974 segir Eyjólfur frá siglingu mb. Sísí VE-265, rúmlega 13 smál. báti, frá Frederikssundi til Eyja haustið 1924. Lúðvík var þá skipstjóri og Eyjólfur einn skipverja. Aðrir Pétur Andersen Sólbakka, vélstjóri, og Einar Jónsson, Háagarði (fórst með áhöfn sinni á mb. Mfnervu 1927). Mb. Soffí átti að vera í samfloti en bátarnir skildust að í hafi. Gísli Johnsen átti þessa báta báða.

Siglingin til Eyja tók ellefu sólarhringa og hrepptu þeir versta veður og sjó á hafinu milli Færeyja og Vestmannaeyja. Eyjólfur segir svo frá:
„Ég hafði þá aldrei reynt og séð svo stórhrikalegt sjólag sem þennan morgun á úthafinu. Hafði ég þó róið héðan frá Eyjum níu vetrarvertíðir og horft á úfið hafið úr landi í vetrarofveðrum.“ Lúðvík Níels Lúðvíksson (1879-1957) var skipstjóri á ýmsum flutningaskipum frá 1904. Útgerðarmaður í Eyjum frá 1929. Eignaðist mb. Ásdísi alla 1939, lét stækka hana 1943 úr 14 rúmlestum í 18. Hætti útgerð 1948 og seldi bátinn til Reykjavíkur. Átti hlut í öðrum bát um skeið. (Heimild: E.G. Sjómannadagsblað 1972.)
Einar Sigurðsson stofnaði Hraðfrystistöð Vestmannaeyja í febrúar 1938, keypti fisk og frysti í Vöruhúsinu. Í desember 1939 fékk Einar afsal fyrir Godthábseignunum, sem Gísli Johnsen átti áður og síðar Útvergsbankinn. Kaupverð var 200.000 krónur.
Fyrsta verk Einars var að setja upp vélar (vél) í Nausthamarshús. Síðar var byggður stór vélasalur austan við aðalbygginguna. „Þar næst var að gera frystigeymslu og var til þess valinn staðurinn þar sem Eilífðin stóð, en hún var skúrbygging. Þakið var rifið af henni og gólfið úr henni og stóð þá ekkert eftir nema leifar af veggjunum, því steypa varð undir þá og ofan á. Að lokum var svo gerður vinnusalur á neðri hæðinni í svonefndu þurrkhúsi og var það eina nýtilega húsið af öllum þeim byggingum sem voru fyrir neðan Strandveg. Hitt voru timburhús. En þau urðu síðar að þoka, eftir því sem byggingu Hraðfrystistöðvarinnar miðaði áfram“ (Fagur fiskur í sjó, ES og ÞÞ).
Sá sem hér párar á blað tók þátt í því, ásamt fleiri köllum, að rífa Eilífðina og reisa á rústum hennar steinhöll sem enn stendur að mestu; svo rammger er hún að eldhraunið vann ekki á henni. Þessar byggingar hófust ekki að marki fyrr en eftir 1940 og þá í áföngum. Þá var ekki kominn tími hinna stóru vinnuvéla. Þó höfðum við steypuhrærivél litla, rafknúna. En þetta gekk brösótt því rafmagnið var ekki til margskipta á þessum árum. En síðar komu önnur og betri tæki enda veitti ekki af, sem sjá má. Eilífðin mikla er horfin. Gísli hefur þá setið í ró í sínu glæsihúsi við Túngötu. Kannski hefur hugurinn þá stundum hvarflað til fyrri tíma þegar hann hafði komið sér upp Eilífðinni miklu og bryggjan hans var full af fiski svo að út af flaut.

Haraldur Guðnason