Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/BáraVE-58

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Bára VE 58

Það var í fyrrasumar að mér datt í hug að gaman væri að rekja sögu Þrasa VE. Því hafði verið gaukað að mér að þetta væri frægur bátur sem komið hefði við sögu í þorskastríðinu 1958 er landhelgin var færð út í 12 mílur. Átti hann að hafa verið notaður til að koma mönnum frá landhelgisgæslunni í land í Keflavík en þeir höfðu verið teknir til fanga í enska freigátu sem var hér við land til að verja breska landhelgisbrjóta. Ég hafði samband við nokkra menn sem störfuðu hjá Landhelgisgæslunni á þessum tíma og einn þeirra, Ólafur Valur skipherra, sendi blaðinu nokkrar línur um bátinn og umræddan atburð úr þorskastríðinu. Við nánari eftirgrennslan reyndist sagan ekki vera um Þrasa VE 20, heldur um bát sem hét lengst af Bára VE 58. Saga Þrasa VE verður því að bíða um sinn.
Á gosárinu 1973 keyptu þeir Ragnar Jóhannesson og Vigfús Guðlaugsson bátinn frá Keflavík og skírðu Lindu Kristínu VE 58 eftir dóttur Ragnars. Í bátnum var þá 165 hestafla Póver Marina (Ford) vél. Bátinn notuðu þeir til að sigla með ferðamenn sem komu hingað til að skoða gosið og afleiðingar þess. Einnig notuðu þeir bátinn til að sigla með menn sem leyfi höfðu til að vera úti í Surtsey og nokkuð var um að þeir leigðu bátinn ferðamönnum til sjóstangaveiði.
Það má því segja að þeir hafi verið brautryðjendur í þessum sjóferðum með ferðamenn hér í kringum Eyjar. Þeir Ragnar og Vigfús áttu bátinn í þrjú ár.
Næsti eigandi er Gunnar Sigurðsson, sem átti bátinn einn í tvö ár, þá selur hann Oddsteini Pálssyni helming í bátnum. Gunnar selur síðan Einari Ólafssyni sinn hlut 1980. Samkvæmt skipaskrá fær báturinn nafnið Bára VE 58 árið 1981. Árið 1982 eignast Guðjón Pálsson þriðjapart í bátnum og eiga þeir Guðjón, Einar og Oddsteinn bátinn til 1989. Ísnó hf. eignaðist bátinn 1989 og notaði hann við laxeldið sem þeir voru með hér á víkinni, fluttu m.a. fóður þangað út. Þegar þetta er skrifað eru Ísnó hf. enn eigandi hans og heitir báturinn nú Laxi VE 58.
Hér fer á eftir bréf það sem Ólafur Valur sendi blaðinu með nokkrum breytingum sem gerðar voru eftir að í ljós kom að þarna var ekki um réttan bát að ræða.
S.Þ.S.

BÁRA OG HVALBÁTURINN
Uppruni og fyrri hluti sögu Báru er mér kunnur að því leyti að ég sótti varðskipið Óðin nýtt til Álaborgar í janúar 1960. Stór og myndarlegur vélbátur var í bátsuglum á bátadekki bakborðsmegin. Róðrarbátur var stjórnborðsmegin. Fyrsti gúmmíbátur Landhelgisgæslunnar með utanborðsmótor var einnig um borð. Vélbáturinn var enskur að uppruna, hannaður fyrir breska flotann utan um 120 hestafla loftkælda Deutzvél. Báturinn átti að ganga 14 sjómílur með fjóra menn um borð. Við prófun átti skrokkur bátsins að þola að falla úr 27 metra hæð í sjó. Báturinn vigtaði 5 tonn, byggður úr trefjaplasti með bandastyrkingum. Gæslan lét hins vegar setja í bátinn 60 hestafla Deuzvél og þess vegna nýttist hann aldrei sem hraðbátur. Hins vegar var burðargetan mikil, sem kom sér oft vel, sérstaklega á ísárunum fyrir norðan við birgðaflutninga í strjálbýlið. Vegna þyngdar sinnar var báturinn sjaldan notaður, en stóð sig því betur í síðasta hlutverki sínu á Óðni.
Eitt sinn er Óðinn að koma út Dýrafjörð og verður var við grunsamlegt skip rétt innan við 12 mílurnar. Aðför var hafin að skipinu sem var á togferð.
Þegar Óðinn rennir fram með skipinu, sem reyndist alsaklaus breskur togari, beygir togarinn skyndilega á stjórnborða og rennir með stefnið í miðsíðu Óðins, á vélbátinn miðjan, sem tók allt höggið. Heyrðist mikið brak og brestir og síðan á vélbátnum var mölbrotin, en lítið tjón á Óðni sjálfum. Skipherrann leit á mannskapinn og sagði: „Gátuð þið ekki sett út fendera?“
Vélbáturinn var settur á land í Reykjavík og síðan seldur til Vestmannaeyja og hefur heitið þessum nöfnum: Linda Kristín, Bára, Laxi, og alltaf haft númerið VE 58.

HVALBÁTURINN
Hvalbáturinn var annar breskur bátur úr sögu gæslunnar. Í september 1958, þegar landhelgin var færð út í 12 mílurnar, vorum við nokkrir teknir til fanga þegar Þór reyndi að taka breska togarann Northern Foam. Eftir 10 daga í freigátunni Eastbourne vildu Bretarnir losna við okkur og sendu okkur frá borði á hvalbátnum sínum. Við rerum í land í Keflavík. Þessir hvalbátar áttu langa sögu. Þeir voru langir, mjóir, sterkir trébátar.
Fyrirmyndin að þeim voru róðrarbátarnir sem notaðir voru á seglhvalveiðibátunum. Þeim var róið að hvölunum sem voru skutlaðir úr þeim. Hvalurinn dró síðan bátinn á mikilli ferð meðan honum entust kraftar og honum blæddi út.
Breski herinn hafði hvalbáta á flestum herskipum sínum. Voru þeir notaðir mikið til þjálfunar í róðri og einnig búnir seglum í sama skyni.
Hvalbáturinn, sem við rerum í land, var settur til geymslu í flugskýli Landhelgisgæslunnar og var þar í mörg ár. Síðan var hann gefinn barnadagheimili við Miklatorg.
Sumarið 1992 birtist hér fréttamaður frá Reuter í Englandi. Hann var um borð í Eastbourn þegar við vorum þar fangar. Hann spurði um hvalbátinn og leitin hófst. Barnaheimilið var horfið, þar var nú komið bílastæði. Enginn vissi um hvalbátinn né örlög hans. Þar var horfin merk minning úr landhelgissögunni, því miður. Vonandi gæta Vestmanneyingar þess að varðveita síðustu trébátana sína sem sögulegar minjar. Því það er með trébáta eins og konur og vín, að með alúð og umönnun, batnar þetta allt með aldrinum.
Ólafur Valur Sigurðsson, skipherra