Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993/Vertíðarspjall 1993

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
HILMAR RÓSMUNDSSON:


VERTÍÐARSPJALL 1993


Í grein um vertíðina 1992 eyddi ég nokkru púðri í að skrifa um lögin um stjórn fiskveiða. Um áramótin þar á undan hafði þeim verið breytt nokkuð og höfðu þær breytingar, sumar hverjar, mjög afgerandi áhrif á rekstur fiskiskipaflotans. Einnig nú mun ég fara nokkrum orðum um fiskveiðistefnuna þar sem ennþá er verið að gera tillögur um breytingar, og er það auðvitað ekkert óeðlilegt þar sem þessi lög hafa alla tíð verið mjög svo umdeild.
Í ágústmánuði 1991 skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd um mótun sjávarútvegsstefnu. Samkvæmt erindisbréfi er nefndinni falið, hvorki meira né minna, en að móta heildstæða sjávarútvegsstefnu er taki til veiða, vinnslu og markaðsetningar sjávarfangs. Einnig var nefndinni ætlað að setja sjávarútveginum framtíðarmarkmið og að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða frá maí 1990. Starf og tillögur þessarar nefndar hljóta að verða mjög þýðingarmiklar fyrir efnahagslega og fjárhagslega framtíð þjóðarinnar þar sem engin teikn eru á lofti um annað en að þjóðin verði, sem fyrr, að gera sér að góðu að lifa á því sem næst úr hafinu í næstu framtíð.
Þessi nefnd var hápólitísk og virtist valið í nefndina byggjast á því fyrst og fremst að menn hefðu réttar pólitískar skoðanir, og að jafnmargir væru frá hvorum stjórnarflokki. Að vísu áttu nefndarmenn að hafa samband við samráðsnefnd svokallaðra hagsmunaaðila í sjávarútvegi, svo og sjávarútvegsnefnd Alþingis, en það samband mun víst hafa gleymst að mestu. Til marks um það hvað stjórnmálamennirnir töldu þessa nefnd áhrifamikla er rétt að minna á að fæðing hennar gekk mjög brösullega þar sem báðir stjórnarflokkarnir kröfðust þess að höfuð nefndarinnar væri úr þeirra röðum. Þetta vandamál leysti sjávarútvegsráðherra á alveg einstaklegan og ef til vill heimsfrægan hátt og nefndarformennirnir urðu tveir, hvor úr sínum stjórnarflokki, og „Tvíhöfði“ varð til.
Mjög lítið hefur frést af störfum nefndarinnar þá tuttugu mánuði sem hún hefur starfað. Þó hefur öðru hvoru lekið út að samkomulagið í ýmsum málum væri álíka erfitt og fæðingarhríðirnar, og til þess að nefndin gæti lokið störfum varð ríkisstjórnin að ganga frá samkomulagi um stærsta ágreiningsmálið, Þróunarsjóð sjávarútvegsins.
Þegar þessar línur eru settar á blað, eru tvíhöfðar á ferð og flugi um landsbyggðina og kynna þeim, sem á vilja hlusta, tillögur sínar og er það mjög gott mál. Þó að ég telji að stjórnmálaskoðanir eigi ekki að ráða því hverjir veljist í jafn þýðingarmikla nefnd og hér um ræðir, þá er það ljóst að það er sama hverjir hefðu setið í nefndinni, hún hefði aldrei skilað frá sér áliti sem allir hefðu sætt sig við. Skoðanir manna á sjávarútvegsstefnu og fiskveiðistjórn hafa verið og eru ákaflega skiptar, og hagsmunir eins stangast gjörsamlega á við hagsmuni annars. Það verður aldrei þjóðarsátt um þessi mál, heldur fara skoðanir hvers og eins fyrst og fremst eftir því hvernig tillögurnar koma við hans eigin buddu.
Nefndin lét sextán tillögur frá sér fara, en ríkisstjórnin kom í veg fyrir frekara rifrildi um Þróunarsjóð sjávarútvegsins.
Fyrst er lagt til að rannsóknir á lífríkinu í hafinu verði auknar, og geta allir verið sammála um það.
Númer tvö er að aflamarkskerfið verði fest í sessi. Um þetta eru skoðanir allskiptar, en fleiri hallast þó að því að því miður verði ekki komist hjá því að stjórna veiðunum og skammta aflann, og sé aflamarkið skársti kosturinn til þess.
Þriðja: Aflamark á keilu, löngu, lúðu, steinbít og blálöngu. Mjög hæpin aðgerð þar sem stjórnvöld hafa gefið útlendingum verulegan veiðirétt á flestum þessum tegundum, en kvótasetning myndi auðvelda þeim að ná þessum afla.
Fjórða: Heimilt að framselja aflahlut báts yfir á vinnslustöð. Þessi tillaga er ekki raunhæf vegna þess að eignaraðild útgerðar og fiskvinnslu er svo samtvinnuð, sitt á hvað, að ekki er hægt að segja með sanni að fiskverkendur hafi engan umráðaétt yfir kvótanum.
Sjötta tillagan er sú að á meðan við þurfum að skammta aflann þannig að allir fái of lítið, þá komist enginn undan því að taka þátt í þeirri skömmtun.
Mér finnst sjöunda tillagan eðlileg, en hún gengur út á það að verði tvöföldun kvóta vegna línuveiða afnumin, þá fái þau skip, sem þessar veiðar hafa stundað, ákveðið aflareynslu-aflamark. Um Þróunarsjóð sjávarútvegsins vil ég aðeins segja þetta: Mér finnst alveg furðulegt að á sama tíma og Þjóðhagsstofnun gefur út að sameiginlegt tap á veiðum og vinnslu sé 8,3 % skuli stjórnvöld vera að lcggja til að í náinni framtíð verði lagður á þessar greinar nýr stórskattur í formi veiðileyfagjalds. Enginn veit hve hár þessi auðlindarskattur verður þegar hann tekur gildi 1. september 1996 þar sem í lögunum segir að hann skuli vera að minnsta kosti 1000 kr. á hverja þorskígildislest. Þá á þróunarsjóðurinn að taka við skuldbindingum atvinnutryggingarsjóðs og hlutafjársjóðs, sem þýðir það að þau vanskil, sem þar kunna að verða, lenda ekki síður á þeim sem aldrei fengu lán úr þessum sjóðum en þeim sem geta staðið í skilum.
Þegar þessar línur eru settar á blað liggur ekki fyrir hvort sjávarútvegsráðherra treystir sér til þess að fara með tillögur tvíhöfðanna og samkomulag um þróunarsjóð fyrir Alþingi þar sem enn er bullandi ágreiningur í herbúðum stjórnarliða um ýmsar af tillögunum, jafnt stórar sem smáar.
Það er nú tæpast hægt að kalla það, sem hér hefur verið skrifað, vertíðarspjall. Þó má með sanni segja að mótun skynsamlegrar sjávarútvegsstefnu skipti höfuðmáli í útgerð, sjósókn og fiskvinnslu framtíðarinnar. En snúum okkur nú að efninu og byrjum á veðráttunni. Ekki er ástæða til að eyða mikilli prentsvertu um það mál þar sem öllum kemur saman um að veður á þessari vertíð hafi verið mjög slæm, og elstu sjómenn fullyrða að þeir muni ekki aðra slíka. Það er fyrst í aprílmánuði sem hægt er að tala um einn og einn sjóveðursdag. Árið fór rólega af stað í útgerð og sjósókn. Þá varð botnfiskaflinn nánast sá sami og í janúar 1992. Nú var landað hér um 5000 lestum af síld í janúar en var 5500 í fyrra. Hinsvegar barst engin loðna hingað í janúar þetta árið, en um 6000 lestir í fyrra. Í febrúar var landað hér um 1200 lestum meira af botnfiski en í febrúar 1992. Síldaraflinn var ívið minni, og loðnuaflinn sömuleiðis. Þó var landað hér 48500 lestum af loðnu í mánuðinum en rúmum 50 þúsund lestum í febrúar 1992. Í marsmánuði varð þorskaflinn hér svipaður og í sama mánuði 1992, ýsuaflinn helmingi meiri en þá, ufsaafli 200 lestum minni en karfaafli 130 lestum meiri en í mars 1992. Nú var landað hér 160 lestum af grálúðu, á móti engu í þessum mánuði 1992, en skarkolaaflinn varð helmingi minni en á sama tíma í fyrra.
Ekki liggja fyrir aflatölur í aprílmánuði, þegar þessi samanburður er gerður, enda pistillinn skrifaður í apríllok, en ég hefi það á tilfinningunni að aflinn í þeim mánuði hefði orðið mjög drjúgur eins og svo oft áður hefði hið svonefnda páskastopp ekki komið til. Að þessu sinni stóð það í hvorki meira né minna en 14 daga, frá 6. til 21. apríl. Þann tíma máttu þeir, sem verða með þorskanetum, ekki fara á sjó, trillurnar voru bundnar, svo og kraftlitlu togbátarnir. Aðrir máttu drepa þann fisk sem þeir fundu en fyrir utan ákveðnar línur. Svona friðanir hljóta að orka mjög tvímælis þar sem þær koma aðeins í veg fyrir að fiskur, í þessu tilviki þorskur í hrygningu, sé dreginn í ákveðið veiðarfæri. Þarna er verið að mismuna mönnum, skipaflokkum og veiðarfærum. Það er einnig stór spurning hverju svona friðun skilar. Allavega kom það í ljós að sá fiskur, sem veiddist í djúpkantinum, átti eftir tvær til þrjár vikur í hrygningu þegar neta veiðar hófust að nýju eftir páska eða hrygningastoppið. Það virðist ekki vera að þorskurinn taki nokkurt tillit til þess þó að fiskifræðingar eða jafnvel sjávarútvegsráðherrann sjálfur segi að hann eigi að hrygna um páskahelgi hverju sinni, enda vandast málið sé það rétt að hrygning sama fisksins geti farið fram í nokkrum áföngum, og geti jafnvel staðið yfir í eina til tvær vikur. Vonandi hefur einhverri af stóru hrygnunum á grunnslóðinni tekist að skila af sér þessu þýðingarmikla verki, á meðan veiðibannið var, þannig að árangurinn verði einhver.
Þrátt fyrir mjög erfitt tíðarfar í vetur og mörg stórviðri er ekki hægt að segja annað en að vertíðin hér hafi gengið vel. Sjómennirnir okkar hafa allir náð landi, en það er því miður meira en allir aðrir geta sagt. Sú öfugþróun, sem orðið hefur í útgerðarháttum á Íslandi nú síðustu árin, þar sem smábátum hefur fjölgað óeðlilega, hlýtur að taka sinn toll. Íslandsmið á vetrartíma eru ekki fyrir smábáta. Jafnvel þótt menn gæti ýtrustu varúðar, og séu sæmilega búnir öryggistækjum, þá dugir það ekki til því að svo skjótt skipast oft veður í lofti að enginn tími vinnst til að forða sér að landi, og ekki þarf nema eina krappa kviku til þess að granda þessum litlu fleyjum.
Um vertíðina er það annars að segja að aflabrögð þeirra, sem á annað borð hafa getað sótt sjó, veðráttunnar vegna. hafa verið dágóð, og oft ágæt. Afli togaranna hefur verið drjúgur í vetur, en vegna minnkandi góðfiskkvóta hafa þeir lagt sig eftir utankvótategundum, svo sem blálöngu, gulllaxi o.fl. með allgóðum árangri. Að sjálfsögðu hefur aflaverðmætið minnkað, en á móti kemur að allur utankvótafiskur býður upp á lengra úthald.
Síldveiðarnar voru mjög erfiðar, bæði s.l. haust og í vetur. Hvorttveggja var að veðráttan var mjög óhagstæð og auk þess stóð síldin yfirleitt mjög djúpt, þannig að nætur hinna svokölluðu sfldarbáta náðu aðeins niður í kökkinn, enda fór það svo að þeir gáfust flestir upp, og loðnuflotinn með sínar stóru og sterku nætur veiddi stærstan hluta síldarkvótans. Þá var gerð tilraun með að ná síldinni í flotvörpu, og gekk það mjög vel. Er ekki ósennilegt að sú veiðiaðferð eigi eftir að aukast. Að vísu hafði þessi veiðiskapur verið reyndur áður, en þá á grunnslóð.
Loðnuveiðarnar gengu mjög vel, en urðu nokkuð endasleppar, og kenndu menn veðráttunni um. Það er alveg furðulegt hvað loðnuflotinn bar að landi í því hafróti sem oftast var, og það má teljast mikil Guðs mildi að enginn stórslys urðu á þeim veiðiskap því án efa hefur oft verið teflt á tæpasta vaðið. Skipstjórarnir sögðu að ekki hafi verið nema um tvennt að velja, annaðhvort að taka áhættuna og böðlast í þessu eða að gefast upp og ná þar með engum afla.
Ekki er hægt að segja annað en að netabátarnir hafi rótfiskað, bæði djúpt og grunnt, og bendir það sem betur fer til þess að ennþá sé eitthvað af fiski í sjónum. Þá hafa stóru togbátarnir yfirleitt gert það gott og meira að segja hafa þeir fengið ágæt ýsuskot, nú seinni hluta vertíðar, en þann fisk voru flestir búnir að afskrifa. Litlu togbátarnir og trillurnar, aðrar en þær sem eru með þorskanet, hafa lapið dauðann úr skel, og á veðráttan sinn þátt í því.
Eins og þessi lýsing ber með sér er ekki hægt að kvarta undan aflabrögðum hér í vetur, en í staðinn er komið upp annað stórt vandamál sem hefur áhrif á afkomu sjávarútvegsins á sama hátt og aflabrestur, en það er að mjög veruleg verðlækkun hefur orðið á öllum helstu fisktegundum sem við veiðum. Lækkunin er bæði á ferskum, frosnum og söltuðum fiski og er á stærstu útflutningsmörkuðum okkar. Þetta leiðir af sér hallarekstur fiskvinnslunnar sem verður að bæta honum með því að lækka hráefnisverð verulega, en það kemur að sjálfsögðu mjög illa við útgerð og sjómenn.
Staða íslensks sjávarútvegs er því ákaflega slæm um þessar mundir, og samkvæmt nýjustu tölum frá Þjóðhagsstofnun um afkomu botnfiskveiða og vinnslu er frysting rekin með 6,6% halla, en söltun með 14,2% halla. Í veiðunum er bátaflotinn með 13% halla, ísfisktogarar með 6,2% tap, en eina greinin, sem upp úr stendur ennþá, eru frystiskipin, en þau skila hagnaði upp á 6,4%.
Er nú svo komið að langflest fyrirtæki í sjávarútvegi eru rekin með bullandi tapi, eins og afkomutölur margra þeirra, sem birst hafa á síðustu dögum, bera með sér. Fyrirtækin hafa þó staðið í hagræðingu og sameiningu, en ekkert dugir til. Staðan er einfaldlega þannig að margir hafa lagt upp laupana og farið á hausinn. Hinir sem ennþá þrauka berjast flestir í bökkum. Framtíð fyrirtækjanna, og allra þeirra sem við þau starfa til sjós og lands, hlýtur að velta á því hvaða leið ráðamennirnir velja til lausnar vandanum. Eigi að halda áfram að blóðmjólka þennan atvinnuveg með nýjum stórsköttum eins og síðustu tillögur stjórnarherranna benda til þá hlýtur gjaldþrotaleiðin að verða mörgum bæði bein og greið og Bolungarvíkurnar verða margar um allt land innan tíðar.