Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1991/Vertíðarspjall 1991

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Hilmar Rósmundsson:

Vertíðarspjall 1991

Hilmar Rósmundsson.

Á árum áður var almennt talið að vetrarvertíð hæfist með nýju ári þ.e.a.s. 1. janúar ár hvert, og venjulega hóf stór hluti þeirra báta róðra, fljótlega upp úr áramótum, sem á annað borð ætluðu á vertíð. Á síðustu árum, eða síðan kvótakerfið var samþykkt, hefur þetta verið að breytast. Margir hafa af fyrri reynslu fundið það út, að rekstur í janúar sé afar hæpinn, þar sem vertíðarfiskurinn væri tæpast genginn, og aflavon því ekki mikil, veður oft válynd, og veiðarfæraslit og jafnvel tjón því oft mikið, og við það bættist svo að lang flestir hefðu það takmarkaðar veiðiheimildir, að þeim yrði auðveldlega náð, þó janúar væri sleppt.

Um síðustu áramót komu til framkvæmda ný lög um stjórn fiskveiða. Þessi lagasmíð er á margan hátt frábrugðin fyrri lögum um sama efni. Nú eru aflaheimildir ekki miðaðar við almanaksárið, eins og verið hefur, heldur er ákveðið nýtt svonefnt fiskveiðiár, sem hefst 1. september og nær til 31. ágúst árið eftir. Tilgangurinn með þesari breytingu er fyrst og fremst sá, að koma í veg fyrir að of mikið sé veitt af fiski yfir heitustu sumarmánuðina, þegar fiskurinn er erfiðastur í geymslu og viðkvæmastur í vinnslu, auk þess sem framboð fiskvinnslufólks er yfirleitt minnst á þeim tíma, og mikið um sumarleyfi. Talið er að þessi breyting hafi það í för með sér, að þorri flotans sé orðinn það kvótalítill í júlí og ágúst, að veiðarnar verði ekki stundaðar af sama krafti og áður. Nú fá öll skip stór og smá fasta veiðiheimild samkvæmt, og að fullnægðum ákveðnum skilyrðum. Allir smábátar, sem þau uppfylla fara nú inn í kerfið. Þetta hefði betur verið gert strax og kvótakefið komst á, þar sem það hefði komið í veg fyrir byggingu mörg hundruð smábáta, sem margir hverjir, eru með alls konar mælingarsvikum, sagðir vera 9,9 lestir, en eru miklu stærri. Þessi mikla fjölgun smábáta veldur því að þeir menn, sem hafa haft atvinnu af því að reka og róa á slíkum bátum, eru nú settir upp við vegg, þar sem þeirra hlutdeild í heildaraflanum verður, vegna bátafjöldans, svo lítil, að margir hverjir sjá ekki aðra lausn, en að selja frá sér atvinnuna, og jafnvel ánægjuna með. Þá er ákveðið í þessum lögum, að verði verulegar breytingar á aflatekjum skips af sérveiðum, sé ráðherra heimilt að skerða eða auka botnfiskheimildir viðkomandi skipa. Þessu ákvæði hefur þegar verið beitt í sambandi við samdrátt í loðnuveiðum. Þá er heimilt að flytja 20 % af aflamarki botnfisktegundar og úthafsrækju frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta, og á sama hátt 10 % af aflamarki humars og síldar frá einu veiðitímabili á það næsta. Þá er skerðing á aflamarki vegna útflutnings á ferskum fiski hækkuð frá fyrri lögum, og er álagið nú 20 % á þorsk og ýsu, 15 % á aðrar bolfisktegundir og 10 % á kola.

Fríður hópur í frystihúsi.

Þá er nýtt ákvæði, sem segir að eigi að selja fiskiskip með veiðileyfi úr einu byggðarlagi í annað, þá skuli sveitarstjórn þess byggðarlags, sem skipið er í, hafa forkaupsrétt í fjórar vikur. Þetta nýmæli er til þess að reyna að koma í veg fyrir, að sjávarpláss missi ef til vill stærsta hluta kvótans, og þar með atvinnu og afkomu fólksins í bænum. Þessu ákvæði hefur nú þegar verið breytt hér í Vestmannaeyjum og einnig í Þorlákshöfn. Lang áhrifamesta breytingin, sem gerð var á lögunum var sú að um síðustu áramót var sóknarmarkið afflagt, þannig að á þessari vertíð stunda öll skip veiðar samkvæmt ákveðnu aflamarki. Þessi breyting kemur mjög illa út fyrir hluta Eyjaflotans, og það er enginn vafi á, að þó fiskigengd, veðrátta og aðrar aðstæður verði svipaðar og verið hefur, þá verður verulegur samdráttur afla ákveðinna skipa í okkar flota.
Það má eflaust segja að þessi lýsing á fiskveiðistefnunni sé ekki vertíðarspjall, en um vertíðina átti þessi pistill að fjalla, en þó er það nú svo, að þau atriði, sem öðrum fremur hafa áhrif á gang vertíðarinnar og á afkomu útgerðar og sjómanna eru í fyrsta lagi hvort fiskur gengur á heimamið hvers og eins, hvort veðrátta er þannig að sjór verði sóttur, og hvort lög um stjórn fiskveiða séu sanngjörn og þannig úr garði gerð að hægt sé að vinna eftir þeim.

Snúum okkur þá að vertíðinni og byrjum á veðráttunni. Árið fór bærilega af stað og fram eftir janúar var veðurfarið skaplegt, en um 20. þess mánaðar lagðist hann í stórviðri, sem hélst nær óslitið í þrjár vikur, eða til 10. febrúar, og þar af leiðandi var sjósókn mjög lítil þær vikur, en eftir það má segja að vertíðarveðráttan hafi verið rysjótt til sjávarins, þó að veturinn í landi hafi verið góður, og sér í lagi mildur, þar sem varla er hægt að segja að snjór hafi sést, né frost mælst. Vertíðin fór mjög rólega af stað. Síldveiðar voru nú leyfðar í upphafi árs, þar sem markaður var fyrir síldarflök. Nokkrir bátar héldu þeim því áfram og við bættust nokkrir loðnubátar, sem fengu heimild til þess að veiða kvóta, sem síldarbátar áttu eftir, en loðnuflotinn var verkefnalaus, þar sem mikil loðnuleit, rannsóknir og mælingar gáfu ekki tilefni til að leyfa loðnuveiðar, að mati fiskifræðinga. Fimm bátar lönduðu hér 2166 lestum af síld í janúar, aðeins tveir lögðu þorskanetin, þrír voru á línu og sex trillur að auki en fjórtán voru með vörpu, en árangur allra var slakur.

Þeir hafa átt ófá handtökin í útbúnaði veiðarfæra flotans í Vestmannaeyjum, þessir tveir; Elías Stefánsson og Arnmundur Þorbjörnsson.

Togararnir héldu sínu striki, en afli þeirra var einnig tregur framan af, þar sem stormar og hafrót settu strik í reikninginn. Um 10. febrúar breyttist veðráttan til hins betra, og jókst þá sjósókn að sama skapi. Loðnuskip, sem fengið höfðu heimild til leitar á þeim fiski, fundu fyrstu loðnugönguna við Stokksnes. Fiskifræðingar mældu magnið og samkvæmt þeirra útkomu voru leyfðar mjög takmarkaðar loðnuveiðar um miðjan febrúar. Mokveiði var strax og flotinn kom á miðin, og má segja að svo hafi verið þann mánuð, sem það tók að veiða það, sem veiða mátti. Veiðarnar hófust, sem fyrr segir við Stokksnes, en enduðu í Ísafjarðardjúpi, en það mun ekki hafa gerst fyrr, því venjulega hefur hrygningargangan ekki farið lengra norður en um Snæfellsnes. Mikill ágreiningur var á milli fiskifræðinga, og margra loðnuskipstjóra um það hvað gangan væri stór, og töldu þeir síðarnefndu að óhætt hefði verið að veiða mun meira en heimilað var.

Í vetur var aðeins landað hér 44818 lestum af loðnu, á móti 84101 lest á vertíðinni 1990. Hlutur loðnuflotans var því mjög rýr á þessari vertíð, og þess vegna notaði sjávarútvegsráðherra þá heimild, sem 9. gr. laganna um stjórn fiskveiða felur í sér, og úthlutaði loðnuskipunum ákveðnum botnfisk og rækjuveiðiheimildum til þess að bæta nokkuð þeirra hlut. Þessar 8000 lestir af botnfiski, sem skipt var á loðnuflotann, skertu ekki heimildir annara skipa, heldur voru teknar úr svonefndum Hagræðingarsjóði, sem nýlega var stofnaður í ýmissa óþökk.
Aflinn hjá togurunum hefur verið mjög þokkalegur, eftir að veðráttan varð skapleg, og er sýnt að kvóti þeirra endist ekki út kvótaárið, enda er hann mun minni en áður, og nú í apríllok eru sumar tegundirnar langt komnar eða búnar, það stefnir því í kvótavandamál hjá þeim.

Hann hefur átt ófá handtökin við hvers kyns veiðafæri gegnum tíðin þessi. Anton Óskarsson til vinstri við uppsetningu á línu. T.h. Hugað að veiðarfærum.

Í vetur stunduðu ellefu bátar veiðar með þorskanetum, strax í febrúar fengu þeir stærri, ágætis þorskafla í djúpkantinum, það góða að í lok þess mánuðar urðu þeir að flýja með hluta netanna upp á grunnið, í leit að ufsa, en með mjög misjöfnum árangri. Þeir sáu fram á, að með sama áframhaldi yrði þorskkvótinn búinn á miðri vertíð, og þar með yrði að hætta veiðum, þó nóg væri eftir af öðrum tegundum.
Sömu sögu er að segja af stærri togbátunum, þeir urðu alls staðar varir við þorsk, en margir þeirra eru með drjúgan ýsukvóta, en sá fiskur hefur tæpast sést á Eyjamiðum í vetur. Það er fyrst nú í apríl, að nokkrir bátar hafa fengið ýsuafla, ýmist vestan við Reykjanes eða austur á síðugrunni. Þá hefur ufsagengd á okkar miðum verið mun minni en oft áður. Í marslok hafði flotinn veitt svipað magn af þorski, og á sama tíma í fyrra, eða tæpar 6000 lestir, ýsuaflinn nú var 900 lestir á móti 2060 lestum fyrstu þrjá mánuðina 1990, af ufsa veiddust nú 3000 lestir en 4100 á sama tíma 1990 en karfinn er 1000 lestum meiri nú en þá, en ástæða þess er sú að stóru togbátarnir sækja dýpra en þeir hafa gert og fá alltaf nokkuð af karfa með þorskinum, og eru margir þeirra langt komnir eða búnir með sinn karfakvóta.

Litlu netabátarnir og trillurnar hafa fengið ágætis kropp af stórum fiski, á ýmsum snögum, bæði austan og vestan við Eyjar. Litlu togbátarnir hafa verið að fá reitings skarkolaafla hér inn og vestur af Eyjum. Sá afli hefur farið ferskur á enska markaðinn, og dágott verð fengist fyrir en kvótinn hefur háð þeim eins og reyndar flestum. Í vetur er skarkolaaflinn kvótabundinn i fyrsta sinn, og við þá úthlutun fannst flestum sinn hlutur rýr. Skarkolakvóti hvers skips, er fundinn þannig að afli hvers og eins, af þeirri tegund, á tímabilinu 1. september 1987 til 31. ágúst 1990 er lagður til grundvallar, og aflahlutdeildin reiknuð út frá því. Ekki er tekið tillit til eins eða neins, og jafnvel þó menn geti sannað að þeir hafi ekki getað stundað veiðar verulegan hluta af þessum tíma, þá er ekki á það litið, en kvótinn skertur, sem frátöfunum nemur. Við börðumst fyrir því að allt árið 1987 yrði tekið til viðmiðunar, þar sem þá vertíð var góður kolaafli á Eyjamiðum, en á það var ekki hlustað. Ég hefi í þessum fáu orðum farið nokkuð yfir gang vetrarvertíðarinnar 1991.
Að vísu liggur aprílaflinn ekki fyrir þegar þessar línur eru settar á blað, en ég held að óhætt sé að fullyrða, að sá mánuður hafi verið drjúgur, eins og svo oft áður. Það er heldur ekki ljóst hvaða bátar eru með mestan aflann, enda fer aflinn nú orðið mikið eftir því, hvað hver og einn hefur stóran kvóta, og hvað menn geta þar af leiðandi beitt sér við veiðarnar, en það er öruggt að hefði þessi skömmtun ekki verið, þá hefði þessi vertíð orðið mjög góð, og fjöldi báta hefði náð miklum þorskafla.

Eykyndilskonur hafa unnið margt gott verkið gegnum tíðina. Á síðasta ári færðu þær flotanum nýjasta björgunartækið, Björgvinsbeltið.


Þórunn Sveinsdóttir VE 401 mun vera hæsti báturinn hér, eins og svo oft áður, og er líklega hæsti báturinn á landinu þessa vertíð, en þegar netavertíð lauk hjá þeim, upp úr 20. apríl, var aflinn orðinn rúmar þúsund lestir, síðan hafa þeir verið á dragnót, með dágóðum árangri. Sem fyrr segir háir kvótakerfið æði mörgum, sér í lagi síðan allir eru bundnir af föstu aflamarki á helstu tegundum nytjafiska. Þá vill það æði oft brenna við, þar sem menn geta ekki ennþá stjórnað því hvaða fiskur syndir í trollið eða netið, að ein kvótategundin er búin, meðan nóg er eftir af öðrum. Þetta veldur oft erfiðleikum, sér í lagi þar sem heimild til þess að færa á milli tegunda er mjög takmörkuð nú, og miklu minni en áður. Útvegsbændur hér hafa því komið á skiptibanka á skrifstofu sinni, og hafa menn gert talsvert af því, að skiptast á tegundum samkvæmt ákveðnum verðmætastuðli. Fiskverð innanlands hefur hækkað mjög verulega á síðustu misserum.
Ástæður þess eru mikil hækkun bæði á frystum og söltuðum fiski á Ameríku og Evrópumörkuðum, og ekki síður aukin samkeppni um fiskinn innanlands. Það er mjög athyglisvert hvað verð hefur haldist hátt á fiskmörkuðunum á s.v. horninu, þrátt fyrir aukið framboð, en verðið byggist á því að eftirspurnin hefur aukist jafnt eða meira en framboðið. Ekki færri en 70 aðilar munu nú vera með einhverskonar fiskverkun í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi svo samkeppnin er töluverð, þó ekki séu þeir allir stórverkendur. Þessi þróun hefur einnig haft það í för með sér, að miklu minna af ferskum fiski hefur verið flutt á erlendan markað, en áður, enda hefur verðið hvorki í Englandi né Þýskalandi verið neitt spennandi. Ég fer nú að setja punktinn aftan við þennan pistil, enda blaðstjórinn farinn að kalla, og lýk því þessu spjalli með því að óska öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.