Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1985/ Minningabrot úr lífi föður míns

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
Minningabrot úr lífi föður míns

Mynd þessa tók Sigurgeir Jónasson af foreldrum mínum 14. ágúst 1983, en þá varð faðir ininn 80 ára.

Ég, sem þessar línur rita, hafði lengi haft í huga að skrá niður nokkrar minningar föður míns frá fyrri árum hans, og sérstaklega eftir að hann kemur fyrst til Eyja sem vermaður, 19 ára gamall. Þá var að sjálfsögðu öðruvísi um að litast en er í dag, en samt sem áður nýr heimur fyrir 19 ára sveitapilt. Ég tel það skyldu okkar að varðveita reynslu þeirra sem á undan hafa gengið, og í því skyni festi ég línur þessar á blað og tel vel við hæfi að birta þær í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja.
Faðir minn. Tómas Stefán Sveinsson. fæddist í Selkoti í Austur-Eyjafjallahreppi 14. ágúst 1903. Faðir hans var Sveinn Jónsson, fæddur 7. október 1874, en hann lést 15. janúar 1920, aðeins 45 ára gamall. Móðir hans var Anna Valgerður Tómasdóttir, fædd 11. ágúst 1872. Hún lést hér í Vestmannaeyjum 5. maí 1963, á 91. aldursári. Þau hjónin eignuðust 6 börn: Elst var Guðrún, fædd 1897. lést 1983. Guðjón fæddur 1898, en hann lést 1968. Hjörleifur. fæddur 1901, faðir minn. fæddur 1903. Gróa fædd 1905 og Sigfús fæddur 1907.
Faðir minn byrjaði ungur að hjálpa til við hin algengu störf eins og tíðkaðist til sveita. Eftir lát föður síns 1920 sá hann um gegningarnar, því að tveir eldri bræðra hans. Guðjón og Hjörleifur. fóru á vertíð út í Eyjar. Bústofninn var í kringum 60 ær og 4 kýr og tveir vetrungar.
Jafnframt gegningum reyndi faðir minn að komast að sem hálfdrættingur hjá Fjallaformönnum, en án árangurs. Þá var það að Eyjólfur bóndi á Hrútafelli kom að Selkoti. Faðir minn tjáði honum vandræði sín. Eyjólfur, sem átti hlut í sexæringi með Vigfúsi Guðmundssyni bónda á Eystri-Skógum, taldi sjálfsagt að hann mætti fljóta með hjá honum. Vigfús reri frá Skógasandi rétt austan Skógár.
Þegar faðir minn kom í sandinn fyrsta sinni og hitti Vigfús að máli. var það auðsótt mál að fá að róa með.
Á þessum sexæringi voru níu Eykilingar.Þennan fyrsta róðrardag, laugardaginn fyrir páska árið 1920. þrísóttu þeir félagar því að nóg var af góðum fiski og hægiætisveður.
Þegar faðir minn tilkynnti Vigfúsi hvað hann hefði dregið, sagði Vigfús að þess þyrfti ekki með, því að hann fengi fullan hlut eins og hinir.
Faðir minn reiddi aflann sem hann komst með heim að Selkoti. en það er um eins og hálfs klukkutíma ferð. Hann fór síðan daginn eftir, sem var páskadagur, aftur í sandinn og reiddi heim það sem eftir var af fiski. Þegar heim kom tók við aðgerð og flatning svo að í þetta fór megnið af deginum.
Annan í páskum var ekki róið vegna veðurs, en þegar tveir dagar til viðbótar fóru til einskis, gengust þeir yngri fyrir því að færa bátinn vestan Borgarhóls, því að þar var betra að róa í því tíðarfari sem þá var. Þaðan reru þeir svo það sem eftir var vertíðar.
Þegar leið að næstu vertíð árið 1921, vildu þeir Fjallaformenn, sem höfðu synjað föður mínum um far vertíðina áður, fá hann til sín, en hann vildi ekki ráða sig hjá þeim fyrr en hann hefði fyrst haft samband við Vigfús áður, þar sem hann hefði reynst sér svo vel. Vigfús var þá svo mannfár, að hann sagðist ekki geta róið nema hann kæmi. Það varð því úr að faðir minn reri hjá honum, og í staðinn bauð Vigfús flutning á hlut hans vestur að Drangshlíð, en þangað sóttu svo systur hans, Guðrún og Gróa, fiskinn og fluttu heim að Selkoti.

Æskuheimili föður míns, Selkot í A-Eyjafjallahreppi.

Þessa vertíð reru þeir frá hinu fræga Maríuhliði sem er vestan Jökulsár á Sólheimasandi. Það var hinn frægi sjósóknari. Guðmundur Ólafsson frá Eyjarhólum í Mýrdal, formaður á áraskipinu Pétursey, sem fann þennan stað og reri þaðan fyrst 1862.
Úr Maríuhliði reru þeir svo alla vertiðina þegar gaf. Ekki var það nú oft sem hægt var að róa frá hafnlausri ströndinni, en það var helst í aflandsvindi. Munu róðrarnir hafa verið 12-15 þennan vetur.
Í janúar 1922 kom faðir minn fyrsta sinn til Vestmannaeyja og var ráðinn beitningarmaður á Ófeig VE 217, sem var 12.40 tonn að stærð og með 22 hestana Altavél. Formaður var Jón Ólafsson frá Hólmi.
Fljótlega eftir að róðrar hófust fortallaðist einn af hásetum Jóns. og kom þá fuðir minn í hans stað og reri síðan vertíðina.
Fyrst var að sjálfsögðu róið með línu, en ekki var nú línan löng því að aðeins var róið með 12-15 bjóð, sex strengja, og var línan beitt í hina upprunalegu bjóðakassa sem voru ílangir og flái þeim megin sem önglarnir lágu. Línan var öll lögð á höndunum og annaðist Hjörleifur bróðir föður míns það erfiða og áhættusama verk á Ófeigi.
Um miðjan mars voru netin tekin um borð, en þar var um að ræða aðeins þrjár trossur, tólf neta.
· Netin voru aðallega lögð „undir Sandi“ fyrst í stað, en síðan flutt austur á Leir og í Þríhamradjúpið. Það var aftur seinna á vertíðinni sem þeir lögðu netin suður á Eyjabanka.

Fjölskyldumynd tekin um 1940.

Ekki veit ég hvort menn gera sér almennt grein fyrir þeim erfiðleikum sem sjómenn þá máttu glíma við. svo sem því að ekki var pláss til að greiða netin niður jafnóðum og þau voru dregin, heldur voru þau látin í ganginn í einu gösli. Síðan, þegar búið var að draga trossuna. voru þau greidd niður í hina siðu bátsins og því næst var trossan lögð í sjóinn aftur.
Spil var í Ófeigi svo að hægt var að draga bæði línuna og netin á spilinu, en á fyrstu árum vélbátanna var bæði línan og netin dregin á höndunum. Það var því heldur en ekki bylting þegar dráttarspilin komu til sögunnar.
Aflinn þessa vertíð hjá þeim á Ófeigi var vel í meðallagi, bæði á línu og í netin.
Þessa fyrstu vertíð föður míns í Eyjum bjó hann á Hólmi, íbúðarhúsi Jóns Ólafssonar formanns. Þar í kjallara hússins sváfu þeir sex saman í einu herbergi. Voru þarna bæði sjómenn og aðgerðarmenn á Ófeigi.
Næstu þrjár vertíðir reri faðir minn áfram á Ófeigi, en bjó þá í Garðinum, húsi Jóns Hinrikssonar og Ingibjargar Theodórsdóttur, en Jón Hinriksson var einnig eigandi að Ófeigi. Hefur faðir minn sagt að hjá þeim hjónum, Jóni og Ingibjörgu, hafi sér ávallt liðið vel, og aldrei átt betri húsbændur.
Frá vorinu 1923 var faðir minn vinnumaður á útvegi Jóns Hinrikssonar í sex ár við að vaska fisk og þurrka. Fiskur Jóns var þurrkaður bæði austur á Skansi og austur á Urðum. Var þessi fiskur fenginn af þeim bátum sem Jón átti hlut í, en þeir voru nokkrir. Unnu við þetta 8- 10 manns og þar á meðal Jón sjálfur og Ingibjörg og börn þeirra hjóna. Á Skansinum var hlaðið stakkstæði. en austur á Urðum var fiskurinn breiddur á fjörugrjótið sjálft, og var því mikill burður að bera fiskinn ofan í fjöruna og upp úr fjörunni þegar veður versnaði.
Haustið 1927 tók faðir minn námskeið í vélgæslu og lauk námi um miðjan desember 1927, en fékk þá heiftarlega brjósthimnubólgu sem hann átti í allt árið 1928.
Á vetrarvertíð 1929 réðst faðir minn sem vélstjóri á Skúla fógeta VE sem var 11.76 tonn að stærð og með 48 hestafla Tuxhamvél. Formaður var Karl Guðmundsson frá Reykholti. Reri hann með Karli þrjár vertíðir á Skúla fógeta, en 1931 tók Karl við formennsku á Tjaldi VE 225 sem var tæp 15 tonn og með nálægt 50 hestafla Saetffle-vél, og fylgdi faðir minn Karli og var með honum til vertíðarloka 1934 sem vélstjóri.
Frá því að faðir minn reri fyrst héðan frá Eyjum, var ekki hægt að leggja að bryggju nema á hálfföllnum sjó, en ef komið var að fjöru varð að fara með bátinn út á ból í höfninni og fiskinum síðan kjótlað) í skjögtbátnum að bryggju og kastað upp á hana, þar sem aðgerðarmennirnir tóku við aflanum og fluttu hann í aðgerðarkróna.
Komnar voru „kabyssur“ í þessa báta og þess vegna hægt að hita kaffi sem að sjálfsögðu var mikil framför hjá því sem áður var. Allir sjómenn voru með hitakassa sem í var ýmislegt matarkyns og dugði mönnum þann tíma sem verið var á sjónum. Var yfirleitt reynt að hafa í kössunum það besta sem til var á hverju heimili.
Kojur voru í flestum bátum svo að sjómennirnir gátu lagt sig í keyrslum á miðin og heim.
Frá því að byrjað var að veiða í þorskanet héðan frá Eyjum munu hafa verið notuð steypt netagrjót, en stjórarnir voru stórir blágrýtishnullungar sem teknir voru inni á Eiði og klappaðar raufar í þá fyrir festingar á stjóraflugin. Seinna voru svo stjórarnir steyptir líka.

Húsið faxastígur 13, sem faðir minn byggði, og bjó í svo til allan sinn búskap

Á þessum árum þurftu sjómenn ekki að beita línuna, heldur voru ráðnir fjórir beitumenn, sem síðan reru á netunum. Á línubátunum reru fimm menn.
Aðgerðarmenn voru ráðnir hjá hverri útgerð, og var hlutverk þeirra ekki eftirsóknarvert. Þeir þurftu að sækja fiskinn á bryggjuna og keyra hann á handvögnum upp í kró, og síðan að gera að honum, fletja og salta. Lifrinni þurftu þeir að koma frá sér í lifrarbræðsluna, og svo þurftu þeir að salta hrognin. Það gefur því auga leið að vinnutími þeirra var oft langur. Venjulega voru fjórir aðgerðarmenn hjá hverri útgerð.
Að lokinni hverri sjóferð var hverjum bát lagt við sitt ból úti á höfninni og síðan reru sjómennirnir á skjögtbátnum í land og settu hann upp í hrófin og gengu þar frá honum til næsta róðurs.
Faðir minn giftist móður minni, Líneyju Guðmundsdóttir, ættaðri frá Skagaströnd. árið 1930 og hófu þau búskap í húsinu Reykholti við Urðaveg, í kjallara. í einu herbergi og eldhúsi. Faðir minn hafði móður sína hjá sér og var hún hjá þeim svo til alveg þar til hún lést 1963. Þau bjuggu þarna í Reykholti í eitt ár og þar fæddist elsta barnið, Anna systir mín, þann 28. apríl 1931.
Haustið 1930 hóf faðir minn byggingu nýs íbúðarhúss að Faxastíg 13. og náði að steypa það upp á gamlársdag 1930.
Haustið eftir, 1931. fluttust þau svo í húsið hálfkarað og komu sér fyrir í einu herbergi og eldhúsi, en meðal annars var ekki komið loft í húsið, svo að þetta var einn geymur og heldur óvistlegt. Þau höfðu lítinn kolaofn í svefnherberginu. svo að hægt var að hafa nokkra hlýju.
Það má til gamans geta þess að þau hjónin áttu fjórar ær og gátu ekki haft þær annars staðar en í stofunni sem seinna varð.
Síðar byggði faðir minn útihús fyrir ærnar sunnan íbúðarhússins, og fjós, því að fljótlega keypti hann kú í félagi með Sveini Guðmundssyni frá Arnarstapa. Sveinn átti ágætt tún og heyjaði þar handa kúnni, bæði að sínum hluta og seldi föður mínum hey að hans hluta. Seinna eignaðist faðir minn tún fyrir sig, þar sem nú er Brattagata, en það voru suðurmörk túnsins, og náði norður undir Höfðaveg.

Mynd af Ver VE 318.
Mynd af Ver II. VE 118.
Mynd af Ver (ex. Hugrún) VE 318.

Fljótlega bætti faðir minn við sig annarri kú, og átti í kringum fimmtán ær þegar mest var. Að vísu hafði hann ekki heima á gjöf nema um tíu ær, en hafði í útigöngu í Elliðaey og síðar Ystakletti um fimm ær. Á sumrin þurftu þau hjónin því að heyja nóg handa skepnunum, og á veturna þegar faðir minn var á sjó lenti gjöfin að sjálfsögðu á móður minni sem ævinlega sá um mjaltirnar.
Á vorin var farið með ærnar út í Ystaklett og þar gengu þær sjálfala til hausts með lömbin.
Að lokinni vetrarvertíð 1934 tóku þeir sig saman tvennir bræður, faðir minn og Guðjón bróðir hans og Karl Guðmundsson og Jón bróðir hans, sem var ráðinn skipstjóri, og létu byggja fyrir sig bát í Fredrikshavn í Danmörku. Þessi bátur var Ver VE 318 sem var 22 tonn að stærð og með 80 hestafla Völundvél, einna strokka tvígengis. Það voru þrír Danir sem sigldu Ver til Eyja, og var heimsiglingarskipstjóri bróðir Péturs Andersens sem lengi var skipstjóri og útgerðarmaður hér í Eyjum. Kom Ver til Eyja fyrsta sinni í desember 1934. Þegar eftir heimkomuna tóku eigendurnir til við að útbúa bátinn fyrir vetrarvertíð. Jafnframt þurftu þeir að fá sér húsnæði fyrir aðgerð og beitningu. Fengu þeir félagar leigða kró við Strandveg sem Árni Böðvarsson rakari átti. Í þessari kró höfðu þeir aðstöðu í nokkur ár, var aðgerð og söltun niðri, en beitning uppi á lofti.
Í kringum 1940 keypti Verútgerðin kró, þar sem Vélaverkstæðið Þór hf. er nú til húsa. Var sú kró með þeim stærri sem þá tíðkuðust hér í Eyjum.
Niðri í krónni var aðgerð og söltun aflans, en uppi í norðurenda fór beitning línunnar fram. Í suðurenda loftsins var veiðarfærageymsla og sömuleiðis voru þar felld net og skorið af.
Guðjón bróðir föður míns sá um aðgerðina og um veiðarfærin. en Karl Guðmundsson var útgerðarstjóri og sá um öll innkaup og launagreiðslur. Faðir minn sá um fiskþurrkunina á sumrin, jafnhliða vélstjórastarfinu á Ver.
Stakkstæði Verútgerðarinnar voru skammt ofan Brekastígs, og var þar þurrkaður afli Vers alveg fram undir seinni heimsstyrjöld, en þá lagðist niður hin gamla saltfiskþurrkun sem staðið hafði um aldir. Þá tóku við hinir miklu ísfiskflutningar til hinna stríðshrjáðu Breta, og þessir flutningar stóðu öll stríðsárin.
Fyrstu tvö árin eftir stríð var afli Vers lagður inn í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja, en síðan í nýstofnaða Vinnslustöð Vestmannaeyja, og var það gert þangað til þeir hættu útgerð 1963.
Jón Guðmundsson skipstjóri á Ver var mikill aflamaður og heppinn formaður, og gekk útvegur þeirra félaga mjög vel. Meðal annars var Jón aflakóngur á Ver vertíðina 1946.
Faðir minn var vélstjóri á Ver allt til ársins 1942, en þá hætti hann sjómennsku. Voru ýmsir menn vélstjórar á Ver þar til Björgvin Jónsson frá Garðsstöðum, mágur Jóns skipstjóra, varð vélstjóri í fjögur ár, og keypti síðan hlut Guðjóns Sveinssonar l. nóvember 1948, en Guðjón fluttist þá til Reykjavíkur. Var Björgvin síðan vélstjóri á Ver allt þar til þeir hættu útgerð.
Þeir félagar áttu þennan fyrsta Ver, sem ávallt var mikil happafleyta, allt til 1950. eða í 16 ár, en seldu hann þá til Keflavíkur. Á sama ári keyptu þeir Braga frá Keflavík, sem þeir skírðu Ver II VE 18. Ver II var 35 tonn að stærð með 300 hestafla Buda aðalvél. Jón Guðmundsson var áfram skipstjóri á þessum Ver, og fiskaði vel. Áttu þeir þennan bát í 10 ár, en seldu hann árið 1960 til Keflavíkur. Þá keyptu þeir Hugrúnu VE sem var 54 tonn að stærð með 330 hestafla GMC vél og skírðu bátinn Ver VE 318. Þetta var þriðji og síðasti Ver í þeirra útgerðarsögu. Þeir áttu bátinn aðeins í 3 ár. en þá varð Jón að hætta sjómennsku vegna veikinda. Seldu þeir þá bátinn til Hornafjarðar og hættu útgerð eftir tæplega 30 ára samfelldan útgerðarrekstur.
Eftir að faðir minn hætti sjómennsku 1942, fór hann að vinna við skipasmíðar í Skipasmíðastöð Ársæls Sveinssonar, og vann við það í þrjú ár. Þá réðst hann sem verkstjóri hjá Netagerð Vestmannaeyja sem var til húsa í hinu þekkta Framhúsi sem stóð austan við Hraðfrystistöðina. en fór undir hraun í eldgosinu 1973. Netagerðin var stofnuð af útgerðarmönnum á árinu 1936 og var mikið þarfafyrirtæki. Þessi starfræksla Netagerðarinnar bjargaði alveg útgerð Vestmanneyinga á stríðsárunum, bæði hvað öngultauma snerti og einnig netaframleiðslu, því að nálega ekkert fékkst flutt til landsins af slíkum útgerðarvörum öll stríðsárin.
Í Framhúsinu voru þrjár stórar netahnytingarvélar og unnu þar um 10 stúlkur. Þar voru hnýtt bómullarnet og hampnet og snúnir öngultaumar.

Mynd af stakkstœði Vers-útgerðarinnar, móðir mín fyrir miðju.

Rétt fyrir 1950 fluttist Netagerðin í eigið húsnæði við Heiðarveg þar sem slökkvistöð bæjarins er nú til húsa. Þar var bætt við tveim netahnýtingarvélum til viðbótar, og farið að hnýta nylonnet.
Því miður ollu skammsýn gróðasjónarmið innflytjenda því að rekstri Netagerðarinnar var hætt 1960 og húsið selt Vestmannaeyjabæ.
Faðir minn var verkstjóri um átta ára bil og sá um hinn daglega rekstur, en Sigurður Ólason var framkvæmdastjóri fyrirtækisins um 20 ára skeið.
Eftir að faðir minn hætti hjá Netagerðinni vann hann í nokkur ár hjá Fiskiðjunni hf. aðallega við það að gera við borðvigtar.
Þá réðst hann til verslunarstarfa hjá Hallberg kaupmanni Halldórssyni og vann í málningarvöruverslun hans, sem var í kjallara hússins Þorvaldseyri við Vestmannabraut. Vann hann þar í nokkur ár.
Á árinu 1962 varð faðir minn fyrir þungri lífsreynslu, er móðir mín varð fyrir hörmulegu slysi á þjóðhátíðinni það ár. Flugeldur lenti í höfði hennar, og var henni lengi ekki hugað líf. Sem betur fór lifði hún þó þetta af. en beið þess aldrei bætur, og gat ekki unnið hin erfiðari heimilisstörf eftir það.
Rétt fyrir 1970 réðst faðir minn sem gæslumaður við gamla sjúkrahúsið og var í því starfi þegar eldur braust út á Heimaey 23. janúar 1973.
Eins og aðrir Eyjabúar fóru þau til lands og bjuggu í Þorlákshöfn þar til þau fluttust aftur heim til Eyja 31. október 1973.
Þegar heim var komið vann faðir minn við að fullgera nýja sjúkrahúsið og vann við það þangað til það var tekið í notkun. Eftir þetta hætti hann að vinna úti, en hjálpaði móður minni við hin erfiðari heimilisstörf.
Haustið 1983 seldu þau hjónin íbúðarhús sitt að Faxastíg 13 og fluttust í rúmgott herbergi á elliheimilinu Hraunbúðum. Þar una þau vel sínum hag og eru vel enn.
Þeim varð þriggja barna auðið: Anna, fædd 28. apríl 1931, gift Símoni Kristjánssyni. Þau eiga tvö kjörbörn.
Guðmar, fæddur 6. apríl 1933, var giftur Sigríði Lárusdóttur. Þau áttu þrjú börn. Guðmar lést 25. júlí 1967 eftir langvarandi veikindi.
Sveinn. sem þessar línur ritar, fæddur 24. nóvember 1934. giftur Ólöfu Waage. Þau eiga fjögur börn.

Sveinn Tómasson