Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1976/Tveir róðrar úr Klaufinni

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Tveir róðrar úr Klaufinni

Ritstjóri þessa Sjómannadagsblaðs bað mig undirritaðan að láta sig hafa einhvern fróðleik frá Eyjum. Ég lofaði að athuga málið. Þetta merka rit á allt gott skilið og á minn góði kunningi Guðjón Ármann Eyjólfsson fyrrverandi skólastjóri, sem hefur ritstýrt því undanfarin ár með miklum myndarskap, miklar þakkir skilið fyrír þann mikla fróðleik, sem birst hefur í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja á undanförnum árum, þvi að margt af þvi væri nú annars glatað.

Friðfinnur Finnsson, Oddgeirshólum

Ég ætla að segja hér frá tveimur róðrum úr Klaufinni fyrir rúmum 50 árum. Það var í þá daga og löngu síðar, að fé var haft á útigangi í þessum eyjum: Elliðaey, Bjarnarey, Suðurey og Álsey. Þetta lánaðist yfirleitt vel, féð var vel fram gengið. Þá voru einnig sett lömb á útigang í Brandinn, hann tilheyrði Kirkjubæjum og í Smáeyjar, þær tilheyra Bjarnareyjarleigumála, átti presturinn á Ofanleiti helminginn og jarðirnar Gvendarhús, Suðurgarður, Draumbær og Brekkuhús hinn helminginn. Í Hrauney voru sett 9 lömb, en 7 í Hana. Venjulega var farið í eyjarnar í október með lömbin og þau sótt aftur um miðjan apríl. Þessi útigangur tókst yfirleitt vel, það kom sjaldan fyrir að lamb vantaði á vorin og fóðrunin var ekki síðri en heima, enda alltaf valin falleg lömb til útigangs.
Það var á því herrans ári, 12. október 1918, að við lögðum á stað úr Klaufinni á tveimur bátum með lömbin í Smáeyjar. Það var ágætt veður og dauður sjór. Þetta gekk allt ljómandi vel og vorum við búnir að koma lömbunum upp í eyjarnar fyrir hádegi. Þá var farið í fiskileitir vestur á Bjarnahraun, sem er suðvestur af Smáeyjum. Við renndum nú færum og urðum vel varir, fengum besta stútung. Þegar á daginn leið tókum við eftir því, að upp kom grár skýstrókur í austrinu. Þótti öllum þetta mjög athyglisvert og taldi sig enginn á bátnum hafa séð svona skýstrók fyrr. Þessi strókur var svo alltaf að stækka eftir því sem á daginn leið.
Við fengum ágætan afla yfir daginn og þegar við lentum í Klaufinni um kvöldið voru krakkarnir mættir með hestana til að flytja aflann á heim á reiðing eins og þá var gert og færa okkur kaffi. Höfðu krakkarnir þær fréttir að segja, að Katla væri að gjósa og kom þá skýringin á skýstróknum, sem við vorum að horfa á seinni part dagsins.
Við fórum svo um kvöldið nokkrir strákar niður í bæ að frétta meira af gosinu og af þremur mótorbátum, sem fóru um nóttina austur á Vík að sækja kjöt og slátur, sem títt var á þeim árum, auk þess var m/s Skaftfellingur austur á Vík þennan dag.

Mér er það ógleymanlegt að sjá þennan mikla sogadrátt, sem kominn var í höfnina. Það horfðu á þessar hamfarir tugir manna og vorum við ofanbyggjararnir austan við Tangabúðina að horfa á þessi undur. Í aðsogunum flæddi sjórinn upp fyrir Strandveg, en í útsogunum stóð gamla bæjarbryggjan á þurru. Þetta voru stórkostlegar hamfarir, þegar haft er í huga, að um 40 sjómílur eru frá þeim stað, sem flaumurinn frá Kötlu kom í sjó fram, og þennan dag var dauður sjór og besta veður eins og fyrr segir. Sagt var, að ekki hefðu liðið nema fjórir klukkutímar frá því að flaumurinn braust fram þar til þessar hamfarir byrjuðu í Eyjum. Um miðjan dag varð sjór ófær í Vík svo að hætta varð útskipun í m/s Skaftfelling og bátana frá Eyjum og nokkrir Eyjamenn urðu eftir í Vík, þar sem sjór ókyrrðist svo snögglega, þar á meðal var Árni Finnbogason frá Norðurgarði, sem var á m/s Skaftfellingi, en faðir hans, Finnbogi Björnsson, bóndi í Norðurgarði, var stýrimaður á Skaftfellingi.
Eyjamenn fengu viku teppu í Víkinni.

Oddgeirshólar við Hólagötu

Þá hefi ég lokið við að segja frá þessum róðri, sem var nú ekki neitt sérstakur. En dagurinn varð minnisstæður og festur í annála sögunnar þar sem Katla rauf þögnina eftir 58 ár. Gos þetta sást víða að af landinu. Öskufall varð talsvert í Eyjum næstu daga svo safnað var saman öllu fé á Heimaey, um 500 alls, og það tekið á gjöf vegna öskufallsins. En svo skeður það, sem víst er mjög óvenjulegt að talið var, þegar eldgos er uppi, að eftir vikutíma kom austanrigning, sem var mjög kærkomin í Eyjum og askan hvarf ofan í grassvörðinn og þá var öllu fé sleppt. Eftir það kom ekki öskufall til skaða. Gosinu lauk 4. nóvember og hafði þá staðið stanslaust frá 12. október. Þetta var 13. Kötlugos, sem sögur fara af.

Þá verður hér sagt frá öðrum róðri úr Klaufinni, sem farinn var síðast í október 1922. Þetta var sérstakur róður að því leyti, að það er í eina sinnið, sem ég vissi til að farið væri á smáferju, fjögurra manna fari, úr Klaufinni suðvestur að Geirfuglaskeri, en þangað eru 8 sjómílur. En tilefni þessa róðurs var, að við þrír félagar, Sigurgeir Jónsson, Suðurgarði, Sigurður Einarsson, Norðurgarði, og undirritaður, löbbuðum niður í bæ seinni part dags. Þegar við komum niður að Strandvegi, kallaði Kristján Ingimundarson í Klöpp í okkur og segir:
„Ég var að koma af sjó og átti lagnet á Víkinni og við fengum töluvert af síld, sem við getum ekkert gert við. Á ég ekki að gefa ykkur í eina fötu? Það væri gaman fyrir ykkur að hafa þetta í beitu næst þegar þið róið úr Klaufinni".

Klaufin.- Myndin tekin af Aurnum. Til vinstri er Stórhöfðinn, og vestan undir honum kúrir Napinn og sér til Suðureyjar. Vestar eru Brandur og Alsey (Ljósm.: Sigurgeir).

Við urðum glaðir við þessu góða boði og fengum okkur strigapoka, létum síldina í hann og héldum heim. Við vorum svo að spjalla um það á leiðinni heim, að gaman væri að róa með nýja síld, en daginn áður höfðum við róið úr Klaufinni og þá var heldur lítið um fisk.
Þegar við komum á móts við Norðurgarð var Finnbogi bóndi þar úti við og fórum við að tala saman. Þar kom að við sýndum honum í pokann og þótti honum síldin æði girnileg og gaman væri að fara á sjóinn með hana nýja í beitu, sagði Bogi. Talaðist nú svo til, að við skyldum róa snemma í fyrramálið, því að útlit væri gott með veður og Bogi að sjálfsögðu formaður. Undirbjuggum við okkur um kvöldið undir róður að morgni. Á fimmta tímanum um morguninn vakti Bogi okkur þremenningana og fórum við á stað út í Klauf, en þangað er hálfrar stundar gangur. Við snerum okkur nú að því að setja bátinn fram í flæðarmál, skinnklæðast og setja á flot. Síðan var lesin sjóferðabæn og haldið til hafs. Okkur kom saman um að halda suður á Olguklakka, þeir eru suðvestur af Brandi. Þangað er rúmlega klukkustundar róður úr Klaufinni í sléttum sjó eins og nú var. Þegar komið var á miðið renndum við færum og urðum vel varir, en það var ekki úthald á því, svo við færðum okkur og leituðum, en það var lítið að hafa, en vænn stútungur það sem það var. Yfirleitt var fisksælt á Olguklökkunum.
Þá segir Bogi: „Jæja, strákar, þá skulum við hafa uppi, það virðist lítið hér að hafa, ættum við ekki að kippa okkur vestur að Geirfuglaskeri?
Þar hefur áreiðanlega enginn komið og þar er fisksælt og yfirleitt góður fiskur, mest þorskur."
Þetta leist okkur öllum vel á og var nú þegar róið á stað. Nokkru síðar settum við upp segl, því komið var kul við suðaustur. Þetta létti róðurinn. Þegar við áttum eftir góðan fiskikipp að skerinu felldum við segl og renndum færum, urðum við strax vel varir, þarna var mest þorskur og málfiskur. Við fengum þarna tvo ágæta kippi og svo kórónaði Sigurgeir róðurinn með því að draga flakandi lúðu. Nú var suðaustan brælan farin að aukast og við búnir að fá gott hálffermi í bátinn. Þá segir Bogi: „Jæja, drengir, þá skulum við nú fara að halda heim á leið. Farkosturinn er smár, það er að koma austurfall og þá er fallið á móti vindi og meiri ókyrrð í sjónum."

Höfðavík.- Myndin er tekin norðaní Höfðanum.Til hægri er Höfðavíkin, þá tekur við Klaufin og sér síðan norður eftir Ofanleitishamri til Smáeyja og vesturfjallanna, Dalfjalls, Molda og Klifs. (Ljósm.: Sigurgeir).

Síðan settum við upp segl og sigldum á stað til Eyja. Þá segir Bogi: „Mér var að detta í hug að láta ykkur stýra til skiptis heim, drengir. Ég segi ykkur til. Þið gætuð haft gott af því seinna."
Þar með fékk hann Sigurgeir stjórnina, síðan lét hann Sigurð taka við og síðastur tók undirritaður við stórninni. Þegar við vorum komnir suður af Brandi tók Bogi við stjórninni sjálfur. Finnbogi Björnsson var talinn afburðastjórnari og mikill sjómaður. Við lentum í Klaufinni á fimmta tímanum um daginn, þá var kominn strekkingsstormur. Við vorum mjög ánægðir með róðurinn, fengum 25 í hlut af gððum fiski og svo fjórða part af lúðunni.

Regla var það í Klaufinni, að ekki var tekinn hlutur fyrir bátinn, enda voru eigendur oftast sjálfir á bátunum, en venjulega einn, sem ekki átti í skipinu og var hann látinn sitja við sama borð og eigendur. Bátinn, sem við rérum á þennan róður og hét Víkingur, áttu saman Sigurður Sveinbjörnsson í Brekkuhúsi, Sigurður Einarsson í Norðurgarði og Sigurgeir Jónsson í Suðurgarði.
Við áðurnefndir þrír félagar rérum mörg sumur á þessum bát úr Klauóinni og var fóstri minn, Sigurður í Brekkuhúsi formaður. Hann var netfiskinn og afburða dugnaðarmaður.
Eins og fyrr segir, sagði Bogi okkur strákunum á leiðinni í land, hvernig við ættum að stýra, svo að helst kæmi ekki skvetta í bátinn. Og tókst okkur það svona og svona, strákunum. En það var sannarlega mikil íþrótt að stýra opnu áraskipunum í misjöfnum veðrum og vondum sjó. Í þeirri glímu við Ægi voru feður og forfeður okkar margir miklir snillingar.

Friðfinnur Finnsson frá Oddgeirshólum.