Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1975/Vísnaþáttur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Vísnaþáttur


Í nokkur ár sendi Jón alltaf eina vísu sem sumarkveðju til sjómanna á sumardaginn fyrsta. Hér er ein, sem hann sendi fyrir nokkrum árum:

Nú er vetrarveldi fallið,
vorið faðmar land og sjó.
Vinum þakkar vetrarspjallið
Vestmannaeyjaradíó.

Framar af liðnum vetri voru veður hörð og landlegur vikum saman. Kunnu því margir illa að fá ekki fisk í soðið.
Þá kom þetta upp í hugann eina óveðursnóttina:

Í Eyjum er bæði regn og rok,
Reiður mun okkur Drottinn.
Ekki fæst nokkurt lúðulok
sem látandi er í pottinn.

Ýsu, skötu og þorskinn þraut,
þar með löngubrýni.
Menn háma nú í sig hafrargraut
og hella útá brennivíni.

En allt tekur enda, og illviðrin líka:

Leiðinda tíðin lagast þó,
lýður því verður feginn.
Bátarnir út um allan sjó
elta nú fiskagreyin.

Leggja fyrir þá nót og net,
nægtir á þilfar draga.
Síðan hrogn ég aðeins et,
ýsu og lifrarmaga.

Það kom eitt sinn fyrir, sem ekki mun títt, að skip hafði kallað í Vestmannaeyjaradíó án árangurs. Þegar samband náðist var spurt um ástæðu þessa óvenjulega seinlætis.
Þá svaraði Jón:

Enginn hér þó anzi þér
ei skal verða hissa.
Það við ber að bregð ég mér
burt og fer að pissa.

Skömmu eftir að Surtsey reis úr öldu hafsins var mikið þjark um nafn á eyjunni.
Örnefnanefnd hafði óvænt tekið af skarið og skírt eyjuna Surtsey, en Surtur var sem kunnugt er eldjötunn í norrænni goðafræði, þ.e.a.s. réð ríkjum í hitanum neðra. Um þetta kvað Jón:

Nefndin var ei lengi að leita
lausnar á vandanum.
Bara lætur hana heita
í hausinn á fjandanum.

Eftir langa óveðursnótt á Vestmannaeyjaradíó kvað Jón:

Nú er vaktin loksins liðin,
löng var eftir degi biðin
þessa byls og brælu nótt.
Á krókinn hengi ég kjaftatólið,
kem mér heim og fer í bólið,
sjálfsagt mun ég sofna fljótt.

Hafsteinn Stefánsson, kunnur hagyrðingur, var stýrimaður á Andvara KE, sem hefur kallmerkið TFMZ. Jón og Hafsteinn göntuðust oft í bundnu máli, bæði á skemmtunum og á öldum ljósvakans.
Eitt sinn hafði Hafsteinn eitthvað verið glettast við Jón í talstöðina og svaraði þá Jón:

Stýrimannsins starf og geta
stundum birtist allavega.
Mér finnst þessi á Magnús Zeta,
munninn brúka rækilega.

Eitt sinn bar á geimferðir góma, þá kvað Jón:

Mér finnst þessi á Magnús Zeta,
að ferðast um geiminn á vélarkrafti,
því galdrakerling í gamla daga
gerði þetta á kústaskafli.

Það gæti verið skemmtilegt að halda saman stökum og kviðlingum, sem kastað er fram í dagsins önn til skemmtunar og tilbreytingar, en oft felst í þeim mikill „húmor" og gamansemi. Mætti birta þá í blaðinu á hverju ári. Er grunur minn sá, að margir sjómenn lumi á vísum. Ættu menn þessir nú að bregða við og senda Sjómannadagsblaðinu vísur.
Um sumarmálin 1969 kvað Jón til sjómanna:

Hlýjar flytur hugur minn
heillakveðjur vítt um sjó,
vel svo þakkar veturinn
Vestmannaeyjaradíó.

Netaverkstæðin veita bátaflotanum mikilvæga og nauðsynlega þjónustu. Í rysjóttri tíð og örtröð rifna næturnar iðulega. Meðan loðnuvertíðin stendur sem hæst verður að leggja nótt við dag. Stundum getur verið kaldsamt að standa við bætingu niður á bryggjum í misjöfnu veðri.