Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1972/ Litið um öxl

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Litið um öxl


Sitthvað frá fyrstu tilraun til togaraútgerðar í Vestmannaeyjum.

Í tilefni þess, að nú hafa verið ráðin kaup á skuttogara til Vestmannaeyja, datt mér í hug, að fróðlegt gæti verið að rifja upp nokkur atriði um fyrstu tilraun Vestmannaeyinga til togaraútgerðar héðan, og fara hér á eftir nokkrir þættir um þetta efni.
E.H.E.

TOGARAÚTGERÐ frá Vestmannaeyjum hefur aldrei verið verulegur þáttur í atvinnulífinu hér, nema ef vera kynni á blómatíma nýsköpunarinnar svonefndu, er tveir togarar voru gerðir út héðan. Það á sínar orsakir, að togaraútgerð hafði ekki að neinu marki verið stunduð héðan fyrir þann tíma, orsakir, sem hér verða ekki raktar frekar. Varð og útkoman sú, að togaraútgerðin gaf ekki þá raun, sem vænst hafði verið, þá er til hennar var stofnað.
Liðin er rúmlega hálf öld frá því, er bjartsýnir menn stofnuðu til togaraútgerðar héðan í fyrsta sinn, og verða hér á eftir rifjuð upp nokkur sundurlaus atriði um þennan kafla í útgerðarsögu Vestmannaeyja, en því miður eru heimildir mér ekki tiltækar um gang þessarar útgerðar, nema í brotabrotum, enda lítill tími til að leita þeirra. Samt taldi ég ómaksins vert að draga þessi brotabrot saman og bera þau fram.

-□-


Nokkrir einstaklingar í Vestmannaeyjum höfðu lagt fram fjármuni til togaratúgerðar árið 1906, samtals um 23 þúsund krónur. Hjalti Jónsson, skipstjóri, Eldeyjar-Hjalti, hafði safnað þessu fé, þá er hann gekkst fyrir stofnun togarafélagsins Ísland, sem keypti togarann „Marz“ í ársbyrjun 1907. „Marz“ kom til landsins í marsmánuði það ár - þar af er nafngiftin.
Ennfremur munu einstaka menn hafa lagt fram fé í önnur togarafélög, og gaf þessi fjárfesting góða raun, að minnsta kosti framan af, því að árið 1915 seldist hlutabréf í Íslandsfélaginu á 15-földu nafnverði, þótt nokkrum árum síðar yrðu hlutabréfin verðlaus og eigendur þeirra töpuðu fjármunum sínum. En þannig hefur það gengið til í útgerðarmálum á Íslandi. Ýmist er útgerðin, þar með talin togaratúgerðin, á hátindi velmegunar og velgengni eða í dýpstu lægð eymdar og volæðis, og er þessu ekki ólíkt farið og öldufalli sjávar - öldufall í atvinnusögunni frá upphafi til þessa dags.
Hafnargerðinni í Vestmannaeyjum miðaði lítt áfram á því tímabili, sem hér um ræðir, en samt eygðu menn vonir um bætta hafnaraðstöðu á árunum fyrir stríð. Þessi bjartsýni leiddi til þeirrar félagsstofnunar, sem hér verður sagt nokkuð frá.
Hinn 17. maí 1919 var haldinn stofnfundur togarafélagsins hér í bæ. Til fundarins boðaði stjórn Kaupfélagsins Bjarma, sem þá var starfandi hér í bæ, og hafði Gísli Lárusson í Stakagerði, þá stjórnarformaður í Bjarma, frumkvæði í þessu máii, sbr. stutta frásögn Þorsteins Þ. Víglundssonar í nýútkomnu Bliki, bls. 146, um þetta efni. Annar af aðalhvatamönnum félagsstofnunar þessarar var Þorsteinn Jónsson í Laufási, og er í því, sem hér fer á eftir, stuðst við frásagnir hans um félagið í bókum hans, Formannsævi í Eyjum og Aldahvörf í Eyjum. Er þar að finna ítarlegustu frásagnirnar um stofnun félagsins og rekstur þess, þann tíma, sem það starfaði.
Þorsteinn í Laufási segir, að félaginu hafi verið gefið nafn að hans tillögu og nefnt Draupnir. Hafði hann þá í huga frásagnirnar um gullhringinn Draupni, sem smíðaður var handa Óðni. Var hann þeirrar náttúru, að níundu hverja nótt drupu af honum átta gullhringar jafnhöfgir. En nafngiftin gekk því miður ekki eftir.

Togarinn Draupnir - 287 rúmlestir brúttó, í eigu Vestmannaeyinga 1920-1925, samtals um 5 ár.


Stofnendur Draupnis h.f. fengu í lið með sér ýmsa mæta menn í Reykjavík, sem sumir hverjir höfðu nokkra reynslu af togaratúgerð. Var fyrsta stjórn félagsins skipuð þessum mönnum:
Gísli Lárusson, formaður og framkvæmda¬stjóri, Bjarni Sighvatsson, síðar bankastjóri i Vestmannaeyjum, þá búsettur í Reykjavík, og Kristmann Þorkelsson, Steinholti. Siðar bættust í stjórnina Símon Egilsson, Vestmannaeyjum, og Guðmundur Kristjánsson, fyrrum skipstjóri, í Reykjavík.
Gísli Lárusson varð, eins og að ofan greinir, fyrsti framkvæmdastjóri félagsins, en árið 1922 er Bjarni Sighvatsson orðinn framkvæmdastjóri. Hann var búsettur í Reykjavík, enda var togarinn rekinn þaðan, en ekki frá Vestmannaeyjum, svo sem síðar kemur fram.
Fljótlega var farið að svipast um eftir hentugu skipi, og varð að ráði að festa kaup á enskum togara, sem smíðaður var árið 1908, af minni gerð en þá tíðkaðist við Íslandsstrendur. Voru skip þau, er íslenskir útgerðarmenn eignuðust upp úr fyrra stríði, yfirleitt stærri en verið hafði fyrir stríð.
Togari sá, sem hér var um að ræða, hét „Macfarlane“, smíðaður í Beverley úr stáli 1908. Samkvæmt íslensku Sjómannaalmanaki frá 1926 var stærðin þessi:
Brúttó 287 rúmlestir, undir þilfari 260 rúmlestir, nettó 116 rúmlestir. Lengd skipsins var 41,13 metrar, breidd 6,87 metrar, dýpt 3,64 metrar. Vélin var eimknúin þríþensluvéL, vélarafl 500 hestöfl.
Kaupverð skipsins var £ 19.500,-, eða á þáverandi gengi íslenskar krónur um 400.000.-Til samanburðar skal þess getið, að þegar Hjalti Jónsson kaupir „Marz“ í ársbyrjun 1907, kostaði hann ísl .krónur 105.000,-, og var hann greiddur út í hönd af eigin fé Íslandsfélagsins. Sama varð uppi á teningnum hjá Draupni h.f., að félagið gat greitt skipið og nauðsynlegan búnað þess út í hönd með eigin fé og nokkru fjárframlagi frá Kaupfélaginu Bjarma.
Til samanburðar um stærð þessa togara, sem Vestmannaeyingar voru þarna að eignast, skal þess getið, að samkvæmt Sjómannaalmanaki er „Ísleifur“ VE 63 talinn 243 rúmlestir brúttó, lengd hans er talin 35,51 metrar. Nettó rúmlestatala „Ísleifs“ er talin 100.
Hinu nýkeypta skipi var gefið sama nafn og félaginu og það nefnt „Draupnir“ eftir hringnum góða. Var það enda von manna, að af því nafni drypi ekki minna gull en af hringnum Óðinsnaut.
Fyrirtækið Draupnir h.f. var skrásett í Vestmannaeyjum 9. febrúar 1920, og kom togarinn „Draupnir“ til landsins rúmum mánuði síðar, eða 18. mars. Í þeim heimildum, sem ég hefi getað kannað, sést ekki, hvar togarinn hefur verið skráður, hvort það var Í Vestmannaeyjum eða Reykjavík, en þegar ég sé hans fyrst getið, ber hann einkennisstafina R.E. 258, og bar þá til „dánardægurs“.

Hlustvörður Vestmannaeyjaflotans og aldraðir sjómenn heiðraðir á sjómannadaginn 1970.- Frá vinstri: Jón Stefánsson, Kristinn Ástgeirsson, Miðhúsum, Sigmundur Karlsson fyrrv. vélstj., Guðni Grímsson fyrrv. skipstj.


„Draupnir“ var strax sendur á saltfiskveiðar, enda var sú veiði jafnan stunduð á togurunum hér á árum. Hófst saltfiskveiðin oftast seint í janúar eða byrjun febrúar, og stóð hún fram í maí eða júní og stundum lengur. Kom hann úr fyrstu veiðiferðinni eftir rúmlega þriggja vikna útivist með fullfermi af saltfiski. Þá tíðkaðist að fletja fiskinn og salta um borð, og var aflinn jafnan reiknaður í lifrarfötum, svo sem síðar kemur fram.
Það kom í ljós þegar við þessa fyrstu siglingu „Draupnis“ af miðunum, að hann var ekki hafnartækur, hlaðinn saltfiski og risti líklega um 16 fet. Því var horfið að því ráði að senda skipið til Reykjavíkur til losunar, og upp frá því var það í raun og veru gert út frá Reykjavík. Þar lagði það allan sinn afla á land. Vestmannaeyingar, sem höfðu bundið miklar vonir við skipið, máttu horfa á eftir því fyrir Klettinn og sjá það aldrei síðan með afla við bryggju í Eyjum.
„Draupnir“ taldist vera í eigu Vestmannaeyinga í 5 ár, að því er Þorsteinn í Laufási segir, eða fram á árið 1925. Komst það þá í eigu Njarðarfélagsins, sem svo var nefnt, en það félag átti eitt skip fyrir; togarann „Njörð“, sem Guðmundur heitinn Guðnason stýrði, en síðar hét „Haukanes“, eftir að það var selt til Hafnarfjarðar. Njarðarfélagið mun hafa átt „Draupni“ og gert hann út fram á árið 1932, en þá kemst hann í eigu Bjargs s.f. Var nafni hans þá breytt og hann nefndur „Geysir“, R.E. 258. Þau urðu afdrif skipsins, að sunnudagskvöldið 19. nóvember 1933 strandaði það við Orkneyjar og bar beinin við þeirra klettóttu strönd. Mannbjörg varð.
Á því tímabili, sem „Draupnir“ var í eigu Vestmannaeyinga, voru ekki færri en fjórir skipstjórar með hann. Ég hefi ekki séð nafna þriggja þeirra getið. Einn var Einar Guðmundsson í Nesi, sem lengi var kenndur við Bolla-garða, kunnur togaraskipstjóri. Þá var Arinbjörn, mágur Jóns Rafnssonar, togaraskipstjóri í Reykjavík með Draupni, en var þó oftar stýrimaður. Valdimar Guðmundsson, ungur maður, óreyndur sem skipstjóri, var einnig með skipið. Einar var skipstjóri á „Draupni“ í Halaveðrinu svonefnda í febrúarmánuði 1925. Halaveðrið er eitt af mestu veðrum, sem komið hafa hér við land. Fórust þá tveir togarar með allri áhöfn, ekki færri en hartnær 7 tugum minna, á einni nóttu, flestir íslenskir, þ. e. togararnir „Leifur heppni“ og „Fieldmarshal Robertson“, einn af Hellyerstogurunum, sem gerðir voru út frá Hafnarfirði á þeim árum.
„Draupnir“ var á Halamiðum, er þetta ofsaveður skall á, og varð fyrir nokkrum áföllum, þótt allt færi vel og tækist að koma skipi og skipshöfn heilli á húfi til lands. Segir frá Halaveðrinu, í bók Sveins Sæmundssonar, í særótinu, og er þar meðal annars frásögn um það, sem gerðist á „Draupni“ í því veðri.
Ég hefi reynt að afla upplýsinga um fiskafla „Draupnis“, meðan hann átti hér heimahöfn, en þær liggja ekki á lausu, enda aflaskýrslur allar mun ófullkomnari en nú gerist. Ég hefi stuðst við upplýsingar, sem er að finna í Ægi frá þessum árum, en þær taka hvergi nærri til heildaraflans, enda ekki farið að birta aflaskýrslur í ritinu fyrr en árið 1925. Fer hér á eftir það helsta, sem ég hefi komist á snoðit um.
Árið 1922 er „Draupnir“ talinn hafa farið 4 veiðiferðir í mars og apríl, og varð aflinn 257 föt lifrar. Í hverju lifrarfati voru þá reiknaðir ca. 180 lítrar af lifur, og mun það lifrarmagn hafa komið úr sem næst einu tonni af fiski upp úr skipi, þ. e. af blautsöltuðum fiski. Hvert tonn var reiknað 6 skippund, sem þá var algengasti mælikvarðinn, en af þurrum fiski fengust 4 skippund úr hverju tonni af fiski upp úr skipi. Miðað við þurran fisk nemur þessi afli því um 170 tonnum. Samkvæmt Ægi var verð þurrum fiski á ítalíu-markaði um 1 kr. pr. kg., eða sem næst 1.000,- kr. pr. tonn. Lætur því nærri, að verðmæti aflans sé um kr. 170.000.-, miðað við þurran fisk. En ekki má reikna skipinu altt það verð, því að frá því verður fyrst að draga kostnað við verkun hans í landi.
Á tímabilinu ágúst-nóvember 1922 fór „Draupnir“ þrjár söluferðir til Englands og seldi fyrir samtals £ 4.202,-. Gengið var þá um kr. 30,— og er því verðmætið rúmlega kr. 126.000,- sem virðist góð sala, miðað við það, sem gerðist hjá öðrum togurum á þessum tíma. Samkvæmt þessum tölum hefur „Draupnir“ skilað á land verðmæti sem næst kr. 300.000,- á þessum tveim úthaldstímabilum árið 1922, og er þá ekki meðtalið verðmæti lifrarinnar, en ég hefi hvergi séð minnst á lifrarverð á þessum tíma.
Á saltfiskveiðum 1923, frá 16. mars til 2. maí, fær „Draupnir“ 333 lifrarföt, eða um 330 tonn af blautsöltuðum fiski. Þá er „Skallagrímur“, sem þá var með stærstu togurunum, talinn aflahæstur með 469 lifrarföt. Næstur kom „Otur“, með 450 föt. Á ísfiskveiðum 1923 er söluverðmæti afla á Englandsmarkaði £ 2.846,- í tveim veiðiferðum um haustið. Þá höfðu hæstar sölur í veiðiferð „Belgaum“; seldi mest fyrir £ 1.995,- og „Leifur heppni“; seldi fyrir £ 1.934,-.
Árið 1924 er þess getið í skýrslum, að afli „Draupnis“ hafi verið alls 821 lifrarfat, en þá stundaði hann saltfiskveiðar mikinn hluta árs. Eina ferð fór hann til Englands með ísfisk og seldi fyrir £ 828,— Þá er hann og talinn hafa stundað síldveiðar fyrir Norðurlandi um sumarið, en um síldarafla er ekki getið.
Til fróðleiks skal þess getið, að á þsssari saltfiskvertíð, sem stóð fram í síðari hluta júní-mánaðar, er afli „Skallagríms“, skipstjóri Guðmundur Jónsson á Reykjum, talinn 1.341 lifrar-fat eða um 1.340 tonn af blautsöltuðnm fiski. Segir í Ægi, að þetta sé „mesti afli, sem sögur fara af“. Átti Guðmundur á Reykjum þó eftir að bæta þetta met síðar.
Heildarskýrsla yfir fiskafla togaranna birtist í Ægi fyrir árið 1925, og er það fyrsta skýrsla sinnar tegundar í ritinu. Þar er eftirfarandi upplýsingar að finna um „Draupni“:
Á saltfiskveiðum 31/1-25/6: 738 lifrarföt.
Á ísfiskveiðum: 5 veiðiferðir, sala £ 6.994,-
Í október og nóvember 1925 hætta flestir togararnir veiðum vegna deilu um launakjör háseta, en hún leystist í byrjun desembermánaðar.
Ég hefi reynt samkvæmt framangreindum upplýsingum Ægi að reikna aflaverðmæti ársins 1925, og telst mér svo til, að það muni hafa verið kringum 433.000 krónur. Hér er að vísu ekki reiknað með lifrarverðmæti, þar sem engar upplýsingar er að finna um lifrarverðið.
Talið var, að á árinu 1925 væri kostnaður við útgerð eins togara til jafnaðar um 40 þúsund á mánuði, eða kr. 480.000,- yfir árið, og gilti einu, hvort skipið lægi í höfn einhvern tíma ársins. Greinilegt er því, að um taprekstur hefur verið að ræða þetta ár, enda er rétt að hafa í huga, að framkvæmd var gengisbreyting, sem breytti skilaverðmæti sterlingspunds úr kr. 30,- í kr. 26,-, eða því sem næst.
Eins og fyrr segir, var „Draupnir“ í eigu Vestmannaeyinga um 5 ára bil, og hefur salan til Njarðarfélagsins því farið fram á árinu 1925. Sú varð raunin, þegar upp var staðið, að allir töpuðu þeim fjármunum, sem þeir höfðu lagt fram til þessara skipakaupa og útgerðar, og Kaupfélagið Bjarmi, sem lagt hafði fram álitlegar fjárhæðir í þessu skyni, særðist því holundarsári, sem dró það síðan til dauða, að því er Þorsteinn í Laufási segir.
Lýkur hér að segja frá „Draupni“ og útgerð hans.

Einar H. Eiríksson.