Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1970/ Róa sjómenn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
JÓHANNES HELGI


Róa sjómenn


Skemmtileg tilbreytni og áminning til annarra landsmanna um, að hér í Vestmannaeyjum snúist lífið um fleira en þorsk og loðnu, er, að hér í bæ eru búsettir ungir og vaxandi rithöfundar. Við kynnum að þessu sinni Jóhannes Helga skáld og rithófund, sem hefur verið búsettur hér í Vestmannaeyjum undanfarin 3 ár.
Jóhannes Helgi er rithöfundur, sem ekki er nein lognmolla yfir, og er hann einn af umdeildum ungum skáldum þjóðarinnar. Jóhannes þykir djarfur í skrifum; er stundum mjög róttækur og allt að byltingarkenndur. Jóhannes fæddist í Reykjavík 5. september 1926 og stundaði nám í Loftskeytaskólanum og Samvinnuskólanum. Hann stundaði sjómennsku um skeið, og gætti sterkra áhrifa frá veru hans á sjónum í fyrstu bókum hans. Segir hann enda í formála fyrstu bókar sinnar, að hið stríðandi og ysmikla líf á sjónum hafi tekið að sækja að sér og hafi krafist úrvinnslu og forms. Stóðst hann loks ekki mátið og lagði út á rithöfundarbrautina.
í fyrstu bók Jóhannesar Helga, smásagnasafninu Allra veðra von, sem kom út árið 1957, er meiri hhni frásagna af sjómennsku, þar á meðal sagan Róa sjómenn, sem hér birtist og vakti verðskuldaða athygli. Hefur þessi smásaga birzt t smásagnasöfnum erlendum, þar sem valdar voru beztu smásögur hvers lands.
Árið eftir gaf Jóhannes út Horft á hjarnið. Með störfum sinum sem þingfréttaritari, er hann gegndi i 10 ár skrifaði hann 2 minningabækur, Hin hvílu segl, sem eru endurminningar vestfirzks sjómanns með ívafi skáldlegra tilþrifa skrásetjarans, og í húsi málarans, endurminningar Jóns Engilberts listmálara. Báðar þessar bækur vöktu athygli. Árið 1965 kom út skáldsagan Svört messa, ádeilu- og ástarsaga: vakti bókin talsverðan úlfaþyt og deilur.
Fyrir síðustu jól kom svo skáldsagan Hringekjan, sem er svonefnt framúrstefnu skáldverk, og fer skáldið þar litt troðnar brautir og glímir við form og framtíð bókmenntanna.
Við óskum skáldinu heilla og brautargengis á skáldfáki sínum.

Ritstj.

Jóhannes Helgi.

ViÐ LITLU þorpsbryggjuna liggur reknetabáturinn Bryndís tilbúinn í róður, og uppi á bryggjuhausnum stendur unglingspiltur á sextánda aldursári hjá nýjum sjópoka og horfir hnarreistux til lítils rauðmálaðs húss uppi á höfðan-um. Nei - auðvitað ekki! Móðir hans, Kristrún á Höfða, sást ekki í glugganum; það var engin hætta á að hún flíkaði tilfinningum sínum, konan sú. Það var þó varla til of mikils mælzt, að hún hefði staðið þarna og veifað honum í kveðjuskyni, þar sem þetta var nú fyrsta sjóferðin hans. Andlit móður hans, kalt, steinrunnið andlit, flöktir eitt andartak fyrir hugskotssjónum drengsins. Nei, það var tilgangslaust að standa hér. Drengurinn sviptir sjópokanum hvatlega á öxl sér og stekkur á skipsfjöl.

Við leggjum hér!
Þeir eru komnir á miðin og brún netin, nokkur tonn af þéttriðnum möskvum, blýlóðum, korki og belgjum sturtast í kjölfar bátsins uns græn belgjaröðin teygir sig svo langt sem augað eygir og rauða endabelgnum bregður aðeins fyrir endrum og eins á öldutoppum í fjarska - og enn fjær, úti við sjóndeildarhring, lóna systurskip Bryndísar, hinar dísirnar fimm frá Höfðaþorpi.
Svo dettur myrkrið á, og nú er ekkert eftir nema gera sjóklárt undir rekið um nóttina sem fer í hönd. Vélin þagnar, stýrishúsinu er lokað, lúgur skálkaðar og tendrað á ljóskerinu í mastrinu.
Lúkarinn er svo lítill, að það rúmast ekki borð í honum, svo að þeir verða að matast með diskana á hnjánum, en það er notalegt þarna niðri; það snarkar vinalega í litlu kabyssunni og bjarminn frá henni leikur um höfuð mannanna og skringilegir skuggar flökta um þiljur og left. Jökull formaður situr þögull; hann er orðfár maður, stórskorinn í andliti, tröll vexti og dökkur yfirlitum, svartklæddur frá hvirfli til ilja. Kokkurinn, grannur maður og veiklulegur, þegir líka, en vélamaðurinn, sem heitir hinu kynlega nafni Líkafrón, ræðir þjóðmál. Augu hans eru grá og hlýleg og rödd hans er sú fegursta, sem eyru drengsins hafa numið, hreimurinn gæddur sérkennilegum töfrum, sem fylla lúkarinn undarlegum friði. Þessi Litla áhöfn lætur vélamanninn tala og kinkar öðru hvoru kolli eins og til samþykkis, en leggur ekkert til mál anna. Loks segir Jökull:
„Jæja, Már. Nú skaltu í koju. Þú átt baujuvakt frá tvö til fjögur.“
Drengurinn skríður í kojuna og liggur góða stund hlustandi á öldurnar hjala við byrðinginn og súrrið í trossunni uppi á dekkinu. Báturinn gamli vaggar honum þýðlega og hann er þegar farinn að kunna vel við sig. Það síðasta sem hann skynjar áður en hann fellur í svefn, er hrjúf rödd Jökuls formanns:
„Mér líkar ekki þessi ládeyða.“
Glas! Eirthvað snertir öxl drengsins lauslega og tekið er um úlnlið hans. Hann glaðvaknar á svipstundu. Jökull stendur álútur yfir hinum og spennir armbandsúr á úlnlið hans. Hann talar lágt eins og menn gera ósjálfrátt innan um sofandi menn. „Þú vekur okkur svo klukkan fjögur og hefur heitt vatn tilbúið á kabyssunni. Og ef við nálgumst mikið aðra báta, þá læturðu mig vita.“ Drengurinn bætir á kabyssuna, fer síðan upp á þiljur og sest á lúgukarminn. Það er stjörnubjört nótt, blankalogn og dauðaþögn nema það marrar lágt. Í viðjum bátsins og sjórinn hjalar án afláts við byrðinginn, líkt og hafið hvísli leyndarmálum, voveiflegum þessa nótt, því að báturinn stynur þungan og temað í öldugjálfrinu ber keim af barnsekka. Á austurhimninum skín undarlega skær stjarna, sem drengurinn minnist ekki að hafa séð fyrr, og utan af blásvörtu hafinu, frá öðrum bát, sem hann getur rétt eygt rauð toppljóin á, berst lagið við fiskimannaljóðið frá Kaprí; Bella Bella María, - róa sjómenn til fiskjar, - stef og stef á stangli.
Kristrún á Höfða stendur berfætt í hvítum náttsekk við litla gluggann á húsinu á höfðanum og horfir hugsi út á spegilsléttan hafflötinn. Um þetta leyti nætur er hún venjulega gengin til náða, en þessa nótt getur hún ekki fest svefn. Í dag urðu þáttaskil í lífi hennar; í dag lagði hún síðustu hönd á uppeldi sonar síns, og Jökull, hinn trausti formaður, myndi sjá um næsta þáttinn.
„Fimmtán ár,“ hvíslaði hún.
Það var langur tími, en þó svo stuttur þegar litið var til baka yfir þessi ár. Fimmtán ár síðan hún kom til þessa þorps, frægur kvenkostur og ættstór frá ríkum bæ í öðrum landsfjórðungi, hlaupin að heiman og gift Magnúsi formanni í blóra við foreldra og venslamenn, svarteyg ung kona, dul og einræn, sem engin skipti vildi hafa af þorpsbúum.
Svona nokkuð kann ekki góðri lukku að stýra, hafði gamla fólkið sagt, þegar það heyrði sögu hennar — og það kom á daginn, ekki svo að skilja að gamalt fólk hafi ætíð rétt fyrir sér, heldur vegna hins, að hlutirnir gera yfirleitt annað tveggja, fara vel eða illa. Unga konan var orðin ekkja eftir árið og byrjaði að vinna á fiskplönunum sem óbreytt verkakona. Fegurð hennar hafði frá fyrstu tíð verið karlmönnum þorpsins ærið umhugsunarefni og konunum að sama skapi mikið áhyggjuefni og ekki bætti stolt hennar úr skák, en nú þegar fólkið vildi sýna henni vináttuvott mætti það aðeins myrkum augum ungu konunnar. Hún yrti ekki á nokkurn mann, og brátt lét fólkið hana afskiptalausa og átti ekkert saman við hana að sælda og hún ekki við það. Hún kom neðan af höfðanum í birtingu á morgnana og hvarf þangað aftur á kvöldin, til litla drengsins. Síðan kom kreppan og neyðin sem henni fylgdi; þorpsbúar sultu hálfu hungri svo að hreppurinn varð öðru hvora að úthluta matvælum ókeypis handa alþýðu, en konan á höfðanum þraukaði hjálparlaust. Hún varð gömul á nokkrum árum, en drengurinn dafnaði vel, og það, að þau sultu ekki bæði heilu hungri, var að þakka öllum fiskkippunum, sem einhver lagði af og til við dyr hennar snemma á morgnana öll erfiðu árin. Kristrún vissi ekki hver, hún spurði einskis, en hún grunaði Jökul formann. Þannig liðu árin og konan á höfðanum fékk smám saman á sig þjóðsagnablæ; því var jafnvel fleygt að hún kynni eitthvað fyrir sér og konurnar í þorpinu notuðu hana sem grýlu á börnin þegar þau voru óþekk.
Kristrún opnaði gluggann og lét andvarann utan af hafinu leika um sig. Já, drengurinn var í góðum höndum hjá Jökli. Þar yrði hann í tvö til þrjú ár og síðan færi hann á sjómannaskólann fyrir sunnan. Hana dreymdi stóra drauma um soninn og hún hafði ástæðu til þess. Hann var fylginn sér, en drenglundaður og hafði skarað fram úr í skólanum og unnið flest heiðursmerki þorpsins fyrir sundafrek og íþróttir. Nei, hún hafði ekki yfir neinu að kvarta; drengurinn hafði ekki brugðizt vonum hennar, og það fór aftur heit bylgja um líkama hennar, eins og fyrr um daginn, þegar hún virti hann fyrir sér í skjóli við gluggatjöldin, þar sem hann stóð á bryggjuhausnum, stæltur og fagur eins og faðir hans heitinn, þessi töfrandi reisn yfir höfði og herðum. Kristrún sá hann fyrir sér sem skipstjóra á stjórnpalli á stóru skipi, er sigldi um höfin víð og breið - sonur hennar!

Róa sjómenn.

Drengurinn lítur á klukkuna. Það er kominn tími ril að ræsa. Hann rís á fætur og veitir því nú athygli að austurhiminninn hefur breytt um lit og tröllauknir sótsvartir skýjahnoðrar steypast þar hver um annan þveran. Hann heyrir þyt og lítur upp. Fylking hvítta sjófugla flýgur yfir bátinn, fer geyst, með stefnu á land, og djúpt í heimsvíðáttunni hrapar stjarna í stórum boga. Öldutopparnir klappa ekki lengur bátnum eins og örsmáar barnshendur. Byrðingurinn er laminn heiftúðlega utan og römm sjávarselta berst að vitum drengsins; vindhviða togar í úlpuna hans, báturinn hallast og ljóskerið slæst við mastrið. Hann lítur í kringum sig áður en hann hverfur undir þiljur, hann sér hvergi til lands.
Jökull formaður rís upp við dogg og leggur við hlustirnar. Hver vindhviðan annarri snarpari skellur nú á bátnum. „Hann er að hvessa!“ Formaðurinn snarast yfir kojustokkinn og stjakar við kokknum og vélamanninum. „Við verðum að draga strax.“.
„Hákarl!“
Jökull innbyrðir netin sundurtætt á margra metra færi. Og brátt koma þeir auga á þennan óaldarlýð hafsins; það er krökt af honum í særótinu kringum bátinn. Ljóskerið slæst við mastrið uns það brotnar og glerbrotunum rignir yfir Líkafrón.
Báturinn er farinn að taka stórar dýfur. Skuturinn rís upp leiftursnöggt, hærra — hærra, sveiflast nokkur andartök hátt yfir haffletinum, hrapar svo hratt eins og gegnum lofttómt rúm, lýstur hafflötinn með þungum skelli, - og sjórinn rís upp eins og veggur úr grænu seigfljótandi gleri. Báturinn skelfur sem fársjúk skepna og sædrífan sturtast látlaust yfir mennina. Drengurinn fær nístandi kvalir fyrir bringspjalirnar, kiknar í hnjáliðunum, fellur á fjóra fætur og spýr í kramið marglittuhlaupið og salta froðuna; köldum svita slær út um líkama hans, en hendur hans og handleggir, flakandi í brunasárum undan marglittunni, leita jafnskjótt aftur í möskvana. Þetta er eldskírn hans - hann verður að standa sig, hann skal, skal! Í þau fáu skipti, er hann lítur upp, mætir hann augum mannanna þriggja; hendur þeirra vinna hratt, en róleg æðrulaus augu þeina hafa gát á honum; þögulir traustir og óbifanlegir stíga þeir ölduna, þrjár gular óhagganlegar styttur sem lúta fram, hallast, hefjast og síga. Öryggi þeirra orkar á drenginn og honum vex ósjálfrátt ásmegin við þessa sjón. Hann lætur sig engu varða þórdrunur og hákarlsugga, skynjar ekkert nema net og aftur net, þau hraukast upp fyrir augum hans, og af ótrúlegu harðfylgi heldur hann áfram að draga þau aftur fyrir stýrishúsið.

Skyndilega þagnar spilvindan. Drengurinn lítur upp. Það er skollið á stórviðri með úrhellisrigningu og haugasjó. Þrjár eldingar í striklotu lýsa upp bátinn og í bjarmanum sér hann Jökul hlaupa með leidda exi fram á stefni, þar sem netatrossan er að sliga bátinn í kaf. Brestur kveður við, trossan tætist sundur, og um leið verður drengurinn var við að ógnþrungið ferlíki grúfir sig yfir bátinn á stjórnborða - brotsjór. Hann heyrir Jökul hrópa til sín, en bíður ekki boðanna og fleygir sér inn í stýrishúsið. Hann heyrir kokkinn öskra, brothljóð í tréverki og afturmastrið steypist útbyrðis. „Drengurinn“, heyrir hann svo Jökul öskra hamstola, „tók hann út líka!“ í sömu svipan ryðjast þeir inn í stýrishúsið, formaðurinn og Líkafrón. Jökull þrífur drenginn í fangið, sætir lagi í skjóli við stýrishúsið, brýzt síðan með hann fram að lúkarskappanum og skipar Líkafrón að fara með hann ofan í lúkarinn, loka að þeim og drepa á kabyssunni.
Vélamaðurinn ræðst að kabyssunni og hefur rétt lokið við að drepa í henni, þegar annar brotsjór tröllríður bátnum og brothljóðin ofan af dekkinu berast niður til þeirra. Skömmu síðar er lúkarshurðin lamin utan og síðan brotin inn áður en þeim vinnst tími til að opna. Jökull stendur þar blóðugur í storminum með fangið fullt af lífbeltum og hrópar eitthvað til þeirra, en orð hans kafna í veðurgnýnum. Um leið ríður annar sjór yfir bátinn og hrífur formanninn með sér. Báturinn kastast á hliðina, og sjórinn fossar ofan í lúkarinn.
Þegar drengurinn kemur til sjálfs sín, er hann kominn upp í mitt frammastrið og hefur flækt þar fótunum í víra og stög, heldur sér dauðahaldi í hriktandi mastrið. Báturinn er útlits eins og eftir loftárás, ekkert uppistandandi ofanþilja nema stýrishjólið og frammastrið, umleikið beljandi sælöðri og regni. Báturinn sópast eins og drusla öldudal úr öldudal og vatnsborðið í lestinni hækkar óðfluga. Skyndilega kemur mannslíkami á grúfu í ljós fram undan lúkars kappanum, það er vélamaðurinn.
„Líkafrón!“ hrópar drengurinn. „Líkafrón!“
Vélamaðurinn gefur ekkert hljóð frá sér, hann hefur drukknað í lúkarnum. Líkið skolast eftir dekkinu, kastast upp á lunninguna, þar vegur vélamaðurinn salt eitt andartak og hverfur síðan í hafið.
Vatnsborðið í lestinni er komið upp að lúgukarmi og drengurinn sér að báturinn er að sökkva undir honum. Hann lokar augunum og þrýstir sér fastar að mastrinu, fastar og fastar uns maður og mastur er samvaxið. — Þrumufleygur sprengir himinhvolfið, tætir sundur loftið yfir bátnum með brestandi gný; skær elding lýsir upp sökkvandi flakið og skammt undan hvítfyssandi brimgarð og klettótta strönd.

Systurskip Bryndísar eru að tínast til hafnar fram að hádegi næsta dag, meira eða minna löskuð. Bryndís ein er ókomin um kvöldið og menn eru að verða úrkula vonar um að báturinn sé enn ofansjávar. Þær eru orðnar margar dísirnar, sem týnzt hafa í hafi og hvert mannsbarn er slegið óhug. Óveðrið geisar enn og ekki viðlit að hefja leit fyrr en því slotar.

Í húsinu uppi á hófðanum situr Kristrún og starir á hamfarir hafsins, föl eins og liðið lík, næstum hvít eins og krít. Regnið lemur utan húsið og öðru hvoru dynur sælöður á rúðunum, er þung úthafsaldan brotnar á klettunum fyrir neðan höfðann. Andlitið er eins og gríma, andlitsdrættirnir stjarfir, varla mennskir lengur.
Hún situr í myrkrinu alla nóttina og bærir ekki á sér fyrr en birtir af nýjum degi; þá skimar hún í allar áttir. Veðrinu er slotað - en ekkert skip ber við sjóndeildarhring, ekkert mastur - ekkert, hvert sem litið er.

Farið í róður.

Nokkra stund situr konan lömuð í stólnum, en tekur svo snöggt viðbragð, rís skjálfandi á fætur og læsir titrandi höndum í gluggakarminn svo að hnúarnir hvítna undan átakinu. - Þannig er það! - Hún skelfur ofsalega og þrýstir annarri hendinni á hjartastað. - Þannig er það! - Báturinn ferst, en sonur hennar bjargast einn - hann er ungur og hraustur - hinir drukkna. Már hennar leggst til sunds - hann er ungur og hraustur. Og Kristrún sér hann byltast í sælöðrinu, og það tindrar á ljóst hár hans eins og platínu. - Sonur hennar er syndur eins og selur. - Kristrún grætur af stolti og eggjar son sinn áfram. - Afram Már! - Áfram Már! - Hún heldur áfram að eggja hann þar til öldurnar skola honum upp á svartgljáandi klappir á ókunnri strönd. - Kristrún sér hann rísa á fætur á klöppunum. Stormurinn rífur í föt hans - hann er hálfnakinn - og Kristrún virðir fyrir sér með stolti stælta vöðvana og ungt brúnt hörundið, hörundið hennar. - Hann er fallegur, fallegastur og sterkastur allra drengjanna í þorpinu og hann kemur aftur til hennar. — Kristrún grætur og hlær til skiptis. - Nú er hann öruggur. - Það er hús skammt frá sjávarmálinu. - Fólklð styður hann inn. - Þetta er gott fólk, en hann er svo aðframkominn að hann fellur í svefn áður en hann getur sagt til sín. - Hann sefur í sólarhring - sólarhring, já, það er eðlilegt, og búinn að segja til sín. — Og það verður hringt á símstöðina og símstöðin sendir sendil til hennar.
Kristrún lítur á klukkuna, hún er tíu mínútur yfir átta. Símstöðin hefur verið opnuð fyrir tíu mínútum síðan. - Bráðum kæmi sendillinn hlaupandi. - Sonur hennar, Már sonur hennar, kemur aftur til hennar!
Kristrún skjögrar út að eldhúsglugganum - og djúp stuna líður frá brjósti hennar. Drengur kemur hlaupandi fyrir hornið á skemmunni og stefnir á húsið hennar. Kristrún hleypur fram og hrindir upp útidyrahurðinni. Hún bærir blóðlausar varirnar — en orðin deyja út á vörum hennar. Drengurinn hleypur fram hjá húsinu og Kristrún ber nú kennsl á hann; það er sonur Árna beykis á leið ofan í fjöru með lítinn bát undir handarkrikanum.

Kristrún staulast aftur inn í eldhúsið; varir hennar titra ennþá, en smám saman stirðna andlitsdrættirnir, og andlitið verður aftur eins og höggvið í stein - ekkert verður úr því lesið. Hún skilur nú, Kristrún veit nú, að drengurinn hennar kemur aldrei aftur. Fatan stendur ennþá á miðju gólfinu, þar sem hún skildi við hana í gærmorgun. Hægt og silalega leggst hún á hnén hjá fötunni og skrúbbnum. — Það urgar í grófu trégólfinu, með löngum hvíldum á milli - og hárin í skrúbbnum fletjast út undan þungu átakinu.

- Síðastliðið sumar voru gerðar tilraunir með að kassa fisk úti á sjó. Var Andvari við þessar tilraunir. Er nú uppi almennur áhugi á frekari nýtingu sjávaraflans.