Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1969/ Loftur Guðmundsson rithöfundur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Loftur Guðmundsson rithöfundur


Loftur Guðmundsson.

Undanfarin ár hefur Sjómannadagsblað Vestmannaeyja leitazt við að kynna þau skáld og rithöfunda, sem hafa dvalizt hér og valið sér viðfangsefni frá sjónum og standa því Vestmannaeyingum næst í tíma og rúmi, ef svo mætti segja. Bregðum við að þessu sinni upp smámynd af Lofti Guðmundssyni, sem er fyrir löngu landskunnur af verkum sínum margvíslegum.
Loftur er mjög fjölhæfur rithöfundur og vopnfimur í túni Braga. Hefur hann skrifað leikrit, ljóð og skáldsögur og sá lengi um einn snjallasta fasta þátt, sem hér hefur sézt í dagblöðum, þáttinn Brotna penna í Alþýðublaðinu. Þá er Loftur ágætur barnabókahöfundur". - Um þann þátt í skáldskap Lofts segir Guðmundur G. Hagalín í grein, sem hér er stuðzt við og birtist í janúar hefti tímaritsins Heima er bezt 1959: „Drengjasögur Lofts eru með því bezta, sem til er á því sviði í íslenzkum bókmenntum. Þær eru skemmtilegar, ævintýralegar, jákvæðar frá uppeldislegu sjónarmiði, en samt yfir mörgum atburða- og mannlýsingum raunhæfur veruleikablær".
Loftur er sem fyrr segir mjög vel kunnur Vestmannaeyingum og dvaldist hér í Eyjum í 12 ár við kennslustörf. Er enn í minnum hafður meðal sjómanna hér leikþáttur, sem Loftur samdi fyrir árshátíð skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðanda árið 1941.
Er Loftur ávallt síðan mikill Vestmannaeyingur, þó að hann sé reyndar fæddur í Þúfukoti í Kjós (7. júní 1906). Hitt er svo annað mál, hvort það er fyrir áhrif eða áróður Lofts, að sonur hans, Guðmundur, er búsettur hér í Vestmannaeyjum. Í verkum Lofts má víða sjá merki Vestmannaeyjaveru hans, því eins og Hagalín segir: „í Vestmannaeyjum tók Loftur að stunda ritstörf af meiri festu og alvöru en áður".
Á þessum árum samdi Loftur leikritið Brimhljóð, sem fékk prýðilega dóma og var sýnt 15 sinnum í Reykjavík árið 1937. - Sérstaklega þótti þátturinn í beitingaskúrnum raunsær og dramatískur, en Loftur segir, að það hafi verið erfitt að koma þeim þætti á svið. Vildu leikhúsmenn hafa sviðið allt of slétt og fellt, að því er Lofti fannst.
Hið kunna sjómannaljóð, Sjómannslíf, segist Loftur hafa ort í gígskálinni uppi í Helgafelli. Lágu þeir þar í tjaldi, Garðar Sigurjónsson á Borg og Loftur. Það er því eðlilegt, að hugur skáldsins hafi svifið til hæða þar uppi á Olympsfjalli okkar Eyjaskeggja og úr hafi orðið ágætis sjómannaljóð. Hefur þetta ljóð orðið þekkt undir lagi Oddgeirs Kristjánssonar, sem samdi lög við mörg ljóða Lofts. Má þar nefna Fyrir austan mána, Mansöng, Svo björt og skær og Glóðir (Um dalinn læðast dimmir skuggar).
Þekktasta og jafnframt merkasta skáldverk Lofts mun vera skáldsagan Jónsmessunæturmartröð á Fjallinu helga, sem kom út árið 1958. Um þá bók kveður Hagalín svo sterkt að orði, að hann segir: „Sú bók er róttækasta og víðfeðmasta ádeilurit, sem skrifað hefur verið á íslenzku".
Margt fleira mætti segja um skáldferil Lofts Guðmundssonar, en við viljum minna á, að enn er brimhljóð og veðragnýr í Eyjum og loftið stundum salti remmt. Þar er ávallt hið hressandi og iðandi líf sjómanna, sem áreiðanlega á eftir að verða skáldum uppspretta nýrra verka úr lífi þeirra og fólksins við sjávarsíðuna.
Sjómenn í Vestmannaeyjum senda Lofti kveðjur og árnaðaróskir.
Ritstj.